Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

... um hræringarnar sem SEINNA leiddu til hrunsins mikla

Þóra Kristín er vel að verðlaunum sínum komin sem einn af alltof fáum blaðamönnum sem alvöru töggur er í. Merkilegt að það gerist þegar henni hefur skolað inn á Morgunblaðið, en ekki fyrr, þegar hún starfaði á fjölmiðlum sem boðað hafa vaskari framgöngu en hið íhaldssama Morgunblað.

Þóra Kristín er þannig einn af mörgum flóttamönnum úr fréttamannastétt af miðlum 365/JÁJ, en Stöð 2 og Fréttablaðið keppast nú um að losa sig við reynda og öfluga blaða- og fréttamenn. Þóra Kristín kom einmitt af Stöð 2, sem er eini fjölmiðillinn sem skrifað hefur það í vinnureglur sínar að fréttastofan/ritstjórnin EIGI að auðsýna stjórnvöldum aðhald. 

Þóra Kristín er vissulega í okkar fremstu röð. En ég er áreiðanlega ekki einn um þá skoðun að fyrir stéttina í heild kom síðasta ár út með falleinkunn fyrir fjölmiðla. Það er enda svo gott sem samdóma álit blaða- og fréttamanna þegar þeir hafa fundað undanfarið; fjölmiðlar brugðust í aðdraganda hrunsins mikla. Kannski hefði þá verið réttast að sleppa verðlaunum að þessu sinni. En samt. Alltaf er eitthvað vel gert og að þessu sinni sýnist mér að aðal blaðamannaverðlaunin lúti að faglegri notkun á nýjum fréttamiðli; Netmiðlinum. Og það er fínt. Til hamingju Þóra Kristín.

Ég hefði viljað sjá verðlaunin í ár ganga til blaða- og fréttamanns sem birti yfirgripsmikla fréttaskýringaröð á mannamáli um hræringarnar sem SEINNA leiddu til hrunsins mikla. Greinaflokk frá síðasta vori og sumri. En slíkt birtist ekki. Ummæli erlendra sérfræðinga voru birt og síðan andmælin, punktur. 

Sigurjón M. Egilsson á Mannlífi og Bylgjunni hlaut verðlaun fyrir bestu rannsóknarblaðamennsku ársins í fyrra fyrir „vandaðar og ítarlegar greinar um íslenskt efnahagsástand í Mannlífi, þar sem mál voru krufin með ítarlegri hætti en títt er í íslenskum fjölmiðlum". Þetta hljómar vel. Ég vænti þess að greinar þessar hafi birst eftir 8. október? Þarf að gá að því. Ég man þetta ekki nógu vel.

Er farinn að hlakka til næstu blaðamannaverðlauna. Þá verða áreiðanlega tilnefnd tilþrif í anda nýrra tíma innan stéttarinnar; þegar blaða- og fréttamenn höfðu lært af mistökum sínum, sváfu ekki lengur á verðinum, en hjóluðu í ráðamenn og auðjöfra eins og gammar!

Og ég vil sjá sérstök verðlaun til Hauks Holm fyrir alskeggið. Vona að það reynist táknrænt; stéttin fari úr jakkafötunum, taki af sér bindið og bretti upp ermarnar.


mbl.is Þóra Kristín blaðamaður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurlaunin hjá dráttarklárum atvinnulífsins

Eru læknar á ofurlaunum. Sumir að því er virðist. Ekki held ég þó að þeir komist með tærnar þar sem forstjórar og verðbréfasnillingar hafa komist með hælana síðustu árin. Einhvern veginn held ég að engum hafi órað fyrir því hversu mikið ofurlauna- og kaupréttarbólan myndi blása út í öllu gegndarleysinu.

Árið 2003 skrifaði ég fréttaskýringuna "Forstjórar á ofurlaunum" í Mannlíf en nú finnst mér sú grein vera hálf "barnaleg", þ.e. það sem þótti þá mikið átti eftir að verða tiltölulega "lítið". hvað sem því líður langar mig til að leyfa ykkur (sem nennið) að lesa "andann" árið 2003, en þarna er vitnað í ýmsa spekinga og meðal annars talar einn prófessor um mikilvægi þess að "dráttarklárar atvinnulífsins" séu á góðum launum.

"Það brá mörgum launamanninum í brún á dögunum þegar fréttist af svokölluðum “kaupréttarsamningum” nokkurra forstjóra landsins sem færðu þeim, með litlu meira handtaki en einu pennastriki, margra milljóna króna launabónus. Þannig fékk forstjóri Eimskipafélagsins að kaupa hlutabréf á vildarkjörum og seldi þau óðara aftur á mun hærra gengi – og græddi þrjár milljónir króna. Þetta er þó nokkuð hærri upphæð en láglaunafólk þénar á heilu ári, enda jafngildir þetta 250.000 kr. mánaðarlaunum. Sá er síðan enn munurinn á forstjóranum og launamanninum að þessi þriggja milljóna króna “kaupauki” flokkast undir söluhagnað og af slíku er aðeins greiddur 10% skattur. Fiskvinnslukonan í Granda og afgreiðslukonan í Hagkaupum borga 40% skatt af sínum launauppbótum.

 

Forstjórar landsins hafa ekki bara góða ráðningarsamninga og veglegar tekjur heldur hafa þeir á undanförnum árum siglt hraðbyri fram úr starfsfólki sínu í kaupmáttaraukningu. Meðalforstjórinn í nokkrum af helstu og stærstu fyrirtækjum landsins er með ríflega eina og hálfa milljón króna í skattskyldar tekjur á mánuði og hefur aukið kaupmátt sinn um 65% síðastliðinn rúman áratug eða milli 1990 og 2002. Á sama tíma hefur kaupmáttur launa almenns launafólks hækkað um nálægt 30%.... Framhald í athugasemdarýminu...

 

 


mbl.is Guðlaugur vildi ekki ofurlaun lækna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Valgerður Bjarnadóttir

Valgerður Bjarnadóttir"Það er mér um megn að sitja fundi með bankastjórn sem situr í óþökk ekki bara fólksins í landinu heldur einnig þeirra sem ábyrgir eru fyrir stjórn landsins. Með þessu bréfi segi ég af mér setu í bankaráði Seðlabanka Íslands."

Til hamingju Valgerður Bjarnadóttir. 


mbl.is Valgerður hættir í bankaráði Seðlabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var einhver að tala um einelti?

Bessastaðir, embættisbústaður forseta Íslands.Í ákveðnum kreðsum hér á landi er talað um einelti í garð formanns bankastjórnar Seðlabankans, fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins. Eðlilega eru það fyrst og fremst sjálfstæðismenn sem tala um þetta meinta einelti.

Minna ber á því að talað sé um einelti í garð forseta Íslands. Aðallega eru það einmitt fyrst og fremst sjálfstæðismenn sem ástunda það meinta einelti. 

Ég dreg ekkert úr því að eitt og annað í orðum og gjörðum forsetans megi finna að. Sumir ganga svo langt að telja að hann hafi orðið hagsmunum þjóðarinnar skaðlegur. En ef þetta á að heita rétt þá er mér lífsins ómögulegt að skilja hvernið hið sama getur ekki átt við um formann bankastjórnar Seðlabankans, miðað við umræðuna meðal valda- og áhrifamikilla einstaklinga erlendis. En það er bara mín skoðun.


mbl.is Óska skýringa á grein Eiðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Tefja, bíða, drolla og hangsa" og "Ef ég og hefði ég"...

fúll Það er skemmtilegt að fylgjast með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í stjórnarandstöðu. Það er svo rosalega langt síðan maður hefur upplifað þann veruleika. Næstum því 20 ár, að hugsa sér. Ég hugsa að þeir hljóti að hafa þurft að fara á námskeið. Í fljótu bragði virðist mér þeir standa sig ágætlega, en viti ekki samt alveg í hvorn fótinn eigi að stíga. Feykjast á milli þess að saka stjórnina um að stela frá sér málum og hugmyndum (sem væntanlega er gott fyrir utan stuldinn sjálfan) og þess að finna stjórninni allt til foráttu vegna vondra mála og hugmynda.

Stjórnarþingmenn stríddu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins svolítið í gær. Katrín Júlíusdóttir sakaði þá um að  hlaupast undan umræðunni og hugsa bara um að "verja strákana sína í kerfinu". Árni Páll Árnason sagði vörumerki Sjálfstæðisflokksins að tefja, bíða, drolla og hangsa. Þetta eru auðvitað fyrst og fremst skylmingar. Ég er viss um að stjórnarandstöðuþingmennirnir kunni meira en þetta.

Annað kom fram á Alþingi í gær sem vakti athygli mína. Fyrst er að nefna að í alræmdu viðtali við Geir H. Haarde í Hardtalk á BBC bar hann spurður hvers vegna hann hefði ekki talað (beint) við Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands. "Maybe I should have" var efnislegt svar Geirs og finnst mörgum sem ég hef heyrt í að þetta hafi verið mjög neyðarlegt.

En á þingi í gær sagði Geir allt, allt annað og færði mun efnislegri og skeleggari svör. Þar sagði hann (heimild: mbl): "Ég gerði tilraun til að ná í hann 9. október en talaði í staðinn við fjármálaráðherrann. Ég hafði talað við hann 5. október, fyrir hrunið. Reyndi að ná í hann auðvitað daginn eftir að hrunið varð, en úr því gat ekki orðið".

 Þetta er auðvitað miklu betra, sómasamlegra og efnismeira svar en í Hardtalk. Af hverju sagði Geir þetta ekki þar?


mbl.is Hart deilt á stjórnarandstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilaboð Birgis til Davíðs um leynd og undanþágur

Birgir Ármannsson.   Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur skyndilega ákveðið að gerast skeleggur, eftir að hafa læðst með veggjum um langt árabil. Hann hefur nú ákveðið að hjóla í forsætisráðherra (úr því hann er ekki lengur sjálfstæðismaður) og krefjast upplýsinga. Hann hefur meira að segja sett sig í blaðamennskulegar stellingar og ætlar að kæra neitun um upplýsingagjöf til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Gott hjá honum.

Birgi finnst að undanþáguákvæði í upplýsingalögum eigi ekki við þegar forsætisráðherra neitar að afhenda afrit af "upphaflegum athugasemdum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um seðlabankafrumvarp forsætisráðherra". Undanþáguákvæðið er svona: "Heimilt er að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um... samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir". Nú blasir raunar við að ekki bara er um samskipti við fjölþjóðastofnun að ræða heldur jafnframt fjölþjóðastofnun sem óskaði sérstaklega eftir trúnaði um viðkomandi gögn. Það hefur ráðherrann sýnt fram á. Við blaðamenn höfum oft mátt glíma við svona undanþáguákvæði og að sjálfsögðu leitast við að túlka þau þröngt en upplýsingaréttinn vítt. Ég óska Birgi velfarnaðar frammi fyrir nefndinni. Honum gengur kannski betur þar en mörgum blaðamanninum.

Um leið sendir Birgir fyrrum formanni sínum, Davíð Oddssyni, skýr skilaboð: Túlkaðu upplýsingarétt almennings vítt og liggðu ekki á upplýsingum að óþörfu - hafðu almannahagsmuni að leiðarljósi.

Davíð hefur sem kunnugt er neitað að upplýsa um vitneskju sína um hvers vegna Bretar settu á okkur hryðjuverkalög. Nú er til afgreiðslu hjá Úrskurðarnefndinni mál DV þar sem seðlabankastjórinn hefur neitað að svara spurningum og afhenda minnisblöð um Icesave og fleira. Davíð hefur neitað að upplýsa almenning um þessi gríðarlegu hagsmunamál almennings. Hann hefur meira að segja neitað að upplýsa viðskiptanefnd Alþingis.

Samt sem áður hefur Davíð sjálfur lagt línuna hversu mikilvægur upplýsingaréttar almennings er. Hans forskrift var og væntanlega er enn að upplýsingalögin og undanþáguákvæði þeirra eigi alltaf að túlka fyrirspyrjendum í hag hvenær sem það er mögulega hægt. Stofnun eða embættismaður eigi alltaf að spyrja sig fyrst hvort virkilega sé nokkur þörf á því að halda upplýsingum leyndum, jafnvel þrátt fyrir undanþáguákvæði.

Þessi frjálslynda afstaða Davíð var lögð til grundvallar þegar hann varð á sínum tíma við beiðni Þórs Jónssonar um afrit af bréfi sínu (DO) til Sverris Hermannssonar Landsbankastjóra á sínum tíma. Davíð hefði þar getað sett upp hundshaus og borið fyrir sig undanþáguákvæði en kaus að gera það ekki - túlkaði málið fyrirspyrjanda í hag. Hann á að gera það í dag líka.

Og að sjálfsögðu á forsætisráðherra núverandi að gera það líka; gera sitt ýtrasta til að verða við vilja Birgis Ármannssonar. Fyrst er það auðvitað kurteisi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að vísa til upplýsingalaga og fá þessa fjölþjóðastofnun til að falla frá beiðni sinni um trúnað.

En hefur Birgi Ármannssyni dottið í hug að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sjálfs um afrit af þessu gagni? Ég myndi gera það í hans sporum. En honum finnst kannski skemmtilegra að kljást við forsætisráðherra?


mbl.is Birgir fær ekki gögn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hýðingar, vandarhögg og gapastokkar... og sniðganga

Hýðingin á Lækjartorgi í dag var víst tilkomin vegna komu fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) til Íslands, en sjóður þessi gegnir sem kunnugt er yfirstjórn efnahagsmála á Íslandi. Í gjörningi "aðgerðasinna" voru skuldaþrælar hýddir. Við það vöknuðu hjá mér hugrenningar um hverja í raun ætti að hýða og/eða setja í gapastokk: Þá athafnamenn sem komu okkur í þessar ógöngur allar.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig á því standi að aðgerðir hafi að litlu sem engu leyti snúið að "auðjöfrunum" svo kölluðu. Aðgerðir gegn stjórnmála- og embættismönnum eru vel skiljanlegar, en af hverju beinast svo gott sem engar aðgerðir gegn "snillingunum"?

Mér finnst merkilega lítið hafa verið rætt um aðgerðina SNIÐGANGA eða "Boycott". Ég held að engin umræða hafi markvisst farið fram um slíkt - að beina spjótum reiðinnar að athafnamönnunum og þar af að líffærinu sem mestan sársaukann er að finna; buddunni. 

Hvernig væri að listi yrði tekinn saman um fyrirtæki, vörur og þjónustu sem réttmætt teldist að sniðganga að minnsta kosti um einhvern tíma, í mótmælaskyni? Ég skal byrja. Hérna hægra megin á bloggsíðunni er auglýsing frá símafyrirtækinu Nova. Mér skilst að að það sé í eigu Bjögganna í Novator. Hér með strengi ég þess heit að eiga ekki viðskipti við það fyrirbæri.


mbl.is Láta hýða sig í mótmælaskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Argasta einelti gegn auðjöfrunum

Það er auðvitað ekkert annað en argasta einelti hvernig fólk veitist að auðjöfrum landsins, mönnum eins og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Björgólfs-feðgunum. Nú þykir fréttnæmt og grimmt lesið að Jón Ásgeir hafi sett íbúð á Manhattan á sölulista. Og í annarri víðlesinni frétt er verið að fetta fingur út í þá mótuðu stefnu bankamógúlanna að víkja frá reynsluboltum í bönkunum en setja inn í staðinn "vel menntaða en reynslulitla unga karlmenn". Í enn annarri þrautlesinni frétt eru menn að hlakka yfir því að hugsanlega verði sölu Baugs á Högum til Gaums rift.

Er ekki kominn tími á að stofna samtökin "Verndum auðjöfrana"? Eineltið er orðið yfirgengilegt. Eins og það hafi ekki verið nógu mikið áfall fyrir þessa menn að missa allt úr handaskolunum í rekstri fyrirtækja sinna þá er nú verið að velta sér upp úr því að þessir menn séu neyddir til að selja kofa sína, rellur, báta, skrjóða og glingur.

Fremstir ganga fjölmiðlarnir, ekki síst Baugsmiðlarnir sjálfir, sem launa þannig eigendum sínum lambið gráa - og hreykja sér síðan á hæsta steini með tilnefningum til blaðamannaverðlauna.

Ég hef ákveðið að setja starfsemi félags míns, Anti-rúsínufélagsins, á ís og undirbúa stofnun samtakanna "Verndum auðjöfrana". Þetta einelti gengur of langt. Eins og að auðjöfrarnir hafi gert eitthvað af sér! Ég veit t.d. til þess að sumir þeirra hafi margoft hvíslað því að ráðamönnum að veruleg hætta væri á því að bankarnir hryndu!

p.s. hugvekja á morgun um nýjustu fréttir af fótalausa, nýrnaskemmda, heyrnarskerta, tannlausa, einangraða, eignalausa og réttindalausa pólverjanum (sjá færslur hér neðar).


mbl.is Selja íbúð á Manhattan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfall fyrir konur!

Það eru skuggalegar lýsingar sem þeir Hilmar Ragnarsson og Þórhallur Örn Guðlaugsson, fyrrum stjórnarmenn í Tali, viðhafa um viðskiptasiðferðið í Teymi, meirihlutaeiganda símafyrirtækisins Tals. Svo virðist sem forráðamenn Teymis hafi verið að slá Íslandsmet í viðskiptasóðaskap - og eins og menn vita kalla viðskiptamenn Íslands ekki allt ömmu sína þessi misserin.

Hilmar og Þórhallur Örn hafa bara aldrei upplifað annað eins á sinni samanlögðu 50 ára viðskiptavegferð. Það vantar reyndar nánari lýsingu á þessum viðskiptasóðaskap og því verður maður bara að ímynda sér alls kyns subbugang - og verður flökurt af, því "útrásarvíkingarnir" og bankamógúlarnir hafa ekki beint verið penir í sínum vinnubrögðum, en komast samkvæmt þessu vart með tærnar þar sem Teymis-subburnar hafa hælana.

Eins og þetta sé ekki nógu slæmt þá er hitt verra, að stjórnarformaður subbunnar Teymis er kona. Æðsti stefnumótandi sóðaskaparins er kvenkyns. Í fararbroddi ósómans eru kvenleg gildi.

Þetta er áfall. Fram að þessu hef ég einlæglega trúað því að aukin framganga kvenna í stjórnmálum og viðskiptum myndi örugglega draga úr spillingu á Íslandi. Konur hljóta að vera í öngum sínum!


mbl.is „Aldrei kynnst eins miklum viðskiptasóðaskap"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bréfritarinn Davíð

Davíð Oddsson.Þann 3. júní 1999 birtist í Degi opnufréttaskýringu mín um, þá landsfrægar orðnar, bréfaskriftir Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Nú hefur enn eitt bréfið bæst í hópinn og kannski eru þau miklu fleiri. Ég var að rifja upp þessa næstum 10 ára gamla grein mína (sem þá var vegna stutts en mergjaðs bréfs til biskups Íslands) og langar til að endurbirta hana hér.


 "Bréfið sem Davíð Oddsson skrifaði biskupi Íslands vegna smásögu Arnar Bárðar Jónssonar, fræðslustjóra Þjóðkirkjunnar, vakti mikla athygli og umræðu um stjórnunarstíl forsætisráðherra. Nú hefur Erni Bárði verið gert að stíga upp úr sæti sínu sem ritari Kristnihátíðarnefndar, en þar á forsætisráðherra sæti.

 Harka í framgöngu við þá sem Davíð Oddssyni mislíkar við af einhverjum ástæðum þykir hafa einkennt stjórnunarstíl hans allt frá því hann tók við borginni í upphafi níunda áratugarins. Má ef til vill segja að fyrsta opinbera vísbendingin hafi komið árið 1982 þegar Davíð  sagði upp ræstingarkonu úr starfi fyrir að hafa hringt til útlanda úr einkasíma á skrifstofu borgarstjórans. Á borgarstjórarárunum hvessti líka milli hans og Guðrúnar Pétursdóttur og fleiri andstæðinga ráðhúsbyggingarinnar. Frá þessum árum má einnig nefna þau viðbrögð borgarstjórans  að taka heitt og kalt vatn, rafmagn, slökkvilið og sorphirðu af Kópavogskaupstað, þegar vinstri meirihlutinn þar  ákvað árið 1989 að segja upp samningi um Fossvogsbrautina. Þetta kallaði Jónas Kristjánsson ritstjóri "ofbeldishneigðan" stjórnunarstíl.

 Smásagan dýra

 Nýjasta tilefni umræðna um stjórnunarstíl Davíðs er bréfið sem hann skrifaði biskupi Íslands vegna smásögu Arnar Bárðar Jónssonar, fræðslustjóra Þjóðkirkjunnar, en hún var birt í Lesbók Morgunblaðsins. Erni Bárði hefur verið gert að stíga upp úr sæti sínu sem ritari Kristnihátíðarnefndar, en í nefndinni á sæti forsætisráðherra sæti. Sú skýring hefur verið gefin  af Karli Sigurbjörnssyni biskupi að ástæða þessarar mannaskiptingar sé sú að "á biskupsstofu er kominn maður til starfa sem hefur umsjón með öllu sem viðkemur kristnihátíðinni," en þar á biskup við séra Bernharð Guðmundsson.

 Flestir viðmælenda blaðsins draga í efa að þetta sé allur sannleikur málsins og vísa til bréfsins sem Davíð sendi biskupi vegna fyrrnefndrar smásögu. Davíð fannst að sér vegið með sögunni og myndskreytingu hennar (sagan var lítt dulbúin gagnrýni á auðlindasölu og/eða á gagnagrunnsmál Íslenskrar erfðagreiningar) og skrifaði biskupi Íslands svohljóðandi bréf, undir bréfshaus forsætisráðuneytisins:

 "Það er athyglisvert að í kynningu á "smásögu" þar sem forsætisráðherranum er lýst sem landráðamanni (manni sem selur fjallkonuna) og landsölumanni er gefið til kynna að sendingin sé á vegum fræðslustarfs kirkjunnar. Davíð Oddsson."

 Biskup lýsti vanþóknun sinni á myndskreytingunni með smásögu Arnar Bárðar, en sagði söguna skondna og að hann gæti ekki borið ábyrgð á tómstundagamni samstarfsmanns síns. Í viðtali við fjölmiðla hefur biskup ekki viljað segja nánar frá samtölum sínum við forsætisráðherra um þetta mál.

 Óvænt og á óvart

 Örn Bárður Jónsson gaf ekki færi á sér við smíði þessarar greinar, en orðalagið sem haft er eftir honum í DV bendir til að brotthvarf hans sem ritari Kristnihátíðarnefndar hafi komið honum mjög á óvart. Hann segir: "Ég get staðfest að biskupinn tilkynnti mér á fimmtudaginn að ég væri ekki lengur ritari Kristnihátíðarnefndar en því starfi hef ég gegnt undanfarin ár."

 Orðalagið bendir til þess að tilkynning biskups hafi verið án fyrirvara og því komið Erni Bárði á óvart. Um leið liggur fyrir að Bernharður er ekki nýr í þeim verkefnum sem hann nú sinnir og því rökréttara að þessi breyting hefði komið löngu fyrr en nú, ef hún stóð til á annað borð.

 Karl biskup lýsir því yfir í DV að Erni hafi ekki verið vikið úr þessu starfi, heldur hafi hann vikið fyrir Bernharði á eðlilegan hátt. Séra Geir Waage er á sama máli. "Ég tek fullt mark á þeim orðum biskups að með þessu hafi hann verið að skapa séra Bernharði verkefni. Þetta er augljóst og ég sé engin tengsli milli þessarar breytingar og þessa smásögumáls," segir séra Geir. Örn Bárður hefur sjálfur ekki viljað tjá sig um mál þetta.

 Bréfið til Sverris

 Davíð hefur áður stundað gagnrýnar bréfaskriftir með góðum árangri. Á síðasta ári var gert opinbert bréf sem hann ritaði Sverri Hermannssyni þáverandi Landsbankastjóra í febrúar 1996, eftir að Sverrir hafði hafnað vaxtalækkunarboðskap ríkisstjórnarinnar, Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar og sagt að það væri eins og að "éta óðs manns skít" að fylgja fordæmi Íslandsbanka í þeim efnum.

 Þá skrifaði forsætisráðherra Sverri Hermannssyni bréf, sem hljóðar svo: "Sverrir. Mér finnst þú fara offari. Ég gæti belgt mig út og sagt að þessir snillingar í Landsbankanum hafi tapað 11 þúsund milljónum á síðustu árum og þyrftu því að vaxtapína landið. Þeir tækju ekki eftir því þegar strákur á þeirra snærum týndi fyrir þeim 900 milljónum!! ­ og viðskiptavinum væri vafningalaust sendur reikningur. Þetta mun ég ekki segja, en ef þið lagið ekki þvæluna, sem þið gerðuð í síðasta vaxtaóðagoti, er það endanlegt dæmi þess að þið vitið ekki hvað þið eruð að gera og þá mun ég sjá til þess fyrr en nokkurn grunar að menn komi að bankanum sem viti hvað þeir eru að gera. Ég vil fá svar frá þér ­ annað en skæting í fjölmiðlum ­ strax ­ því ég mun ekki sitja lengur kyrr."

 Strax daginn eftir að þetta bréf var sent lækkaði Landsbanki Íslands vexti sína. Aðspurður um þetta bréf segir Sverrir Hermannsson nú að hann hafi satt að segja orðið hissa þegar hann fékk bréfið. "En ég er hættur að vera hissa fyrir nokkru. Þetta bréf mun hafa verið skrifað í fljótræði og í bræðikasti, en annars hef ég ekki leitað eftir skýringu," segir Sverrir. Aðspurður hvort Davíð hafi ekki orðið ofan á í málinu viðurkennir Sverrir að svo hafi verið. "Það var hart tekist á um vaxtamál og félagar mínir beygðu," segir Sverrir.

 "Ansi tippilsinna"

 En hvað sýnist Sverri þá um bréfið til biskups og brotthvarf Arnar Bárðar frá Kristnihátíðarnefnd? "Ef þetta er vegna skrifa hans í grínstíl í Lesbók Morgunblaðsins eru menn orðnir ansi tippilsinna og orðið nokkuð vandlifað í henni veröldinni," segir Sverrir, sem um leið upplýsir blaðamanninn að tippilsinna þýði ofurviðkvæmur.

 Fræg er bréfasending Davíðs til Heimis Steinssonar þáverandi útvarpsstjóra, en Davíð sendi útvarpsstjóra hvasst bréf í apríl 1993 þegar Heimir hafði framið þann verknað að reka Hrafn sem dagskrárstjóra frá RÚV. Sjálfstæðismenn brugðust hart við og voru ekki lengi að láta Ólaf G. Einarsson, þáverandi menntamálaráðherra, ganga í að ráða Hrafn sem framkvæmdastjóra RÚV.

 Heimir sagðist hafa metið "þetta bréf mikils" og þótt "vænt um að Davíð Oddsson skyldi segja mér hvað honum lá á hjarta vegna þessa máls. Bréfið, sem var skrifað eftir að umrætt mál var um garð gengið, var hins vegar einkabréf og sent mér sem trúnaðarmál, svo ég mun ekki gefa upp efni þess," sagði Heimir á sínum tíma. Ekki þarf að orðlengja það hvors vilji varð ofan á, forsætisráðherrans eða útvarpsstjórans.

 "Glæpur minn..."

 Davíð var ekki löngu síðar sagður hafa komið að málum þegar Arthúr Björgvin Bollason var rekinn úr starfi skipulags-  og dagskrárráðgjafa útvarpsstjóra hjá RÚV fyrir að skrifa forystu bændasamtakanna og lýsa þar yfir að þorri starfsmanna RÚV skammaðist sín fyrir þætti Baldurs Hermannssonar (Í hlekkjum hugarfarsins) um m.a. bændur. Þá sagði Arthúr: "Heimir er skapmaður og hann setti ofan í við mig, en nefndi ekki uppsögn fyrr en á fundi okkar í gær, þegar hann hafði sjálfur verið kallaður á fund Davíðs Oddssonar. Það kom fram hjá útvarpsstjóra að brottrekstrarsökin var að í bréfinu talaði ég um valdníðslu menntamálaráðherra. Glæpur minn var sá að styggja þá sem ekki má styggja." Samkvæmt þessari frásögn skipaði Davíð útvarpsstjóra að reka Arthúr.  Og Arthúr  var látinn fara.

 Enn er óupptalið bréf sem Davíð sendi til að snupra embættismanninn Þórð Ólafsson, þáverandi forstöðumann Bankaeftirlitsins, árið 1993, þegar ríkisstjórnin sleit skyndilega þingfundi og ákvað að setja háar fjárhæðir  í að styrkja Landsbankann. Þetta var gert í án þess að beðið væri eftir niðurstöðum sérstakrar nefndar sem þó var sett á laggirnar til að fjalla um málefni Landsbankans.

 Þórður lýsti því efnislega yfir í Tímanum og DV að þessar aðgerðir væru illa ígrundaðar, klastur og vitleysa. Davíð varð ofsareiður og sendi Þórði bréf eftir að hafa skammað hann í síma. Þórður neitaði að draga gagnrýni sína efnislega til baka, en viðurkenndi að orðalag hefði verið heldur hvatskeytislegt hjá sér. Þórður er nú kominn í stjórnunarstöðu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hann vildi alls ekki tjá sig um mál þetta í samtali við Dag.

 Snemma á forsætisráðherraferli Davíðs, eða sumarið 1991, skammaði hann einnig opinberlega Guðmund Malmquist, forstjóra Byggðastofnunar. Guðmundur hafði gerst sekur um að tala óvarlega í morgunþætti útvarps um afskipti stjórnmálamanna af byggðamálefnum, eftir að Ríkisendurskoðun hafði gefið út skýrslu um stöðu Byggðastofnunar. Davíð brást hart við í fjölmiðlum, en eftir að Guðmundur hafði viðurkennt á sig "misráðið orðalag" og beðið Davíð formlega afsökunar féll málið niður og Guðmundur hélt stól sínum.

 Harðara yfirbragð

 Sagt er að Davíð ráði því sem hann vill í forystu Sjálfstæðisflokksins. Það var þó ekki alltaf þannig. Þegar Davíð hafði velt Þorsteini Pálssyni úr formannsstól (með 53% atkvæða gegn 47%), leitt flokkinn til sigurs í þingkosningum 1991 og myndað ríkisstjórn á fjórum dögum, fékk hann ekki alveg öllu ráðið í þingflokknum. Þá vildi Davíð til dæmis fá Björn Bjarnason, sem formann utanríkismálanefndar, en í atkvæðagreiðslu tók þingflokkurinn völdin af honum og Eyjólfur Konráð Jónsson var valinn með 15 atkvæðum gegn 11. "Þetta kemur hægt og rólega. Við erum að vinna í þingflokknum," var haft eftir "Davíðsmanni" þegar þetta hafði gerst. Og sú vinna bar skjótt árangur í þægari þingflokki.

 Reyndar má segja að spá Þorsteins Pálssonar frá þessum tíma hafi ræst. Eftir að hann féll fyrir Davíð í formannskjörinu sagði Þorsteinn opinberlega "að vinnubrögð í kringum framboð Davíðs" væru þess eðlis að niðurstaða formannskjörs hlyti að túlkast sem ósk landsfundarins "um harðara yfirbragð á Sjálfstæðisflokknum en áður"."

 


mbl.is Davíð segir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband