Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Ég mótmæli þessu, mbl.is

Hin annars ágæta vefsíða mbl.is er að pirra mig þessa dagana, með "fídus" sem er mér mjög á móti skapi og mér finnst eiginlega skerða mannréttindi mín. Mér finnst að verið sé að grípa frammí fyrir frelsi mínu til athafna, það er eins og einhver standi mér við hlið og kippi í mig til að þvinga mig til gjörða sem ég vil ekki.

Jú ég er að tala um að þegar ég "skrolla" niður forsíðuna á mbl.is, með bendilinn á miðri síðu, eins og gengur og gerist, þá er augljóslega búið að innstilla einhvern "fídus" og skrollunin stöðvast á auglýsingu. Skrollunin hættir að virka og ég er píndur til að festa augun á einhverri fjandans auglýsingu af því að bendillinn stoppar þar og vill ekkki fara lengra. 

Núna á einhverri fjandans Immiflex lyfja-auglýsingu. Ég hef vitaskuld tekið þá ákvörðun að kaupa aldrei, aldrei, aldrei í lífinu Immiflex. Þið athugið það þarna hjá auglýsingadeild mbl.is og markaðsdeild viðkomandi lyfjafyrirtækis. Þessi þvingun reitir mig til reiði. Ég efast um að ég sé einn um það.

Losið mig úr þessum skroll-höftum!

Morgnunblaðið hefur sent mér eftirfarandi nótu:

"Hér er ekki um að ræða vísvitandi aðgerðir af okkar hálfu til að bendillinn stoppi við ákveðna auglýsingu. Þetta eru hins vegar vandræði í Firefox sem tengist flash-útgáfunni sem þessi auglýsing var búin til í.

Það hefur verið rætt við hönnuðinn og hann mun lagfæra auglýsinguna.

Þakka þér fyrir að benda á þetta. Það er ekki alltaf sem við áttum okkur á svona vandræðum. Sérstaklega þegar þetta virkar vel í flestum vöfrum
".


Viðkomandi hönnuður hefur og sent mér bréf og vil ég af því tilefni taka það skýrt fram, að hann var bara að vinna vinnuna sína samviskusamlega og ekki þátttakndi í neinu djögullegu plotti! Ástæða er til að biðja hann afsökunar ef hann hefur orðið yfir óþægindum vegna þessa.

Mér fannst ákaflega eðlilegt, ótæknivæddum manninum, að draga þá ályktun að þetta væri viljandi auglýsinga-trick. Rétt eins og auglýsingamiðinn sem er límdur utan á prentaða Moggann, örugglega ÖLLUM til leiðinda (nema auglýsingamönnum og þeim sem kom með hugmyndina). Í umræðum um þessa færslu hefur sannleikurinn verið leiddur fram. Þetta varðar Firefox-vafrarann og Flash-playera og annað sem dauðlegir menn botna ekki í. Hér er ekki um djöfullegt plott auglýsenda og markaðsdeilda að ræða. Það er komið fram. Vegna óháttvíss komments frá einhverjum "Hilmari", sem ég hef fjarlægt, vil ég bæta við að færslan stafaði af almennum pirringi út í auglýsingar og auglýsendur, en ekki af geðveiki eða illvilja. Sorrý.


Áfall fyrir konur!

Það eru skuggalegar lýsingar sem þeir Hilmar Ragnarsson og Þórhallur Örn Guðlaugsson, fyrrum stjórnarmenn í Tali, viðhafa um viðskiptasiðferðið í Teymi, meirihlutaeiganda símafyrirtækisins Tals. Svo virðist sem forráðamenn Teymis hafi verið að slá Íslandsmet í viðskiptasóðaskap - og eins og menn vita kalla viðskiptamenn Íslands ekki allt ömmu sína þessi misserin.

Hilmar og Þórhallur Örn hafa bara aldrei upplifað annað eins á sinni samanlögðu 50 ára viðskiptavegferð. Það vantar reyndar nánari lýsingu á þessum viðskiptasóðaskap og því verður maður bara að ímynda sér alls kyns subbugang - og verður flökurt af, því "útrásarvíkingarnir" og bankamógúlarnir hafa ekki beint verið penir í sínum vinnubrögðum, en komast samkvæmt þessu vart með tærnar þar sem Teymis-subburnar hafa hælana.

Eins og þetta sé ekki nógu slæmt þá er hitt verra, að stjórnarformaður subbunnar Teymis er kona. Æðsti stefnumótandi sóðaskaparins er kvenkyns. Í fararbroddi ósómans eru kvenleg gildi.

Þetta er áfall. Fram að þessu hef ég einlæglega trúað því að aukin framganga kvenna í stjórnmálum og viðskiptum myndi örugglega draga úr spillingu á Íslandi. Konur hljóta að vera í öngum sínum!


mbl.is „Aldrei kynnst eins miklum viðskiptasóðaskap"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fésbók og blogg

Ég var að skrá mig inn í Fésbókarvíddina. Ég er svolítið kvíðinn að ganga út í hið óþekkta og myndi þiggja öll góð ráð um hvað beri að forðast, þannig að þessi vídd taki ekki af mér öll völd og tíma. Ég er nervös að þurfa kannski í tíma og ótíma að vera að hafna "vinum" og gleyma að svara ávörpum til mín og svekkja þannig fólk og gleyma fólki sem ég vil vera í vinskap við o.s.frv.

Ég ætla að stíga hægt og varlega inn í þessa veröld. Bloggið hefur eiginlega verið mér nóg, en ég hef fylgst með frúnni dunda við sína Fésbók og séð að hún er í sambandi við meðal annars ættingja mína í USA og vini Stulla sonar okkar heitins o.s.frv. og það höfðar auðvitað til mín.

En jafnframt vil ég ekki að Fésbók ásamt bloggi taki of mikla orku og tíma. Ég þarf að sinna annarri vinnu og áhugamálum; kennslu, skriftum, músík, afastrák og fjölskyldu hans, enska boltanum, lesa bækur og margt fleira mætti telja upp. Inn á milli verður maður víst að sofa og borða. Og taka sér smókpásu úr því maður er enn með þá synd í farteskinu.


Sænsk stjórnvöld innleiða hlerunar-svívirðu!

Sænska þingið hefur samþykkt umdeild lög um símahleranir, tölvupóstavöktun og fleira, lög sem skelfa mig og væntanlega allt réttsýnt fólk. Með 143 atkvæðum gegn 138 voru hlerunar- og eftirlitslög samþykkt sem framkalla ímyndir af veröld Georgs Orwell í "1984". Allt í nafni títtnefndra hryðjuverkaógna - en vitaskuld verður þetta opið fyrir gegndarlausri misnotkun, meðal annars til að setja höft á fjölmiðla.

Við á Íslandi, blaða- og fréttamenn og aðrir, verðum að standa vaktina. Ella sýnist mér að hryðjuverkamönnum muni takast (kannski) hið eiginlega ætlunarverk sitt; að eyðileggja vestrænt lýðræði, tjáningarfrelsi og koma á samfélagi óttans og haftanna. Hversu langt á að ganga í nafni þess að "vernda öryggi borgaranna"? Ekki svona langt. Áður en lögin voru samþykkt sagði fyrrum yfirmaður sjálfrar leyniþjónustunnar í Svíþjóð lögin ekki vernda réttindi einstaklinga og að þau þyrfti að endurhugsa. Stjórnvöld fullyrða að einungis verð fylgst með símtölum og föxum erlendis frá, og að innanlandssamskipti verði ekki hleruð.  Sérfræðingar segja þó að erfitt sé að skilja þar á milli. Og ekki þarf sérfræðinga til að sjá fyrir sér gegndarlausa misnotkun, ekki síst í pólitískum tilgangi.

Lögin veita Sænskum stjórnvöldum (sérstakri stofnun) heimild til að "skanna" öll millilandasímtöl, tölvupósta og fax-sendingar án dómsúrskurðar. Sérfræðingar telja að meðal aukaafurða laganna verði að fólk muni t.d. heykjast á því að koma upplýsingum til fjölmiðla. Lögin ýta undir sjálfsritskoðun og tjáningarfælni. Evrópusamtök blaðamanna hafa varað við og mótmælt þessum lögum harðlega og telja slík lög veikja verulega "varðhunda"hlutverk fjölmiðla.

Vissulega hafa fleiri Evrópsk ríki aukið hlerunarheimildir og sum gengið ansi langt og þá aðallega til að fylgja "ráðum" Bandaríkjastjórnar. Einna lengst hafa Bretland og Ítalía gengið, en nú herma fregnir að Ítalía sé að hverfa til baka frá verstu Orwellískunni. Og þá kemur þessi steypa frá okkar annars yfirleitt frjálslyndu frændum. Sveiattan.


mbl.is Sænska þingið samþykkir hlerunarlög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband