Áróður hafinn gegn stjórnarskrárbreytingum

Nú er hafinn massífur áróður gegn því að fólkið fái að koma að því að breyta úreltri Stjórnarskrá lýðveldisins Ísland. Ekki einasta stendur Sjálfstæðisflokkurinn harður gegn aðkomu almennings (en vill að Alþingi sitji að verkinu) heldur er mikið nú gert með að Stjórnlagaþing muni kosta pening.

Reiknimeistarar og skrifræðissinnar fjármálaráðuneytisins hafa fundið það út að Stjórnlagaþing muni kosta á bilinu 1-2 milljarða króna. Fjölmiðlar hafa hamast á efri tölunni eins og um sé að ræða lög á bók. Ég fæ ekki séð að nokkur fjölmiðill eða aðrir sem tjáð hafa sig um þennan meinta kostnað hafi rýnt ofan í forsendur útreikninganna. Hvað er þannig reiknað með að stjórnlaga-"þingmenn" fái í laun og í hversu langan tíma? Hvað er á bak við þennan útreikning á sérfræðinga- og ferðakostnaði?

Er hugsanlegt að skrifræðissinnarnir smyrji þarna óþarflega miklu á kostnaðinn? Ég er ekki búinn að skoða það enn, en ætla svo sannarlega að gera það. Það á ekki að hræða fólk að óþörfu. Og það á ekki að líta á Stjórnlagaþing sem einhverja óþarfa lúxus-vöru. Það þarf að hreinsa til í Stjórnarskránni, taka út úrelt ákvæði og setja inn ný sem auka á lýðræði og draga úr spillingunni

Hvers konar kostnaður við slík þjóðþrifaverk mun á endanum marg-borga sig, því aukið lýðræði með minni spillingu mun minnka spillingar-kostnaðinn. Þess utan blasir við að lýðræðið kostar pening og það er ekki óþarfa lúxus-vara

Ég fæ ekki betur séð en að Borgarahreyfingin, stjórnmála-armur Búsáhaldabyltingarinnar, sé eina framboðsaflið í landinu sem fyrir alvöru og af einlægni er að berjast fyrir nýrri undirstöðu undir lýðræðið á Íslandi. Sannið til - það er byrjað og það verður haldið áfram að krukka í frumvarp á þingi um stjórnarskrárbreytingar. Það er byrjað að væla yfir kostnaðinum. Það er byrjað að væla yfir tímaskorti. Það er byrjað að væla yfir meintum ókostum við óraðða lista. Áfram verður vælt. Mætum þessu væli með mótmælayfirlýsingu 25. apríl.


mbl.is Stjórnlagaþing gæti kostað 2 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég gæti ekki verið meira sammála þér. Einkum þar sem þú víkur að kostnaðinum við núverandi spillingu. Það er fyrirséð að sjórnlagaþing mun kosta eitthvað en ég segi það fyrir mig að ég er hundraðfalt tilbúnari til að mínir skattpeningar fari í slíkt þarfaverk en ýmislegt það sem þeir fara í núna og ég eða aðrir fá ekki einu sinni upplysingar um. Ég vil lýðræði og þess vegna fer ég fram á það að stjórnarskránni verði breytt. Það má vera samsett nefnd en alls ekki núverandi þingmenn eingöngu.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.3.2009 kl. 11:55

2 identicon

Það hefur ekki verið reiknað annað eins í Sjálfstæðisflokknum síðan að Davíð vann Þorstein.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 12:09

3 identicon

Gert er ráð fyrir að keypt sé húsnæði fyrir 500 milj. ! Þá er brúttókostnaður per fulltrúa kr. 600 þús/mán sem er 40% hærra en þingfararkaup er nú. Þá er gert ráð fyrir óeðlilega fjölda starfsmanna. Það má helminga smurningin.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 12:09

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Það er talað um að 15 milljarðar eigi að renna ofan í gin Byrs, sparisjóðabankans, sem þó kastaði þeirri blautu tusku framan í okkur að greiða hluthöfum sínum 13 milljarða í arð.

Við eigum ekki að borga Byr eina einustu krónu. Ekki stakan aur. Ef af einhverjum undarlegum ástæðum það telst óhjákvæmilegt tökum þá skatt af þessu; 2 milljarða fyrir Stjórnlagaþing. Ég geri þá kröfu.

Friðrik Þór Guðmundsson, 17.3.2009 kl. 12:23

5 Smámynd: Jónas Egilsson

Friðrik Þór.

Er ekki rétt að almenningur viti kostnaðinn, við ákvarðanatökuna? Hálf er ég nú hræddur um að einhver rannsóknarblaðamaðurinn færi ofan í málin, ef svo væri ekki.

Síðan er nokkuð ljóst að þú ert að blanda saman umræðu og það sem þú kallar "massívan áróður" gegn hugmyndunum. Öðru vísi með áður brá, gæti einhver hafa sagt!

Getur það bara ekki verið satt, að það sé lítill tími til stefnu fram að næstu og að þú sért einfaldlega óþolinmóður?

Jónas Egilsson, 17.3.2009 kl. 13:15

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Getur ekki verið, Jónas, að þú sért ofur-pirraður og fast að því andlýðræðislegur, í merkingunni að þú viljir ekki að armur pöpullinn komi að því verki að breyta stjórnarskránni?

Í alvöru talað Jónas; er ég ekki að segja að áætlanir þarna kunni að vera ýktar, en annars að lýðræðið kosti?

Friðrik Þór Guðmundsson, 17.3.2009 kl. 13:21

7 Smámynd: Jónas Egilsson

Mér finnst kostnaðurinn skipta máli sem og framkvæmdin og undirbúningurinn.

Ef menn vilja breytingar á að koma með skynsamlegar tillögur sem líklegar eru til að fái

framgang, ekki fljótfærnislega skyndihugmyndir sem draga úr líkunum að eitthvað verði gert.

Getur ekki verið að það sé reynt að keyra mál í gegn á grundvelli umræðu sem átti sér stað í vetur og hefur ekki lengur grundvöll þegar fólk fer að hugsa málin betur? Þett sé e.k. ógnarstjórnunaraðferðir í skjóli tímabundinnar múgsefjunar, ekki ósvipað "maccarthyismanum?" Spyr sá sem ekki veit.

Jónas Egilsson, 17.3.2009 kl. 13:47

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Alveg er það týpískt fyrir úrilla sjálfstæðismenn að hafa áhyggjur af röngum útgjaldaliðum.

 "Skynsamlegar tillögur" - þið sjálfstæðismenn viljið að eingöngu Alþingi komi að þessu. Ekki fólkið. Það finnst þér skynsamt. Pöpullinn er heimskur og fákunnandi, er það ekki Jónas?

"Fljótfærnislegar skyndihugmyndir" - ertu eitthvað illa fyrir kallaður Jónas? Hugmyndir að stjórnarskrárbreytingum eru þrautkannaðar og má raunar færa rök fyrir því að verkefni Stjórnlagaþings séu ekkert svo voðalega erfið viðureignar. Benda má á mikla vinnu sem fram fór vegna Stjórnarskrárnefndar 2005-2007. Sú nefnd fékk ótal hugmyndir að moða úr og greindi og þær hugmyndir geta varla talist skyndihugmyndir núorðið, er það?

Jú, kostnaðurinn er einhver. hvað segir þú um að við komumst að samkomulagi, Jónas. Sparisjóðabankinn, sem greiddi hluthöfum sínum stjarnfræðilegan arð, en vældi yfir smá kauphækkun láglaunafólksins síns, ber nú á dyr ríkissjóðs og vill fá 15 milljarða gjöf. Eigum við bara ekki að semja um að þeir fái þessa 15 milljarða en hluthafarnir borgi Stjórnlagaþingið - er það ekki tilvalin lausn, Jónas? Koma svo!

Friðrik Þór Guðmundsson, 17.3.2009 kl. 13:55

9 Smámynd: Hlédís

Friðrik!  Mér segir svo hugur að andmælendur stjórnarskrárþings hafi ekki dregið það fé sem greiðist strax til baka í tekju-og virðisaukaskatt frá metnum kostnaði ríkisins við slíkt þing.- Það er samt veruleg upphæð. Stjórnarskrá má vel setja saman á 18 mánuðum, jafnvel skemmri tíma, sé vel unnið. Ekki má gleyma að hægt er að nota vel heppnuð fordæmi úr nútímalegri stjórnarskrám í öðrum löndum.    Kostnaðarrök þessi eru raunar sterk rök með fækkun alþingismanna og ráðherra, sem og fleiri langtíma-silkihúfa!

Hlédís, 17.3.2009 kl. 16:47

10 Smámynd: Finnur Bárðarson

Pétur Blöndal kom með hugmynd á þingi í dag. Setjum 30 manna hóp, sem gerir ekkert annað á meðan, í vinnu í sex mánuði og lýkur henni fyrir lítinn pening. Ekki svo galið

Finnur Bárðarson, 17.3.2009 kl. 17:37

11 Smámynd: Hlédís

Góður og mjög sennilegur útreikningur hjá Pétri!

Hlédís, 17.3.2009 kl. 17:41

12 identicon

Síðan í september hafa engar tölur verið stórar nema þar væru 10 núll á eftir tölunni!  Því skil ég ekki af hverju menn væla yfir 2.000.000.000 kr (9 núll) áætluðum kostnaði  við verk sem er virkilega þarft og áríðandi að unnið sé með sem minnstum áhrifum stjórnmálamanna sem flestu spilla sem þeir koma nærri og vaða elginn yfir allt og alla og stimpla fólk sem fífl og telja flest ógerlegt sem gera þarf.

Það er vissulega vitað að rauntölur fara oftast fram úr áætlunum en jafnvel þó fjórum milljörðum væri eytt í að semja réttláta og góða stjórnarskrá væri það vel sloppið.

Vissulega var hrunið ekki núverandi stjórnarskrá að kenna nema á þann hátt að hún tryggði ekki þrískiptingu valdsins og gerði þingmönnum, ráðherrum og öðrum misindismönnum kleyft að sölsa til sín völd sem þeim voru/eru ekki ætluð og misnota þau eða leyfa misnotkun þeirra með lögum sem voru í reynd ólög (Lög um bankaleynd (ef einhver eru!) lög um samkeppni og samkeppniseftirlit og ótal önnur).

Mér sýnist reyndar að það séu góðar líkur á að stjórnmálamönnunum takist að þvæla málin svo að við sitjum uppi með óbreytt kerfi, sama hyskið við það sem einusinni voru kallaðir kjötkatlarnir!    Eru það þá ekki réttnefndar hræætur - eða jafnvel náætur!

Ragnar

Ragnar Eiriksson (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 19:53

13 identicon

Tek undir með þér Friðrik. Það er mikilvægt að ráðast í breytingar á stjórnarskrá og þá er það orðhengilsháttur að fara að ræða um kostnað. Að sjálfsögðu er rétt að vinna slíkt til verka. Síðan er spurningin sem ég er sífellt að sðurja mig þessa dagana. Hvernig verður valið til þingsisn? Hverjir eiga að tilnefna kandidata til kosninga? Ég gæti t.d. séð Friðrik Þór sem fulltrúa minn þar!

Bjarni Jónsson (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 20:32

14 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hundruðir milljarðar eiga renna inn í fjárangs bankana, en það er vælt og volað yfir rúmlega eins milljarðs króna Stjórnlagaþingi.

Láta bankana bara fá minna sem þessu nemur. Einfaldur útreikningur!

Friðrik Þór Guðmundsson, 17.3.2009 kl. 20:34

15 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Takk Bjarni. Ég væri vissulega og virkilega tilbúinn í slíka vinnu og þarf ekki ráðherralaun fyrir.

Friðrik Þór Guðmundsson, 17.3.2009 kl. 20:36

16 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Það bregst ekki að hjá þér er alltaf lífleg umræða. 

Það er ágæt tillaga frá ykkur í Borgarahreyfingunni að valdir séu af handahófi úr þjóðskrá fulltrúar á stjórnlagaþingið. Það mætti örugglega þrengja eitthvað hópinn þ.e. velja fulltrúa frá 25 ára til 70 ára, hafa kynjakvóta, sanngjarna skiptingu á milli þétt- og dreifbýlis, milli starfstétta, aðeins þá sem hafa hreint sakavottorð o.s.frv. Síðan skil ég ekki þetta tal um kostnað. Það hlýtur að vera hægt að halda öllum kostnaði í hófi og t.d. að þeir sem veljast á þingið fái ekki laun heldur aðeins kostnað greiddan. Það þyrfti þá hins vegar hugsanlega að hafa þingstörfum þannig að hægt væri að vinna þetta meðfram vinnu og sinna fjölskyldunni o.þ.h. Það ætti að vera hægt að vinna þetta á innan við ári ef vel er unnið og góðir aðstoðarmenn eða embættismenn veljast til starfans. Það mætti einnig örugglega nýta það hæfa starfsfólk sem við eigum í Háskólum landsins og tengja þetta rannsóknum og námi í félags-, lög- og stjórnmálafræði. Þannig mætti draga úr kostnaði þar sem einhver samlegðaráhrif eru í þessu.

Mér finnst þú hins vegar Friðrik Þór heldur dómharður á þá sem vilja fá kostnaðinn upp á borðið enda hlýtur það að vera fagleg vinnubrögð að vita það fyrirfram nokkurn veginn hvaða fjármagn þurfi til verksins.

En vissulega nauðsynlegt verkefni að setja landinu nýja stjórnarskrá.

Svo vona ég að þér gangi vel í stjórnmálum að nýju.

Jón Baldur Lorange, 17.3.2009 kl. 21:04

17 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þú mátt ekki misskilja, Jón Baldur, þótt pillur fljúgi milli mín og Jónasar. Við höfum glímt áður. Ég vil vitaskuld að kostnaðurinn sé áætlaður og ég þykist vita að hann vilji sjá breytingar á Stjórnarskránni.

Það fer ofboðslega mikið í taugarnar á mér, hins vegar, þegar sjálfstæðismenn sjá ofsjónum yfir því að stjórnlagaþing kosti pening og hitt, að þeir vilja að núverandi valdakjarni (aðallega þeir sjálfir) á Alþingi sjái um endurskoðunina. Þú tekur undir að þjóðin eigi að koma að verkinu - ekki þeir. Svo einfalt er það og má kalla það dómhörku að gagnrýna þessa valdakjarnanálgun harðlega. Jónas Egilsson Stardal fyrirgefur mér áreiðanlega að ég taki hraustlega á móti og þú sérð það vænti ég, Jón Baldur, að "hann byrjaði"!

Það er deginum ljósara að skrifræðismenn í fjármálaráðuneytinu smurðu hressilega til að láta kostnaðinn virðast mikill. Það er jafn auðvelt fyrir mig að áætla á móti: Ég segi að þetta geti auðveldlega verið 700-800 milljónir. Hljómar það ekki miklu betur?

Og eins og ég segi: Ef það á að gefa bönkunum hundruð milljarða af skattfénu okkar, hví ekki að klípa 1-2 milljarða af því fyrir stjórnlagaþingið?

Friðrik Þór Guðmundsson, 17.3.2009 kl. 22:19

18 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Tek heilshugar undir með pistlahöfundi í öllum færslum hér að ofan og engann þingmann á stjórnlagaþing - engann.

Jónas!Hálf er ég nú hræddur um að einhver rannsóknarblaðamaðurinn færi ofan í málin, ef svo væri ekki. Hvar ert þú búinn að vera maður ? Það er enginn, ég endurtek, enginn rannsóknarblaðamaður á Íslandi blaðamenn á Íslandi eru allir fjarverandi og búnir að vera það lengi - mjög lengi.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 17.3.2009 kl. 22:25

19 identicon

Stjórnlagaþing er eitt mikilvægasta málið í dag.
Það verður að tryggja að valdasjúkir og spilltir stjórnmálamenn geti ekki haldið þjóðinni í gíslingu eins og gerst hefur síðustu ár.
Stjórnmálaflokkarnir hafa ekkert með stjórnarskrána að gera.
Stjórnmálaflokkur er eins og hvert annað félag sem berst fyrir ákveðnum hagsmunum eins og t.d. íþróttafélög, skákklúbbar, hundavinafélög etc. 


Stjórnlagaþing á að tryggja að hagsmunir þjóðarinnar séu settir í öndvegi en á ekki að vera hagsmunagæsla fyrir spillt stjórnmálaöfl.

RagnarA (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 08:02

20 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Það er alvarleg, Friðrik Þór, þegar svo er komið að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar séu taldir vanhæfir til að taka þátt í lýðræðislegri umræðu eða vinnu við að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá. Það er ,,lýðræðiskerfið" með fulltrúalýðræðinu ekki að virka. Það kann vel að vera að of margir stjórnmálamenn og ákveðnir stjórnmálaflokkar hafi misstigið sig illa á undanförnum árum en við megum ekki útiloka stjórnmálaflokkanna, sem þrátt fyrir allt eru stærstu lýðræðishreyfingarnar miðað við núverandi lýðræðisfyrirkomulag. Það á hins vegar að gera kröfu um að stjórnmálaflokkarnir geri hreint fyrir sínum dyrum og eyði allri óvissu um meint hagsmunatengsl. Allt á að vera upp á borðinu og nýleg samþykkt forsætisnefndar Alþingis með aðild allra flokka um gagnsæi og upplýsingagjöf um eignastöðu og hagsmunatengsl er spor í rétta átt. Það þarf að halda áfram á þeirri braut svo auka traust á stjórnmálaflokkum. Annars er hætta á að þróunin hér verði svipuð og í Weimar lýðveldinu Þýskalandi fyrir valdatöku Nasista þar sem ekkert traust var eftir á lýðræðisstofnunum svo sem þingi og stjórnmálaflokkum.  

Jón Baldur Lorange, 18.3.2009 kl. 09:12

21 Smámynd: Sigurjón Jónsson

30 menn í 6 mánuði ca 90milljónir, húsnæði ókeypis, kaffi og annað 10 milljónir Samtals 100 milljónir. Þetta er kostnaðurinn, þeir sem koma með hærri tölu er óreiðumenn.

Sigurjón Jónsson, 18.3.2009 kl. 09:33

22 Smámynd: Atli Hermannsson.

Þessi áróður sem nýfrjálshyggju guttarnir í Sjálfstæðisflokknum standa á bak við gegn stjórnlagaþingi er afskaplega billegur. Hann sýnir aftur á móti að það eru völdin og áhrifin sem þeir geta ekki hugsað sér að missa frá sér í hendur almennings. Þess vegna hamra þeir á kostnaðinum og skrúfa hann upp sem mest þeir geta. En ég hef ekki heyrt að þessir uppskafningar hafi mikla áhyggjur af árlegum 7 milljarða kostnaði við rekstur utanríkisþjónustunnar...stjórnlagaþingið er þó allt innlendur kostnaður sem hríslast um hagkerfið og endar svo að mestu hjá skattinum.

Atli Hermannsson., 18.3.2009 kl. 09:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband