"Hreinsanir" á landsfundum, í prófkjörum og í kosningum

Ég sé ekkert sem mælir gegn því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fái "mælingu" og láti á það reyna hvort hún njóti til þess trausts að halda áfram sem formaður Samfylkingarinnar. Það er heldur ekkert sem mælir gegn því að blásið verði til mótframboðs gegn henni, á landsfundi og/eða í prófkjöri, af Jóni Baldvini eða öðrum. Það kallast lýðræði. Væntanlega skipar lýðræðið ennþá veglegan sess innan jafnaðarmannaflokksins.

Ingibjörg Sólrún hefur axlað ábyrgð að því leyti að hún og Samfylkingin slitu stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn (með meiru, t.d. afsögn Björgvins, "hreinsuninni" í FME ofl.) og það er búið að leggja grunninn fyrir kjósendur að "hreinsa til", þ.e. boðað hefur verið til kosninga 25. apríl. Og ISG steig til hliðar og varð ekki ráðherra í núverandi starfsstjórn. Minna má á að Geir H. Haarde ætlaði ekki að afsala sér formennskunni í Sjálfstæðisflokknum til að "axla ábyrgð". Þvert á móti hefur hann klárlega sagt að ef ekki væri fyrir veikindin hefði hann haldið ótrauður áfram.

Ef allt er með felldu þá samþykkja flokksfélögin innan Samfylkingarinnar hvert af öðru að val á frambjóðendum fari fram í prófkjörum, mismunandi opnum/lokuðum. Og landsfundur verður haldinn. Við þessi tækifæri fá flokksmenn og stuðningsmenn að skera úr um formannsframtíð ISG og forystuhlutverk annarra leiðtoga sinna. Forysta er kosin á komandi landsfundi og einstaklingarnir njóta trausts eða ekki trausts til góðrar útkomu í prófkjörum. Í þriðja lagi geta kjósendur gripið til enn frekari "yfirlýsinga" í sjálfum alþingiskosningunum. Það er ekkert óeðlilegt að ISG kjósi að láta mælingu fara fram á traustinu í gegnum þessar síur. Hún ætti að búast við mótframboði í formanninn og fagna slíkri styrkleikamælingu. 

Því verður auðvitað vart trúað að forystan í flokksfélögum (t.d. þingmennirnir núverandi) sé í alvöru að spá í uppstillingu í stað prófkjörs. Ég heyri að núverandi þingmenn tali sumir, kannski margir, um uppstillingu. Mjög líklegt er að þeir séu uggandi um sinn hag í prófkjöri. Þeir gætu komið illa út úr slíkri traustsmælingu. ISG líka (Þau gætu líka komið vel út ef þau spila "leikinn" rétt). Hinn almenni flokksmaður verður auðvitað að hrinda slíkri uppstillingafirru í burtu frá framgangi lýðræðisins. Það verður að koma vitinu fyrir fólk sem í alvöru talar um uppstillingarnefndir! Ég hef heyrt um prófkjör og forvöl meðal allra "gömlu" (fjór-)flokkanna nema Samfylkingarinnar, þannig að það er kannski ástæða til að óttast að þessar raddir um uppstillingu séu í raun sterkar innan flokksins.

Jón Baldvin kastaði fram sprengju á þessum fundi Samfylkingarinnar í dag og það er stórfínt! Gott að fá svona hræringar, gott að fá umræðu um traust og ábyrgð. Allir flokkarnir þurfa að drífa sig í að halda sem opnust prófkjör, svo það sé nú frá og kosningabaráttan flokka í milli geti hafist.

Ég myndi segja að það gilti líka um ný framboð - en ég er nokkurn veginn búinn að útiloka að fram muni koma sigurstranglegt og freistandi nýtt framboð. Það virðist bara hreinlega ekki vera í kortunum - og ég hef áður sagt og áréttað að í því ljósi var blásið til kosninga of snemma.


mbl.is Ingibjörg Sólrún ekki að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur ekki axlað neina ábyrgð enn. Hún er ekki búin að segja af sér um leið og þeirri vinnu hennar er lokið þá hefur hún axlað ábyrgð. Ég verð bara að segja að hún er ekki að hugs um þjóðarhag með því að sitja áfram. Það er hangið eins og hundur á roði áfram að völdum hvað sem það kostar. Gs. 

Guðlaugur (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 20:47

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Sammála Guðlaugi. ISG ætlaði hreint ekki að slíta stjórnarsamstarfinu en neyddist til þess eftir að allt var löngu komið í óefni og tilboð hafði borist um nýja stjórnarmyndun. Jón Baldvin er með þessu að setja þumalskrúfu á Samfylkinguna enda veit hann að ISG verður að víkja. Svo er hann orðinn mjög langeygur eftir aðildarviðræðum við ESB sem Samfylkingin hefur sett á ís tvisvar í röð.

Sigurður Hrellir, 14.2.2009 kl. 21:12

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

ISG er ekki búin að segja af sér sem formaður, það er rétt. Og það hefur by the way Geir H. Haarde ekki heldur gert sínum megin. Þarna erum við að tala um innanflokksmál, en ekki landstjórnina (þar hafa bæði ISG og GHH vikið). Varðar það virkilega þjóðarhag að ISG sé enn formaður Samfylkingarinnar, einkum meðan hún er ekki með framkvæmdavald á sinni könnu? Hvernig þá? Varðar það ekki miklu heldur og fyrst og fremst flokkshag?

Mér skilst að formaður í Samfylkingu sé kjörinn beinni kosningu einhvern veginn, en ekki á landsfundi, það leiðréttist hér með (ég er ekki í flokknum og mundi þetta ekki rétt). Það breytir engu að í slíkri flokkskosningu fær ISG sinn "dóm" af flokksins hálfu.

Friðrik Þór Guðmundsson, 14.2.2009 kl. 21:47

4 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

ISG er formaður Samfylkingar og verður það þangað til annað er ákveðið, ef það sé einhver vilji hjá einhverri persónu að fara fram þá bara gerir hún það á næsta flokksþingi og býður sig á móti sitjandi formanni, ekki flókið.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 14.2.2009 kl. 21:54

5 Smámynd: Sigurður Hrellir

Samfylkingin fer í kosningar með mikið fortíðarvandamál ef lítil endurnýjun verður efst á listum. Væntanlega þurfa félagar að gera það upp við sig hversu mikið af nýju fólki þau vilja fá inn.

Sigurður Hrellir, 14.2.2009 kl. 23:47

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sammála Sigurður. Mér finnst sumir kommenterar ekki gera nógu mikinn greinarmun á landsstjórnarmálum og innanflokksmálum. Það hlýtur að vera hausverkur félagsmanna og stuðningsmanna (sem aðgang hafa að vali frambjóðenda) hvers flokks fyrir sig að "hreinsa til hjá sér"  eða ekki. Ef flokksmenn ákveða að sömu frambjóðendur og fyrr eigi að vera í fararbroddi í komandi kosningum þá er eins víst að mat almennra kjósenda verði allt annað. Framsókn tók til hjá sér og mælist nú með umtalsvert aukið fylgi í skoðanakönnunum. Það er sterk vísbending, en þá er þess að geta að sá flokkur var með afar þunga fortíðarbyrði á bakinu (mun þyngri en Samfylkingin að mínu mati). Andlit hrunadansins eru farin; Halldór, Guðni, Valgerður. Páli "aðstoðarmanni" var hafnað með áberandi hætti. Nýr og "óþekktur" (syndlaus) maður var gerður að formanni.

ISG hefur að mínu mati fullan rétt á því að láta flokksfélögum um að dæma hana og þeir hafa þá ákvörðunarvaldið hvort hún sé rétta "andlitið" fyrir hinn almenna kjósanda. Mér virðist að innan flokksins togist mjög á, þörfin fyrir uppstokkun/endurnýjun annars vegar og svo hins vegar hollusta við ISG, sem mjög margir flokksmenn telja að sé ekki tiltakanlegur syndaselur hvað hrunið varðar. Og þó að hún teljist af ýmsum hafa "sofið á verðinum" þá er eins víst að mörgum þeirra finnist í lagi að fyrirgefa henni, einkum úr því að hún sleit (loks) stjórnarsamstarfinu og blés til kosninga. Það er eftirtektarvert hversu eindregið Jóhanna blés á tillögur Jóns Baldvins um formennskuna.

"Fólk út í bæ" hefur engan kröfurétt til að heimta að ISG segi af sér formennsku innan Samfylkingarinnar. Það hafa bara flokksmenn og það sama gildir um aðra flokka og forystu þeirra. Þeir ráða því hvaða "pakka" þeir ætla að bjóða almennum kjósendum upp á.

Loks; það má segja margt um gömlu flokkana, en vonbrigði mín eru ekkert minni, eiginlega meiri, með að "búsáhaldabyltingin" ætlar ekki að fæða af sér þingframboð. Vonbrigði er kannski ekki rétta orðið; þetta kemur mér á óvart, því ef nokkurn tímann hefur verið góður farvegur fyrir fylgi við trúverðugan "fimmta flokk" þá er það núna. Kannski er byltingin upptekin við að "éta börnin sín"?

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.2.2009 kl. 00:13

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Langeðlilegast hefði verið að hér væri persónukjör með óröðuðum listum þar sem kjósendur flokkanna gætu sjálfir raðað ótruflaðir á listana í kjörklefunum.

En nú eru uppi alls kyns fyrirvarar um það að ekki verði hægt að breyta kosningalögunum í þessa veru auk þess sem flokkarnir ætla hvort eð er ekki að gera þetta heldur nota sín gölluðu prófkjör eða aðrar uppstillingaraðferðir. 

Ómar Ragnarsson, 15.2.2009 kl. 00:20

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég er líka talsmaður persónukjörs eða almennt aukins valréttar kjósenda. En það er svo sem ekki heldur gallalaust. Þá væri kosningabaráttan ekki bara flokka í milli heldur líka væru frambjóðendur sama flokks að "bítast".

Sem er kannski allt í lagi. Mér finnst ekki nóg að velja einn óraðaðan lista og bjóða fólki að raða innan hans; lengra væri gengið með því að bjóða fólki að velja hreinlega tilskilinn fjölda af hvaða lista sem er. Ég gæti þá valið Z marga af einum lista, Y marga af öðrum lista, X marga af enn einum listanum, kannski einn af einum lista og engan af enn öðrum.

Ég held líka að engin samstaða muni nást um breytingar á kosningalögunum fyrir þessar kosningar. Ég segi enn einu sinni: Of snemma var blásið til kosninga

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.2.2009 kl. 00:27

9 identicon

Rétt er það að ég hef ekki rétt til þess að óska henni frá formanns embætti hjá Samfylkingunni. En manneskja sem lætur það út úr sér að fullur salur Háskólabíos sendurspegli ekki endilega skoðun þjóðarinnar, það finnst þá mér full mikið sagt. Eins að í mars á síðasta ári, það er ekki komið ár síðan, flaug hún um norðurlöndin til þess að verja útrás íslenskra viðskipta manna, það finnst mér líka full mikið. Á sama tíma var GHH í bandaríkjunum í sömu erindagjörðum. Hún sagði einnig í sjónvarps viðtali skömmu eftir að hún kom heim frá USA að stjórnin hefði nú umboð til 2011. Sem er rétt, en þegar allt er um koll að keyra, eins og var um þetta leiti þá finnst mér eðlilegt að stjórnmálamenn eins og hún segi af sér.  Gs.

Guðlaugur (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 00:31

10 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

En gagnvart þér þá sagði hún af sér, Guðlaugur, í merkingunni að hún fór frá landsstjórnarvöldum og sá til þess að boða (og þá bjóða upp á) kosningar. Þú hefur fullkominn rétt til að andmæla orðum hennar og gjörðum sem almennur kjósandi og krefjast þess að hún og hinir segi af sér ráðherradómi (sem hún gerði í reynd að mér finnst), en, eins og þú viðurkennir, þú hefur ekkert um það að segja hvort hún skipi áfram formannsembættið innan Samfylkingarinnar. Það er flokksmeðlimum (og stuðningsmönnum sem mega taka þátt í formannskjöri) að dæma hana, úr því að hún dæmir sig ekki sjálfa frá.

Þú getur kjaftað af þér hverri tusku með gagnrýni, en ef þú ert ekki flokksfélagi eða innanflokks-kosningabær Samfylkingarmaður þá er formennska hennar þér óskylt mál - en "vandamál" fyrir aðra að eiga við. 

En það er tjáningarfrelsi og þú mátt ráðleggja Samfylkingarfólki eins og þú vilt!

Er allt í góðu standi innan þíns flokks?

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.2.2009 kl. 00:49

11 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Sæll Friðrik Þór!

Rétt mun vera hjá þér með formannskosninguna í S, hún fer ekki fram á landsfundi, heldur fá allir félagar atkvæðaseðla senda í pósti og senda inn atkvæðin.

ER þér svo alveg sammála með inntak pistilsins og hef raunar verið ófeimin við að verja Ingibjörgu fyrir um margt ósanngjarnri gagnrýni, til dæmis eins og þessari útúrsnúningstuggu sem Guðlaugur endurtekur hér með skilningin á orðum hennar í bióinu og rangri meiningu sem henni var gerð upp með þeim.

Ég hef svo sömuleiðis bent á eins og þú gerir hér, að gagnrýnendur hafa oftar en ekki farið langt fram úr sjálfum sér í kappinu að koma höggi á INgibjörgu m.a. með hinu "stórhneykslinu" er líka tengist fundi í Háskólabiói, orðum vinkonunnar Sigurbjargar um ráðherran ráðagóða. Það var auðvitað stormur í vatnsglasi og líkt og það er mál S hvort Ingibjörg verður áfram formaður eða ekki, þá var þetta fyrst og fremst mál tveggja vinkvenna sem þyrftu e.t.v. að tala betur saman!

En Jóni Baldvin er tamt að láta stundum ásér bera, en ég efast nú um að mikil innistæða sé hjá honum til að verða formaður. Og raunar finndist mér alveg augljóst hvern ætti að tilnefna helst sem arftaka Ingibjargar ef af verður að hún hættir og j'ohanna kæmi ekki í hennar stað, Lúðvík Geirsson bæjarstjóra í Hafnarfirði!

Magnús Geir Guðmundsson, 15.2.2009 kl. 01:48

12 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

"Ég hef svo sömuleiðis bent á eins og þú gerir hér, að gagnrýnendur hafa oftar en ekki farið langt fram úr sjálfum sér í kappinu að koma höggi á Ingibjörgu" -

Hvar segi ég það, almennt eða í samhengi við Háskólabíósfundinn og orð ISG þar?  Það vill svo til að mér fannst "þjóðar"-ummæli hennar þarf mjög vond: Hver svo sem meiningin "raunverulega" var. Orðin  buðu upp á misskilning og voru út í hött ef hún meinti eitthvað annað. Aftur á móti gæti ég vel trúað því að "sendiboðinn" hafi klúðrað vinkonu-skilaboðunum til Sigurbjargar, hver sem sá sendiboði var. 

Lúðvík? Sómapiltur sem nýtur mikillar virðingar innan blaðamannastéttarinnar. Það koma sjálfsagt ýmsir til greina, en ég ætla ekki að spá of mikið í það fyrst ég hef ekki kosningaréttinn.

p.s. Magnús; hví eyðileggja súkkulaðið með rúsínu-mengun? Fáð´ér bara súkkulaði maður!

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.2.2009 kl. 02:01

13 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ingibjörg Sólrún gerir mistök eins og annað fólk. En sem stjórnmálamaður í langan tíma þá er hennar mistakalisti ekki langur og merkilegur.

Kíkjum á afrekaskrá Skussaflokksins undir stjórn DO og GHH: kvótakerfið - pólitísk einkavæðing ríkisfyrirtækja - aðför að öryrkjum og eftirlaunaþegum - kollhnís húsnæðismálakerfisins - náttúruspjöll á heimnsmælikvarða - reyting peningamálastefnunnar 2001 - lömun eftirlitskerfis efnahagsmála - eyðilegging utanríkisstefnu þjóðarinnar með stríðsyfirlýsingu gegn þjóð sem við eigum ekkert sökótt við - tilraun til að koma Íslandi í Öryggisráðið (ISG erfði það mál). Þetta var svo allt í boði Framsóknar sem hækjunnar undir stríðsvagninum.

Yfirlýsing Ingibjargar í Háskólabíó er í eðli sínu rétt þótt pólitískt væri hún mistök.

Guðlagur, hvað segir þú um þetta?

Hjálmtýr V Heiðdal, 15.2.2009 kl. 11:13

14 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

leiðrétt: breyting peningamálastefnunnar 2001 (flotkrónan)

Hjálmtýr V Heiðdal, 15.2.2009 kl. 11:14

15 identicon

Er það að "axla ábyrgð" að flokkur ISG setjist í forsætisráðherrastólinn og láti svo eins og síðasta ríkisstjórn hafi ekki komið þeim við, sbr. orð forsætisráðherra fyrir helgi (12.2.) vegna samvinnu við ASG:

"Jóhanna sagði, að metnaðarfullum markmiðum í áætlun sem unnin var í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi því miður ekki verið fylgt eftir af nægilegum krafti vegna ákvarðanafælni og seinagangs í síðustu ríkisstjórn. Þeirri vinnu hefði nú verið hraðað."

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/02/12/nidursveiflan_meiri/?ref=fphelst

Sama dag sendi forsætisráðuneytið frá sér féttatilkynningu þar sem eftirfarandi má lesa um sama mál:

"Megin niðurstaða hennar er sú að áætlunin gangi almennt vel, heildarmarkmið áætlunar íslenskra stjórnvalda og sjóðsins séu enn raunhæf, en nauðsynlegt er að vinna af einurð til þess að árangur náist."

............ og

"Í heild má því segja að í meginatriðum gangi vonum framar að framfylgja þeirri metnaðarfullu áætlun sem stjórnvöld settu fram í samstarfi við AGS um endurreisn íslensks efnahagslífs. Ljóst er að aðstæður kunna að breytast hratt og því mikilvægt að geta brugðist við þeim breytingum. Það hefur tekist með ágætum fram til þessa."

___________________

Eh... !   Hvernig á málsmentandi erlendur aðili að skilja svona nokkuð?

Heitir þetta ekki að tala út og suður?  

Hvar er ábyrgðin?

Friðrik H (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 12:42

16 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég fæ ekki séð að athugasemd "Friðriks H" hafi nokkuð með efni færslu minnar að gera og elti því ekki ólar við hana.

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.2.2009 kl. 13:09

17 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Hehe, er LÍKA í súkkulaðinu eingöngu!

En minn ágæti Friðrik Þór, afsakaðu að það hefur ekki orðast nógu skýrt hjá mér, en það sem ég átti við voru ábendingar þínar í athugasendunum að ofan, að það snerti ekki þjóðfélagslega ábyrgð hvort Ingibjörg segði af ´sér eður ei sem formaður í S, það væri þess flokks innanbúðarmál. Að því leiti fannst mér þetta eiga sannmerkt með fleiru er gagnrýnendur hafa viljað bera á konuna með ósanngjörnum hætti og óréttmætum. ER semsagt alls ekki að gera þér upp skoðun varðandi hin dæmin tvö, það er einfaldlega komið frá mínu brjósti, að þetta sé sambærilegt og sýni allt hve fólk hefur farið fram úr sér, kappið og oft á tíðum reiði og heift, borið skynsemina ofurliði!

Annars hef ég litla samúð með Ingibjörgu og hennar flokki varðandi stjórnarsetuna með D, en er þér alveg sammála um að með breytni sinni nú hafi hún og flokkurinn allavega að hluta reynt að axla ábyrgð. Ég sagði líka "EF" hún vill hætta eða að meirihluti flokksins setur fram þann vilja, hef bara aldrei heyrt nema gott eitt um Lúðvík auk þess sem sigrar hans sem leiðtogi flokksins í Hafnarfirði tala sínu máli.En þetta eru bara almennar vangaveltur mínar, er ekki frekar en þú innanbúðarmaður þarna, bara áhugamaður um pólitíkina frá fornu fari og fylgist sæmilega vel með hjá öllum flokkum.

og get því alveg viðurkennt að gaman yrði að sjá karlin Jón Baldvin fara í formannskjörið, þótt mín skoðun sé sú að hann eigi lítið erindi og hefði eiginlega miklu frekar átt að taka endurkomuskrefið fyrir tveimur árum í pólitíkina eins og margir heldu að hann myndi gera.Nú nema, að það væri kannski sniðugt fyrir hann að fara í þingmanninn aftur, t.d. fyrir vestan!?

Magnús Geir Guðmundsson, 15.2.2009 kl. 16:54

18 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

OK, skil þig Magnús.

En aftur að prófkjörum. Ég leið beinlínis kvalir við að hlusta á Auði Styrkársdóttur stjórnmálafræðing og ofurfeminista í Silfri Egils í dag. Í mónólóg af hennar hálfu (þ.e. það var enginn andmælandi) fann hún prófkjörum flest til foráttu - en ekki nóg með það; hún beinlínis fullyrti að uppstillingarleiðin VÆRI LÝÐRÆÐISLEGRI!

Aðra eins afturhaldsfirru hef ég ekki heyrt lengi

Auður nefndi ekki það sem hún þó veit, að reglur hafa verið samdar og settar sem taka á flestum göllum sem upp hafa komið við framkvæmd prófkjara (ég er hér að tala um Samfylkinguna því ákvörðun um val frambjóðenda hafa dregist þar mest). Það hafa verið settar reglur um fjárútlát, svo sem um auglýsingar og ókeypis aðstöðu eða aðrar styrkveitingar. Þess utan blasir við að einstaklingur sem ætlaði sér allt of mikinn fjáraustur í prófkjöri fengi a.m.k. um þessar mundir NEIKVÆÐAN STIMPIL á sig og verra gengi þar með.

Hugsa sér - að halda því virkilega fram að uppstillingaleiðin sé lýðræðislegri!!

Ég hugsa að ég skrif reyndar sérstaka færslu um þetta og um þá furðulegu ákvörðun Egils að leyfa Auði að vera eini viðmælandinn um þessi sjónarmið.

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.2.2009 kl. 17:52

19 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þá er Framsókn búin að afsanna lýðræðisást sína:

"Framsóknarmenn í Reykjavík höfnuðu tillögu um prófkjör fyrir þingkosningar í vor. Á aukakjördæmisþingi flokksfélaganna í Reykjavík í gær var ákveðið að forvalsnefnd, sem kosin var á þinginu, geri tillögur að framboðslistum flokksins í Reykjavík". Tekið af Eyjunni.

Var ekki eitthvað verið að hrópa um nýja tíma, aukið lýðræði, meira gegnsæi og fleira í þá áttina? Framsókn hefur ekki heyrt það. Býður upp á "forvalsnefnd" valdakjarnans...

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.2.2009 kl. 18:04

20 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

En Steingrímur; hún kom eiginlega sjálf með bestu andmælin við þessu. Ekki síst jafnaðarmenn gjalda varhug við frambjóðendum sem sem augljóslega hafa úr ógrynni fjár að spila. "Hvaðan koma peningarnir" spurði hún einmitt og augljóst að hún væri þá ein af mörgum sem MYNDU EKKI VELJA FJÁRAUSTURSFRAMBJÓÐENDUR í prófkjöri.

Það er afskaplega auðvelt að setja reglur um fjáraustur og það hefur verið gert. Þess utan er auðvelt að koma þeim skýru siðferðilegu skilaboðum á framfæri að fjárausturinn sé vafasamur og andlýðræðislegur (en ekki sjálf prófkjörin).

Þannig að jú, ég tek undir gallann hvað fjárútlátin varðar - en tel það ekki röksemd gegn prófkjörum, því þessu má og er mætt með reglum og siðferðilegri afstöðu. 

Hvernig velja uppstillingarnefndir fólk? Er hægt að útiloka að valdagráðungir einstaklingar "kaupi" uppstillingarnefndir til fylgilags? Hafa menn ekki misjafnlega góða aðstöðu til að heilla uppstillinganefndir?

Ég endurtek; Auður veit um þessar reglur. Hún meira að segja viðurkenndi gildi þeirra óbeint með því að segja að það væri ekki hægt að taka "alveg alla" vankantana af prófkjörum með reglum - sem sagt næstum því alla! Hlustaðu á þetta aftur, Steingrímur.

Fékk tölvupóst áðan þar sem fullyrt er að prófkjörin útiloki "almennilegt fólk" til að komast að. Ég held að þarna sé einhver meiriháttar rökvilla í gangi. Eitt er alltént öruggt; uppstillingarleiðin er ekki svarið, heldur argasta afturhald og ósigur fyrir lýðræðið.

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.2.2009 kl. 19:06

21 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Athygliverð umræða og vangaveltur hjá þér Friðrik Þór og Steingrími. En varðandi fjáraustur í prófkjörum, þá hefur það sjálfsagt virkað í báðar áttir, ágæt dæmi eru líklega ítrekaðar tilraunir Jakobs Frímanns einmitt hjá jafnaðarmönnum/S þar sem mörgum spekingnum kom á óvart hve litlum árangri hann náði þrátt fyrir að mikið væri í lagt.man hins vegar ekki sérstaklega eftir dæmum um dýr prófkjör sem borguðu sig, nema kannski í tilfelli Guðlaugs Þórs gegn Birni b., en alhæfi þó ekki um það.

En varðandi aðferðarfræðina og þetta með B sem þú nefnir Friðrik, þá held ég að ferð ráði þar einfaldlega ein staðreynd óháð lýðræðishugsjón eða spurningunni um kosnað til eða frá, eða að með þessu séu þeir að lágmarka að eigin áliti hættuna á frekari átökum og deilum!EFtir allt sem hefur gengið sl. misserin held ég að það sé öllu ofar nú hjá b liðum, hvort sem það svo gengur eftir að halda friðin!?

Á annars eftir að heyra í Auði, en þetta sjónarmið hjá henni finnst me´r ekki alveg vera ókunnugt, gæti það ekki átt rætur að rekja allt til daga kvennalistans? En góður og umhugsunarverður punktur hjá Steingrími hér síðast.

Magnús Geir Guðmundsson, 16.2.2009 kl. 17:09

22 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já ég tek undir með Steingrím, Magnús; held að uppstillingarleiðin sé ekki til vinsælda (atkvæða) fallin.

En mig langar til að bæta inn nýrri vídd hvað varðar mismunandi aðstöðu og forskot einstaklinga í prófkjörum. Nefnt er að fjáðir einstaklingar hafi forskot og geti spreðað peningum í auglýsingar og annað slíkt. En hvað með þá sem eru svo "þekktir" af öllu og engu að þeir gætu náð árangri bara út á andlitið án þess að eyða krónu í auglýsingar eða hafa almennt fyrir því að kynna stefnuáherslur sínar?

Tökum einhver dæmi. Flokkar reyna gjarnan að laða þekkt/frægt fólk á lista sína, fólk sem í engu hefur verið þekkt af flokkspólitískum skoðunum eða starfi. Ef t.d. Samfylkingin fengi t.d. Egil Helgason í framboð: Hvað ætli hann þyrfti að eyða fáum krónum í að kynna sig og fá fólk til að velja sig

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.2.2009 kl. 17:23

23 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ekki beint "lýðræðislegar" fréttir af uppstillingargjörningum innan Samfylkingarinnar fyrir norðan. Konurnar hóta sérframboði af því að karlarnir samþykktu ekki þeirra tillögur um útfærslu kynjakvóta.

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.2.2009 kl. 19:24

24 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Jæja, best að henda þessu hérna inn til að klára umræðuna. "Forkosning" heitir þetta núna. Lokað prófkjör með útgjaldareglum. Þó ekki uppstilling.

17. febrúar 2009 11:41
Netkosning um 8 efstu sætin í Reykjavíkurkjördæmum

Fundur fulltrúaráðs Samfylkingarfélaganna í Reykjavík, haldinn 16. febrúar, samþykkti reglur um forkosningu vegna Alþingskosninganna 2009. Kosningin verður rafræn og skráðir félagar munu fá sendan veflykil sem virkjar kjörseðil á netinu. Rétt til framboðs á lista hafa allir félagar í Samfylkingunni sem kjörgengir eru til Alþingis og fá meðmæli minnst 30 og mest 50 Samfylkingarfélaga með lögheimili í Reykjavík. Kosið er um 8 sæti af einum lista. Niðurstaðan er bindandi fái frambjóðandi yfir 50% greiddra atkvæða í ákveðið sæti.
 
Frestur til að tilkynna framboð rennur út 28. febrúar. Rétt til þátttöku hafa allir sem skráðir eru félagar í Samfylkingunni þegar framboðsfrestur rennur út.

Frambjóðendum er óheimilt að auglýsa sig í fjölmiðlum en mega auglýsa fundi fyrir hámark 300 þúsund krónur. Heildarkostnaður við framboð hvers þátttakanda má ekki fara yfir eina milljón króna og ber öllum að skila yfirliti yfir tekjur og gjöld til kjörstjórnar. Kjörstjórn mun standa fyrir sameiginlegum kynningum á frambjóðendum með sameiginlegri útsendingu efnis, fundum og vefefni auk útsendingar á rafrænum pósti til félaga.

Nýkjörin kjörstjórn mun auglýsa eftir framboðum og kynna framkvæmdina með formlegum hætti á næstum dögum.

Friðrik Þór Guðmundsson, 18.2.2009 kl. 00:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband