Stórfengleg fyrirsögn og bráðfyndin leiðrétting

Í gær mátti sjá í Morgunblaðinu hreint út sagt kostulega og tvíræða fyrirsögn - "Enn einn í formannsslag" að mig minnir. Í dag á bls. 9 leiðréttir Mogginn síðan viðkomandi frétt og hef ég sjaldan skemmt mér eins mikið yfir lestri dagblaðs, allavega undanfarið, í öllum hremmingunum.

Líkingamálið í ofangreindri fyrirsögn er auðvitað hárbeitt. Í fréttinni var sagt frá því að ekki hefðu enn aðrir en Bjarni Benediktsson tilkynnt um framboð í formannsembættið hjá Sjálfstæðisflokknum. Orðalagið á fyrirsögninni er lúmskt: Vísar ekki bara til þess að enn sé Bjarni einn um hituna, heldur vísar hún líka til tengsla Bjarna við fyrirtækið N1 - að fulltrúi olíufyrirtækisins sé í framboði.

En leiðréttingin í dag eyðileggur fréttina og þar með fyrirsögnina. Þar er greint frá því, sem farið hefur framhjá blaðamanni Moggans, að Bjarni er ekki einn um að hafa tilkynnt framboð. Maður að nafni Jóhannes Birgir Jensson hefur líka tilkynnt framboð. Hver í ósköpunum er það? Von að spurt sé.

Þetta segir Wikipedia: "Jóhannes Birgir Jensson (fæddur 14. ágúst 1975) er íslenskur tölvunarfræðingur sem hefur beitt sér fyrir aukningu íslensks efnis á Project Gutenberg og haft umsjón með fjölmörgum ritum sem hafa birst þar eða eru í vinnslu hjá Distributed Proofreaders. Hann er jafnframt annar tveggja stofnenda World Football Organization, samtaka sem hafa byggt upp gagnagrunn yfir knattspyrnu um heim allan. World Football Organization er skráð bæði í Michigan í Bandaríkjunum og á Íslandi".

Þegar Jóhannes tilkynnti framboð sagði hann meðal annars: "Orðstír Íslands er nú í molum erlendis, ákvarðanir sem formaðurinn kom að vega þar þungt, handvöldum mönnum voru látnir bankarnir í té fyrir lítið fé og því næst var almenningur gerður að ábyrgðarmanni þeirra einkaaðila sem fóru á lánafyllerí. Víxillinn er fallinn og bök Íslendinga eru nú við það að brotna".  (Sjá hér)

Það er því ljóst að það stefnir í spennandi formannskosningu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Rut

N1 sigrar væntanlega.

Halla Rut , 13.2.2009 kl. 17:05

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Friðrik.
Ég var ekki búinn að koma auga á N1 tenginguna en hún er bráðfyndin.
Ég kýs Jóhannes Birgi Jensson. Eða nei annars. Ég kýs aldrei Sjálfstæðismenn en það er annar handleggur.
Ég stóð að Netútgáfunni með öðrum á sínum tíma og auðvitað var Gutenberg fyrirmyndin okkar.

Sæmundur Bjarnason, 13.2.2009 kl. 18:07

3 identicon

Þarna kemur þú Friðrik, e.t.v. óvart, inná nokkuð sem er mjög ámælisvert hjá fjölmiðlum þessa lands. Það er lýðræðisleg og sanngjörn umfjöllun um menn sem bjóða sig fram til ábyrgðarstarfa fyrir t.d. stjórnmálaflokka.

Dæmi 1. A.m.k. fimm menn gáfu formlega kost á sér til formennsku í Framsóknarflokknum á dögunum. Þrír þeirra fengu mun meiri aðgang að fjölmiðlum, meiri umfjöllun en hinir tveir. Fjölmiðlarnir "völdu" - kusu að dansa í kringum og við ákveðna einstaklinga. Þar með, og um leið, voru hinir tveir útmálaðir sem einskonar ómerkingar; meðhöndlaðir sem 2. flokks frambjóðendur.

Dæmi 2. Nú hafa tveir menn sannarlega gefið kost á sér í formennsku hjá Sjálfstæðisflokknum. Bjarni Benediktsson alþingismaður og Jóhannes Jensson tölvunarfræðingur. Það getur hver maður spurt sjálfan sig hvort þessum tveimur mönnum hafi verið gert jafn hátt undir höfði í fjölmiðlum undanfarna daga; annar hefur fengið a.m.k. eitt drottningarviðtal í dagblaði, eiginkona hans hefur verið dregin á flot til að segja okkur frá því hvort uppvaskið gangi eðlilega etc. Um Jóhannes Jensson hefur minna verið talað.

 Nú eiga stjórnmálaflokkar og menn þar um borð - og þá alveg jafnt þeir sem þar vilja fara fyrir sem og óbreyttir - enga heimtingu á því að fjölmiðlar sinni þeim neitt sérstaklega. En, við hin hljótum að eiga þá kröfu á fjölmiðla að þeir sinni þeim sem þeir þó sinna, jafnt, sjái þeir á annað borð ástæðu til umfjöllunar.

Kveðja,

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 23:24

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þetta er almennt og yfirleitt laukrétt hjá þér Guðmundur. Þó vil ég nefna við þig að fjölmiðlar eru ekki "dómarar" sem fara um með mælistikur (helst þó RÚV). Það er ekki einhliða við fjölmiðlamennina að "sakast" að því leiti að frambjóðendur eru mjög misflinkir í því að vekja athygli á sér og ná eyrum fjölmiðlanna.

"Þrír þeirra fengu mun meiri aðgang að fjölmiðlum, meiri umfjöllun en hinir tveir". Svoleiðis er vitaskuld bagalegt, en ég árétta; sumir eru einfaldlega sleipari en aðrir í að koma sér á framfæri, "búa til" fréttamóment og senda fjölmiðlum upplýsingar. Ég er sum sé að segja að fjölmiðlar eru áreiðanlega ekki viljandi að gera upp á milli frambjóðenda, en þekkt nöfn eru gjarnan fréttnæmari en lítt- eða óþekkt nöfn. Þegar við bætist að blaða- og fréttamenn á niðurskornum ritstjórnum eru yfirleitt uppfyrir haus í vinnuálagi og tímaþröng þá gerast einmitt mistök eins og hjá Mogganum hvað Bjarna og Jóhannes varðar.

Friðrik Þór Guðmundsson, 13.2.2009 kl. 23:46

5 identicon

Það má ekki gleyma honum Snorra. Ég man ekki eftir því að hann hafi dregið framboðið tilbaka.

 http://www.visir.is/article/20090113/FRETTIR01/555589120

Trausti (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 13:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband