Samfylkingin kveikti á perunni í heilbrigðismálum

Samfylkingin hélt í gær bráðnauðsynlegt opið málþing um þróun heilbrigðisþjónustunnar í höndum ríkisstjórnarinnar. "Bráðnauðsynlegt" segir ég, fyrir flokkinn, því sú ímynd var tryggilega farin að streyma út að yfirlýst félagshyggjufólkið í flokknum væri að leyfa Sjálfstæðisflokknum óáreittum að einkavæða heilbrigðisþjónustuna. Og Samfylkingin hefur undanfarið verið að missa fylgi út á þessa ímynd.

Mér til nokkurrar furðu getur mbl.is þessa fundar í engu, þ.e. að segja frá því sem fram fór á honum. Væntanlega hefur enginn fréttamaður verið laus í verkefnið. O jæja. Kannski fyrsta umferð Íslandsmótsins í karlafótbolta hafi dregið að sér alla orkuna? Fundarmætingin (um 50 manns held ég) minnti mig enda á að kerlingar af báðum kynjum virðast alltaf telja það besta fundartímann fyrir pólitíska fundi að hitast eftir hádegi á laugardegi þegar spennandi fótbolti er í gangi. Furðulegt. Má ég heldur benda á kl. 11 á laugardegi, nú eða miklu heldur kl. 11 á sunnudegi. Síst af öllu held ég að messutími dragi úr mætingu á pólitíska fundi. Það hafa miklu, miklu fleiri áhuga á fótbolta en messu, segi ég og skrifa. En sem sagt í þetta sinnið fórnaði ég því að fara á völlinn og fór á þetta opna málþing eða ráðstefnu um heilbrigðismálin hjá Samfylkingunni.

Samfylkingin notaði eðlilega samkomuna og nærveru ljósvakamiðlanna til að segja (loks) skýrt og fullum fetum að engin einkavæðing myndi eiga sér stað í heilbrigðiskerfinu. Og útlista hve flokkurinn væri að gera margt og gott í velferðarmálum. Formaður flokksins hefur áréttað og undirstrikað að í stjórnarsáttmálanum sé það ófrávíkjanlegt skilyrði að ekkert verði einkavætt í heilbrigðisþjónustunni og að þótt mismunandi rekstrarform megi skoða þá standi alls ekki til að hlutafélagsvæða Landspítalann. Nú höfum við þetta svart á hvítu og getum mátað við orð þess fólks sem stýrir heilbrigðisþjónustunni, en það er frjálshyggjufólkið Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra, Árni Mathiesen fjármálaráðherra, Vilhjálmur Egilsson, Pétur H. Blöndal og Ásta Möller. Þessi nafnaupptalning segir margt um hvers vegna fjöldinn allur af félagshyggjufólki hefur haft áhyggjur. Og hvers vegna Valgerður Bjarnadóttir varaþingmaður Samfylkingarinnar sagði opinberlega í síðasta mánuði að "við" (væntanlega Samfylkingin) vissum ekkert hvað heilbrigðisráðherra og hans fólk væri að gera í þessum málaflokki.

Ég er unnandi samfélagslega rekinnar heilbrigðisþjónustu og vill ekki sjá gróðasjónarmið ráða för þgar sjúkdómar og slys eru annars vegar. Þannig er ég bara, meðan sumir trúa þvælunni upp úr Pétri Blöndal og fleirum um "fé án hirðis" á þessu sviði.

Og mér finnst ekkert of mikið þótt 100 milljarðar af fjárlögum (um fjórðungur) renni til heilbrigðismála (nema þegar útgjaldaaukning stafar af t.d. óeðlilegum hækkunum á lyfjaverði). Mín vegna mætti hlutfallið vera 50% og þá frekar að skera niður á allt öðrum sviðum. Raunar er fyrir löngu búið að skera burt alla "fitu" í heilbrigðisþjónustunni og helbert fjársvelti í gangi um árabil. Ég segi og skrifa: "Hallarekstur" í heilbrigðismálum ER EKKI TIL. Það er bara til næg eða ónóg fjárveiting miðað við eðlilega meðhöndlun á sjúkum og slösuðum.

Lýk þessu með ágætum brandara sem einn fyrirlsarinn flutti, Anna Sigrún Baldursdóttir, fjármálaráðjafi á Landspítalanum: Að reyna að stjórna læknum er eins og að reyna að smala köttum!


mbl.is Heilbrigðiskerfi í hættu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þetta er hnitmiðaður og góður texti hjá þér. Nokkuð til í brandaranum í lokin. Samfylkingin þarf svo sannarlega að vera á tánum gagnvart Sjálfstæðisflokknum í heilbrigðismálum. Mér hefur fundist svolítil skítalykt af þessu undanfarið, svolítið skipulagt kaos á Landspítalnum, sem er aðferð til að láta ohf og einkavæðingu líta vel út. Það sem er verst í þessu öllu er að Samfylkingin er komin með einhverskonar Framsóknarsýki, ráðherrar sjást varla og þeir einu sem eitthvað sést til eru Jóhanna og Möllerinn. Hinir virðast bara vera í fílabeinsturni Geirs.

Haraldur Bjarnason, 11.5.2008 kl. 11:59

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Bæjarlæknum?

Júlíus Valsson, 11.5.2008 kl. 13:24

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Nei, sjúkrahúslæknum.

Friðrik Þór Guðmundsson, 11.5.2008 kl. 13:30

4 identicon

Sæll Friðrik

Þetta var góður fundur í gær og tímabær. Ég vil eiginlega árétta að Samfylkingin kveikti á perunni fyrir allmörgum árum þegar undirbúningsvinna fyrir stefnumótun flokksins í heilbrigðismálum fór fram. En það er hins vegar alveg rétt hjá þér að það er afar nauðsynlegt að kynna almenningi í þaula hvað felst t.d. í nýjum lögum um sjúkratryggingar, því það er auðvelt að þyrla upp moldviðri í kringum þennan málaflokk, eins og sást t.d. á ummælum Álfheiðar Ingadóttur á fimmtudag á Alþingi.

Anna Sigrún Baldursdóttir (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 14:02

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka þér fyrir Anna Sigrún, innleggið og fyrirlesturinn á fundinum í gær. "Að kveikja á perunni" hjá mér þýddi nú að Samfylkingin væri að fatta að fylgistap sitt væri einna mest vegna heilbrigðismálanna (og mun frekar en t.d. umhverfismála eða Evrópumála eða efnahagsmála). Flokkurinn kveikti á perunni og hélt fundinn og notaði fjölmiðlaathyglina til að undirstrika and-einkavæðingarstöðu sína.

Ég veit að Samfylkingin fór fyrir nokkrum árum að tala um heilbrigðismálin með öðrum tón en áður. Sigfús Jónsson í Nýsi, Margrét Björnsdóttir og fleiri beittu sér mjög fyrir opnun flokksins fyrir nýjum rekstrarformum. Um skeið tók ég þátt í þessu flokksstarfi og stóð með öðrum gegn því að frjálshyggjuarmur flokksins gengi of langt. En það er annað mál.

Ég varpaði til þín spurningu á fundinum sem mér fannst þú alls ekki svara, en ég gerði ekkert veður út af því. Þú sameinaðir tvær spurningar og áréttaðir mikilvægri rafrænnar sjúkraskrár. Það er gott, en ég spurði um "Sögukerfið" meingallaða sem nú er verið að notast við og er algerlega ófullkomið þótt búið sé að eyða ofboðslegum skattpeningum í það. Hver þetta kerfi til? Af hverjum var það keypt? Er hægt að skila því, fá það endurgreitt og verja fénu í betra kerfi?

Já Anna Sigrún, það er auðvelt að þyrla upp moldviðri um þennan málaflokk og það er auðvelt að spila á sannar áhyggjur fólks, sem gjósa upp þegar það sér t.d. Villa Egils stýra spítalamálunum og Pétur Blöndal tala um "kostnaðarvitund" sjúklinga og "fé án hirðis". Fundur þessi og háværar heitstrengingar á honum gera áhyggjurnar léttvægari - um stund. Eða - þangað til og ef annað kemur í ljós...

Friðrik Þór Guðmundsson, 11.5.2008 kl. 18:43

6 identicon

Sæll aftur,

 Já heyrðu, ég svarðai þér senniega ekki nægilega, afsakaðu það. Reyndar er ég sennilega ekki rétt manneskjan til að spyrja um Sögukerfið, ég nota það ekki og í sjálfu sér það eina sem ég veit um það er að flestir eru ósáttir við það!

Hvað varðar vinnu Samfylkingarinnar hér fyrir nokkrum árum þá man ég eftir þér í þeirri umræðu. Ég er sennilega "frjálshyggjuarmurinn" sem þú talar um ;-) Ég var i vinnuhóp með Ágústi Ólafi , Einari Karli og Össuri sem stóð fyrir fjölmörgum fundum um heilbrigðismál og mótaði svo að því loknu stefnuna sem samþykkt var á landsfundi 2005.

Anna Sigrún Baldursdóttir (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 19:00

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Gott og vel Anna Sigrún. Ég árétta að ég er ekki á móti öllum breytingum, síður en svo. Og ef boðaðar breytingar um "blandaða fjármögnun" leiðir af sér betri þjónustu og réttmætari fjárveitingar þá fylgi ég þeim að sjálfsögðu. Ekki síst ef þær afnema bullið um "hallarekstur" spítalans.

Ég spurði líka Ástu R. Jóh. um hvort vinna nefndar hennar og Péturs Blöndals um greiðsluþátttöku sjúklinga (eða hvað hún heitir, sem nú fjallar um það sem Kratar fordæmdu áður sem sjúklingaskatta) myndi leiða af sér hærri hlut sjúklinga í heilbrigðiskostnaðinum og sagði Ásta að "við" myndum standa vörð um að enginn fari verr út úr kerfinu. Vona að þetta þýði nei.

Ég er því miður farinn að þekkja sjúkrahúsrekstur allt of vel fyrir minn hatt. Sjúkrahúslegu og andlát föður fyrir 11 árum, sjúkrahúslegu og andlát sonar fyrir 7 árum og sjúkrahúslegu og andlát móður fyrir þremur mánuðum. Það er heilmikil "nefndarvinna". Í Ameríska kerfinu værum við farin á hausinn, búin að missa húsið og bílinn og enn með skuldasúpu á bakinu. Ég var mjög ánægður að heyra það á fundinum hversu Ameríska kerfið var fordæmt.

Friðrik Þór Guðmundsson, 11.5.2008 kl. 19:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband