19.3.2009 | 13:11
Erlenda eftirlitsmenn endilega til Íslands!
Ég fagna því að hingað til lands komi sendinefnd Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, til að fylgjast með málefnum og framkvæmd í kringum komandi þingkosningar. Það er full þörf á því að óháðir erlendir sérfræðingar skoði kosningalöggjöfina og hugsanlegar breytingar á henni, svo sem persónukjör, og kynni sér fjölmiðla og eignarhald á þeim. Gott væri að fá upplýst álit þessara aðila á okkar gjörsamlega úreltu stjórnarskrá.
Ástæða væri til að fá fram álit þessara eða annarra alþjóðlegra eftirlitsaðila á framkvæmd rannsókna hérlendis á ástæðum bankahrunsins og fjármálakrísunnar, bæði hjá rannsóknarnefnd þingsins og sérstökum saksóknara, sem í gær í fréttum opinberaði raunar hversu fáránlega takmarkað það embætti hefur getað komist af stað.
Hvað viljið þið annars, lesendur góðir, af eftirfarandi:
Trúverðug rannsókn á íslenska efnahagshruninu fari af stað undir stjórn óháðra erlendra sérfræðinga og fari fram fyrir opnum tjöldum. Frysta skal eignir grunaðra auðmanna STRAX meðan á rannsókn stendur.
Alvarleg skuldastaða heimilanna verði tafarlaust lagfærð með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun hagkerfisins (til janúar 2008).
Leitað verði leiða út úr myntvanda Íslands með myntbandalagi við aðrar þjóðir eða, ef þess þarf, einhliða upptöku annars gjaldmiðils.
Halla á ríkissjóði verði mætt með endurskoðun skattkerfisins, m.a. með fjölgun skattþrepa, hátekjuskatti og breytingum á virðisaukaskatti, frekar en niðurskurði í heilbrigðis- og velferðarþjónustu.
ICESAVE-reikningar Landsbankans og aðrar skuldir bankanna erlendis verði ekki greiddar fyrr en álit óháðra sérfræðinga liggur fyrir um skyldur Íslands, m.t.t. þess að sennilega hafi verið um svikamyllu að ræða en ekki eðlilega bankastarfsemi.
Þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um mál sem varða þjóðarhag óski 7% þjóðarinnar þess.
Bera skal alla samninga sem framselja vald undir þjóðaratkvæðagreiðslu.
Rofin verði öll óeðlileg hagsmunatengsl milli viðskiptaheims og þingheims.
Vægi atkvæða í alþingiskosningum verði jafnt.
Tryggð verði skipting valdsins milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, m.a. með því að ráðherrar sitji ekki á þingi. Ráðherrar, þingmenn og æðstu embættismenn framkvæmdavaldsins gegni embætti í mesta lagi í átta ár eða tvö kjörtímabil samfellt.
Öllum skal tryggður réttur til grunnlífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og lífsviðurværi þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Grunnlífskjör teljast vera nauðsynleg næring, hreint vatn, klæði, húsnæði, læknishjálp og félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert.
Allar náttúruauðlindir verði í þjóðareigu og óheimilt að framselja þær nema tímabundið og þá aðeins með viðurkenndum gagnsæjum aðferðum þar sem fyllsta jafnræðis og arðs er gætt.
Hæfi umsækjenda um störf hæstaréttar- og héraðsdómara verði metið af hlutlausri fagnefnd skipaðri af Alþingi eftir tilnefningu Hæstaréttar. Ráðherra beri að velja dómara úr hópi þeirra sem fagnefndin telur hæfasta.
Ráðið verði í stöður innan stjórnsýslunnar á faglegum forsendum.
Fastanefndir þingsins verði efldar. Nefndarfundir verði almennt haldnir í heyranda hljóði.
Settar verði siðarreglur fyrir alþingismenn, ráðherra og æðstu embættismenn framkvæmdavaldsins og til þess ætlast að þeir m.a. geri grein fyrir öllum eignum og skuldum, stjórnarsetu í fyrirtækjum og upplýsi jafnharðan um allar breytingar á þessu sviði. Þingmenn, ráðherrar og embættismenn beri ábyrgð á gjörðum sínum.
Stjórnlagaþing fólksins í haust. Persónukjör í alþingiskosningum. Afnema 5% þröskuld þingframboða.
Aðskiljum ríki og kirkju!
Eftirlitsmenn fari til Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Mannréttindi, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Koma hingað "samskonar" og við höfum sent út, til ámóta verka, á stundum?
Ef svo er er þá von á góðu?
Arnar Smári 24 (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 13:56
Þessi fyrirspurn er fyrirspyrjandanum til mikillar háðungar!
Friðrik Þór Guðmundsson, 19.3.2009 kl. 15:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.