10.3.2009 | 11:29
Blaðamenn fá á sig þrefaldan brotsjó
Ofan á þá skömm, að hafa "flotið sofandi að feigðarósi" fyrir hrun efnahagslífsins, sofið við sitt úthlutaða aðhaldshlutverk, hafa blaðamenn nú fengið þrjár nýjar blautar tuskur í andlitið. Svo alvarleg eru þessi áföll að þau kalla á sérstakar aðgerðir og ályktanir af hálfu Blaðamannafélags Íslands, Félags fréttamanna og Fjölmiðlasambands Íslands.
Af þessum blautu tuskum nefni ég fyrst uppsagnir 80 til 100 blaðamanna undanfarið. Blaðamönnum er sagt upp eins og öðrum í samdrætti, en ólíkt þeim vinnuveitendum sem láta starfsaldur, reynslu og orðstír ráða nokkru þá virðast vinnuveitendur á fjölmiðlasviðinu helst segja upp "dýrum" blaðamönnum, þ.e. reyndum mönnum með uppsafnaða þekkingu, en halda frekar í ódýra og reynslulitla. Þetta bætist ofan á þann atgervisflótta sem fyrir var.
Næsta blauta tuska er dómurinn í Viku-málinu, þar sem klámbúllukóngurinn Ásgeir Þór Davíðsson hafði það af, með dyggri hjálp fyrrum blaðamannsins Sveins Andra Sveinssonar, að nauðga og misþyrma tjáningarfrelsinu svo enn bergmálar í sölum réttvísinnar. Í meiðyrðamáli "Geira feita" gegn Vikunni er skrásetjarinn (blaðamaðurinn) gerður ábyrgur fyrir ummælum viðtalsefnisins, fatafellunnar Lovísu, af því að ummæli af segulbandi voru ekki höfð 100% eftir henni (bara um 98%!). Efnislega var rétt haft eftir fatafellunni, en eins og gengur og gerir snyrti blaðamaðurinn talmál viðmælandans og fjarlægði móðurmálslegar ambögur. Þessi eðlilegi prófarkalestur mun að óbreyttu kosta blaðamanninn hundruð þúsunda króna og setja heila stétt í fjötra viðmælenda sinna. Blaðamenn verða samkvæmt þessu að fara að ritstýra fólki sem er í viðtali. Það er síðan salt í sár blaðamennskunnar að í þessu máli gerði klámbúllukóngurinn dómsátt við einmitt þá manneskju sem viðhafði ummælin, fatafelluna, en blaðamaðurinn var skilinn eftir í skítnum. Raunar má í þessu sambandi tala umört vaxandi fjölda dómsmála gegn fjölmiðlamönnum allra síðustu ár (sjá hér)
Þriðja blauta tuskan felst í óljósum ábendingum, sem fram koma í Fréttablaðinu (hér á visir.is) að einhverjir fjölmiðlamenn hafi "fengið sérstaka fyrirgreiðslu í bankakerfinu" fyrir hrunið. Ábending hafi komið innan úr bankakerfinu til rannsóknarnefndar þingsins um að einhver eða einhverjir úr þessum hópi hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu hjá bönkunum - "þar á meðal forstjóra, ritstjóra og fréttastjóra, auk upplýsinga um einstaka blaða og fréttamenn sem fjallað hafa um viðskipti og efnahagsmál". Þetta eru skelfilegar vísbendingar sem þarf að rannsaka og leiða í ljós sannleikann, því enginn blaðamaður á að þiggja mútur. Ef þetta reynist rétt þá voru viðkomandi ekki "sofandi á verðinum" fyrir hrunið heldur bara með lokuð augun og vasana fulla.
Stétt blaðamanna þarf að grípa til gagnsóknar út á við og uppstokkunar inn á við.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Mannréttindi, Sjónvarp | Facebook
Athugasemdir
Sæll Friðrik!
Það hafa fallið miklu miklu heimskulegri dómar en þessi yfir Björk Eiðsdóttur án þess að hljóð hafi heyrst úr horni frá fræðigalleríinu eða Blaðamannafélaginu. Einfaldlega af því að það samfélag er undir sömu sök selt og dómstólar: Dæma út frá því hversu vel þokkaðir menn virðast vera. Það sýnist mér auðséð af skrifum þínum um "Geira feita" og þeim einkunum sem þú kýst að velja honum. Einn af fáum sem fór erindisleysu í dómsal með mál á hendur fjölmiðli, og var hann þó með "gott mál" miðað við það sem gengur og gerist, var Franklin Steiner. Bubbadómurinn er móðgun við allt sem heita má heilbrigð skynsemi. En af því að mönnum þótti einhvern veginn meira um vert að vera með Bubba í liði en Eiríki fór sem fór og ekkert heyrðist í varðmönnum tjáningarfrelsins í það skiptið. Í orðabók stendur í orðaskýringum að það að falla sé til dæmis að falla á reykingabindindi. En dæmt var út frá því hvernig einhver gat hugsanlega túlkað orðin! Hversu hættulega braut erum við eiginlega komin inn á ef við þurfum að búa við það. Þetta er beinlínis hrollvekjandi. Dómur sem féll Magnúsi Ragnarssyni fyrrverandi sjónvarpsstjóra Skjás eins gegn 365 í hag var jafnvel enn fráleitari. En ekki hvarflar að mér að áfellast lögmenn, eins og þú gerir varðandi Svein Andra, eða þá sem fóru með þessi mál fyrir dómstóla. Ábyrgð dómara er alger í þessum efnum.
Nú ætlar Björk, væntanlega með dyggum stuðningi Hreins og -rt, að láta krók koma á móti bragði og vill kæra Fréttablaðið fyrir það að hafa eftir Geira hans skoðun á blaðamannahæfileikum Bjarkar. Grundvallarmunur á því sem hún hefur eftir Lovísu og því sem ég hef eftir Geira er sá að í öðru tilfellinu er um skoðun að ræða en í hinu er um ósannaða og órökstudda ásökun um refsivert athæfi. Við skulum athuga eitt að Þorbjörn Broddason er úti á túni þegar hann segir að þetta hafi ekki verið rannsakað. Lögreglan hefur rannsakað Goldfinger oft en ekkert komið á daginn varðandi vændi. Burtséð frá því hvað þér (og Örnu Schram að því er virðist) finnst um Geira þá þýðir það ekki að hægt sé að saka manninn um það að gerast brotlegur við lög. Og síst ef þetta mál er svona samfélagslega mikilvægt eins og Arna lét að liggja í DV. Því miður er þetta Blaðamannafélag duglítið. En það mun víst vera í prentlögum aftan úr grárri forneskju að blaðamaður sé að einhverju leyti ábyrgur orða viðmælanda síns. Það er galið. Og ég spyr: Af hverju í ósköpunum hefur Blaðamannafélag Íslands aldrei beitt sér gegn þessu rugli?
En mig langaði til að spyrja þig, varðandi þessa blautu tusku númer tvö, hvað þér finnst um þá stöðu sem Vikan er búin að setja sig í. Sem sagt að kæra annan fjölmiðil fyrir að hafa eitthvað eftir viðmælanda sínum?
Kveðja,
Jakob
Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 15:09
Mig langar að benda þér á Jakob að ástæðan fyrir þessari stefnu er að vekja athygli á fáránleika þess fordæmis sem hæstiréttur er nú búin að setja með dómnum í Viku og Geira málinu.
kveðja
Elín Arnar
Elín Arnar (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 15:23
Sæll Jakob Bjarnar.
Vil fyrst nefna að ég gef Ásgeiri Þór og Sveini Andra engar sérstakar persónulegar einkunnir í færslu minni. Það er ljótt að uppnefna auðvitað og um leið ljótt af mér að kalla Ásgeir Þór "Geira feita" en þarna vísa ég til alþekkts viðurnefnis - til að hjálpa fólki að átta sig á því um hvern er rætt! Já, já. Og klámbúllukóngur er hann samkvæmt mínum gildisdómi, en það er persónulegt mat og hefur ekkert með fræði- eða faggreinar að gera. Um Svein Andra segi ég ekkert, nema get um aðkomu hans að málinu. Það er kannski fyrst og fremst mér hugleikið, sem treysti þeim manni til að fara með meiðyrðamál fyrir mig, en hann klúðraði því eftirminnilega og fékk yfir sig áminningu Lögmannafélagsins vegna þess máls. Hann gat klúðrað því en "eisaði" í þessu.
Kannski eru "fordómar" að flækjast fyrir mér, eins og fleirum. Þú getur t.d. ekki heyrt minnst á Blaðamannafélagið og Siðanefnd BÍ án þess að froðufella og fella dóma. Það er auðvitað allt í fína og ég oft sammála þér.
Hvað spurninguna varðar þá er ég á móti þessu mótbragði Vikunnar/blaðamannsins. Reyndar eru viðkomandi ekki búin að höfða málið og munu kannski ekki gera það - og kannski er það ágætt innlegg í umræðuna, um eðli málsins, að kasta þessu fram til umhugsunar. Að samkvæmt þessum nýjasta dómi þá hefði Þorsteinn Pálsson átt að ritstýra ummælum Ásgeirs Þórs og passa upp á þær blammeringar sem Ásgeir Þór viðhefur, því meint meiðyrði í garð blaðamanns Vikunnar eru á ábyrgð Þorsteins. Ég hvet ekki til þessa mótbragðs þannig að það fari de facto fyrir dómstóla, enda er mótsögn í því að ætla kannski með Hæstaréttarniðurstöðuna til Evrópu, en beita sömu meðulunum. Ég geri því ráð fyrir að yfirlýst "kæra" gegn Þorsteini/FBL sé eingöngu í nösunum á viðkomandi.
Friðrik Þór Guðmundsson, 10.3.2009 kl. 16:05
Er grunnvandinn ekki sá að það eru of margar "flugfreyjur" í flugstjórastólum - hvort heldur í dómsölum, fjölmiðlum sem og annars staðar?
Justin Case (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 17:42
Þetta er sko "háfleygt" ef eitthvað er!
Frekar edrú flugfreyjur en fulla flugstjóra?
Friðrik Þór Guðmundsson, 10.3.2009 kl. 19:29
Orð í tíma töluð Friðrik.
Sólveig Hannesdóttir, 10.3.2009 kl. 20:22
Án þess að vilja blanda mér sérstaklega í þessa umræðu um dómsmál fréttamanna, þá vil ég koma því að enginn hefur kallað Geira á Goldfinger "Geira feita" í mín eyru. Ég hefði því aldrei kveikt á þessari vísun.
Hitt sem ég vildi segja var að mér heyrðist Þórhallur í Kastljósi þakka þér fyrir að hafa aflað upplýsinga úr breska fjármálaeftirlitinu um margumrædda skyndimeðferð Landsbankans vegna Icesave í Bretlandi. Þetta fannst mér snöfurmannlega gert og vil taka undir með Þórhalli hafi ég heyrt rétt.
Þegar fréttin kom í Kastljósþætti fannst mér með ólíkindum að enginn annar fréttamaður hafi haft fyrir að nálgast þessar upplýsingar á þeim 5 mánuðum sem liðnir eru síðan hrunið varð. Kannski tók það þig alla 5 mánuðina og þá hefur þú bara verið fyrstur með fréttina á meðan hinir eru enn að opna umslögin, en líklegra þykir mér að mannvali á fréttamiðlunum hafi hrakað við það að reynsluboltum hafi verið skipt út.
Engu að síður, gott framtak hjá þér.
Ragnhildur Kolka, 10.3.2009 kl. 21:34
Þú heyrðir rétt, Ragnhildur, um aðkomu mína að upplýsingaöfluninni um Icesave, að Kastljós hagnýtti sér fyrirspurnir mínar og svörin við þeim. Þær upplýsingar ásamt eigin vinnu Kastljóss hafa fært okkur einhverjum skrefum nær sannleikanum og það er fyrir öllu. Ég hef líka sent inn frekari fyrirspurnir til Breska fjármálaeftirlitsins í von um að fá enn fyllri svör, því það varðar okkur miklu að fá að vita hvernig þessi mál gengu fyrir sig og önnur sem snerta hrunið mikla.
Ég sé auðvitað eftir að hafa notað viðurnefnið "Geiri feiti", þótt maðurinn sé kallaður Geiri og að hann sé.... ansi þykkur um búkinn. Auðvitað kemur þetta málinu ekkert við. Það sem kemur málinu við er að Ásgeir Þór Davíðsson hefur sett blaðamannastétt landsins í mikinn bobba, þeirra á meðal systur hans, sem tilheyra téðri stétt.
Dómurinn þýðir meðal annars það, að blaðamenn mega ekki hnika einu einasta orði til af því sem viðmælendur þeirra segja, ef þeir vilja að það sé viðmælandinn sem ber ábyrgðina á ummælunum. Sjáið þið ekki fyrir ykkur öll viðtölin í framtíðinni með allar ambögurnar ólagfærðar?
Friðrik Þór Guðmundsson, 10.3.2009 kl. 22:30
Sæll Friðrik!
Auðvitað er fráleitt annað en að stuðst sé við þá meginreglu að viðmælendur beri ábyrgð á orðum sínum. Það hef ég margoft sagt. Við höfum miklu skýrara dæmi um slíkt sem er mál Þóru í Atlanta á hendur Séð og heyrt. Þar sagði einhver verktaki Þóru blanka, gekkst fúslega við þeim ummælum sínum en allt kom fyrir ekki. Eiríkur var dæmdur. En líklega líður fólki betur með að geta gagnrýnt dóm sem Geiri vann gagnvart blaðakonu á Vikunni en Þóra á hendur Eiríki. Mér finnst það hins vegar sorglegt.
Það er ekki Geira að kenna að menn geti skilið dóminn svo að blaðamönnum beri að hafa allar ambögur eftir viðmælendum sínum. Það eru dómarar sem bera ábyrgð á því. Ekki kenni ég Magnúsi Ragnarssyni um dóminn sem ég fékk, líklega sá eini í heimi, sem hefur verið dæmdur fyrir sjónvarpspistil. Vék ekki einu orði að Magnúsi en af því að hann kaus einhverra hluta vegna að taka pistilinn til sín - þá var ég dæmdur. Með öðrum orðum: Við búum við dómkerfi sem ógildir ummæli sem aldrei féllu! Er ekki lífið dásamlegt?
Varðandi þennan Vikudóm, þá er hann því miður, því miður, alls ekki klipptur og skorinn eins og margir vilja vera láta. Þar er verið að fjalla um mjög alvarlegar ásakanir á hendur Geira sem engin leið hefur verið að færa sönnur á. Ef ég tala við einhvern sem heldur því fram að þú sért ömurlegur stílisti og þetta blogg þitt sé til skammar, þá væri ég ekki í neinum sérstökum vandræðum með að hafa það eftir viðkomandi. Það er hans skoðun, nota bene, ekki mín. Ef þessi sá hinn sami hins vegar heldur því fram að þú sért þjófur þá er það ásökun um að þú hafir gerst sekur um refsivert athæfi. Þarna er eðlismunur, ekki stigs, og ég myndi aldrei hafa þetta eftir manninum ef ég hefði ekkert annað en hans orð fyrir því. Þú hlýtur að sjá muninn.
En þvert á móti þá er eins og þær ágætu Vikustúlkur hafi einmitt frekar reynt að fá þennan viðmælanda sinn til að segja meira en minna. Þetta segir Lovísa Sigmundsdóttir á bloggi sínu:
"Mér fannst greinin sett upp á ósanngjarnan hátt gagnvart Geira, það var aldrei ætlun mín að þetta viðtal myndi breytast í árás á hann, heldur vildi ég tjá mig almennt um þessa staði.
Ég er reyndar að spá í að skrifa sjálf grein um þessa staði og reynslu mina af þeim og skella henni hérna inn.
Lovísa Sigmundsdóttir, 5.4.2008 kl. 12:46
3
Hmm núna kem ég af fjöllum.. Skrifaðir þú greinina ? Dróstu hvað til baka ??
Stebbi (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 13:52
4
Nei, ég skrifaði ekki greinina heldur Björk Eiðsdóttir, blaðamaður Vikunnar.
Ég var ekki sátt við hvernig greinin kom út. Vildi ræða almennt um þessa staði, ekki bara tala um Geira, enda vann ég lang styðst hjá honum.
Það var talað um að það yrði enginn nafngreindur nema ég í þessu viðtali og mér fannst skrýtið að það hafi verið haft samband við Geira áður en það kom út og hann beðinn um að segja sína skoðun.
Í því samtali á hann víst að hafa hótað Björk, blaðamanni Vikunnar. En það er bara orð á móti orði.
Lovísa Sigmundsdóttir, 5.4.2008 kl. 13:58 "
Ég veit það ekki, Friðrik minn. Þetta er sem sagt viðmælandinn sem allt hangir á. Öðru var ekki til að dreifa. Sama hversu menn hafa mikla skömm á rekstri súlustaða, það veitir þeim ekki rétt til að fara fram með svo alvarlegar ásakanir og þær að segja einhvern melludólg, standa fyrir vændi og jafnvel stunda mansal. Eða er það virkilega svo?
Kveðja,
Jakob
Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 23:30
Sagði stúlkan þetta við blaðamanninn eða sagði hún það ekki? Las hún það sem eftir henni var haft? Eða gerði hún það ekki. Það segir blaðamaðurinn. Það er sama hvað þið segið, ef blaðamenn geta átt það á hættu að verða dæmdir fyrir það sem þeir hafa eftir fólki er blaðamennska á Íslandi í vanda. Og ekki síst þetta sem Friðrik Þór segir: Ef það að blaðamaðurinn færir ummæli viðmælanda síns til betri vegar, málfarslega, gerir það að verkum að ummælin eru að mati dómsins ekki viðmælandans þá er það líklega einsdæmi í veröldinni. Nema ef til vill í fasistaríkjum þar sem er verið að reyna að þagga niður í blaðamönnum. Það er raunar ekkert nýtt að íslenskir blaðamenn skrifi beint eftir segulbandsupptökum til að tryggja stöðu sína; það hefur fært íslenska blaðamennsku niður á heldur ómerkilegt plan.
Og ég spyr: Hvaða dómarar dæmdu?
Þorgrímur Gestsson, 11.3.2009 kl. 00:01
Sæll Þorgrímur!
Hverjir dæmdu? Það er góð spurning. "Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson." Það er löngu tímabært að beina athyglinni að þessum dómurum.
Eftir því sem ég best veit, þá sagði stúlkan þetta sem haft er eftir henni, blaðamaður og ritstjóri lögðu fram segulbandsupptökur og ekki nóg með það... hún mun víst hafa lesið viðtalið yfir og lagt blessun sína yfir það.
Nú þori ég ekki að hengja mig uppá það en í einhverjum prentlögum úr forneskju mun það víst svo vera að blaðamenn (ekki þó þeir sem starfa á ljósvakamiðlum) eru ábyrgir fyrir orðum viðmælenda sinna. Og ég ítreka bara, ég skil ekki af hverju Blaðamannafélag Íslands hefur ekkert beitt sér í þeim efnum eftir því sem næst verður komist - né nokkru því sem vit er í. Þess vegna halda sjálfsagt dómastólar að þeir séu á réttri leið. Arna vill rjúka með þetta mál til mannréttindadómstólsins í Strassbourg en hefur haft miklu betri málstaði að verja í þeim efnum. Og mér er kunnugt um að eftir því hefur verið leitað.
Kveðja,
Jakob
Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 00:16
Ég sé það Jakob, að ég hef sagt það á öðrum umræðuþráði, sem ég taldi að ég hefði sagt hér: Vitaskuld á það ekki að duga Vikunni eða öðrum fjölmiðlum, þegar svona alvarlegar ávirðingar eru settar fram, að hafa bara EINA heimild, staka rödd og ekkert annað. Eina heimild, sem þar að auki getur ekki talist þokkalega trúverðug. Það er ein af grundvallarreglunum í faginu. Það er allveg rétt hjá þér að það er ósköp auðvelt að hafa óhróður eftir öðrum og að sjálfsögðu ber fjölmiðill ábyrgð sem sniðgengur grundvallarreglur fagsins.
Það er einmitt manna með ábyrgð, eins og ritstjórans, að passa upp á að grundvallarreglur séu virtar. Í þessu máli sleppur sá einstaklingur sem viðhafði ummælin og sá einstaklingur sem hafði á sinni könnu að ritstýra og ritrýna, en skrásetjarinn er hengdur. Mér finnst eitthvað verulega athugavert við að undir svona kringumstæðum sé hægt að ná dómssátt við viðmælandann - og þá fyrirgefa hin viðhöfðu ummæli, sem staðfest eru efnislega rétt - öðruvísi en að dómssátt nái til allra stefndu.
Ég leyfi mér að efast um eftiráskýringar Lovísu um að hún hafi ekki talið að Geiri yrði nafngreindur. Það hefur komið fram að viðtalið stemmir við það sem hún sagði og hún samþykkti greinina. Það las ég út úr dóminum. Sem aftur á móti og auðvitað staðfestir að þetta var ekki trúverðugur viðmælandi fyrir Vikuna að moða úr!
Dómar eru sjálfsagt flestallir umdeilanlegir og ég hef tilhneigingu til að horfa frekar á áhrif þeirra, ef þeir teljast fordæmi. Við glímdum á sínum tíma um Karólínu-dóminn og þú taldir að áhrif hans yrðu engin. Samt lyktaði Bubba-dómurinn af honum og kannski fleiri, veit það ekki. Er þessi dómur líklegur til að hafa einhver áhrif (fyrir utan auðvitað á blaðakonuna)? Verða blaðamenn að breyta einhverju í vinnubrögðum sínum? Lækka laun ritstjóra vegna minnkandi ábyrgðar og hækka laun blaðamanna vegna aukinnar ábyrgðar? Spurningarnar eru margar!
Já, Þorgrímur, það kemur skýrt fram að viðtalið var unnið á segulband, að upptökurnar staðfesta að efnislega sé rétt eftir viðmælandanum haft (en breytingar þó einhverjar) og að Lovísa viðmælandi hafi staðfest viðtalið sem rétt eftir sér haft. Dómararnir voru Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Úr dómnum:
"Á titilsíðu greinarinnar kemur fram að texti hennar sé unninn af Björk Eiðsdóttur. Staðfesti hún við skýrslugjöf fyrir dómi að hún væri höfundur greinarinnar og hefði einnig samið millifyrirsagnirnar. Hún hafi valið orðin í millifyrirsagnirnar, en í þeim og greininni væri nær orðrétt haft eftir Lovísu, þetta væri hennar frásögn. Hún hafi tekið viðtalið upp á segulband og unnið greinina upp úr því og sent Lovísu í þeim búningi. Lovísa hafi síðan staðfest með tölvupósti að rétt væri eftir henni haft. Við samanburð á handriti af viðtalinu og hljóðupptöku af því annars vegar og hins vegar umræddri blaðagrein og millifyrirsögnum er ljóst að ekki er orðrétt haft eftir viðmælanda. Jafnframt kemur þó glögglega fram að stefnda Björk hafði í greininni í meginatriðum efnislega rétt eftir viðmælanda sínum, sem síðar staðfesti eins og fram er komið að þar væri rétt farið með eftir henni".
Friðrik Þór Guðmundsson, 11.3.2009 kl. 00:38
Ég er efnislega hjartanlega sammála þér Friðrik i þeim atriðum sem þú nefnir í færslunni hér uppi. Viku-dómurinn setur íslenska blaðamenn í afleita stöðu og kemur sér afar illa fyrir opna umræðu. Ég skil ekki þennan dóm.
Sérstaklega brá mér þó við þriðju og síðustu blauttuskuna sem þú nefnir, þ.e. vísbendingar um að ritstýrendur og blaðamenn hafi verið á mála hjá fjársterkum aðilum. Blaðamannafélag Íslands verður sjálft (fyrir utan löggæsluna að sjálfsögðu) að rannsaka þetta mál í þaula með það fyrir augum að upplýsa hverjir eiga þarna í hlut. Það er skylda stéttarinnar finnst mér að upplýsa lesendur og áhorfendur um þetta mál. Annað eins hefur nú hleypt af stað rannsóknablaðamennsku í þessu landi.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.3.2009 kl. 09:39
Þetta var eiginlega fullyrðing hjá mér, ég hélt að blm. hefði þetta á segulbandi, vildi bara vekja athygli á þessu - og dómararnir; mér finnst að nöfnin þeirra megi koma fram. amk. þegar dómar eru umdeildir eins og hér. Ég get svo fallist á að blm. hefði átt að rannsaka þetta mál miklu betur, tala við fleiri, reyna að undirbyggja þetta. En það er því miður sjaldan gert á Íslandi.
Þorgrímur Gestsson, 11.3.2009 kl. 12:20
Ég vil benda á að við vorum með eina heimild undir nafni og fimm ekki undir nafni, þannig að það er ekki svo að við höfum ekki kannað málið frekar áður en við birtum viðtalið.
Og það liggur fyrir tölvupóstur þar sem Lovísa samþykkir endanlega útkomu viðtals
Bara svo allar staðreyndir séu á hreinu í þessari umræðu
kveðja
Elín Arnar
Elín Arnar (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 13:25
Já!
Ég hef talað fyrir daufum eyrum á umliðnum þremur árum um miklu bjánalegri dóma í þessum meiðyrðamálum. Varaði eindregið við dómafordæmum sem verið var að setja, að þetta myndi springa í andlit þeirra sem kusu að þegja. Nú er það komið á daginn. Nú vilja allir hlaupa upp til handa og fóta. Gott og vel. Kannski betra seint en aldrei.
Nú er það fullyrt í Mogga í dag að Björk Eiðsdóttir ætli að kæra Fréttablaðið fyrir ummæli Geira. Og ég spyr þig, Friðrik... ætti ég þá ekki að sníkja far með Örnu og Björk til Strassbourgar ef dómarar komast að þeirri undarlegu niðurstöðu í því máli að Fréttablaðið sé sekt vegna þess að Geiri ber takmarkaða virðingu fyrir blaðamennskuhæfileikum Bjarkar og ég vogaði mér að hafa það eftir honum?
Kveðja,
Jakob
Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 13:27
Og annað við höfðu ekki samband við Lovísu til að fá hana til að segja sögu sína heldur hún við okkur, þannig að það er alrangt hjá þér Jakob að við hefðum fengið hana til að segja það sem hún sagði.
þó svo að hún hafi kosið fría sig ábyrgð í dag og gangast ekki við þeim orðum sem eru þó til á upptöku. Þá er það annað mál, og höfum við kosið að vera ekki að erfa það við hana. Tel nokkuð ljóst að hún hafi sínar ástæður.
kveðja
Elín Arnar
Elín Arnar (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 13:36
Það gefur augaleið, Jakob, að þið verðið samferða austur. Fullyrðing Geira er sýnist mér ótvírætt ekki gildisdómur heldur fullyrðing. Að vísu ekki um refsivert brot. Það er sem betur fer ekki ólöglegt enn að vera lélegur blaðamaður eða stétt sinni til skammar.
Elín; Gagnvart dómsmálinu var bara eitt vitni sem hugsanlega gat staðið ábyrgt orða sinna; Lovísa. Ég geri ráð fyrir því að hin mögulegu vitnin, þessi fimm ónafngreindu, hafi ekki viljað koma fram og standa ábyrg orða sinna. En fyrst ritstjórinn er hérna; hvað finnst henni, sem ritstjóra, um að sleppa en undirmaðurinn er dæmdur?
Friðrik Þór Guðmundsson, 11.3.2009 kl. 13:49
Sæl Elín!
Bara til að halda því til haga þá fullyrti ég ekkert um það heldur sagði að ætla mætti að þið hafið fengið hana til að segja meira en minna miðað við þessi orð hennar síðar á blogginu. Eða hvað? "Tel nokkuð ljóst að hún hafi sínar ástæður." Ef það liggur ljóst fyrir í þínum huga - þá ættir þú kannski að deila því með okkur hvað verður til að hún skrifar þetta sem hér er vitnað í að ofan? Og e.t.v. ættir þú að fara varlega í það - eða hvað? Einkum m.t.t. þess að dómurinn hvílir ekki síst á því hversu alvarlegar ásakanir á hendur Geira eru settar fram í greininni. Og sennilega lítur nú heldur ekki vel út ef þú talar um hana sem ótrúverðugt vitni/viðmælanda. Þannig að svör þín ættu í öllu falli að verða forvitnileg.
Og ... bíddu, kom Lovísa algerlega ótilkvödd, uppúr þurru, á fund ykkar á Vikunni og vildi segja þessa sögu sína?
Kveðja,
Jakob
Ps. Og fyrst ég er með þig "á línunni" - hvað finnst þér um þessa kæru Bjarkar á hendur Fréttablaðinu? Heldurðu að hún gæti orðið til að liðka fyrir málum í Strassbourg, komi til þess?
Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 13:57
Nú er komin ályktun frá stjórn Blaðamannafélags Íslands. Og sem félagi þar er maður blóðrauður af skömmu einu sinni sem oftar. Enda veltast lögmenn um af hlátri. Þetta er nánast heimskulegra en ályktun Femínistafélagsins. Getur það virkilega verið að stjórn félagsins sé ekki kunnugt um prentlög.
"Blaðamannafélag Íslands ætlar að láta skoða það hvort efni séu til að fara með þetta mál til Mannréttindadómstólsins í Strassborg enda brýnt að blaðamenn viti hvort það sé réttmæt niðurstaða að blaðamenn beri ábyrgð á öllu því sem viðmælendur þeirra segja. Þá þurfa blaðamenn að vita hvort þessi túlkun Hæstaréttar á við um alla miðla. Hvað með beinar útsendingar til dæmis? Hver er þá ábyrgur?"
Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 17:51
Það getur vel verið að einhverjir hlægi að stjórn Blaðamannafélagsins, en það geri ég ekki. Þetta mál er ekki svo klippt og skorið að það sé hægt að segja stjórnina fara með vitleysu. Með öðrum orðum: Það er hægt að fara með þessa grein prentlaganna fyrir MDE og fá hana úrskurðaða sem mannréttindabrot og þar með ólög.
Jón Kaldal bendir einmitt á, í leiðara FBL, hversu úrelt þessi lög eru, þótt hann reyndar noti tækifærið til að sparka fast í stjórn BÍ, kollega sína, forystu stéttar sinnar. Og lögin eru úrelt, hversu oft sem BÍ hefur sleppt því að taka upp hanskann fyrir aðra, ekki síst Eirík og Jakob Bjarnar.
Við hliðina á leiðara Jóns er ofsalega yfirlætisfull grein eftir Vilhjálm Vilhjálmsson lögfræðing og skjólstæðing Ásgeirs Þórs. Hann segir málið skýrt og vísar til ákvæðisins í prentlögum. En málið er fjarri því svo skýrt. Í mínum huga var það SIÐLAUST af Ásgeiri Þór, Vilhjálmi og Sveini Andra að ganga til dómssáttar við þá manneskju sem VIÐHAFÐI UMMÆLIN en ekki við þá manneskju sem "prófarkalas" hinar dæmdu fullyrðingar. Þeir geta ekki flúið í neitt skjól með þessa misgjörð sína, né heldur viðmælandinn Lovísa. Og dómararnir áttu ekki að taka slíka dómssátt til greina. Siðleysi þetta kemur kannski ekki öllum á óvart.
Sko: Lovísa fatafella viðhafði hinar meiðandi fullyrðingar en blaðamaður skráði þær samviskusamlega niður og nær orðrétt. Hinn "meiddi" fyrirgaf Lovísu með dómssátt og þar með fyrirgaf hann ummælin eða féllst á að láta undirstöðu málsins niður falla. Bara ekki gagnvart sendiboðanum, milliliðnum - honum skyldi hegnt. Þetta er SIÐLEYSI. Þetta er TVÍSKINNUNGUR. Þetta eru LAGAKLÆKIR til að hefna sín en ekki ná réttlæti. Dómssátt átti eðli málsins vegna að ná til allra stefndu. Fatafellan sveik blaðamanninn þegar hún setti ekki fram slíkt skilyrði dómssáttar. Svei henni og svei lögmönnunum. Á Ásgeir Þór dugar auðvitað ekkert svei.
Friðrik Þór Guðmundsson, 12.3.2009 kl. 10:12
Þú ert bara ekki að ná þessu, Friðrik!
Hér ofar spurði ég hvurskonar sauðsháttur það væri eiginlega í félaginu að berjast ekki gegn þessum prentlögum sem eru að ég held frá 1957! Og hafa aldrei sýnt viðleitni í þá átt þó næg séu tilefnin. Lögum sem eru gersamlega úrelt, galin og setja blaðamenn í fáránlega stöðu. Svör við þeirri spurningu komu úr óvæntri átt. Þau má svo finna í þessari ályktun sem er með þeim hætti að maður skammast sín fyrir að vera félagi í þessu BÍ. Stjórn félagsins þekkir ekki þau lög sem félagsmönnum ber að starfa eftir! Og þú kýst að veitast að lögmönnum og þeim sem kæra í stað þess að beina sjónum að löggjafavaldinu. Það er náttúrlega engin von til þess að einhverjar réttarbætur fáist ef menn stinga hausnum endalaust í sandinn. Ef fingurinn bendir á tunglið horfir fíflið á fingurinn. Og það sýnist mér eiga við um þig, femínista og stjórn Blaðamannafélagsins. Því miður.
Kveðja,
Jakob
Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 12.3.2009 kl. 10:38
Þakka kaldar kveðjur, Jakob Bjarnar, þær eru hressandi. Ég er ekki í stjórn Blaðamannafélagsins og ekki lögfræðingur og þér að segja hef ég einmitt sent Blaðamannafélaginu póst með fyrirspurn um þessa ályktun og grunnhugsunina á bak við MDE-ályktunina. Ég hef þegar fengið þau svör að þessum leiðara verði svarað í dag. Við skulum sjá til hvar þar mun standa, enda er ég ekki í vörn fyrir stjórn Blaðamannafélagsins. Ég er hins vegar tilbúinn til að hlusta á stjórnina, kannski ólíkt þér, sem hatast hefur við félagið um langt árabil og aldrei fundið því neitt nema til foráttu.
Finnst þér að ég veitist að lögmönnum en gleymi löggjafarvaldinu? Þá ert þú klárlega ekki að ná því sem ég segi, Jakob Bjarnar. Ég hafna því algerlega að ég sé að veitast að þessum blessuðu lögmönnum, heldur gagnrýni ég þá faglega fyrir að láta sér koma til hugar að ganga til dómssáttar við Lovísu fatafellu án þess að það nái til allra stefndu. Kannski var það að fyrirmælum skjólstæðings þeirra, sem þó "fyrirgaf" þeirri manneskju sem meiddi hann, með dómssáttinni. Það er mér deginum ljósara að það er ekkert "prinsipp" í gangi þegar málið er keyrt í gegn í skjóli úrelts ákvæðis í prentlögum.
Athugaðu það, Jakob Bjarnar, að í stefnunni var aðalstefndi Lovísa fatafella. Björku blaðamanni var BARA stefnt TIL VARA. Um annað var ritstjóranum stefnt, en blaðamanninum TIL VARA. Þá er bara verið að beita öllum tiltækum meðulum til hefnda, hversu óvönduð sem þau eru. "Prinsipp" málsins var fallið brott við dómssáttina. "Seka" aðilanum var sleppt, en fingrinum beint að sendiboðanum og hann skotinn. Af fíflum og föntum. Já, Jakob Bjarnar, fíflið ég horfi á þennan fingur í forundran; ég skil ekki af hverju "hann" er að benda á tunglið þegar handhafi fingursins var að tala um sólina.
" Hin umstefndu ummæli eru réttilega tilgreind í stefnu. Einnig liggur frammi útprentun, svo og hljóðupptaka, af viðtali stefndu, blaðamannsins Bjarkar Eiðsdóttur, við stefndu, Lovísu Sigmundsdóttur, en greinin, hið prentaða viðtal á bls. 31 til 34, er unnin upp úr hljóðupptökunni á þann veg að óformleg samræða er, án efnislegra breytinga, umorðuð þannig að úr verði frambærilegt ritmál. Tölvupóstar, sem fóru á milli stefndu, Bjarkar og Lovísu, sýna að hin síðarnefnda samþykkti birtingu samtalsins í endanlegri mynd. Inni í greininni er innskot með mynd af stefnanda þar sem undir hann er borin frásögn stefndu, Lovísu, um að hann hvetti starfsstúlkur sínar til að stunda vændi og hefði milligöngu þar um. Þessu vísar hann harðlega á bug. Kröfugerð stefnanda byggist í nokkrum liðum á ummælum sem byggð eru á eftirfarandi frásögn stefndu, Lovísu, í viðtalinu: „Ég er orðin langþreytt á ranghugmyndunum sem þrífast um þessa staði og því að stelpur skuli ekki þora að segja sannleikann, en það eru virkilega slæmir hlutir í gangi á þessum stöðum. Ég er komin yfir hræðsluna við þessa menn þótt mér hafi vissulega verið hótað lífláti og á tímabili fór ég ekki út úr húsi vegna hræðslu.“
Friðrik Þór Guðmundsson, 12.3.2009 kl. 11:36
Eftirfarandi kemur málinu auðvitað ekkert við, en hvað skal gera við tilraun Ásgeirs Þórs til ósanninda? Og mun hann fara í mál við DV?:
"Fimmtudagur 12. mars 2009 kl 07:00
Höfundur: Ritstjórn DV (ritstjorn@dv.is)
Nánar um málið í DV í dag.
Ekið var á mann á þrítugsaldri á Laugaveginum í lok janúar. Ökumaðurinn stakk af í kjölfarið. Sá sem er grunaður um að hafa ekið bílnum, sem var af Hummer-gerð, heitir Jón Kristinn Ásgeirsson og er 23 ára. Hummer-bifreiðin er skráð á Ásgeir Davíðsson, eða Geira á Goldfinger, sem er faðir Jóns Kristins. Maðurinn sem ekið var á fékk alvarlega höfuðáverka og hefur verið meðvitundarlaus síðan. Óvíst er með batahorfur hans.
DV hafði samband við Ásgeir Davíðsson og spurði hvort hann ætti Hummerinn en Ásgeir sagðist aldrei hafa átt Hummer-bifreið. „Ég hef aldrei átt Hummer-bíl.“
Þegar blaðamaður sagðist hafa upplýsingar um það frá ökutækjaskrá að Ásgeir ætti Hummerinn sá hann að sér og sagði að hlutafélag sem hann væri aðili að ætti Hummer en að hann hefði verið á bílasölu lengi. „Það er búið að selja hann fyrir löngu síðan,“ sagði Ásgeir. Aðspurður hver hefði keypt Hummerinn sagðist Ásgeir ekki vita það.
Samkvæmt heimildum DV lagði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hald á Hummerinn eftir ákeyrsluna í lok janúar og kom honum fyrir í geymslu".
Friðrik Þór Guðmundsson, 12.3.2009 kl. 12:30
Æji, mér nánast fallast hendur gagnvart þessari vitleysu í þér, Friðrik minn!
Þegar þið félagar þú og Biggi standið á gati rökfræðilega þá einhver bendir á síendurtekin afglöp stjórnar BÍ þá heitir sú gagnrýni hatur og froðufellingar. "... tilraun Ásgeirs Þórs til ósanninda?" Magnað að þú skulir benda á þessa makalausu frétt DV sem óvænt lítur dagsins ljós nú í dag, skömmu eftir að Ásgeir Þór vinnur mál á hendur Birtingi sem ákveður undarlega málsögn sem einhverskonar svar. Ég hugsa að fróðlegt væri að hlusta á samtal Ásgeirs og blaðamanns DV sé það til á teipi. Þú hins vegar veitir ekki athygli frétt í Fbl í dag þar sem fram kemur að lögmaður Birtings er tilbúinn að hverfa frá málsókn á hendur Geira og DV ef Geiri gleymir að innheimta kröfuna! Segir það þér ekki neitt?
Svo segir þú: "Ég hafna því algerlega að ég sé að veitast að þessum blessuðu lögmönnum, heldur gagnrýni ég þá faglega ..." Og þessi faglega gagnrýni er sú að kalla grein eftir Vilhjálm H. lögmann þar sem hann reynir að skýra málið út frá sínum bæjardyrum "yfirlætislega" og þetta er hin faglega gagnrýni: "Í mínum huga var það SIÐLAUST af Ásgeiri Þór, Vilhjálmi og Sveini Andra að ganga til dómssáttar við þá manneskju sem VIÐHAFÐI UMMÆLIN en ekki við þá manneskju sem "prófarkalas" hinar dæmdu fullyrðingar. Þeir geta ekki flúið í neitt skjól með þessa misgjörð sína, né heldur viðmælandinn Lovísa."
Þú virðist stöðugt telja þig eiga eitthvað sökótt við lögmenn og þann sem kærir en ekki dómstóla né löggjafavald.
Það er kristaltært í mínum huga að af því þetta er Geiri og blaðakona á Vikunni þá látið þið, þú, Blaðamannafélagið og Femínistafélagið svona, því við erum með miklu verri dæmi og þá heyrðist bara nákvæmlega ekki hljóð úr horni. Það er einmitt að mannréttindabrotin byrja þegar um er að ræða menn sem hafa brogað mannorð eins og téður súlukóngur. Heimskan hins vegar á meðal annars rætur sínar að rekja til þess að fólki er fyrirmunað að setja sig í annarra manna spor. Þætti þér blaðamennska á borð við þá sem Vikan praktiseraði, þ.e. að setja fram hinar alvarlegu ásakanir sem byggjast á einum viðmælanda sem sannarlega má teljast vafasamur - eins og reyndar má sjá á greininni - ef þær ásakanir snéru að þér? Við erum ekki að tala um móðganir eða skoðun heldur ásakanir um refsivert athæfi sem við liggur margra ára fangelsisdómur.
Með allra bestu kveðjum og ég held ég láti þessu lokið hvað mig varðar því ég er farinn að endurtaka mig - einfaldlega vegna þess að það er alltaf skautað fram hjá allri gagnrýni sem fram er sett og farið út í móa. Þú ert farinn að minna mig á manninn sem lifði Síðustu rannsóknaræfinguna af í smásögu Þórarins.
Jakob
Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 12.3.2009 kl. 13:20
Leiðrétting:
"... Birtings er tilbúinn að hverfa frá málsókn á hendur Geira og DV ef Geiri gleymir að innheimta kröfuna! Segir það þér ekki neitt?" á auðvitað að vera: "... Birtings var tilbúinn að hverfa frá málsókn á hendur Geira og Fréttablaðinu ef Geiri gleymir að innheimta kröfuna! Segir það þér ekki neitt?
Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 12.3.2009 kl. 13:23
Ég er alveg sammála Jakob Bjarnar. Samræður við þig enda gjarnan úti í móa.
Og best að vera afdráttarlaus: Þú hefur rétt fyrir þér. Ég, Birgir, Arna, Þóra Kristín, aðrir í stjórn BÍ, "Vikustúlkur", Þorgrímur, Ólína og helftin af blaða- og fréttamönnum höfum rangt fyrir okkur, segjum iðulega heimskulega hluti og erum fífl, með höfuðin í sandinum inn á milli þess að við berja þau við steininn.
Ég veit ekki með hitt fólkið, en þig bið ég formlega og persónulega að afsaka heimsku mína og fíflaskap og ekki síst fyrir gildishlaðinn málflutning og persónulegar hnútur í garð sómafólks. Þau gen hljóta að koma úr föðurætt minni úr því við erum svona skyldir í móðurætt mína. Ég ætla enda að krefja föðurætt mína um afsökunarbeiðni, því það er augljóst að fólkið þar ber ábyrgð á því að móðurættargenin hafi þynnst út til skaða og forheimskunar.
Friðrik Þór Guðmundsson, 12.3.2009 kl. 13:56
Til að svara spurningu þinni Friðrik þá finnst mér alveg ömurlegt að undirmanneskja mín skuli vera dæmd. það var ég sem ákvað að leyfa Lovísu að tjá sig eftir að hún hafði samband og það var ég sem ákvað að leyfa henni að gera það opinskátt. Ég hélt að ég sem ritstjóri bæri meiri ábyrgð.
Það að undirmanneskja sitji uppi með ábyrgðina gerir það að verkum að hendur mínar eru bundnari sem ritstjóri og finnst mér það ekki góð staða.
Elin Arnar (IP-tala skráð) 12.3.2009 kl. 16:34
Þakka þér fyrir þetta Elín Arnar. Ég get trúað því að þér sé ekki vel við þetta ástand. það er hins vegar alveg kórrétt að prentlögin voru fyrir hendi ásamt undanfarandi umræðu um ábyrgðarmuninn á því að blaðamaður sé skrifaður fyrir grein eða ekki (og ábyrgðin þá ritstjórnar sameiginlega eða ritstjóra).
Mér þætti fengur í því að vita hvernig þessi dómssátt kom inn í málið. Mótmælti ykkar lögfræðingur því ekki og/eða gerði kröfu um að dómssátt næði til allra stefndu og eða að málinu yrði vísað frá eða félli niður? Var ekki reynt að knýja fram ákvörðun eða úrskurð vegna áhrifa þessarar dómssáttar? Hvað segir Þórður Bogason hrl ykkar um það? Spurði dómari málsins í undirrétti, Sigurður H. Stefánsson, eða gerði kröfu um að dómssáttin næði til málsins alls? Ég er ekki lögfræðingur, en eins og málið er vaxið skil ég ekki afgreiðslu þess og þá meðal annars hvers vegna Hæstiréttur vísaði málinu ekki aftur í hérað eða málinu frá; mér finnst það vera lögleysa og allt að því réttarhneyksli að eigandi ummælanna, Lovísa, fái að sleppa en manneskjan sem hnikaði nokkrum orðum til við að setja ummælin í prentbúning fái refsinguna. Það er eitthvað að dómaframkvæmd sem heimilar slíkt.
Vitaskuld á löggjafinn þarna alvarlegan hlut að máli, að hafa ekki lagfært prentlögin fyrir löngu. Og vafalaust hefði mátt þrýsta meir á löggjafarvaldið að gera það. Löggjafarsamkundan er búin að fara í gegnum nokkur fjölmiðlafrumvörp og 2-3 fjölmiðlanefndir án þess að þetta hafi komið upp, að því er virðist. Þú verður að gjöra svo vel að láta blaðamenn þína hætta að skrifa sig fyrir greinum, sýnist mér, þannig að ábyrgðin (sem þú færð greitt aukalega fyrir) sé örugglega þín. Ellegar birta viðkvæm viðtöl eins og þau koma af kúnni, helst án millifyrirsagna. Þú og blaðamaðurinn getið raunar líka ritstýrt viðmælendunum og látið þau tala í gildisdómum frekar en fullyrðingum; "Mér finnst", "það er mín skoðun" og annað í þá áttina frekar en beinharðar fullyrðingar. Í raun þarf ekki mikið til, til að breyta fullyrðingu í gildisdóm; ég hef reynslu af því frammi fyrir dómurum. "Fjölmargt af því sem ég sá og upplifði benti eindregið til þess að þarna færi fram vændi og að einhver stýrði því og kemur þá vart annar til greina en Ásgeir Þór" hefði sloppið. Þetta er gildisdómur, rökleg ályktun.
En hvað vitum við, sem höfum höfuðið í sandinum og berjum hann þar við steininn?
Friðrik Þór Guðmundsson, 12.3.2009 kl. 17:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.