27.2.2009 | 11:55
Um seðlabankastjórann og flokkafylgið
Er Svein Harald Øygard ólöglegur seðlabankastjóri, af því hann er ekki Íslenskur ríkisborgari? Lögfræðingurinn Sigurður Líndal virðist telja svo vera (sjá hér). Þótt Norðmaðurinn sé settur en ekki skipaður. Það er vísað í stjórnarskrá Íslands.
Stjórnarskráin talar reyndar bara um skipan í slík embætti, en ekki setningu, en Sigurði finnst að hið sama eigi að gilda um hvoru tveggja.
Það er auðvitað alvarlegt mál ef um stjórnarskrárbrot kann að vera að ræða. En þá væri blessuð úrelta stjórnarskráin okkar svo sannarlega að flækjast fyrir góðum ásetningi. Ég veit ekki með ykkur, en mér er það mikill léttir að ekki einasta séu bankastjórarnir margumræddu og innlendu farnir frá, heldur finnst mér það kjörráð að fá tímabundið erlendan sérfræðing í aðalstól bankans. Fram að skipan eftir auglýsingu og til að auka traust Seðlabankans. Traustið er einmitt stóra málið þessa dagana. hvað sem því líður verður að ætla að menn hafi skoðað vel grundvöllinn að þessari setningu Norðmannsins með 20. grein stjórnarskrárinnar í huga.
Kosningar og kannanir
Það eru tveir mánuðir til kosninga og í morgun birtu bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið skoðanakannanir um fylgi flokka. Þær eru merkilega samhljóða (jafnvel þótt önnur þeirra birtist í "Baugsmiðli", sbr. vandlætingu DO). Þær bæta hvor aðra upp og gefa til samans ágæta vísbendingu um stöðuna.
Samfylkingin mælist með um 31% fylgi og gæfi það 20-21 þingmann. VG mælist með um 24.5% og gæfi það 16 þingmenn. Þessir stjórnarflokkar og vinstri flokkar til samans eru því sem stendur með fylgi upp á um 55% og 36-37 þingmenn: Gætu myndað ríkisstjórn án Framsóknar eða annarra.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með um 27%, sem gæfi 18 þingmenn. Þetta er svipað fylgi og þegar flokkurinn fékk sögulegt afhroð árið 1987. En einn stór munur er á stöðunni þá og nú; þá bauð Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar sig fram og náði miklu fylgi af Sjálfstæðisflokknum. Nú er Sjálfstæðisflokkurinn óklofinn og afhroðið því til muna meira, yrðu þetta niðurstöður kosninga.
Framsónarflokkurinn náði sér á gott skrið eftir "uppgjörið" og kosningu nýs formanns, en fylgið er aftur byrjað að dala. Sögulegt lágmark flokksins var rúmlega 11% fylgi síðast og flokkurinn mælist nú í rúmlega slíku fylgi, með um 12.5% og 8 þingmenn. Frjálslyndir mælast um eða rétt undir mörkum þess að ná þingmanni inn. Flokkur sá hefur yfirleitt komið betur út í kosningum en könnunum, en hremmingar flokksins undanfarið hafa verið með fádæmum og erfitt að ímynda sér annað en að hann sé að liðast í sundur og eyða sjálfum sér.
Ný framboð fylgislaus?
Það sem þess utan er stórmerkilegt við þessar kannanir er að ekkert tiltakanlegt fylgi mælist við "aðra". Íslandshreyfingu, Borgarahreyfingu, Samstöðu og hvað það allt heitir. Jafnvel þótt slík framboð séu ekki formlega orðin til (utan Íslandshreyfingarinnar) þá ættu samkvæmt reynslunni að vera til nógu margir sem myndu velja "annað" ef byrinn væri nógu mikill orðinn. Miðað við reiðina og uppreisnina í samfélaginu ættu að vera nógu margir fyrir hendi í svona könnunum sem segðu: ætla engan gömlu flokkanna að kjósa; mun skila auðu eða kjósa aðra. Þetta segir hyggjuvitið mér að minnsta kosti; þetta ætti að mælast. Nógu miklar fréttir hafa borist um framboðshugleiðingar t.d. Borgarahreyfingarinnar/Samstöðu til að framkalla fylgi í svona könnunum. Það gerist hér ekki.
Ef könnuðirnir eru ekki sekir um falsanir þá virðast þessi framboðsplön mótmæla-aflanna ekki fá byr með sér. Fólk virðist ætla að flykkjast aftur til gömlu flokkanna. Kannski spilar inn í að þeir hafa eða ætla augljóslega að endurnýja sig - hreinsa til. Og auðvitað spilar inn í að engir þungavigtarmenn hafa komið fram sem gerir ný framboð freistandi. Engir. Það gæti þó auðvitað breyst.
Er ríkisstjórnin að gera eitthvað?
En það eru tveir mánuðir til kosninga og margt getur gerst. Í aðdraganda síðustu kosninga var t.d. VG með mjög sterka stöðu í könnunum, en missti á endasprettinum mikið fylgi til Samfylkingarinnar. Það gerist að líkindum ekki núna en öðruvísi sveiflur gætu komið til. Ef þannig birtist ekki á næstunni skýr mynd af því að starfsstjórn vinstriflokkanna sé að gera eitthvað af viti og koma góðum málum í framkvæmd - þá hrynur fylgið af báðum stjórnarflokkunum.
Myndi það hafa slík áhrif ef í ljós kæmi að Norðmaðurinn sé hingað kominn og inn í Seðlabankann í blóra við stjórnarskrá? Ekki held ég það. Ég held að þjóðin (kjósendur) meti meira að við séum að fá erlendan sérfræðing tímabundið en hitt, að gamla þreytta stjórnarskráin segi að það megi ekki.
ATH NÝ SKOÐANAKÖNNUN HÉR TIL HLIÐAR - UM RITSTJÓRA MORGUNBLAÐSINS.
Nýr seðlabankastjóri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 11:56 | Facebook
Athugasemdir
Það er nefnilega það:
"Stjórn Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands hefur samþykkt að hreyfingin
óski eftir því að gerast aðili að Samfylkingunni sem eitt af aðildarfélögum hennar og heiti henni fullum stuðningi í komandi kosningum, segir í tilkynningu sem borist hefur frá stjórn hreyfingarinnar".
Friðrik Þór Guðmundsson, 27.2.2009 kl. 13:03
Uh !
Ef Davíð Oddsson hefði hætt og Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra, ráðið norskan systurflokksmann sinn og þar að auki fyrrverandi aðstoðarráðherra til fjögurra ára í Noregi sem seðlabankastjóra hefðu fjölmiðlar og "bloggheimar" hér á landi logað?
Væri þegar búið að senda inn svo sem eina stjórnsýslukæru vegna þess að herramaðurinn væri ekki íslenskur ríkisborgari?
Hefði heyrst í Steingrími J. alla leiðina upp í Breiðholt?
Er í lagi að fyrrv. flugfreyjur geri hluti sem mættu ekki?
Friðrik H. (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 16:11
Þetta er auðvitað stjórnarskrárbrot landráð og brot á fullveldi Íslands.
Þegar Einar frá Þverá kom frá Noregskonungi til að biðja Alþingi að gefa honum Grímsey var því hafnað af þinginu vegna þess að það var fullveldisbrot.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 27.2.2009 kl. 18:26
Hér má lesa um einörðustu verjendur stjórnarskrárinnar:
Geir H. Haarde, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Árni Mathiesen greiddu ekki atkvæði gegn umdeildu frumvarpi um breytingar á stjórnskipulagi Seðlabanka Íslands sem samþykkt var sem lög frá Alþingi í gær. Þá greiddi Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ekki atkvæði með frumvarpinu. Ástæðan er væntanlega sú að ekkert þeirra var viðstatt atkvæðagreiðsluna.
Sjálfstæðismenn gagnrýndu frumvarpið harðlega á meðan það var í höndum þingsins. Frumvarpið var samþykkt með 33 atkvæðum gegn 18 atkvæðum sjálfstæðismanna. Níu þingmenn voru fjarverndi og þrír, þar á meðal Jóhanna, höfðu tilkynnt skrifstofu Alþingis um fjarvist sína.
26 þingmenn eiga sæti í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eftir að Jón Magnússon gekk í flokkinn á dögunum. Árni M. Mathiesen, Björk Guðjónsdóttir, Geir H. Haarde, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Kjartan Ólafsson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir voru fjarverandi og greiddu ekki atkvæði um frumvarpið.
Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, var einnig fjarverandi við atkvæðagreiðsluna. (visir.is)
Friðrik Þór Guðmundsson, 27.2.2009 kl. 18:57
Fréttir af þessum skoðanakannanir birta ekki hversu stóran hluta vildu skila auðu eða ekki kjósa eða hversu stór hluti vill ekki taka afstöðu. Í öðrum svipuðum könnunum hefur þessi hluti verið um 30%. Vinstriflokkarnir mega vara sig á að sofna ekki á verðinum því þeir hafa ekki bætt fylgi sitt verulega, aðallega ekki tapað fylgi jafn mikið og hægriflokkarnir.
Héðinn Björnsson, 27.2.2009 kl. 20:41
Mér persónulega finnst skipta meira máli að nýi Seðlabankastjórinn sé og verði fær um að koma skikki á peningamál og peningamálastefnu þessarar þjóðar, heldur en vegabréfið hans. Stjórnarskráin okkar er gömul og svo vil ég benda á samninga milli Norðurlandanna og EES svæðisins um frjálst flæði vinnuafls milli landa. Svo er aðalhagfræðingur Seðlabankans aðstoðarbankastjóri.
Varðandi ný stjórnmálaöfl, þá finnst mér ekki vænlegt til árangurs að dreifa kröftum. Það er ekki vænlegt til áhrifa að bjóða fram. Miklu frekar að hópar með ákveðinn málstað gangi til liðs við starfandi stjórnmálaöfl. Íslandshreyfingin hefur tekið skynsamlega ákvörðun.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 27.2.2009 kl. 22:37
Það lítur allt út fyrir að um stjórnarskrárbrot sé að ræða og ef svo er ætti forsætisráðherran að segja af sér. Ég tala nú ekki eftir að hafa fengið á sig dóm fyrir að brjóta stjórnsýslulög.
Nú kanna að vera að einhverjum finnist stjórnsýslulögin vitlaus og asnalega og jafnvel stjóarnarskráin gamaldags og púkó. Þrátt fyrir það eru þetta lög í landinu og þeim ber að fylgja.
Við veljum ekki og höfnum þau lög sem við viljum fylgja enda myndi slíkt grafa undan réttarríkinu. Jóhanna hefur gerst sek að reka mann úr starfi vegna pólitíkskra skoðanna hans og hlotið dóm fyrir og nú gerir hún atlögu að stjórnarskránni. Er ekki eðlilegt að hún taki eigin ráði og hætti?
Hólmfríður þú bendir á áhugaverðan hlut varðandi frjálst flæði vinnuafls innan EES það vill hins vegar svo vel til að enn sem komið er hefur stjórnarskráin vinninginn yfir evrópulöggjöf. Kjósi Íslendingar hins vegar að ganga í sambandið verður evrópulöggjöfinn rétthærri réttarheimild en stjórnarskráin. Ég vil sérstaklega taka það fram að ég hef ekkert á móti þeim einstakling sem tekur við starfinu og vona að hann standi sig vel í því bæði mín vegna og annarra hér á landi.
Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 04:59
Vilhjálmur Andri; tvennt:
Í fyrsta lagi. Það liggur aldeilis fjarri lagi fyrir að setning Norðmannsins í stól seðlabankastjóra sé stjórnarskrárbrot. Líndal telur að hið sama eigi að gilda um setningu og skipan, en það er hans ÁLIT, en ekki lögfræðileg niðurstaða eins og dómur. Björg Thorarensen, síst ómerkilegri lagaprófessor, er á öndverðri skoðun. Úr slíkum vafa fæst eingöngu skorið úr fyrir dómi. Af hverju trúa Líndal en hafna Thorarensen? Ég legg því til að þú og aðrir með þína afstöðu farið einfaldlega með málið fyrir dóm; kærið meint brot til lögreglunnar eða höfðið e.k. einkamál ef því er að skipta. Það er ykkar eina leið, fyrir utan að segja bara álit ykkar. Af stað til löggunnar: Kærið Jóhönnu.
Í öðru lagi. Jóhanna Sigurðardóttir var sem félagsmálaráðherraekki dæmd sek fyrir "að reka mann úr starfi vegna pólitíkskra skoðanna hans og hlotið dóm fyrir". Þú ferð þarna með staðlausa stafi og get ég aðeins bent þér á að lesa viðkomandi dóm fordómalaust. Dómurinn viðurkenndi (og það má heita merkilegt) rétt ráðherra til að skipta um einstakling í viðkomandi stöðu; viðurkenndi réttmæti þess að ráðherra gæti haft í einmitt slíkum stöðum einstakling sem hún treysti. Jóhanna var ekki dæmd fyrir að láta mann víkja vegna pólitískrar stöðu hans eða skoðunar, heldur fékk einmitt viðurkenningarstimpil á þá gjörð. Hún var hins vegar dæmd fyrir vægari grein stjórnsýslulaganna; fyrir að hafa ekki leyft viðkomandi Framsóknarmanni að gæta andmælaréttar síns. Þetta er tvennt ólíkt. Þessi niðurstaða dómstóla segir aðallega þetta: Hún mátti "reka" manninn úr stólnum (en sá hafði fengið stólinn pólitískt hjá sínum flokki) en hún átti að auðsýna honum þá "kurteisi" að leyfa honum að koma á fund og andmæla. Niðurstaðan hefði þó orðið sú sama. Framsóknarmanninum hefði verið skipt út og niðurstaða dómsins er að það grundvallaratriði væri í góðu lagi! Kannaðu þetta Vilhjálmur Andri!
Ég vitna í sjálfan þig: Finnst þér ekki lágmark að kynna þér mál áður en þú lýgur upp á flokka?
Friðrik Þór Guðmundsson, 28.2.2009 kl. 12:11
Fyrri það fyrsta þá sagði ég að það liti allt út fyrir að um stjórnarskrárbort væri að ræða. Þar fyrir utan get ég ekki farið í einkamál þar sem ég er ekki aðili að þessu máli. Það er heldur ekkert nýtt að lögfræðingar séu ósammála um túlkun lagaákvæða. Hver svo sem hefur rétt fyrir sér í þessu máli að þá er það þrátt fyrir allt merki um það hversu illa nýju seðlabankalögin eru samin að ekki var litið á þetta ákvæði stjórnarskrárinnar og afstaða tekin til þess. Ef kemur í ljós að um stjórnarskrárbrot sé að ræða, geri ég ráðfyrir að Jóhanna segi af sér.
Hvað varðar brot Jóhönnu á stjórnsýslulögum þá er það ekki vægt brot. Eruð þið stuðningsmenn hennar virkilega að halda því fram að 13. gr. stjórnsýslulaga sé bara allt í einu orðið vægt brot af því Jóhanna braut það. Af hverju rak hún manninn? af því að hann hafði ekki sömu pólitísku skoðanir og hún. Segir dómurinn að það sé í lagi? Nei enda var málið ekki sett þannig upp af hendi ráðuneytisins þó svo það hafi verið undirliggjandi ástæða brotvikningar framsóknarmannsins. Það er hins vegar alveg rétt hjá þér að dómurinn telur ekki óeðlilegt að ráðherra geti valið einhvern til starfa sem hann treystir til að fylgja stefnu sinni. Þá segir í dómnum einnig: "ekki verður talið útilokað að ákvörðun ráðherra hefði orðið önnur, hefði stefnandi fengið færi á að tala máli sínu"
Þar sem andmælarétturinn var ekki virtur er ekki hægt að segja til um hver niðurstaðan hefði orðið.
Aðalatriðið er að Jóhanna braut stjórnsýslulög og ætti að taka eigin ráði og segja af sér.
Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 15:11
Vilhjálmur Andri: Setningin "Það lítur allt út fyrir að um stjórnarskrárbrot sé að ræða" er mjög afdráttarlaus með þetta "allt" innanborðs. Með því orði innanborðs er fullyrðingin einfaldlega röng.
Þú getur kannski ekki farið í einkamál (veit það þó ekki) en þú getur arkað til löggunnar og lagt fram kæru og ósk um opinbera rannsókn. Ég skora hér með á þig að kæra Jóhönnu. Er ekki annars rétt að þú fylgir málinu eftir? Ef rannsóknar- og ákæruvaldið er sammála um að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um stjórnarskrárbrot þá hlýtur yfirvaldið að gefa út ákæru.
Dómurinn yfir Jóhönnu í máli útsendara Framsóknarflokksins er vissulega ekki flokkaður sem vægur hvernig sem á málin er litið. En fullyrðing þín var einfaldlega röng, eins og þú viðurkennir hálfpartinn og með semingi. Þú sagðir Jóhönnu seka um "að reka mann úr starfi vegna pólitíkskra skoðanna hans og hlotið dóm fyrir" og það er RANGT. Deal with it! Vitaskuld átti útsendari Framsóknarflokksins, sem Jóhanna hafði leyfi til að víkja burt og fá í staðinn mann sem hún treystir, átt að fá kaffifund til að andmæla. En þú og ég vitum (andstætt dómurunum sem ekki mega gefa sér neitt) að það hefði engu breytt.
Veistu annars, Vilhjálmur Andri, hver setti Framsóknarmanninn í téðan stól og hver hafi þá verið látinn víkja í hans stað?
Friðrik Þór Guðmundsson, 28.2.2009 kl. 15:27
Þú ert m.ö.o. að gefa þér að hér sé ekki um stjórnarskrárbrot að ræða og allir sem telja að svo gæti verið hafi rangt fyrir sér, mjög hrokafull afstaða. Ég er einfaldlega að segja að það lítur allt út fyrir að um stjórnarskrárbrot sé að ræða þ.e. ef fylgt er almennum lögskýringarsjónarmiðum. Það kann vissulega að vera að einhver annarleg lögskýringarsjónarmið eigi við í þessu tilviki en ég tel það ólíklegt og Sigurður Líndal einn færast lögspekningur þjóðarinnar telur það ólíklegt. Fullyrðingin er því ekki röng. Að tönglast á því að orðið "allt" sé sett þarna inn er útúrsnúningur. Ég geri ráð fyrir að þetta mál fari fyrri umboðsmann Alþingis og þaðan til dómstóla telji menn þess þörf.
Enn og aftur að stjórnsýlsulagabroti Jóhönnu. Þú segir sjálfur: "hún var dæmd fyrir vægari grein stjórnsýslulaganna" en ef þú hefur breytt afstöðu þinni þá er það gott.
Dómurinn segir hvergi að það sé í lagi að reka menn vegna pólitískrar skoðunar sinna. Það er tekið fram að ráðherra hafði nokkurt svigrúm til þess að velja menn til setu í nefndinni sem hann telur geta unnið í samræmi við stefnumið sín. Ef komið hefði fram í andmælum framsóknarmannsins að hann væri tilbúinn að vinna eftir stefnumótun ráðherra er ekki víst að forsenda hafi verið fyrir því að láta hann fara.
En það er engin leið að vita hver niðurstaðan hefði geta orðið ef andmælarétturinn hefði verið virtur. Það er ástæða fyrir því að andmælarétturinn var lögfestur í stjórnsýslulögum og það var ekki til að veita mönnum rétt á að fá spjall um málefni sín yfir kaffibolla. Þetta er nokkuð dæmigerð afstaða í cultinu í kringum Jóhönnu að andmælarétturinn sé bara formsatriði. Þetta er mjög mikilvægur réttur og tryggir sanngjarna málmeðferð mála hjá stjórnsýslunni m.a. með því að einstaklingar geta komið öllum sínum sjónarmiðum á framfæri og gerir því ríkari kröfu um að ákvörðun sé byggð á málefnalegum forsendum. Þú segir ég og þú vitum en dómurinn má ekki segja, já ég og þú vitum að hann var rekinn vegna pólitískra skoðanna sinna og dómurinn segir ekkert um að það sé í lagi.
Hvað varðar spurningu þína þá veit ég ekki hver réði mannin og það kemur málinu ekkert við. Jóhanna braut stjórnsýslulög óháð því hver réð manninn til starfa. Þú réttlætir heldur ekki eitt óréttlæti með því að benda á annað.
Hvernig sem þú túlkar dóminn þá er hann áfellisdómur á vinnubrögð Jóhönnu og hún hefur sjálf krafist þess að ráðherrar segi af sér þegar þeir hafa verið dæmdir fyrir að brjóta stjórnsýslulög. Það er því eðlileg krafa að hún fylgi eigin skoðunum og segi af sér.
Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 16:50
Nei, Vilhjálmur Andri, ólíkt þér er ég ekki að gefa mér neitt um stjórnarskrárbrot. Alls ekki neitt. Þú kýst að taka meira mark á Sigurði Líndal en Björgu Thorarensen. Það er þitt val. Ég dreg þann eina lærdóm að málið sé umdeilanlegt - og hvorki þú né ég erum færir um að úrskurða. Ég get allt eins valið að taka sjónarmiði Bjargar og dregið þá ályktun að EKKERT bendi til þess að um stjórnarskrárbrot sé að ræða!
Það er rétt að ég get ekki fullyrt um niðurstöðuna hjá Jóhönnu ef útsendari Framsóknarflokksins hefði fengið yfir kaffisopa að andmæla. Ég tek auðvitað undir að hann hafi átt að fá þennan andmælarétt og rangt að taka hann frá honum. Þú getur froðufellt eins og þú vilt og snúið út úr og leitast við að uppnefna menn (sem tilheyrandi einhverju Cult-i eins eða annars) sem engu breytir að ákvörðun Jóhönnu varðandi þennan mannvar dæmd sem málefnaleg.
Auðvitað kemur það málinu við hver setti útsendara Framsóknarflokksins í viðkomandi stöðu. Einhver hefur vikið fyrir honum. Eða fyrr fyrir öðrum útsendara Framsóknarflokksins. T.d. 1995 þegar Framsókn tók við félagsmálaráðuneytinu af... jú, einmitt Jóhönnu. Ætli Framsóknarflokkurinn hafi ekki skóflað út útsendurum annarra og sett sína í staðinn. ætli þeir hafi hlustað mikið á andmæli. Auðvitað kemur það málinu við. Þetta snýst um hefðir, hvað tíðast, hvaða aðferðir hafi almennt verið uppi. Dómurinn í þessu máli gekk einmitt út á viðurkenningu á vissri hefð - að ráðherra verði og geti haft fólk í vissum stöðum sem það treystir til að framfylgja sinni stefnu eða ríkisstjórnarinnar.
Annars skil ég vel gremju frjálshyggjuhnokkanna um þessar mundir. Heimur þeirra hefur hrunið og þeir þurfa útrás á þessari gremju. Hvað sem um þessi tilteknu mál er annars að segja, Vilhjálmur Andri, þá er það einmitt fámennur cult-hópur sem vill Jóhönnu burt. Höfuðlaus cult-hópur. Ærulaus cult-hópur.
Skrifaðu endilega kæruna til löggunnar.
Friðrik Þór Guðmundsson, 28.2.2009 kl. 17:24
Staðreyndir í þessum málum eru eftirfarandi: Upp hefur komið ábending að um stjórnarskrárbrot sé að ræða og færð hafa verið fyrir því rök. Ágreiningurinn í því máli liggur í túlkun á orðinu ráðning og vissulega deila lögfræðingar og lögspakir menn um þá túlkun líkt og ávalt verður þegar upp kemur einhvers konar vafaatriði. Já ég kýs að taka túlkun Sigurðar fram yfir túlkun Bjargar og geri það á grundvelli eigin lagaþekkingar. Komi í ljós að Sigurður hafi rétt fyrir sér geri ég líka ráð fyrir að Jóhanna segi af sér.
Jóhanna var dæmd fyrir að brjóta stjórnsýslulög. Hún rak einstakling úr starfi vegna pólitískrar skoðunar hans. Dómurinn, ef þú lest hann, segir ekkert til um að það sé í lagi en viðurkenni þó um leið að ráðherra hafi „nokkurt svigrúm“. Svigrúm ráðherra er þó ávalt bundið stjórnsýslulögum og ekki er hægt með vissu að segja að ráðherra hafi getað sagt manninum upp störfum ef andmælaréttur hans hefði verið virtur.
Það skiptir engu máli hver réð framsóknarmanninn og hverja framsóknarmenn létu fara þegar þeir tóku við ráðuneytinu. Þú réttlætir ekki eitt óréttlæti með því að benda á annað. Jóhanna braut stjórnsýslulög og ætti samkvæmt eigin skoðunum þ.e. þegar aðrir ráðherrar hafa gerst sekir um slíkt, að segja af sér. Hún kýs hins vegar að setja meiri kröfur á aðra en sjálfan sig.
Það er rétt ég er frjálshyggjumaður en það er engin gremja í mér og heimur minn eða annarra frjálshyggjumanna er ekki hruninn. Ef þú ert að vísa til efnahagshrunsins þá er það afleiðing á blönduðu hagkerfi og hefur verið fjallað um það víða. Það er því ákveðið fagnaðarefni fyrir okkur frjálshyggjumenn að geta bent á að gallana á blönduðum hagkerfum og ríkisábyrgðum, þó svo lærdómurinn hafi verið keyptur dýrum dómi. Mönnum hefði verið nær að hlusta á viðvaranir okkar í gegnum tíðina.
Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 18:35
Við komumst nú ekki mikið lengra í þessu Vilhjálmur minn Andri, en feikilega skemmtilegt að rabba við þig. Bara örstutt viðbót frá mér og svo mátt þú klykkja út ef þú vilt.
Ég kýs hvorki að taka túlkun Sigurðar né Bjargar sem niðurstöðu. Eina leiðin til að fá úr þessu skorið með þann Norska er fyrir dómstólum. Ég er búinn að hvetja þig til að fara til löggunnar. Gangi þér vel við að reyna að koma Jóhönnu úr starfi. Það er ekki nema sjálfsagt að koma lögum yfir hana fyrir áhugasama. Ég veit um einn, verð ekki var við fleiri.
Þetta með frjálshyggjuna og blandaða hagkerfið er svo holur málflutningur að það bergmálar í tölvuleiðslunum. Þú verður að fyrirgefa, en ég nenni ekki að ræða þann hluta við þig. Veggurinn hérna við hliðina á mér er skemmtilegra umræðuefni og bókahillurnar frjórri viðmælandi!
Friðrik Þór Guðmundsson, 28.2.2009 kl. 22:14
Takk sömu leiðist, ég skorast sjaldnast undan rökræðum og ekki verra að ræða við menn sem geta haft þetta nokkurn veginn á siðuðum nótum.
Það hefði verið gaman að ræða við þig um efnahagshrunið og málflutningur minn er langt frá því að vera holur í þeim efnu. Það er kannski skiljanlegt að það líti út fyrir að vera það þegar ég set þetta upp í tvær línur. Skemmtilegast við þá umræðu er að allir sem hafa viljað klína þessu á frjálshyggjuna hafa skorast undan því að rökstyðja þær fullyrðingar sínar. Annars orðið ný tilnefndur nóbersverðlaunahafi í hagfræði þetta skemmtilega: "Allar peningakreppur eru ríkiskreppur"
Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 23:24
Ég þakka enn spjallið Vilhjálmur Andri, en verð að fá að skjóta því að, að það er langur vegur frá að ég sé að flýja téð umræðuefni. Tökum endilega upp þráðinn við annað tækifæri.
Friðrik Þór Guðmundsson, 1.3.2009 kl. 12:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.