Vondar fréttir af fráfarandi og fyrrverandi

 Þessi frétt Moggans nýfrjálsa er skelfileg og kallar á enn auknar efasemdir um frammistöðu síðustu ríkisstjórnar og getu til að takast á við hrunið og krísuna. Kallar raunar fram ótal spurningar, um ekki bara Ingibjörgu Sólrúnu og Samfylkinguna, heldur um Geir Haarde, Sjálfstæðisflokkinn og fráfarandi formann bankastjórnar Seðlabankans. Það sem einna fyrst kemur upp í hugann er hvort hægt sé að mæla á hvern hátt persónulegar væringar og sambandsleysi höfðu áhrif á viðbrögð stjórnvalda fyrir og eftir hrunið.

Ég hygg að niðurstaðan yrði ekki góð, heldur mjög vond. Og myndi undirstrika gallana við að hafa afar umdeildan stjórnmálamann í forystu fyrir Seðlabankann. Ef eitthvað blasir þarna við þá er það ófögur mynd um að Seðlabankastjórinn hafi verið að gera forsætisráðherra grein fyrir hinu og þessu sem yrði að bregðast við hið snarasta (ef það er rétt lýsing), en forsætisráðherrann sá ekki lagt á framburðinn tiltakanlega trú eða nægilega til að koma upplýsingunum áfram með áþreifanlegum hætti til samráðherranna í ríkisstjórninni, til samstarfsflokksins. Leiðtogi samstarfsflokksins heldur því blákalt fram að hún hafi ekki vitað um tilgreinda skýrslu og ekki heyrt af tilgreindum viðvörunum. Sé þetta sannleikanum samkvæmt hjá henni og megi um leið trúa seðlabankastjóranum fráfarandi þá versnar sem því nemur hlutur síðasta forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Þá verður skásta afsökun þess manns sú, að hann hafi ekki talið ástæðu til að taka of mikið mark á meintum viðvörunum Seðlabankans, alltént ekki til að koma þeim víðar.

 Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, kannast ekki við að "endurteknar viðvaranir seðlabankastjóra" hafi ratað til sín. Hún kannast ekki við skýrslu „eins færasta fjármálastöðugleikasérfræðings Evrópu“. Ingibjörg kannast heldur ekki við að hafa heyrt af 10-15 manna sérstakri nefnd sérfræðinga sem Davíð kynnti. Eitt er, að seðlabankastjórinn fráfarandi sé að skálda hitt og þetta upp, annað ef hann segir rétt og fyrrum forsætisráðherra lá á upplýsingunum og enn annað ef ISG segir þarna ósatt eða fer á svig við sannleikann. Um þetta er erfitt að spá þegar fyrst og fremst orð standa gegn orði.

En núna er seðlabankastjórinn frá, forsætisráðherrann fyrrverandi hættur, ISG hefur amk tímabundið dregið sig í hlé, fjármálaráðherrann fyrrverandi er hættur í pólitík, viðskiptaráðherrann fyrrverandi sagði af sér, varaformaður Samfylkingarinnar er hættur, dómsmálaráðherrann fyrrverandi er hættur, Lúðvík Bergvinsson er hættur og áfram mætti telja. Og kosningar og endurnýjun framundan.

ATH NÝ SKOÐANAKÖNNUN HÉR TIL HLIÐAR - UM RITSTJÓRA MORGUNBLAÐSINS.


mbl.is Ingibjörg Sólrún fékk ekki upplýsingarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Getur ekki verið einföld ástæða fyrir því að ISG "kannist ekki við" hitt og þetta?

Áhyggjufullur (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 13:57

2 identicon

Þetta birtist mér sem öskrandi skortur á eðlilegu vinnulagi.

Ég má búa við það í minni vinnu, að ef ég get ekki sannað það - þá gerðist það ekki.

Dæmi. 
Ég vara einn af unglingunum við ákveðinni hegðun.  Ég skráset það í log-bók, svo í dagbók og svo í sérstaka bók hvar viðvaranir eru skráðar - ungmennið ritar þar undir og samþykkir þar með að viðvörun hafi átt sér stað og afleiðingar af ítrekaðri hegðun kynntar.

Gleymi ég skráningunni - vara bara munnlega við - og bregst svo við sömu hegðun með því að draga t.d. vasapeninga af viðkomandi.....getur ungmennið kvartað með formlegum hætti. 
Sökin er alfarið mín - viðvörun átti sér aldrei stað því ég skráði ekki á sannanlegan hátt
Í kjölfarið fær ég, í besta falli, fyrstu viðvörun frá yfirmanni.


Mér finnst með ólíkindum að íslenskir stjórnmála- og embættismenn skuli geta karpað út í hið óendanlega um allan andskotann (og það ansi mikilvægan andskota) - orð á móti orði - og fáum virðist detta í hug að spyrja hvort þetta geti talist eðlileg stjórnsýsla!
Ef Davíð getur ekki sannað að hann hafi varað Geir við, gerðist það ekki.  Geti Geir svo ekki sannað að hann varaði ríkisstjórnina alla við, gerðist það ekki.

Eða er það virkilega svo að apparatið á Íslandi sé svo gjörsamlega út á þekju, að lágmarksatriði eins og sannanlegar fundargerðir, minnisblöð og fleira slíkt er litið á sem hreinan óþarfa?

baldur mcqueen (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 14:08

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Áhyggjufullur; jú, t.d. að það hafi ekki átt sér stað. Það er einfalt.

Baldur; gott sjónarhorn.

Friðrik Þór Guðmundsson, 26.2.2009 kl. 14:23

4 Smámynd: Sverrir Einarsson

Er það þá formið sem skiptir öllu? ekki innihald erindisins.

Sverrir Einarsson, 26.2.2009 kl. 15:18

5 Smámynd: Offari

Davíð varaði mig við svo ekki fór ég á hausinn. Mér finnst svo merkilegt að ég skuli einn hafa heyrt þessi aðvörunarorð. Ekki sat ég á þingi heldur bara heima í stofu og hlustaði á fréttir. Eða dreymdi mig bara?

Offari, 26.2.2009 kl. 15:19

6 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Alltaf spaugsamur hann Offari!

En Friðrik, jafnvel þótt umræddum nú fv. bankastjóra auðnaðist að sýna óyggjandi fram á sína "Snilld" og forsjálni öllum betur, þá stendur áfram eftir sem áður, hví breytti hann opinberlega og stofnunin sem hann veitti forstöðu, alveg öfugt við þessar meintu aðvaranir, samanber skýrsluna margnefndu frá mai og svo þessa lánafyrirgreiðslu til Kaupþings? Þessi kapall getur bara ekki svo létt gengið upp.

Og hvað varðar beint fréttina, bæði Ingibjörg og Geir hafa oftar en einu sinni ekki kannast við eða talið sig muna eftir slíkum aðvörunum og svo má rifja það upp, að fv. seðlabankastjóri talaði lítt eða ekki neitt við fv. viðskiptaráðherra að haft var eftir hinum síðarnefnda.Hann átti þó að heita bankamálaráðherra og því hefði maður nú haldið að þanga´ð ætti sá fyrrnefndi ekki síður að leita með sínar aðvaranir eða hvað?

Frekara samskipta- eða sambandsleysi að ástæðum já sem þyrfti að skýra, kemur því ekki alveg á óvart.

Magnús Geir Guðmundsson, 26.2.2009 kl. 17:26

7 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Þetta blogg þitt Friðrik Þór tekur einmitt á kjarna málsins.

En hann er þessi: Ef forystumenn ríkisstjórnar treysta ekki eða trúa ekki orðum eða áliti mikilvægustu embættismanna þjóðarinnar í peningamálastjórn og efnahagsmálum þá er það kæruleysi af verstu gerð að láta við svo búið standa. Sérstaklega þegar haft er í huga að öllum átti að vera ljóst að fjármálakerfi heimsins var komið í vandræði og viðvörunarljós blikkuðu bæði hérlendis og erlendis.

Það er þess vegna alveg sama hvað forystumenn og ráðherrar í ríkisstjórnum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins, og svo Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar síðar, segja að ábyrgðin var þeirra. Við treystum á að stjórnvöld stæðu vaktina í þessum víðsjárverðu tímum. Þau gerðu það ekki. Það hefur ekki verið hrakið að Seðlabankinn varaði a.m.k. ríkisstjórn Geirs H. Haarde við og einhvers staðar kom fram að ákveðnir ráðherrar hefðu bókað í ríkisstjórn að þeir gerðu lítið með þessar viðvarandi sem kæmu frá Seðlabankanum. Ráðherrar treystu greinilega betur orðum eigenda og bankastjórnum viðskiptabankanna.

Ef við gefum okkur að Davíð, Eiríkur og Ingimundur hafi allir verið að vinna vinnuna sína af kostgæfni (enda hafa þeir her sérfræðinga á sínum snærum) og lagt til að bankakerfið yrði skorið niður t.d. með að flytja starfsemi þess að hluta til útlanda, en stjórnvöld hafi tekið ákvörðun um að hunsa þessar ráðleggingar, hverja bera þá ábyrgð þegar upp er staðið? 

Jón Baldur Lorange, 26.2.2009 kl. 17:37

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Nú kl. 17:45 varð Seðlabankafrumvarpið að lögum. Mörður Árnason orðaði þetta ágætlega; að allar háværustu kröfur mótmælendahreyfingarinnar væru nú komnar fram; ríkisstjórnin (síðasta) farin frá, búið að boða til þingkosninga, búið að hreinsa til í Fjármálaeftirlitinu og nú loks búið að hreinsa til í Seðlabankanum.

Davíð og félagar hafa kvatt sína undirmenn og Davíð kannski að funda einhvers staðar við Hádegismóa, hver veit.

Magnús Geir; Seðlabankinn heyrir ekki undir bankamálaráðherrann, heldur forsætisráðherrann. Davíð vildi sjálfsagt ekkert við bankamálaráðherrann fyrrverandi tala, en segist hafa talað við forsætisráðherrann fyrrverandi. Sá greindi þá ekki bankamálaráðherranum frá því sem fram kom í meintum viðvörunarsamtölum og raunar hefur fyrrverandi forsætisráðherra lítt kannast við slík samtöl. Ef Davíð hefur auðsýnt snilld, þá virðist hún hafa stöðvast í flöskuhálsi forsætisráðuneytisins.

Jón BL: Margir báru ábyrgð. Ég vísa kannski helst á kröfurnar fjórar sem Mörður nefndi og samábyrgðina sem felst í þeim.

Friðrik Þór Guðmundsson, 26.2.2009 kl. 17:56

9 identicon

Ábyrgð forystumanna fyrrverandi Ríksiitjórnar eru gríðarlega miklir á efnahagshruninu, sérstaklega Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.

Aðgerðarleysi þeirra og meðvirkni þeirra og þjónkun með bankafurstunum var með ólíkindum.

Þau tóku bæði þátt í því að beiðni bankafurstana að ferðast um heiminn á einkþotum elítunar sjálfrar til að mæta á topp ímyndarfundi sem elítan hafði skipulagt til þess að mæra upp Íslenska ofur-líkanið og íslenska bankakerfið og þessa líka toppmenn sem stjórnuðu þessu öllu saman. Allt að þeirra beiðni bankafurstana gagnrínislaust.

ISG var búinn að viðurkenna að hún mætti á nokkra krýsu fundi með Seðlabankastjórninni frá í febrúar og einnig sá hún skýrslu erlendu sérfræðinga Landsbankans í mars sem líka var umsvifalaust stungið undir stól. Þessum alvarlegu upplýsingum hélt hún vandlega leyndum fyrir sjálfum bankamálaráðherranum í sinni eigin Ríkisstjórn. Leyndin og pukrið var slíkt og uppskera slíkra stjórnarhátta kom svo auðvitað í hausinn á þjóðini.

ISG kann svo ekkert sem heitir að biðjast afsökunar og sýna þjóðini auðmýkt, hvað þá að axla ábyrgð.

Þvert á móti hefur hún þráfaldlega sagt það að hún þurfi ekkert að biðjast afsökunar á einu eða neinu og að enginn þurfi neitt sérstakelga að biðjast afsökunar og axla sín skinn. Ja nema Davíð Oddson en það er bara af einskæru hatri en ekki fyrir velferð þjóðarinnar, það sjá allir.

Hroki og yfirlæti Ingibjargar Sólrúnar í þessu máli öllu saman hefur fyrir löngu gengið fram af þjóðini og hún á að draga sig til baka eins og Geir Haarde og biðja þjóð sína auðmjúklega afsökuar á aðgerðarleysi sínu og meðvirkni með bankafurstunum sem kom þjóðini fram af heljarbrúnini !

En ég efast um að ISG hafi dómgreind til þess að standa svona að málum vegna þess að afsakanir og auðmýkt virðast því miður ekki vera til í hennar orðabókum. 

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 18:37

10 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Gunnlaugur talar um hatur, hroka og yfirlæti ISG af slíku hatri, hroka og yfirlæti að það hálfa væri nóg!

Friðrik Þór Guðmundsson, 26.2.2009 kl. 19:30

11 identicon

Friðrik

Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur og forstöðumaður í Seðlabanka Íslands til 20 ára lýsti því ágætlega í Kastljósviðtali í gærkvöldi að þessi deila um óskjalfestar viðvaranir eða ekki viðvaranir skiptir í raun engu máli þar sem Seðlabankinn er sjálfstætt stjórnvald með tæki sem hann hefur fullt frelsi til að beita til að tryggja fjármálastöðugleika. Bæði bindiskyldureglur og lausafjárreglur áttu fullkomlega við en stjórnendur seðlabankans sáu ekki ástæðu til að beita þeim. Hafi áhyggjurnar verið svona miklar allt frá 2006 stendur upp á sömu menn að svara því af hverju tækjum bankans var ekki beitt!

Arnar (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 20:44

12 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég mótmæli engu sem þú segir þarna, Arnar. Hygg að þetta sé alveg rétt hjá Yngva Erni. Hann veit þetta; var lengi í Seðlabankanum - veit hver stjórntækin eru sem beita hefði þurft.

Friðrik Þór Guðmundsson, 26.2.2009 kl. 21:31

13 identicon

Nei Friðrik Þór, ég tala bara um staðreyndir þegar ég tala um gjörðir og aðgerðarleysi ISG í stjórnmálunum.  

Ég ber ekkert hatur til persónu hennar, síður en svo og ég hef heldur ekki sýnt henni neinn hroka.

Það getur ekki kallast að ég sýni henni hroka þótt ég bendi á þann hroka sem hún upp á síðkastið hefur margítrekað sýnt þjóð sinni, Ég er ekki einn um að hafa séð það. 

Hún ISG er opinber persóna, en ég ekki og það er hún sem með framkomu sinni sem hefur kallað yfir sig reiði mjög margra, ekki síst fólks eins og mín sem eitt sinn treystum henni.

Ég óska henni hins vegar persónulega og af öllu hjarta góðs bata í veikndum sínum, en af stjórnmálastarfi hennar finnst mér komið meira en nóg. Hún spilaði rassinn úr buxunum og þjóðin þarf ekki á henni að halda meir ! 

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 23:02

14 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Áhersla þín, Gunnlaugur, á hlut ISG er ekki raunhæfur og þess vegna finnst mér tónninn skrítinn. Hún er aldeilis ekki saklaus af því hvernig fór, það veit ég, en orsakir hrunsins eiga sér 18 ára forsögu. Ef einhverjir af núverandi eða fyrrverandi kjörnum fulltrúum eiga LANGSAMLEGA mestu sökina þá eru það Davíð, Halldór, Geir, Finnur, Valgerður, Árni Matt og það fólk spilaði rassinn úr buxunum - með margfalt meiri rassastærð en ISG.

Ekki fixerast á ISG, Gunnlaugur, það er bara kjánalegt. Ég veit að þú nefndir Geir af skyldurækni í fyrra kommentinu, en það var augljóslega með semingi gert (en það er auðvitað bara mín túlkun!). Meðan allt var að keyrast í kaldakol var ISG utanríkisráðherra, mikið erlendis og að grauta í þessu nautheimskulega framboði til Öryggisráðsins. Davíð talaði við Geir.Geir var forsætisráðherra, verkstjóri ríkisstjórnarinnar, yfirmaður efnahagsmála. Árni Matt var fjármálaráðherra og hann er að hætta eins og geir. Björgvin var viðskiptaráðherra og hann sagði af sér. Þetta fólk stóð töluvert nær ábyrgðinni en ISG - og í ljósi alls þessa leyfði ég mér að túlka orðin þín á ákveðinn hátt.

Friðrik Þór Guðmundsson, 26.2.2009 kl. 23:12

15 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Ekki misskilja mig, mér er að sjálfsögðu kunnugt um að Seðlabankinn heyrir ekki undir bankamálaráðherran, en ég tók þetta dæmi til marks um umfjöllunarefnið þ.e. meint samskiptaleysi eða ekki milli samstarfsflokkanna, en það var nú einmitt sérstök frétt á sínum tíma í kringum Björgvin G. og þú mannst sjálfsagt, hve lítt eða ekki hann þótti upplýstur (réttilega eða ekki?) um stöðu og ákvarðanir varðandi bankana. Í eitt skiptið í því sambandi var svo einmitt gert mál úr því að Davíð og/eða Björgvin hefðu ekki talast við.

Magnús Geir Guðmundsson, 27.2.2009 kl. 00:17

16 Smámynd: Rúnar Haukur Ingimarsson

Friðrik vitnar í Mörð "Mörður Árnason orðaði þetta ágætlega; að allar háværustu kröfur mótmælendahreyfingarinnar væru nú komnar fram; ríkisstjórnin (síðasta) farin frá, búið að boða til þingkosninga, búið að hreinsa til í Fjármálaeftirlitinu og nú loks búið að hreinsa til í Seðlabankanum."

Gott og vel sumt af þessu er komið fram en er ekki ennþá samfó við völd, voru þeir ekki síðustu ríkisstjórn ? 

Rúnar Haukur Ingimarsson, 27.2.2009 kl. 10:01

17 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Jú, Rúnar Haukur, Samfó er í stjórn. Bráðabirgða starfsstjórn fram að kosningum. Staðan var raunar þannig að úr því fyrri stjórn fór frá þá varð auðvitað að hafa EINHVERJA stjórn og í öðru lagi var varla gerlegt svo séð verði að mynda starfsstjórn án tilkomu hið minnsta annars af fráfarandi stjórnarflokkum. Ef þetta hefði orðið VG, Framsókn og Frjálslyndir þá hefði annar fráfarandi flokkanna að gerast "aðili" að stjórninni með stuðningi gegn vantrausti.

Hinn möguleikinn var Þjóðstjórn - en þá hefðu BÁÐIR fráfarandi flokkar sest aftur í ríkisstjórn - svo ekki ertu að tala um það.

Jú, svo var það utanþings-stjórnar möguleikinn. Það er umdeilanlegt fyrirkomulag og ekki endilega það lýðræðislegasta. Ég sé ekki að slíkar hugmyndir hafi notið mikils fylgis víða. Slíkum kröfum hefur þá alltént ekki verið fylgt eftir og engar raddir eftir um það. Við þetta má bæta: Þrátt fyrir að Samfó hafi sest í stjórn þá er fylgi við þann flokk á uppleið. Og fylgi við möguleg framboð mótmælendahreyfingarinnar mælist ekki.

Friðrik Þór Guðmundsson, 27.2.2009 kl. 12:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband