Þrír og hálfur turn í pólitíkinni

Athyglisverð staða flokka á milli núna, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup. Fjórflokkurinn stendur vel að vígi; myndar þrjá og hálfan turn, en hvorki Frjálslyndi flokkurinn né Íslandshreyfingin virðast líklegir til að koma manni á þing.

Hvað er merkilegast við þessa könnun? Það fer eftir því við hvað er miðað. Ég staðnæmist einna fyrst við þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn er að mælast með 11 til 12 prósentustigum minna fylgi en í  síðustu kosningum. Sögulega versta útkoma flokksins var 27.1% árið 1987, en þá voru þó eiginlega tveir Sjálfstæðisflokkar í framboði; hinn gamli og Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar. Staðan nú er því margfalt verri en þá. Flokkurinn mælist nú með tæp 26% óklofinn. Sjálfstæðismenn geta vissulega fagnað betri tölum en í síðustu könnun, sem breytir litlu um hrikalega sögulega lélega stöðu flokksins.

VG mælist með 24% og hefur dalað nokkuð frá síðustu könnun, en mælist þó með næstum 10 prósentustigum meira fylgi en í síðustu kosningum. Í fyrstu tveimur kosningum sínum fékk flokkurinn um 9% og í því ljósi má tala um nær þreföldun ef þetta gengur eftir. Á hitt er að líta að í síðustu kosningabaráttu missti flokkurinn verulega flugið síðustu vikurnar.

Framsókn fékk sögulegt afhroð í síðustu kosningum, fékk rúm 11% atkvæða, en mælist nú með um 15%, eftir að hafa mælst mun neðar í könnunum fyrr. Sigmundur Davíð hefur augljóslega blásið nýju lífi í flokkinn, en hann á samt langt í land til fyrri styrks. Og ef þessi könnunarniðurstaða væri útkoma kosninga þá væri hægt að mynda þrennskonar tveggja flokka ríkisstjórnir án aðkomu Framsóknar.

Samfylkingin sækir örlítið á og er kominn yfir kjörfylgið frá síðustu kosningum. Bætt staða flokksins nú er áreiðanlega fyrst og fremst vegna Jóhönnu Sigurðardóttur.

Örlög Frjálslynda flokksins virðast ráðin. "Fimmti flokkurinn" í íslenskum stjórnmálum virðist enn á ný á útleið.


mbl.is Samfylkingin stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TARA

Veistu, ég held að það sé ekki alltaf að marka þessar skoðanakannanir..þær virðast í það minnsta stundum stangast á, eftir því hver framkvæmir þær og hvenær !!

TARA, 17.2.2009 kl. 00:00

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þetta er út af fyrir sig rétt hjá þér. En þegar maður skoðar stærð úrtaks, svarhlutfallið og fleira í aðferðafræðinni þá lærist manni nokkurn veginn hvaða könnunum má treysta sem sterkum vísbendingum um stöðuna. Gallup er réttu megin við línuna. Skrítnu kannanirnar eru þær sem eitthvað hefur farið úrskeiðis og skekkjuhlutföll eru svo mikil að marktækni er lítil. Ég segi ekki meir.

Þessi könnun er ekki endilega hárnákvæm. Ég myndi segja að það væri ekki mjög marktækur munur á efstu flokkunum þremur og óþarfi að líta svo á. Þeir eru á svipuðum slóðum.

Friðrik Þór Guðmundsson, 17.2.2009 kl. 00:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband