8.2.2009 | 12:04
Í djúpköfun með áttavita
Það er opinberlega viðurkennt að fjölmiðlar gegni gríðarlega mikilvægu hlutverki í hinni lýðræðislegu umræðu. Sömuleiðis er það skjalfest opinber stefna að fjölmiðlar eigi að vera virkir við að veita stjórnvöldum, stórfyrirtækjum og öðrum aðhald með gagnrýninni umfjöllun - með því að spyrja gagnrýninna spurninga, leita upplýsinga og staðfestinga og færa þær upplýsingar fram til almennings.
Á Íslandi hefur "djúpköfun" í blaða- og fréttamennsku þó aldeilis ekki notið forgangs hjá fjölmiðlaeigendum og þeir hinir sömu almennt og yfirleitt boðið blaða- og fréttamönnum upp á vinnuálag, tímaþröng og beina og óbeina ritskoðun. Blaða- og fréttamenn hafa þrátt fyrir þetta oft gert góða hluti og Kompás-menn ekki síst (á sumum sviðum hið minnsta).
Niðurlagning Kompáss-þáttanna var hrikaleg ákvörðun Ara Edwald, Jóns Ásgeirs og félaga. En rímar út af fyrir sig við stefnu sjónvarpsstöðvar þar sem afþreyingin er númer eitt, tvö og þrjú. Fréttir og fréttaskýringar hafa fengið að hanga í fjórða sætinu, en hafa nú verið settar enn neðar og má allt eins telja líklegt að fréttir Stöðvar tvö séu jafnframt í niðurskurðarsigtinu.
Ég er ánægður með það sem Jóhannes og félagar í Kompási lýsa yfir, að þeir ætli að halda áfram með þáttinn, þótt þeir fái ekki að halda nafni þáttarins. Ekki kemur fram HVAR þeir ætla að halda áfram með þáttinn; kannski á Skjá einum, kannski ÍNN, hvað sem því líður er nú tilefni sem aldrei fyrr til gagnrýninnar djúpköfunar. Nú með meiri áherslu á að afhjúpa leyndardóma viðskiptalífsins (þótt það kunni að bitna á áherslunni á barnaníðinga um sinn). Og nú án sjálfsritskoðunar í ljósi eignarhaldsins á fjölmiðlinum þar sem þættirnir voru sýndir...
Fá ekki að nota Kompásnafnið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Sjónvarp | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.