26.1.2009 | 13:45
Flokkur "í tætlum" - vegna þjóðarviljans
Þá eru dagar ríkisstjórnar Geirs H. Haarde (loks) taldir. Í beinni útsendingu. Geir tilkynnti þjóðinni þetta áðan og sagði að brotnað hefði á kröfu Samfylkingarinnar um að taka við forsætisráðuneytinu (fram að kosningum). Mest varð ég hugsi yfir orðum Geirs um að Samfylkingin væri "í tætlum" og þyldi ekki fjarveru formanns síns. Þetta er auðvitað fráleit lýsing.
Burt séð frá meintu náðarvaldi (karisma) Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þá eru "tætlur" Samfylkingarinnar augljóslega fyrst og fremst fólgnar í því að grasrót flokksins, óbreyttir flokksmenn, gripu í taumana í Þjóðleikhúskjallaranum og kröfðust breytinga. Grasrótin endurómaði þar háværan þjóðarvilja. Geir talaði eins og að grasrótin eigi undir öllum kringumstæðum bara að gera það sem foringinn segir og hlýða. En flokksstarfið í Samfylkingunni er augljóslega ekki "Davíðskt".
Og flokksstarfið er heldur ekki "Davíðskt" innan Sjálfstæðisflokksins (lengur). Þar er líka að finna "tætlur", til að mynda djúpstæðan ágreining um Evrópumálin og ekki síður flokkadrætti hinna ýmsu arma um eftirmann Geirs. Þar er líka að finna sterkar raddir fyrir því að fyrir löngu hafi átt að "hreinsa til" í Seðlabankanum - en hollusta Geirs gagnvart Davíð Oddssyni hefur sætt furðu hjá æði mörgum í hinni almennu umræðu. Segja má að undanfarið hafi Sjálfstæðisflokkurinn verið í "tætlum" vegna nærveru Davíðs, hafi Samfylkingin verið í "tætlum" vegna fjarveru Ingibjargar!
Ofan á þrískiptingu valdsins má tala um fjórða vald fjölmiðla, fimmta vald fyrirtækjanna, sjötta vald samtaka almennings og ég leyfi mér nú að bæta við sjöunda valdinu - valdi hins almenna borgara. Almenningur hefur nú með mótmælum og öðrum aðgerðum komið ríkisstjórn frá, sem ekki naut trausts og trúverðugleika. Þetta er sögulegt í meira lagi. Búið er að hreinsa til í Fjármálaeftirlitinu og engin starfsstjórn mun taka við sem ekki hreinsar til í Seðlabankanum. Að öllum líkindum mun myndast breið samstaða um breytingar á stjórnarskrá í áttina að lýðræðislegra þjóðfélagi. Að öllum líkindum mun myndast samstaða um bæði siðferðilegri stjórnmál og viðskipti. Deila má um eitt og annað í þessari atburðarrás, en ég tel óhætt að óska þjóðinni til hamingju með árangurinn.
Stjórnarsamstarfi lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Sjónvarp, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Sjálfstæðisflokkurinn er í jafn miklum tætlum og Samfylkingin. Af hverju var þá óásættanlegt að Samfylkingin fengi forsætisráðuneytið? Sagði Davíð nei?
Sigurður Haukur Gíslason, 26.1.2009 kl. 13:55
Já innilega til hamingju!!!
Nú er bara nóg að skíta og míga á lögguna. Eyðileggja eignir almennings fyrir miljónir króna og þá fáum við það sem við viljum.
Líst vel á þetta nýja samfélag, þetta er sko "lýðræði"
Guðbjartur Þorvarðarson (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 13:57
Guðbjartur fer með kjaftæði. Samfylkinginarmaður vísaði meðal annars í mótmælin sem eina af mörgum ástæðum fyrir stjórnarslitunum, en það er auðvitað hin almennu mótmæli, laugardagsfundirnir og ekki síst búsáhaldabyltingin eins og hún er kölluð. Þá var látið í sér heyra með pottum og lokum, til að troða inní þykka höfuðkúpu stjórnmálamanna þeim sannleik að fólk er óánægt með þessa stjórn.Að halda því fram að nokkrir dópistar með ofbeldi séu það sama er hrein óvirðing við hina mótmælendurnar, og í raun alla rökhugsandi. Ef eitthvað þá er ríkisstjórnin búin að míga og skíta á almenning, og allir voru búnir að fá nóg, nema þú Guðbjartur, þú mátt svosem láta halda áfram að míga og skíta á þig..
Magnús Jón Aðalsteinsson (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 14:18
Friðrik Þór. Þetta stjórnarsamstarf var báðum flokkunum orðið erfitt, og ekki eftir neinu að bíða að slíta því. Hvor flokkurinn sé „tættari“ skal ósagt látið. En báðir verða þeir að byggja sig upp og það er mín trú best sé að skipt verði um formenn í þeim báðum.
Veit ekki hvort almenningur kom þessari ríkisstjórn frá einn og sér, en vissulega hafði hann mikil áhrif. Brestirnir voru komnir hvort sem er þegar til lengri tíma er litið.
Hvað tekur svo við? Þingið starfar áfram eftir því sem ég best veit. Og nákvæmlega hvernig lög og reglur eða venjur taka á framhaldinu kemur í ljós.
Utanþingsstjórn er það sem ég mæli með. Þjóðstjórn allra flokka er mér ekki að skapi. Flokkarnir eru að fara í kosningarbaráttu næstu vikurnar og verða uppteknir af því. Svo hefur sundrungin milli þeirra verið næg ástæða til að líta svo á að það sé ekki góður kostur. En utanþingsstjórn er óháð pólitíkinni.
Benedikt Bjarnason, 26.1.2009 kl. 14:19
Sæll Friðrik. Já, þér finnst rétt að óska þjóðinni til hamingju með að það skuli vera komin stjórnarkreppa ofan á fjármálakreppuna. Sitt sýnist hverjum. Held reyndar að í ljósi þess sem gerðist í haust að þá hafi stjórnin unnið eins vel úr málum eins og hægt var. Auðvitað áttu þeir að hreinsa til í eftirlitsstofnunum strax efir hrunið, það voru mistök hjá þeim að gera það ekki. En það er alveg sama hvaða breytingar eru gerðar nú, vandamálin sem við stöndum frammi fyrir hverfa ekki.
Nú held ég að það væri best fyrir Sjálfstæðismenn að stíga til hliðar og leyfa hinum flokkunu að stjórna fram að kostningum. Kjósendur geta þá metið hvernig til tekst.
Aðalsteinn Bjarnason, 26.1.2009 kl. 14:54
Er ekki alveg að skilja þetta tal um stjórnarkreppu. Núverandi stjórn heldur áfram sem starfsstjórn fram að því að ný starfsstjórn tekur við fram að kosningum. Nauðsynleg verk verða unnin. Ekki ber á öðru að það geti tekið mjög skamman tíma að mynda nýja stjórn til að brúa bilið fram að kosningum. Ég sé ekkert sem réttlætir tal um stjórnarkreppu.
Friðrik Þór Guðmundsson, 26.1.2009 kl. 14:59
já, en sú starfsstjórn tekur engar veigamiklar ákvarðanir með þetta ástand ríkir. Það voru ákveðnar aðgerðir í undirbúningi sem nú verður trúlega að setja á "hold" vegna þess að væntanleg ríkisstjórn (með VG) mun sennilega hafa aðrar áherslur varðandi IMF o.fl. Þessi uppákoma er enginn sigur fyrir íslenska þjóð.
Aðalsteinn Bjarnason, 26.1.2009 kl. 15:23
Aðalsteinn; fráfarandi stjórn var de facto orðin starfsstjórn. Eins og málum var háttað hefði óbreytt stjórn fúnkerað sem slík og úr því búið var að taka ákvörðun um kosningar eftir uþb 3 mánuði hefðu menn vandað vel til "veigamikilla ákvarðana" og síst gripið til óvinsælla aðgerða. Og að því er virtist var meira að segja tregða í öðrum stjórnarflokknum að grípa til feikivinsælla aðgerða eins og að hreinsa til í Seðlabankanum. Það vildi ég óska að fljótlega komi fram trúverðug skýring á endalausri hollustu Geirs og félaga í garð Davíðs, en hvað sem annars má segja um fyrri feril þess manns þá var tilvist hans í Seðlabankanum að sönnu orðin meinsemd.
Ég er annars ekki sammála um að starfsstjórn geti ekki tekið "veigamiklar ákvarðanir". Það er alltaf háð samkomulagi. Ég held að það sé augljóst mál að flest af því sem ákveðið hefur verið sem björgunaraðgerðir muni halda áfram á næstu 3 mánuðum og menn frekar deila um hvað taki síðan við (eftir kosningar). Það er til dæmis orðið ljóst að VG setur ekki á oddinn að umbylta IMF-láninu og -áætluninni, þótt sótt verði á um einhverjar breytingar.
Friðrik Þór Guðmundsson, 26.1.2009 kl. 15:39
Þetta var hárrétt lýsing á Samfylkingunni hjá Geir.
Eini sénsinn á að Jóhanna "Hurðaskellir" nái að halda utanum væntanlega ríkisstjórn vinstriflokkanna, er að þeir haldi sig nákvæmlega við plan fyrrverandi ríkisstjórnar.
Ef þessir flokkar gera það ekki, þá munu heyrast þungir hurðaskellir úr stjórnarráðinu á næstu vikum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 26.1.2009 kl. 16:44
Ég held að þær upplýsingar sem eru alltaf að verða skýrari, um viðskiptalífið á Íslandi fyrir hrunið, bendi til þess að meginsökin á því sem gerðist liggi þar en alls ekki hjá Seðlabanka.
Seðlabankinn hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa valdið hruni bankakerfisins með því að yfirtaka Glitni í stað þess að lána honum 80 milljarða af almannafé án veða. Nú sjá allir að ef Seðlabankinn hefði lánað Glitni, þá væri það fé tapað ofan á allt annað og bankarnir hefðu farið í þrot samt sem áður. Rekstur bankanna var ein stór svikamilla og blekkingaleikur. Eftir á að hyggja þá var það bara gott að Seðlabankinn átti ekki stærri varasjóð til að þrautaverja bankana, því þá væri sá sjóður horfinn líka í hítina.
Jú, það má segja að stjórnvöld beri samt ábyrgð því þau áttu að taka í taumana og stoppa þessa menn af áður en illa fór. En hefði það fengið hljómgrunn á þeim tíma þegar við þóttumst ósigrandi og allt lék í lindi. Nei, ég er ansi hræddur um ekki og ég held meira að segja að forsetinn hefði beitt sínu valdi til að verja vini sína.
Við tókum öll þátt í veislunni, við vorum öll blinduð af velgengninni. Við verðum að horfast í augu við það.
Aðalsteinn Bjarnason, 26.1.2009 kl. 16:53
Aðalsteinn; Krafan um uppsögn/afsögn Davíðs í Seðlabankanum snýst ekki bara og jafnvel ekki fyrst og fremst um hvernig bankinn sá brást hrapalega fyrir hrunið. Þú mátt ekki gleyma því að það sem hrundi var kerfi og undirstöður sem Davíðskan bjó til í forsætisráðuneytinu. Auðvitað voru það fyrst og fremst bankaforkólfar og súperlauna-forstjórar sem ollu hruninu og hjá þeim liggur Sökin Mikla. Þeir gösluðust um og fóru offari í viðskiptafrelsis- og aðhalds- og eftirlitsleysis kerfinu sem Sjálfstæðisflokkurinn í tíð Davíðs og Framsóknarflokkurinn í tíð Halldórs skópu.
Og já, mörg okkar tóku þátt í veislunni. En ekki næstum því öll. Segðu þetta við aldraða og öryrkja, láglaunafólk og fátæka.
Gunnar; þegar þú kallar Jóhönnu hurðaskellir mundu þá að þjóðin var EINMITT að biðja um hurðaskellir. Þjóðin vill hreinsanir og skella hurðum á spillingarliðið sem hreiðrað hefur um sig í kerfinu eins og krabbamein. Ég bíð spenntur eftir hurðaskellum Jóhönnu...
Friðrik Þór Guðmundsson, 26.1.2009 kl. 17:07
En þetta "Davíðska" kerfi er í öllum megindráttum það sama og í löndunum í kringum okkur. Þetta kerfi kippti okkur inn í nútímann og nánast öllum fannst þetta virka vel.
Auðvita áttum við að setja sérreglur vegna smæðar landsins. Við áttum ekki að leyfa bankakerfinu að vaxa svona. En mundu eftir umræðunni eins og hún var fyrir aðeins fáum mánuðum síðan. Það átti að gera Ísland að Alþjóðlegri fjármámamiðstöð. Menn úr öllum flokkum mærðu hetjurnar okkar.
Ég læt fylgja hérna eina færslu sem ég skrifaði um daginn:
Ég velti því oft fyrir mér hvernig mál hefðu þróast ef brugðist hefði verið öðruvísi við þróuninni á Íslandi síðustu ár.
Segjum sem svo að árið 2006-7 þá hefðu íslensk stjórnvöld séð í hvað stefndi. Þau hefðu áttað sig á því að það þyrfti að setja ný lög til að bæta viðskiptalífið á Íslandi.
Ef stjórnvöld hefðu sett lög í þessa veru þá hefði allt orðið vitlaust. Stjórnvöld hefðu verið sökuð um að ráðast að hetjunum okkar, útrásarvíkingunum. Þau hefðu verið sökuð um að leggja Baug í einelti. Stóru útrásarfyrirtækin og allir bankarnir hefðu hótað að flytja alfarið úr landi. Fjölmiðlar (sem flestir voru í eigu Baugs (líkt og nú)) hefðu rakkað stjórnvöld niður.
Auk þess er ég fullviss um að forsetinn hefði neitað að staðfesta slík lög og hann hefði fengið mikið lof fyrir frá þorra almennings.
Ekki satt?
Aðalsteinn Bjarnason, 26.1.2009 kl. 17:25
Og í megindráttum eru samskonar vandamál uppi í löndunum í kringum okkur!
Friðrik Þór Guðmundsson, 26.1.2009 kl. 17:34
Já, það er í raun rétt. Það eru sömu vandamálin þar nema hvað þau löpnd ráða betur við aðstæður þar sem bankakerfið hjá þeim er ekki 12 sinnum stærra en hagkerfi landanna.
Líttu til Bretlands, það er margt sem bendir til þess að þeir muni lenda í samskonar hruni og varð hér, innan skamms. Þeir eru búnir að dæla svo miklu fjármagni í bankana að skuldir ríkisins stefna í að verða svipaðar pr. haus og á Íslandi. Ef bankakerfið þar hefði verið 12 sinnum stærra en hagkerfið þá væru þeir löngu komnir í þrot.
Þeir eru í Evrópusambandinu, að vísu ekki með Evru en það myndi engu breyta fyrir þá.
Aðalsteinn Bjarnason, 26.1.2009 kl. 18:10
Athafnamenn gösluðust áfram hér á landi og komust upp með óskapnaðinn vegna þess að frelsinu þeirra Davíðs og Halldórs fylgdi ekki eðlilegt aðhald og eftirlit stofnana og þings. Það er ekki nóg að hafa lögin og reglurnar ef þeim er ekki framfylgt og þau með ónóg ákvæði.
Hvernig í ósköpunum gat það gerst og gengið upp að FME og seðlabankinn mældu og vógu og fundu það út fram á síðustu stundu að allt væri í himnalagi? "Snillingarnir" í bissnessnum bera stærstu sökina en "gott" fólk hefði fundið út og lagað vandamálin, stöðvað ósómann.
Lögin virðast líka svo meingölluð að það sem fólk hélt að væri klárt lögbrot í lánveitingum á kostnað hluthafa er dæmt sem "bara viðskipti". Allan þennan ramma eiga helmingaskiptastjórnaflokkarnir.
Friðrik Þór Guðmundsson, 26.1.2009 kl. 18:32
Aftur að efni færslunnar. Ofan á ummæli um að Samfylkingin sé í tætlum segir Geir nú (hjá Kristjáni Má Unnarssyni á Stöð 2) að upp hafi komið "óöld" innan Samfylkingarinnar í fjarveru formanns síns. Enn talar hann eins og að foringjadýrkun eigi að ráða ferð en ekki grasrótin. Ef stofnanir flokks taka ákveðna afstöðu þá ber forystu þeirra að lúta slíkum vilja. Og "óöldin" sem Geir talar um felst í því að grasrótin í Samfylkingunni lagðist (loks) á sveif með yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar, sem vildi þessa ríkisstjórn burt.
Ef það er "óöld" að fólkið "á gólfinu" ráði för undir svona kringumstæðum, ja... þá er ég óaldasinni.
Friðrik Þór Guðmundsson, 26.1.2009 kl. 19:15
Þessi bellibrögð sem bankamennirnir hér notuðu voru ekki fundin upp af þeim. Þeir lærðu þetta erlendis. Í kjölfar Enron hneykslisins í Bandaríkjunum voru sett strangari lög þar varðandi bókhald og viðskipti fjármálafyrirtækja. Lögin hér voru kóperuð beint frá Evrópusambandinu samhliða EES samningnum.
já, það er rétt hjá þér að t.d. í Baugsmálinu voru ákærur um sviksamleg viðskipti afgreidd af dómurum sem eðlileg viðskipti. Viðskipti sem voru klárlega brot á lögum.
Getur verið að almenningsálitið (sem var undir áhrifum Baugsmiðla) hafi haft eitthvað með það að gera?
Ég bara spyr.
Aðalsteinn Bjarnason, 26.1.2009 kl. 20:03
Nei, ég held ekki að almenningsálitið hafi spilað þar minnstu rullu. Lögin voru ófullkomin og saksóknararnir stóðust ekki áhlaup verjendaherskarans sem hafði úr nógu að spila. Sem betur fer hlaupa dómarar ekki yfirleitt eftir almenningsáliti, en þeir eiga að túlka lögin. Gölluð lög er erfitt að túlka og allur vafi fellur sakborningum í hag. Eðlilega.
Hvað er þetta endalaust með að kópera lög að utan? Það er ekki nóg að hafa lög. Heldur þú að lögin segi ekki FME og Seðlabanka að vera voða duglegar stofnanir við að viðhafa eftirlit? Jónas Fr. lagði örugglega alla þá áherslu á slíkt sem yfirvöldin leyfðu...
Friðrik Þór Guðmundsson, 26.1.2009 kl. 20:28
Ég sá nú viðtal við einn starfsmann fjármálaeftirlitsins um daginn sem lýsti aðstæðum þeirra þegar þau voru að reina að gera aðfinnslur við bankana. Bankamennirnir mættu á fundi með alveg hjörð af lögfræðingum og yfirmönnum sem allir voru rauðir í framan af reiði yfir afskiptasemi fjármálaeftirlitsins.
Bankamennirnir voru einfaldlega með alla í vasanum, meira að segja forsetann. Það réðst ekki neitt við neitt.
Aðalsteinn Bjarnason, 26.1.2009 kl. 20:54
"Ég sá nú viðtal við einn starfsmann fjármálaeftirlitsins um daginn sem lýsti aðstæðum þeirra þegar þau voru að reina að gera aðfinnslur við bankana. Bankamennirnir mættu á fundi með alveg hjörð af lögfræðingum og yfirmönnum sem allir voru rauðir í framan af reiði yfir afskiptasemi fjármálaeftirlitsins."
Þessa lýsingu kannast ég vel við og sé ekki ástæðu til að efast um sannleiksgildið.
Og færslan fjallar um hvernig þjóðin sagði svona kringumstæðum stríð á hendur BÆÐI stjórnmálamönnunum OG eignarhaldsmönnunum ofurbröttu. Mótmælendur hljóta að túlka atburði síðustu daga sem stóran áfangasigur. Á stjórnmálasviðinu þurfa mótmælin á næstunni miðast annað hvort eða bæði við hin viðskiptalegu element eða treysta rannsóknar- og ákæruvaldinu og efna af alefli til framboðs (miðað við að áfram standi til að kjósa eftir 3 mánuði eða svo).
Friðrik Þór Guðmundsson, 26.1.2009 kl. 21:27
Friðrik Þór: Getur þú ekki eina mínútu fattað að það voru ekki Davíð og Halldór sem settu þessi lög sem gerðu útrásarvíkingunum kleyft að skuldsetja landið svona. Þessi lög vorum við neydd til að taka frá EB, einfalt mál.
Ráðlegg þér svo að gleyma aldrei Davíð, hann viðheldur þinni aumu sálarkreppu sem fær þið ekki til að skilja einföldustu hluti. Já, aldrei gleyma Davíð, þú hefðir þá ekkert til málanna að leggja. Annars mun Davíð segja af sér um leið og vinstri stjórn verður mynduð. Sannaðu til.
Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 21:35
Örn: "Hvað er þetta endalaust með að kópera lög að utan? Það er ekki nóg að hafa lög. Heldur þú að lögin segi ekki FME og Seðlabanka að vera voða duglegar stofnanir við að viðhafa eftirlit? Jónas Fr. lagði örugglega alla þá áherslu á slíkt sem yfirvöldin leyfðu... ".
Sjáðu til Örn; þú ert á villigötum ef þú heldur að þeir sem leggjast nú gegn Davíð í Seðlabankanum séu haldnir "sálarkreppu". Við erum þá að líkindum 90% þjóðarinnar sem nú eru haldnir slíkri sálarkreppu, að vilja hann burt úr Seðlabankanum. Erlendis tala ráðamenn og fjölmiðlar um þessa skrítnu tilhögun með manninn og nauðsyn þess fyrir traust og trúverðugleika Íslands að skipta þarna um mannskap. Hann er mér hins vegar ekki hugleiknari en sjálf áföll þjóðarinnar. Og þegar ég fjalla um Davíð þá geri ég það EKKI af slíkri mannfyrirlitningu og þú auðsýnir í athugasemd þinni að ofan.
Auðvitað fer Davíð, sjálfur eða af annarra völdum. Það er deginum ljósara og lélegt veðmál. Pólitíska náðarsólin hans er sest. Nema að hann stofni til eigin framboðs og segi Sjálfstæðisflokknum stríð á hendur. Það væri fróðlegt.
Friðrik Þór Guðmundsson, 26.1.2009 kl. 22:06
Jæja Friðrik, þú fattar ekkert ennþá. Árið 1991 (?) gengumst við undir að gera þetta. Áttum við síðar að setja lög um að taka ekki þátt í því samkomulagi sem við höfðum gert ? "Kópera lög", hvaða rugl er þetta í þér, það er ekkert val. Ég hef enga skoðun á því hvað "erlendir ráðamenn og fjölmiðlar" tala um, dettur þér í hug eina mínútu að þeir hafi ekki sína vitneskju um íslenskt þjóðlíf frá einhverjum sem matar þá hér. Það fer svo eftir því hver gerir það hvaða skoðun þetta fólk hefur. Annars hefur þú örugglega ekki tekið eftir því að þú sjálfur, Friðrik Þór, hefur í þessum færslum hér að ofan engan nefnt oftar en Davíð og reyndar alltaf á neikvæðan hátt. Þess vegna er ég sannfærður um að þú sért með hann á heilanum. Getur þú skifað færri færslur um Davíð? Nei, örugglega ekki, því að þá hefur þú ekkert til málanna að leggja. End og story.
Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 22:26
Þetta er rangt hjá þér Örn og myndi heiðarleg innihaldsgreining auðveldlega staðfesta það - og það veistu hafir þú einhverja vitneskju um mín skrif. Davíð er vissulega einn af þeim sem ég hef gagnrýnt og það verða þú og hann að þola í okkar ágæta landi tjáningarfrelsisins.
En lýsing þín á einhverri sálarkreppu er út í hött. Ég hef sjálfur verið í þeirri stöðu að skrifa hér áminningarorð í garð þeirra sem hafa farið offari í skrifum um Davíð. Ég vil ekki hafa hatursskrif eins og t.d. þú viðhefur. Um skeið, eftir fallið, var ég mjög reiður, en ég held að ég hafi ekki ráðist á persónu Davíðs eins og þú ræðst hér persónulega á mig - í rauninni án nokkurs tilefnis eða þarfar. Þetta er í raun og sann tilefnislaus og þarflaus eiturspúun hjá þér, Örn.
Örn. Ef við höfum lög, hvort sem þau eru þvinguð á okkur eða ekki, og þau virka ekki, þá skiptir kannski ekki miklu máli hvernig þau komu til. þau passa bara ekki. Lög á íslandi, frá Evrópu eða annars staðar, virkuðu ekki, þau annað hvort eða bæði pössuðu ekki Íslandi eða var ekki nægilega framfylgt. Take your pick.
Vil ekki leika við þig meira. Þú ert svo orðljótur.
Friðrik Þór Guðmundsson, 26.1.2009 kl. 22:43
Aðeins meira um hurðaskellinn. Fólk skellir hurðum þegar það missir stjórn á sér. Það nær ekki upp í nef sér fyrir reiði. Eftir hurðakelli kemur oft þögn og með þögninni reyna sumir að stjórna, i.e. "silent treatment". Konur eru þekktari af þeirri stjórnnaraðferð en karlar.
Það var þetta sem ég átti við með Jóhönnu "Hurðaskelli".
Gunnar Th. Gunnarsson, 26.1.2009 kl. 22:50
Ágætu bloggarar, dæmið hvor okkar er orðljótari ! Íslenskan flækist ekki fyrir Friðriki Þór, frænda mínum, við erum sjömenningar. Finally end of story við rökþrota einstakling.
Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 23:08
Gunnar; aðrir skella hurðum á eftir óvelkomnum. Ekki vegna stjórnunarmissi, heldur einmitt til að ná stjórninni af hinum óvelkomna.
Friðrik Þór Guðmundsson, 26.1.2009 kl. 23:51
Sæll Friðrik.
þegar ég sá framan í Geir þegar hann sagði þetta datt mér svona augnablik í hug að hann hefði "TUÐRAÐ" á flokkinn.
Kveðja.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 00:29
Það er reyndar ekki rétt hjá Erni Johnson að okkur bæri skylda til að taka bankalög Evrópusambandsins óbreytt upp við EES samninginn. Flest lönd eru með sínar sérstöku útfærslur á þessum lögum. Reglur Evrópusambandsins eru aðeins viðmiðunarreglur. Norðurlöndin eru t.d. öll með sérsniðnar bankareglur sem passa við sitt umhverfi. Við hins vegar gerðum ekkert slíkt, því miður.
En varðandi hvort Friðrik er með Davíð á heilanum og skrifi óeðlilega margar færslur um hann. Ég var nefnilega að læra á nýjan fídus í stjórnborðinu á blogginu. Kannski þekkið þið þetta, en ef þið smellið þar á færslulista, þá finnið þið á þeirri síðu "leit". Þar er hægt að slá inn t.d. "Davíð Oddsson" og þá koma fram allar þær færslur sem það naf kemur fyrir í.
Af rúmlega 1.300 færslum sem ég hef skrifað, eru aðeins 12 færslur hjá mér um Davíð, og er ég þó mikill aðdáandi hans. Hvað eru þær margar hjá þér, Friðrik?
Gunnar Th. Gunnarsson, 27.1.2009 kl. 01:54
20 færslur með ISG og 23 með SJS
Gunnar Th. Gunnarsson, 27.1.2009 kl. 02:13
Talan 16 kemur upp (0 með gæsalöppum þó) þegar ég slæ inn Davíð Oddsson. þar af 10 í okt til des 2008, fyrstu þrjá mánuði hrunsins. Efni nokkurra þessara 12 lúta bara óbeint að Davíð. Ég byrjaði að blogga í des 2006 og í heilt ár eru engar færslur á lista samkvæmt þessu. Kann ekki að finna hversu margar færslurnar eru orðnar, en þetta er afar lítill hluti heildarinnar, svo mikið er víst.
Slái ég inn Ingibjörg Sólrún koma upp 7 færslur (12 minnir mig ef það er bara Sólrún). Jafn mikið ef ég slæ inn Geir Haarde. Er ekki búinn að prófa meira.
Friðrik Þór Guðmundsson, 27.1.2009 kl. 02:15
Jú, heildin er 489 hjá mér. Á 25-26 mánuðum. Ca. 19 á mánuði að meðaltali. Davíð er þá ígildi um þriggja vikna skorpu af tæplega 110 vikum. 12 af 489 gerir 2.5%.
Friðrik Þór Guðmundsson, 27.1.2009 kl. 02:19
Herrar mínir og frú.
Hafandi í gærkvöldi lesið í gegnum blaðabúnka helgarinnar frá Bretlandi (Times, Observer, Telegraph) er huggulegt að við erum ekki ein í heiminum: í grein eftir grein ganga þar meenn rösklega til verks í greiningu á þeirri Laissez Faire stefnu sem Verkamannaflokkurinn innleiddi í efnahagslíf landsins. Þar var aukning á tekjuöflun bankakerfisins í líkingu við það sem hér gerðist - fjármagnseigendum og fjársýslumönnum voru engin bönd sett. Sama gerðist í Bandaríkjunum. Hugmyndafræðin sem hrökk í gang nánast samhliða falli kommúnismans og hér var fyrst orðuð í Báknið burt, riti ungra frjálshyggjumanna, var vaðandi um allan heim. Smákreppurnar sem skutu upp kollinum hér og þar vöktu víða viðvaranir en á þær var ekkert hlustað. Á eftir Íslandi fór Írland og Bretland er næst (kíkið á vefi breskra fjölmiðla siðustu daga). Því eru menn að heimta að nýjir menn komi inn í eftirlitsstofnanir og allt regluverk verði endurskoðað. Það eru eðlileg viðbrögð í stjórnun - gamlir raftar sem hófu þessa fjármagnsbylgju sem nú er að kaffæra efnahagsveldi á vesturlöndum verða að víkja því þeir trúa enn á guðspjöll fjármagnsins óhefta - og þá skiptir engu þótt þeir heiti Jón eða Jónas. Þeim eru tryggð rífleg eftirlaun. Persónudýrkun íslenskra stjórnmálaflokka og atkvæða er grátleg - og raunar fasísk og andsnúin lýðræði sem nú er heimtað og vonandi fæst - fyrr en síðar.
Páll Baldvin Baldvinsson
Páll Baldvin Baldvinsson (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 11:20
Þakka þér fyrir Páll Baldvin.
Og ég þakka Kristbjörgu líka - held ég.
Friðrik Þór Guðmundsson, 27.1.2009 kl. 11:58
Gunnar. Ég lagðist í smá leitar-leik, eins og þú bentir á, þakka þér fyrir. Fyrir utan þetta með Davíð þá sló ég inn allskyns orðum og ekki veit ég hvort það er vísbending um nokkuð, en þessi orð fengu flest tilvik í öllum færslum:
Fjölmiðlar - 52
RÚV - 36
Breiðavík - 22
Morgunblaðið - 15
Haarde - 15
Hafskip - 14
IMF - 13
Sólrún - 12
Icesave - 11
Darling - 10
Þjóðkirkjan - 9
Tottenham - 8
Líkast til er ég bara með fjölmiðla á heilanum. Skrítið.
Friðrik Þór Guðmundsson, 27.1.2009 kl. 12:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.