Hvað nánar tiltekið fæst með ofbeldi og eyðileggingu?

Miklar umræður sköpuðust við síðustu færslu mína um Kryddsíldarævintýrið við Hótel Borg. Það er gott. Í færslunni var ég almennt að taka undir gildi og nauðsyn mótmælanna, en frábiðja mér ofbeldi og eyðileggingu og taldi þannig óréttmætt að rjúfa viðkomandi dagskrárgerð, enda væri þar verið að spyrja stjórnmálamenn krítískra spurninga.

Það er óbreytt. Ég hef nú horft á mikinn fjölda mynda og lesið ótal frásagnir af atburðunum við Hótel Borg og það hefur ekki breytt grundvallarskoðun minni á því sem fram fór, þótt ég hafi heldur færst nær túlkun mótmælenda hvað ofbeldi af hálfu lögreglunnar varðar. Fæ ekki betur séð en að piparúðaárásin hafi verið hlutfallslega of sterk viðbrögð miðað við aðstæður.

Þetta breytir hins vegar ekki þeirri skoðun minni að hluti mótmælendanna (ég hef sérstaklega nefnt þá sem ég kalla Anarkistana) gekk of langt. Græjur voru skemmdar og saklaust fólk var meitt. Ég tel að þegar slíkt gerist þá sé veruleg hætta á því að mótmælin missi stuðning og ekki er það gott. Innan um heiðvirt og gott fólk sem býr við réttmæta reiði eru einstaklingar sem virðast hafa ofbeldi og skemmdarverk að sínu skærasta leiðarljósi. Það er ekki gott.

En það má vissulega ræða hvaða aðferðir eru líklegar til að opna augu stjórnvalda best og mest. Getur verið að leið hinna svarklæddu og andlitshuldu Anarkista sé einmitt best? Verða bílar og hús að brenna og fólk að lemstrast og deyja? Er það tilfellið? Gott væri að fá upplýsingar um það hvort stjórnvöld hafi einhvers staðar breytt um stefnu vegna róttækra aðgerða og ofbeldis af hálfu þeirra hlutfallslega fáu mótmælenda sem lengst ganga. Er það að gerast í Grikklandi núna? Gerðist það í Frakklandi vegna aðgerðanna í úthverfum Parísar? Er þessi róttæka aðferðarfræði með öðrum orðum einhvers staðar að skila árangri þannig að augu stjórnvalda opnast og stefna þeirra breytist? Eða næst meiri og betri árangur með annarskonar og friðsamlegri aðferðum?

Notabene, ég er ekki að tala um heildstæðar uppreisnir innan þjóðfélaga, byltingar. Hvorki aðgerðirnar hér né t.d. í Grikklandi eru uppreisn eða bylting. Fjarri því. Enginn vafi er á því að mikil reiði er ríkjandi í samfélaginu vegna Hrunsins Mikla og spillingarmála sem tengjast því, en það er langur vegur frá því að þorri þegna landsins vilji umbylta ríkjandi samfélagsskipan. Það vill skipta um fólk, já, en ekki stjórnskipan. Krafan um kosningar er kannski einmitt staðfesting á viljanum til að halda í fulltrúalýðræðið og þingræðið. Eða hvað haldið þið?


mbl.is Gas Gas Gas á gamlársdag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallur Magnússon

100% sammála þér.

Þessi hópur sem skirrist ekki við skemmdarverk og líkamsmeiðingar - með hulin andlit -  skaðar málstað þúsunda heiðarlegra mótmælenda.

Hallur Magnússon, 2.1.2009 kl. 13:27

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mér heyrist að mikill stuðningur myndi vera við breytt kosningafyrirkomulag í anda Vilmundar Gylfasonar - t.d. beint kjör forsætisráðherra, hægt að kjósa fólk þvert á lista o.s.frv. Meiri vafi leikur á stuðningi við hvort landið ætti að vera eitt kjördæmi, en margt mælir með því og sjálfsagt eitthvað á móti. Þetta þarf að ræða.

Það fyrirkomulag og gervilýðræði sem við búum við nú er afbakað og úr sér gengið og kominn tími til að endurnýja ýmislegt sbr. þetta. Ekki síst hugarfar almennings - en það er að gerast og er vonandi til frambúðar.

Lára Hanna Einarsdóttir, 2.1.2009 kl. 13:38

3 Smámynd: AK-72

Ég er nú ekki sammála þér um að flestir vilji óbreytta stjórnskipun kerfisins. Hluti vandamálsins er nefnilega stjórnskipun þar sem ekki er þrískipting valds, heldur er framkvæmdavaldið með alræði, í formi ráðherraræðisins á Alþingi, og skipun dómsvalds er í þeirra höndum. Einnig er markt sem fólk vill breyta innan kerfsiins til að lágmarka spillingu s.s. pólitískar mannaráðningar eftir flokkskírteinum o.fl. sem hefur skilað okkur m.a. ástandinu eins og það er í dag.

En að aðalatriðinu með mótmælinen þú getur lesið mína upplifun af þessu á bloggi mínu, ef þú kærir þig um það. Ég hef verið virkur í þessum mótmælum en ekki verið að hylja andlit mitt eða slíkt og mótmæli friðsamlega. Aftur á móti hafa þeir sem hulið andlit sín, verið að gera það til að vera hluti af hóp en ekki stakar persónur sem hægt er að ráðast gegn, líkt og síendurtekin rúðubrot hjá Evu Hauks sýna. Alhæfing um að þeir sem beri klúta fyrir vit sér, séu ofbeldismenn og annað eftir því er einmitt áróðursbragð sem verið er að beita til þess að reyna að gera alla mótmælendur tortryggilega.

Varðandi ofbeldið, þá er ég sammála því, ég er ekki hrifinn af því og tel það ekki réttlætanlegt hvorki af hálfu lögreglu né mótmælenda. Aftur á móti tel ég friðsamleg mótmæli þó þau séu kannski "ólögleg" að því leyti að þau trufla störf ráðamanna og gera þá vandærðalega, vera betur til þess fallinn að ná árangri EN taka lengri tíma. Ofbeldið leysir ekki neitt en maður skilur þó reiðina á bak við það. 

Aftur á móti er þróunin sú að gremja fólks og pirringur er orðinn að sjóðandi reiði, vegna þess að enginn hefur þurft að sæta ábyrgð né verið tekið á gerendum í þessu hruni. Þegar fólki finnst ekkert vera gert í átt til réttlætis, spillingu og vanhæfni leyft að halda áfram og stjórnvöld ætli sér ekkert að taka á hlutunum, heldur viðhalda sama liðinu við kjötkatlana og tryggja hag þeirra framar hagsmunum almennings, þá byrjar að sjóða upp úr. Svo þegar æ ofan í æ, er gert lítið úr friðsamlegum mótmælum af stjórnvöldum og fjölmiðlum sem þjóna valdinu, þá missir fólk þolinmæðina og hugsar sem svo að fyrst friðsamlegt virkar ekki, þá sé ofbeldi vænlegra til að réttlæti verði fullnægt. Boltinn núna er hjá stjórnvöldum um hvaða þróun þau vilja í þessum málum, vilja þau að hér þróist mál í átt til almennra óeirða eða vilja þau viðurkenna að þau hafi breytt rangt og axla ábyrgð með aðgerðum gegn aðalglæpamönnunum, vanhæfa liðinu og með eigin afsögnum, og leggja þar með af stað út á þá braut að ró skapist í samfélaginu?

AK-72, 2.1.2009 kl. 13:43

4 identicon

Ef unga fólkið á að borgar skuldir þeirra sem eru eldri þá er rétt að unga fólkið taki við stjórn landsins. Það er réttur sem ungt fólk mun sækja með góðu eða illu.

Arnþór (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 13:49

5 identicon

Eyðilegging er forsenda uppbyggingar... meira að segja þú ert "afleiðing" eyðileggingar á stjörnu einhversstaðar úti í alheiminum ;)

Fyrir mér er tími friðsamra mótmæla liðin.. þau hafa ekki virkað, allt er við það sama og það var... and hence we must fight.

DoctorE (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 14:17

6 identicon

Þetta er gott hjá þér Friðrik en ég er að því að notkun piparúðans var nauðsynleg. Hvers vegna þarf fólk að vera vopnað með hulið fyrir andlit sín í mótmælum á Íslandi? Þvílíkur skríll.

Það er alltaf jafn aumt að sjá menn eða konur á blogginu að að tala fyrir ofbeldi undir nafnleysi, "tími friðsamra mótmæla er liðinn".  Já þvílík hetja eða þannig. Heldur viðkomandi að borgarastríð og öryggisleysi sé eitthver leikur?  

Gísli Tryggvason (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 14:39

7 identicon

Þeir og þær sem fara með hulin andlit til þess eins að valda eignaspjöllum í góðu andófi hafa unnið það afreka að draga athyglina frá kjarna málsins.

Spyrja má:  Á hverra vegum eru þessir kjarklausu skemmdarvargar ?

101 (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 16:54

8 identicon

Sammála þér að öllu leiti, nema því að þorrinn vill held ég breitt stjórnskipulag. Og þá eitthvað í líkingu við það sem Lára Hanna nefnir. Eðlilegast að þjóðin fái að kjósa um það.

Það þjónar bara anarkistum skrílslætin sem urðu við innbrotið inn á Hótel Borg.

Þarna var fullt hótel af fólki, sumir með börn, útlendingar sem íslendingar. Þessi óábyrgi hópur setti sig skörinni lægra en stjórnin og úrásar þjófarnir. Þeir gerðust glæponar sjálfir gegn saklausum borgurum. Vopnaðir sumir hverjir með blysum og jafnvel hnífum. Ekki hefði mikið mátt útaf bera til að Borginni hefði verið rústað.

Þetta er ekki rétti vettvangurinn fyrir svona mótmæli.  Skemmdir á eigum saklausra borgara og ofbeldi gegn þeim skemmir eingöngu málstaðinn. Mótmælin fyrir utan voru alveg nóg.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 17:03

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Enn hefur enginn treyst sér til að tjá sig um það, hvort ofbeldiskenndar aðferðir róttækustu aktífistanna séu líklegar (eða líklegri en aðrar aðferðir) til að skila árangri eða hrinda fram breytingum/umbótum. Til dæmis bílaíkveikjur í Grikklandi nú eða fyrr í úthverfum Parísar.

Þessi aðferðarfræði hérlendis virðist breyta því helst að gera hófstillt fólk fráhverft mótmælaaðgerðum. DocktorE segir að tími friðsamra mótmæla sé liðinn - en er það svo? Er þá tími ofbeldis og eyðileggingar runninn upp? Á að fara í stjórnarráðið og þinghúsið og lemstra og jafnvel drepa ráðamenn? Kveikja í byggingunum? 

Nefndar eru góðar hugmyndir um breytta stjórnarskipan, t.d. persónukjör og beint kjör framkvæmdavaldsins, afnám klíkuskapar og fleira - og eru það góðar hugmyndir og mér að skapi. En eru einhver samtök að halda þessum hugmyndum á lofti?

Splunkuný Gallup-könnun er umhugsunarverð. Fylgið virðist vera að þokast til hægri á ný; Sjálfstæðisflokkurinn að styrkjast en VG og Samfylking að dala dulítið. Það er ekki til marks um vaxandi fylgi við uppstokkun nema síður sé.

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.1.2009 kl. 17:39

10 Smámynd: Svava S. Steinars

Ofbeldi og eyðilegging hefur aldrei skilað neinum árangri og slíkar aðferðir eru aldrei afsakanlegar, hversu illa sem stjórnvöld hafa komið fram.  Það eina sem slíkt tryggir er að saklausir lenda illa í því eins og gerst hefur hér.  Gandhi náði sínum málstað fram án ofbeldis og hlaut alheimsfrægð fyrir.  Fólk ætti að taka hann sér til fyrirmyndar.

Svava S. Steinars, 2.1.2009 kl. 18:05

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég get ekki tekið undir að ofbeldi hafi ALDREI skilað árangri. Byltingar gegn harðsvíruðum einræðisríkjum, þar sem alþýðan hefur sannarlega verið á bandi "mótmælenda" hafa þannig skilað óumdeildum árangri. Rússneska byltingin skilaði árangri, hvað sem um eftirleikinn má segja í höndum Stalínista og slíkra kóna.

Lykilorðið hér er samstaða alþýðunnar - almennings, fjöldans. Fyrir tæpum hundrað árum byrjaði alþýðan að skipuleggja sig gegn auðvaldinu. Sterkasta vopnið var verkföll og nýjar pólitískar hreyfingar. Þótt mikið hafi gengið á í verkföllum og öðrum aðgerðum var fátítt að tilgangslausu ofbeldi og eyðileggingu væri beitt. Mestu umbótum Íslandssögu síðustu 100 ára hefur verið náð með tiltölulega friðsömum en einörðum, markvissum og beinskeyttum aðgerðum. Mér finnst ekkert benda til þess að tími þeirrar formúlu sé liðinn. 

Mér finnst aðallega vanta hugmyndaauðgi, auk þess sem mér finnst samtök alþýðunnar gjörsamlega vera að bregðast.

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.1.2009 kl. 18:29

12 identicon

Ofbeldi er einungis réttlætanlegt þegar að aðrar aðferðir bregðast með öllu.

Það eru vel færar leiðir fyrir hvern sem er að koma sjónarmiðum og kröfum á framfæri og eru þessar aðgerðir því ekki til bóta heldur trufla nauðsynlegar umræður sem þurfa að fara fram.

sandkassi (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 18:49

13 Smámynd: Héðinn Björnsson

Ghandi og hans fylgismenn leituðu sérstaklega eftir því að láta beita sig ofbeldi með því að óhlýðnast stjórnvöldum og þannig grafa undan réttmæti þeirra í augum almennings. Það voru alls ekki frisöm mótmæli en þau gættu þess að beita ekki ofbeldi, ekki einu sinni í sjálfsvörn. Sú aðferð kostaði þúsundir manna lífið og tók fleiri áratugi en skilaði vissulega árangri.

Annað dæmi er t.d. Suður Afríka þar sem spilaði saman skræuliðahreyfingar, ófriðsamleg mótmæli og friðsamleg mótmæli. Það tók um 50 ár en skilaði vissulega á endanum árangri en þá ekki síst vegna þess að yfirstéttin beið beinlínis hernaðarlegan ósigur í Angóla.

Á Christianíu var búsetan og samfélagstilraunirnar þar varðar með takmörkuðu valdi og skilaði það þeim þann árangur að samfélagið þeirra fékk frið í nokkra áratugi en hefur á undanförnum árum aftur átt undir högg að sækja.

Það sem þessar baráttur eiga sameiginlegt er að það var klárt markmið sem allir voru að berjast að og baráttuaðferðirnar stóðu í réttuhlutfalli við kröfurnurnar. Hér á Íslandi vanntað samhengi milli krafna og aðferða. Kröfur um kosningar eru ekki kröfur sem ríkisstjórnin getur orðið við nema við að gefa frá sér vald sitt og þarf því að gera landið óstjórnhæft ef ná á þeirri kröfu fram. Krafan um afnám verðtryggingarinnar er aftur á móti eitthvað sem hægt er að semja er um við ríkisstjórnina um og því eitthvað sem hægt er að ná fram með kröfugerðum og bænaskrám. Meðan að krafan er valdaskifti er ekki hægt að ná því fram nema með því að gera valdhöfum ómögulegt að stjórna landinu.

Héðinn Björnsson, 2.1.2009 kl. 19:49

14 identicon

Því miður hefur það sýnt sig að friðsamleg mótmæli hafa engu skilað nema viðtölum við þingmenn sem allir skilja viðhorf mótmælenda sýna þeim fullan skilning og eru sammála því að einhverju þurfi að breyta.  Mótmælin eru svo gleymd um leið og þeim lýkur og ríkisvaldið heldur áfram að misnota vald sitt og traðka á almenningi.

Það eina sem virðist duga til að ná athygli misviturra valdsmanna eru hávaði og læti og þegar á lýður ofbeldi sem á eftir að magnast eftir því sem betur kemur í ljós hversu nákvæmlega sama stjórnmálamönnum  þessa lands er um almenning.

Maron Bergmann (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 21:15

15 identicon

Við mótmælin hafa þessir komið út úr skápnum til að standa vörð um Svörtuloft.


101 (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 21:50

16 Smámynd: Snorri Sturluson

Þakka þér fyrir málefnalega umræðu Friðrik.

Ég er á því að ofbeldi og spjöll á eignum séu örþrifaráð. Þau eiga ekki rétt á sér í ástandinu á Íslandi í dag. Hvort sem þau koma frá þeim sem eru að mótmæla ríkisstjórninni eða frá þeim sem eru á móti mótmælum (sem er auðvitað þversögn í sjálfu sér).

Það er dapurlegt að vita til þess ef að fámennur hópur, með látum og ofbeldi, skuli vera að koma illu orði á þau víðtæku mótmæli sem eiga sér stað í lýðræðinu Íslandi. Þetta er áreiðanlega búið að koma fram hér á þessum þræði eða þeim síðasta sem þú birtir, vildi bara leggja orð í belg.

Snorri Sturluson

Brooklyn, NY

Snorri Sturluson, 2.1.2009 kl. 22:00

17 Smámynd: Snorri Sturluson

ps. langaði bara að benda á að með því að kenna ofbeldismenn við anarkisma er verið að hamra á misskilningi sem á sér aldalangar rætur. Ef að fólk nennir að kynna sér rit anarkista í gegnum tíðina er auðvelt að sjá að ofbeldi er ekki hluti af heimspeki anarkismans.

Ég er ekkert að beina þessu sérstaklega að þér Friðrik, það er miklu frekar að unglingar sem eru reiðir dubbi sig upp sem anarkista og halda að þeir eigi að búa til bensínsprengjur, vera með klúta fyrir andlitinu og hafa dolitla mystík í kringum sig. Það er bara mýta og misskilningur og hefur kastað illu orði á þessa heimspeki og stjórnmálastefnu í margar aldir.

Þeir sem vilja vita meira um anarkisma ættu ekki að vera í vandræðum með að finna efni á hinu anarkíska interneti, hér er td. ágætur staður til að byrja:

http://en.wikipedia.org/wiki/Anarchism

Snorri Sturluson

Brooklyn, NY

Snorri Sturluson, 2.1.2009 kl. 22:08

18 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Þakka fyrir þínar vangaveltur um einmitt þetta: yfirtöku fámenns feluhóps sem vill dyljast undir hettunni - eins og hverjir aðrir hryðjuverkamann  - á þeim mótmælum sem allur almenningur á rétt til að fylkja sér um.  Mjög margir vilja finna farveg til að láta í ljós vonbrigði sín, reiði og eftir atvikum fyrirlitningu - - en hefur meirí áhuga á að kalla fram bráðar aðgerðir og jákvæðar mannabreytingar í allri framlínu.  T.d. hafa opinber mótmæli á vinsælum bloggsíðum þegar leitt til þess að mínu mati að fráleitir gjörningar gömlu bankanna til að færa eignir til sömu "fjáraflamannanna" -

 - hef bloggað um hettuklædd mótmæli á mínu svæði´: http://blogg.visir.is/bensi/2009/01/01/hettukl%c3%a6ttir-hry%c3%b0juverkamenn-spilla-malsta%c3%b0-almennings/

 http://blogg.visir.is/bensi

Benedikt Sigurðarson, 2.1.2009 kl. 22:26

19 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Athygli.

það er það sem næst með ofbeldi og eyðileggingu. Því miður er það svo að pen og settleg mótmæli hafa ekki mjög mikið að segja. En ef þú getur fangað athyglina og snúið henni um þinn málstað þá ferð þú að ráða hvernig hjólin snúast. 

það er alveg sama hvað sæt og krútleg mótmæli þú hefur í frammi, þau hrífa ekki. mótmæli verða að fela í sér einhverja ógnun til að hafa áhrif. Ég held ekki að það stöðvi herská stjórnvöld að fara í stríð þó það séu kertafleytingar og friðarsamkomur.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 3.1.2009 kl. 00:54

20 identicon

Kannski var verið að spyrja krítískra spurninga, þó Sigmundur sé nú frekar ótrúverðugur rassasleikir, þá voru engar líkur á svörum við þessum spurningum frá fólkinu á staðnum.  Þessi þáttur átti engan rétt á sér og var lítið skilið eftir af trúverðugleika fréttastofunnar eftir fréttir af þessum mótmælum.

Einar (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 02:13

21 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ég var þarna og tók talsvert af myndum - og í annan tíma hef ég ekki séð meiru logið í fréttaflutningi en hjá Stöð 2 af þessum atburðum.

- Menn geta spurt sig hvers vegna og líklegast finnst mér er að Stöð2 hafi ætlað að fá aukið áhorf útá mótmælin ferkar en að gera réttar ráðstafanir þegar fréttir voru birtar á Visir.is  a.mk. sólarhring fyrr um áformin og að tilgangurin væri að stöðva eða trufla útsendinguna.

Sjá bloggið mitt hér

Helgi Jóhann Hauksson, 3.1.2009 kl. 03:24

22 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

"Ég segi samt eins og fyrr, einbeitið ykkur frekar að glæpamönnunum sem voru í bönkunum!

…..Það spreyjuðu reyndar einhver á hús Jón Ásgeirs en það voru einhverjir stenclar en ég vil sjá það útkrotað, rúður brotnar og rænt".

http://aftaka.org/2009/01/02/frasogn-fra-hotel-borg/

Rænt! Viðkomandi kommentar á aftaka.org (nafngiftin maður!) er aðeins hænufeti frá því að bæta við "drepum".

Eins mikla ímugust og ég hef á "Hvítliðunum" úr Seðlabankanum (Svörtuhöllum), hagfræðingnum og lækninum (þ.e. gjörðum þeirra og orðum við Borgina) þá get ég ekki séð að sumir hinum megin séu "saklausir". Meira um "Hvítliðana" seinna meir.

Ég hef skoðað margar myndir félagi Helgi, þínar fínu myndir líka. Engar þeirra breyta þeirri skoðun minni að fámennur hópur róttækustu mótmælendanna setti ljótan blett á aðgerðirnar (og ég árétta: löggan virðist hafa brugðist hlutfallslega of hart við, eins og sagt er um aðgerðir Ísraelsmanna).

Og ég frábið mér að akkúrat þessir einstaklingar, svartklæddu andlitshuldu Anarkistarnir (þeir kalla sig svo) taki fyrir mig þá ákvörðun að stöðva útsendingu Kryddsíldarinnar með "illu" og með þeim fátæklegu rökum að þar væri "kjaftæði" á ferðinni. Hvað næst? Kastljós? Hrafnaþing? Vikulokin? Brenna bækur?

Að því sögðu, þetta: Sigmundur og félagar áttu ekki að hafa Kryddsíldina þarna. Áttu að hverfa frá þeirri venju að hafa settið sem "veisluborð" og umræðan átti alls ekki að vera í boði Rio Tinto Alcan. Góða nótt.

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.1.2009 kl. 04:15

23 identicon

Í Alvöru?! Ef eitthvað á að breytast á Íslandi, hjálpar ofbeldi?

Sjáið þið sem hentuð steinum að amma ykkar og afi eða mamma og pabbi finni ljósið og sannfærist um að núna sé tími kominn til breytinga?

 Á tíma ljósvaka og internets, af hverju haldið þið að grjótkast hjálpi?

Hver eruð þið yfirhöfuð?!

Káta

Káta (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 05:46

24 Smámynd: Konráð Ragnarsson

Eigum við ekki frekar að tala um mótmæli gegn hefðbundnum forpokuðum þætti þar sem raunveruleiki er afbakaður af fjölmiðlum með auglýsingartekjur bókaðar fram í tímann af fjórum flokkum sem lofa bót og betrun  i næstum kosningum!

Konráð Ragnarsson, 3.1.2009 kl. 08:36

25 identicon

Róttæk mótmæli taka við þar sem friðsöm bera ekki árangur. Þetta er bara í mannlegu eðli, svona er þetta. Þetta voru friðsöm mótmæli á gamlársdag hvað sem hver segir. Þeir sem létu ófriðlega voru lögreglan og starfsmenn Baugs. Jú og hagfræðingur seðlabankans og svæfingarlæknir af lansanum, ekki má gleyma þeim. Ég var þarna, ég sá þetta allt saman. Ég er friðsemdarmaður að eðlisfari en að sjá gamla menn vera lamda í hausinn og ungt fólk tekið hálstaki og eiturúðað í andlitið fyrir það eitt að syngja baráttusöngva og lemja rúður breytir öllu. Þá tekur reiðin við. Reiðin yfir óréttlætinu við þetta allt saman. Hér eftir ætla ég að mæta í öll þau mótmæli sem verða boðuð. Ég ætla að mótmæla friðsamlega en ef ég er beittur óréttlæti og það á að þagga niður í mér þá áskil ég mér þann rétt minn að taka á móti.

Alfons (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 11:14

26 identicon

Þetta er á margan hátt frjó umræða og erfitt að réttlæta atburðarrásina á báða bóga eins og hún birtist mért.  Ég held hins vegar að við komums afar skammt með gífuryrðum og með því að ræða um skemmdarverk og skríl.

Við vitum af reynslu annarra þjóða að ungt fólk og einkum ungir karlmenn verða verst úti i kreppu og atvinnuleysi, auk þess að vera sá hópur sem er líklegastur til að lára reiðina ráða viðbrögðum sínum.  Við vitum líka af fréttum hvert það getur leitt.

Á skal að ósi stemma.  Það þarf að efla upplýsingagjöf frá stjórnvöldum um stöðuna og hvað er framundan.  Sannleikurinn gerir mann frjálsan!

Stefán J Hreiðarssons (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 11:57

27 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Kannski er þetta spurningin um hvenær eitthvað telst ekki lengur friðsamt. Það felst ekki ofbeldi og eyðilegging í því að "láta ófriðlega" og vera með hávaða og læti. Það er í sjálfu sér ekkert ófriðsamlegt við að ögra löggunni með því að gefa henni miðfingurinn og kalla hana öllum illum nöfnum.

En hvorki Alfons né aðrir geta haldið því fram að það hafi verið friðsamlegt að ryðjast inn í Hótel Borg óboðnir og gegn ósk um að gera það ekki og stugga fólki til og frá í því skyni að komast inn í annarra manna hús.  Það var, hvað sem öðru líður, ekki friðsamt.

Ég einfaldlega tek því ekki sem gildum rökum að það hafi þurft að eyðileggja og meiða af því að það var svo nauðsynlegt að stöðva tiltekna sjónvarpsútsendingu, af því að þar var um "kjaftæði" að ræða.  Að halda slíku fram er öllu heldur kjaftæði. Það var enda miklu meiri "fengur" í því að horfaá ráðherra engjast og reyna að segja eitthvað af viti undir höggum og hávaða. Gróðinn við Kryddsíldina var að sjá óttann í augum ráðherrans og geta ímyndað sér að ráðherra væri kannski loks að vakna til meðvitundar um að fólki væri alvara.

En svo var þetta eyðilagt með rofi á útsendingunni, skemmdarverkum og meiðingum. Ég fékk ekki að sjá og heyra óttasleginn ráðherrann reyna að glíma við krítískar spurningar meðan alþýðan öskraði fyrir utan. Ég var sviptur þessu.

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.1.2009 kl. 12:02

28 identicon

Það er leiðinlegt að þú skildir ekki ná að horfa á Síldina til enda. Þú hefðir hvort sem er ekki náð að heyra í alþýðunni í bakgrunni þar sem það var verið að þagga niður í henni með dreifingu eiturgass. Það var verið að svipta henni réttinum til að láta í sér heyra. Ég veit ekki hverjir það voru sem klipptu á snúrurnar en miðað við ástandið á þeim tíma þá tel ég það rétta ákvörðun. Ég las í morgun pistil frá þátttakanda átakanna sem er á launaskrá hjá Baugi. Hann lýsir atburðarrásinni ýtarlega og þar er ekki talað um stórfelldar líkamsmeiðingar heldur um hrindingar og pústra. Hann reyndar gerir þau mistök að líkja sér og sínum við góðlátlega Hobbita og okkur hinum við hina ljótu og illu Orka. Í mínum huga er hann dyravörður við hringborðsumræður hins illa þar sem Baugurinn eini hefur rænt þá sem fara með völdin öllu viti. Ég hef reyndar heyrt útundan mér að tjón það sem um ræðir á tækjabúnaði sé ekki mikið, tjónið sé aðallega í töpuðum auglýsingakostnaði. Ég segi nú bara; farið hefur fé betra. Segðu mér nú síðan alveg satt; Heldur þú að að eitthvað vitrænt hafi getað komið uppúr þeim stjórnmálamönnum sem vínið og síldina löptu?

Alfons (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 20:30

29 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Heldur þú að að eitthvað vitrænt hafi getað komið uppúr þeim stjórnmálamönnum sem vínið og síldina löptu?

Þetta er góð og gild spurning, en erfitt er að svara henni. Fyrsta skrefið er að spyrja gagnrýninna spurninga. Ef svarað er með kjaftæði og innihaldsleysi á að spyrja aftur og fastar. Við skulum segja að ekki hafi verð mjög líklegt að sérlega innihaldsrík svör hefðu fengist hjá ráðamanninum og ekki hleyptu menn Geira Smart að síldarborðinu.

En þetta hefði þó fengist ef aðgerðir hefðu takmarkast á ákveðnu stigi: Ráðamenn með óttann í augunum í erfiðleikum með að fara með þulu sína undir högghljóðum og slagorðahrópum annars friðsamra mótmælenda hinum megin við vegginn. Ég sá óttann og efann í augunum, Alfons, en svo var slökkt á útsendingunni. 

Pældu í þessu, Alfons; Kannski hefði Sigmundur Ernir getað nýtt sér óttann og efann í ráðamanninum til að fá fram í beinni útsendingu óafturkræfa yfirlýsingu... en þá var slökkt á útsendingunni.

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.1.2009 kl. 21:04

30 identicon

Friðrik: Svona í framhaldi af svari þínu til Alfons þar sem þú telur þig hafa verið hlunnfarinn af því að sjá ráherrann og síðan hina stjórnmálaforingjana engjast af því þú fékkst ekki að horfa á sjónvarpið er eiginlega grátbroslegt í mínum skynfærum.

Þú fjölmiðlamaðurinn sjálfur og kvikgjörðarmaður hinn mesti ættir að hugsa hvað við hin, sem aldrei höfum unnið á akri fjölmiðlanna, höfum verið svipt af eigum okkar og að sjá á eftir unga fólkinu burt af skerinu. Ég t.d. verð svipt nærveru barna minna og barnabarna innan skamms tíma þar sem þau voru þau svakalegu glæpamenn að skulda af húsnæði sínum og námslánum! - í bönkum útrásar-asnanna sem meðal annars reyndu að bjóða okkur upp á ansi hreint súra Kryddsíld og það í boði Rio Tinto.

Ég segi nei takk - Kryddsíld við þessar aðstæður voru ekkert en ósómi, viðbjóður og ofbeldi.

Guggan (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 23:13

31 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Kvikgjörðarmaður? Mér þætti vænt um að vita hvað það orð þýðir. Þetta orð hefur alveg farið framhjá mér.

En Guggan; Ég hef hér á bloggi mínu farið mörgum og hörðum orðum um hvað ríkjandi öfl, pólitísk ráðaöfl og viðskiptaleg, hafa gert okkur, bæði núverandi og komandi kynslóðum. Hef raunar hvergi slegið slöku við. En allt í lagi, þú sjálfsagt hefur ekki fylgst með bloggi mínu og ert bara fyrst og fremst að mótmæla þessari stöku færslu.

Í því sambandi fæ ég aftur á móti engan veginn skilið hvernig mín löngun til að fylgjast með Kryddsíldinni gerir mig skilningsvana á gjörðir fyrrnefndra ríkjandi afla. Sjálfur hef ég lagt þann skilning í færslur mínar (!!) almennt og líka þessa að ég hafi einmitt viljað sjá ráðamenn grillaða um gjörðir og ekki-gjörðir. Svara fyrir um einmitt það sem þú nefnir. Ég vildi hlusta á óttaþrungin svörin, þú vildir slökkva - en ég afneita að munurinn felist í skilningsleysi mínu á það sem þú nefnir.

Myndi gjarnan vilja tala meira við þig hér, en vil ólmur fá að vita hvað kvikgjörðarmaður merkir.

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.1.2009 kl. 23:30

32 identicon

Kvikgjörðarmaður er sá sem kvikur gerir.

Getur líka á við þá sem kvikir eru og fullir af lífi :>

Takk fyrir að bjóða mér inn á bloggið aftur. Þigg það með þökkum og afsakaðu innbrotið hér ofar. Já, það er svo sannarlega í mörg horn að líta þessa dagana en þitt horn hér er áhugavert og ég mun lesa mig aftur í tímann þinn.

Saman sigrum við - en þá verður þú líka að mæta í friðsöm mótmæli eins og við fleiri (Byltingin bloggar sig nefnilega ekki sjálf) og hætta að vera að væla þetta um þessar meintu skemmdir og þessar „voðalegu aðferðir“ þeirra mótmælenda sem Eyþór Árna fór í hverfabardaga við á gamlársdag.

Skoðaðu endilega léttlynda en þó ansi svart-hvíta gein sviðstjóra Stöðvar 2 hér: http://eythora.blog.is/blog/eythora/entry/760736/#comment2071336

Þetta er bara væll í fjölmiðlungum Friðrik.

PS. Þú þekkir orðið fjölmiðlungur er þakki?

- það er svona svipað og miðlungmaðurinn Sigmundur Ernir sýndi af sér í geislanum sem sást á skjánum hjá þér á gamlársdag :>

Guggan (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 23:51

33 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Að gera kvikur? Ég er engu nær. Vertu svo væn/n að útskýra þetta þannig að það skiljist.

Verð ég að mæta á mótmælafundi? Ja, ég mætti í dag. En þú ert ekki búin að lesa "aftur í tímann" svo þú veist það auðvitað ekki.

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.1.2009 kl. 23:59

34 Smámynd: Héðinn Björnsson

No justice - No peace. Þeim mun fyr sem ráðamenn þessa lands gera sér grein fyrir því þeim mun minni og styttri verða þau átök sem eru framundan. Ætli ráðamenn þessa lands að halda áfram að breiða yfir spillinguna og endurstarta partýinu, sé ég ekki að komið verði í veg fyrir borgarastríð í landi voru :-(

Héðinn Björnsson, 4.1.2009 kl. 01:10

35 identicon

Ég er ekki sammála þér þarna Friðrik. Í fyrsta lagi tel ég engar líkur á því að Sigmundur Ernir hefði spurt einhvers af viti né fengið gild svör. Eins hefðu hlustendur aldrei heyrt í alþýðunni fyrir utan vegna þess að búið hefði verið að þagga niður í henni. En þetta var ég búinn að segja þér.

Frá mínum sjónarhóli er þeirra tími runninn á enda. Hér verða að komast á breytingar nú þegar. Við höfum einfaldlega ekki tíma til að bíða lengur þolinmóð og láta ljúga í okkur áfram. Hlutirnir þola enga bið heldur verður að hleypa nýju fólki að nú þegar til að taka til björgunarstarfa. Ef ekki finnast hæfir aðila hér á landi, nú þá verður einfaldlega að leita út fyrir landsteinanna.

Ég fór á mótmælafundinn í gær, eins og þú, og var ánægður með hluta þeirra. Mér finnst ekki rétt að láta barn ganga fyrir skjöldu í mótmælunum. Ræðan hjá henni var reyndar góð og maður ósjálfrátt hreyfst með en ég var með óbragð í munninum á eftir. Afleikur hjá Herði þarna fannst mér. Eins var það afkáralegt hjá honum að fara að munnhöggvast við hluta mótmælanda. Bíddu nú aldeilis við… eru þetta hans mótmæli? „Ritskoðar“ hann mótmælendur? Vill hann vita hverjir það eru sem eru í hans mótmælum? Þetta fannst mér fráleitt og þarna gerði hann reginmistök að mér finnst. Fyrir mína parta er mér sama þótt fólk sé með dulur fyrir andlitinu, fólk kýs alþingismenn og forseta leynilegri kosningu og það hefur rétt á því að mótmæla á þann hátt sem það kýs. Það kom nefnilega berlega í ljós þarna á gamlárskvöld hvaðan „skríllinn“ kom. Hann kom skríðandi úr seðlabanka vorum.

Einu hugleysingjarnir fyrir mér eru þeir sem ekkert gera. Þeir sitja heima og finnst óþægilegt þegar þeir eru minntir á að landið okkar stendur í björtu báli. Eina sem þeir hafa til málanna að leggja er óhróður og skítkast yfir þá sem þó klóra í bakkann.

Alfons (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 11:56

36 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Alfons; við erum báðir reiðir, vorum báðir á mótmælafundinum, erum báðir hneykslaðir á rifrildi Harðar við ótiltekna fundarmenn og báðir tvístígandi yfir réttmæti þess að barn flytji þarna ræðu (hversu góð sem hún var), við erum báðir hneykslaðir á Seðlabankasendingunni. Ég er nokkuð sáttur, í ljósi þessa, við að við séum ósammála um hvort það átti að rjúfa Kryddsíldina eða ekki.

Ég tek líka undir með þér Héðinn og hef nefnt hið sama; það er eins gott að stjórnvöld fari að skynja hina vaxandi reiði og hættuna sem stafar af því að gera ekki sitthvað áþreifanlegt fyrir alþýðu þessa lands.

Friðrik Þór Guðmundsson, 4.1.2009 kl. 13:26

37 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þetta er ágæt ábending, en ég tók einmitt fram að ég ætti ekki við uppreisnir (fyrri ára og alda) til umbyltingar samfélagsgerðinni. Gúttó-slagurinn gerðist á tímabili þar sem verkalýðurinn var að vakna til vitundar um eigin kjör og stöðu, hann var nánast réttlaus og lifði þrælalífi. Ég jafna ekki saman kjörunum nú, þótt skert sé, við það sem þá var ríkjandi og full þörf var á að umbylta.

Friðrik Þór Guðmundsson, 9.1.2009 kl. 18:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband