Baráttukveðjur til RÚV-ara

 

Ég sendi starfsmönnum RÚV hér með mínar heitustu baráttukveðjur vegna enn einnar uppsagnahrinunnar. Mér sýnist ljóst að allt of langt hafi að undanförnu verið gengið við niðurskurð og sparnað og að það muni verulega skerða getu fjölmiðilsins til að ástunda frétta- og dagskrárgerð. Einmitt þegar við þurfum hvað mest á öflugum fréttum og fréttatengdu efni að halda.

Ég nefni þetta með í huga að ekki er um einangraða uppsagnahrinu að ræða, heldur hafa niðurskurðar- og sparnaðaraðgerðir staðið yfir allt frá því fyrir ohf-væðingu. Mjög margir reyndir frétta- og dagskrárgerðarmenn eru horfnir af vettvangi og ljóst að fækkunin nú gerir það enn erfiðara en áður að standa undir væntingum um öfluga, sjálfstæða og óháða upplýsingagjöf til almennings. Þess utan hanga yfir höfðum manna óljós orð um frekari aðgerðir og undir þeim kringumstæðum liggur eins og mara á starfsfólkinu óttinn um atvinnuöryggið og þar með leggst á fólkið af vaxandi þunga sjálfsritskoðun og meðvirkni.

Þetta er afleitt ástand. Þótt við því sé að búast að RÚV þurfi að mæta versnandi árferði þá hygg ég að aðgerðir séu komnar langt upp fyrir það sem eðlilegt getur talist miðað við lögbundið hlutverk þessa fjölmiðils í almannaeigu. Tal um afnám afnotagjalds og brotthvarf RÚV af auglýsingamarkaði leggur þeim mun meiri skyldur á herðar stjórnvalda um að tryggja fjölmiðlinum í almannaeigu næg fjárframlög til sómasamlegs rekstrar.


mbl.is Starfsmenn Rúv boða til funda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Af Eyjunni:

Svohljóðandi ályktun hefur Eyjunni borist frá Félagi fréttamanna á Ríkisútvarpinu:

Almennur fundur Félags fréttamanna fordæmir uppsagnir á fréttasviði Ríkisútvarpsins um mánaðamótin. Fundurinn krefst þess að uppsagnirnar verði dregnar til baka. Nú, þegar aldrei hefur verið nauðsynlegra að halda úti öflugri fréttaþjónustu er ráðist að grunnstarfsemi- og lögbundnum skyldum Ríkisútvarpsins með uppsögnum. Fundurinn harmar skilningsleysi útvarpsstjóra á hlutverki RÚV og afþakkar framvegis fréttalestur hans. Þá er þess krafist að hætt verði við áform um að leggja niður svæðisútsendingar Ríkisútvarpsins. Fundurinn hafnar alfarið boðuðum launalækkunum almennra starfsmanna undir hótun um brottrekstur.

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.12.2008 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband