Póstar fyrir stjórnvöld að skera niður...

 

Ég er alveg viss um það að aðgerðir stjórnvalda "í því skyni að koma fyrirtækjum landsins til hjálpar" muni reynast mörgum pilsfaldakapítalistanum góðar og ég hef satt að segja miklu meiri áhyggjur af niðurskurðarplönum ríkisstjórnarinnar. Ætlunin virðist vera að skera niður flatt um 10% (nema Jóhanna blessunin segir NEI), en ég er einn þeirra sem vill frekar forgangsraða og skera duglega niður í ýmsum gælu- og fyrirgreiðsluverkefnum.

Í því sambandi langar mig til að rifja upp sparnaðartillögur mínar, sem ég setti fram í júlí sl., löngu fyrir Hrunið Mikla. Svona var færslan og er hún enn í góðu gildi:

Fjárlög ársins í ár gera ráð fyrir 434 milljarða króna ríkisútgjöldum. Á sama tíma er ljóst að efnahagslegur samdráttur er að hellast yfir landsmenn. Svo er að sjá að yfirvöld finni helst sparnaðarleiðir í velferðarmálum (sbr. spítalar) og öryggismálum (sbr. lögregla og landhelgisgæsla). Mig langar að beina augum yfirvalda að öðrum sparnaðarpóstum.

Fyrir það fyrsta legg ég til að útgjöld til trúmála verði skorin niður um þó ekki væri nema 20-30 prósent; mest hjá Þjóðkirkjunni vegna forréttinda hennar, en minna hjá öðrum trúfélögum og til Háskólasjóðs (þangað sem renna sóknargjöld fólks utan trúflokka). Í alla þessa pósta eiga í ár að renna 4.650 milljónir króna (liðlega 4.6 milljarðar). Tökum 1.2 milljarða af þessu og setjum helminginn í spítalana en spörum restina. Skerum Þjóðkirkjufjárlög, sóknargjöld, Jöfnunarsjóð sókna, Kirkjumálasjóð, kristnisjóð og slíka pósta um allt að 30%. Ég er notabene ekki á móti fjárveitingum til trúfélaga, en fórnarlundin á að segja til sín í kreppunni og þessi óeiginlega tvö- til þrefalda tíund mætti gjarnan frekar renna til velferðarmála; stytta biðlista og borga birgjum heilbrigðisstofnana til að spara vanskila- og dráttarvexti.

Skerum Alþingisútgjöld um 10% - þar fást 245 milljónir. Skerum "Varnarmál" um 20% - þar fást 106 milljónir. Skerum sendiráð um 20% - þar fást 384 milljónir. Skerum "greiðslur vegna mjólkurframleiðslu" niður um 10% - þar fást 500 milljónir. Skerum "greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu" um 10% - þar fást 365 milljónir. 50 milljónir í viðbót vegna Bændasamtaka Íslands. Skerum "styrki vegna stjórnmálasamtaka" niður um 20% - þar fást 74 milljónir. Skerum niður "landkynningarskrifstofur erlendis" um 50% - þar fást 82 milljónir. Skerum niður "markaðssókn í íslenska ferðaþjónustu" um 50% - þar fást 15 milljónir. Skerum niður" markaðssókn Íslands í Norður-Ameríku" um 50% - þar fást 24 milljónir.

Skerum niður skúffufé ráðherranna og ríkisstjórnarinnar um 65-70%; þar fást 60 milljónir vegna ráðherranna og 125 milljónir vegna ríkisstjórnarinnar.

Endurskoðum útgjöld eins og: Ritun biskupasögu (14 milljónir), útboðs- og einkavæðingaverkefni (15 milljónir), ráðgjöf vegna breytinga í heilbrigðis- og tryggingamálum (30 milljónir), viðhald stafkirkju í Vestmannaeyjum (3 milljónir), landþurrkun (4.5 milljónir), námsleyfi lögfræðinga (3.7 milljónir), Hollvinasamtök varðskipsins Óðins (5 milljónir), Hið íslenska reðursafn (800 þúsund), heiðurslaun listamanna - Erró (1.8 milljón), heiðurslaun listamanna - Guðbergur Bergsson (1.8 milljón), Hvítasunnukirkjan á Íslandi, Kirkjulækjarkot (2 milljónir), Krossinn, unglingastarf (2 milljónir), Klúbbur matreiðslumeistara (3 milljónir), niðurrif frystihúss í Flatey (10 milljónir), Spákonukot á Skagaströnd (5 milljónir), Vestmannaeyjabær - "handritin heim" (5 milljónir), ár kartöflunnar 2008 (1.5 milljón), umhverfissamtökin Blái herinn (1.2 milljón).

Ég er viss um að ég móðgi þarna suma, en ég hef þó fundið ærið fé til að stytta biðlistana, borga birgjunum, ráða nokkrar löggur og laga eina þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þetta er bara spurning um forgang á samdráttartímum.


mbl.is Aðgerðir kynntar eftir helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammmála, en ég tel að það sé hægt að spara mjög mikið meira í Utanríkirsáðuneytinu. Þar þarf og á að loka sendidráðum, selja húseignirnar og senda sendiherrana á eftirlaun og hætta loftrýmis gæslu dellunni. Utanríkisráðuneytið getur farið að nota póst, tölvur,og síma og jafnvel fjarfundarbúnað til samskipta við önnur ríki, + eftir Öryggisráðs ruglið og Icesafe skandalann ætti Ingibjörg að vera farin að sjá og skilja að svokallaðar "vinaþjóðir" eru ekki til ,utan ein. Færeyjar.  300 þús manna borgríki þarf ekki Utanríkisþjónustu og sendiráð á við milljóna þjóðir.

gísli sigurðsson (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 23:31

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sammála ykkur báðum og bæti við sparnaði í Afganistan, Írak og loftrýmiseftirliti.

95%  fari í að borga erlend lán en 5% fari í að fylgjast með fjárglæfrum útrásarvíkinga og handbendla þeirra í stjórnmálastétt  sem er raunverulegri ógn en yfirflug Rússa og aðgerðir Talibana.

ISG hætti ferðalögum erlendis en taki því rólega á Heilsuhæli NLFÍ  fjármunirnir renni óskiptir í að  styrkja gjaldeyrisforða seðlabankans.  Davíð verði ekki rekinn  til að spara uppsagnarfrest og eftirlaunaútgjöld enda stjórnar IMF hvort sem er og allir eru hættir að taka mark á honum. Fjármunirnir verði notaðir til að styrkja fátækar barnafjölskyldur.

Sigurður Þórðarson, 29.11.2008 kl. 00:42

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Drengir, þið megið þó ekki gleyma því að ISG er eini ráðherrann sem hefur sýnt frumkvæði í því að koma með sparnaðartillögur á sínu málasviði, gott ef ekki um 20%, og þótti ýmsum nóg um, ekki síst niðurskurðartillögu á sviði þróunarhjálpar. Kristján Þór Júlíusson sjálfstæðisþingmaður og fjárlaganefndarforkólfur húðskammaði ráðherrann (Hrafnaþing/ÍNN) fyrir að bera fram þessar tillögur; hún ætti ekkert með það, heldur fjárlaganefnd. Sérkennilegar viðtökur við frumkvæði (þótt tæknilega rétt sé). Og auðvitað má spara meira annars staðar en í þróunarhjálpinni...

Friðrik Þór Guðmundsson, 29.11.2008 kl. 01:18

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Kristján Þór Júlíusson ætti að skammast sín, hann er augljóslega á svipuðu plani of forverar hans á þingi Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft það af á 17 ára valdaferli að  koma þjóðinni á hausinn. Áætlun um 20% "niðurskurð" var ef ég man rétt miðuð við áætlun um 32% aukningu. Þannig að eftir stendur 12% aukning sem er fráleit í þessu árferði. Þá ber þess að geta að ofvöxtur hefur verið í utanríkisþjónustunni í mörg ár.

Sigurður Þórðarson, 29.11.2008 kl. 09:26

5 identicon

Mikið er ég sammála þér,, Nema hvað varðar bændur og framleiðslu á landbúnaðarvörum,,Nú ríður á að hafa eitthvað að borða sem ekki kostar of mikinn gjaldeyri,,Hafa ber í huga að kreppan er ekki síst að bíta bændur,, Sýnt þykir að upptalning þín er hvergi nærri tæmandi,,né heldur að tillögur þínar séu ásættanlegar , hvað mína skoðun varðar,,meiri niðurskurð á sendiráð,,listaviðburði,,trúmáladekur,,klúbbavitleysu,,Það á að beina fjármagni til hagræðingar og skipulags í landbúnaði svo framleiða meigi meir fyrir minni tilkostnað,,Ekki að halda lífi í 100 ára gömlum aðferðum búmannsins,,Það skortir á gagngera endurskipulagningu í landbúnaði,,Landbúnaður þarf að verða iðnaður,,

Bimbó (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 10:40

6 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ég get tekið undir fjölmargar af þessum tillögum sem þú setur hér fram, en hvað Guðberg Bergsson varðar sting ég við fótum. Hann er síðasti heiðurslauna rithöfundurinn sem ætti að fara af listanum.

Hér á landi eru til margir rithöfundar, góðir sagnamenn, en skáld eru fáséð. Undir þeirri nafngift stendur Guðbergur.

Ragnhildur Kolka, 29.11.2008 kl. 12:21

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ragnhildur; Guðbergur er þarna einungis vegna þess að hann hefur sjálfur oft farið háðulegum og alvarlegum gagnrýnisorðum um heiðurslaun og verðlaun. Ég er ekki að lýsa yfir vanþóknun á list hans.

Friðrik Þór Guðmundsson, 29.11.2008 kl. 17:26

8 Smámynd: Sif Gunnarsdóttir

Þetta er góðar sparnaðarleiðir og ég vil gjarnan bæta við námsleyfum lækna.  Ég vinn innan heilbrigðiskerfisins í DK og ég hef séð með eigin augum reikninga lækna frá námsleyfum erlendis.  Það er að sjálfsögðu gott að menn haldi reynslu sinni við, en það á ekki að vera á kostnað ríkisins.  Þetta er ekki eitthvað sem þekkist hér í DK.  Hér þurfa menn að sækja um styrki eða greiða námsleyfi úr eigin vasa.

Sif Gunnarsdóttir, 30.11.2008 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband