Kveðjuræða Davíðs

Það er augljóst mál að Davíð er (loks) á förum. Þrátt fyrir öll beinu og óbeinu völdin hans er deginum ljósara að "svona tala (embættis)menn ekki" - nema þá helst að þeir hafi engu að tapa. Ég dreg þá ályktun að hann hafi fyrir ræðuna fengið orð í eyra um að honum væri ekki lengur sætt í embætti. Því burt séð frá innihaldinu að öðru leyti þá er þessi ræða augljóst uppgjör manns sem leyfir sér að setja til hliðar þá staðreynd að hann er annars vegar embættismaður en ekki pólitíkus og hins vegar undirmaður (samkvæmt skipuriti!) þeirra sem hann húðskammar.

Eins og með ýmsa aðra pótintáta sér maðurinn ekki nokkra sök hjá sjálfum sér en ýmsa hjá öðrum. Hann skautar framhjá því að 90% landsmanna hafa misst alla tiltrú á hann og vilja hann burt frá kjötkötlunum. Mjög margir sjá í honum allra stærstu sökina á Hruninu - og það er ekki út af neinni lausafjárstöðu bankanna heldur vegna þess samfélagskerfis sem hann bjó til manna mest og lengst. Að því víkur Davíð ekki í ræðu sinni, en hann hefur svosem lengi varað við sumum viðskipta- og bankamönnum. Og hafi Davíð varað ráðamenn við allt frá því í febrúar þá hlýtur hann að hafa skilað því eitthvað einkennilega frá sér, því ella hefði væntanlega verið á hann hlustað. 

Fjölmiðlalagakafli kveðjuræðunnar er kapítuli út af fyrir sig, óráðstal manns sem lifir í eigin gallalausa heimi. Fjölmiðlafrumvörpin sem Davíð og Halldór stóðu fyrir voru einfaldlega ekki brúkleg. Stjórnvöld gerðu síðan ekkert með þverpólitíska niðurstöðu fjölmiðlanefndar og hættu bara við allt saman (og þar með Davíð). Þess utan er hvað eignarhald fjölmiðla varðar sú gerbreytta staða uppi núna, að 365 er komið upp í bæli með Árvakri.

Það er skelfilegt að þjóðin þurfi að fá þetta í hausinn á þessum verstu tímum. Að þjóðin þurfi að búa við veruleikafirrtan (aðal)Seðlabankastjóra. Og ríkisstjórn sem leynir eða segir í besta falli hálf-sannleik. Hörmulegt.

Ræðan bendir þó til þess að einn af sökudólgunum sé á útleið.


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Ég sammála.  Hann er greinilega að undirbúa brottförina, nauðugur viljugur.  Ef ekki þá verður hann vart talinn með fullum sönsum.

Sveinn Ingi Lýðsson, 18.11.2008 kl. 10:41

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hafi Davíð varað við einhverju, þá er það skortur á trausti tl hans, sem olli því að enginn hlustaði á hann. Maður sem í eigin mætti ætlaði að fella banka með því að hvetja til þess að fólk tæki ut innistæður sínar. Gott ef hann var ekki forsætisráðherra þá.  Hann hegðaði sér eins og vitfirringur.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.11.2008 kl. 10:51

3 identicon

Komst að sömu niðurstöðu áður en ræðan var á enda.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 11:09

4 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Annað sem ég tók eftir og ætla að hugsa betur um, er þetta með að honum hafi brugðið eftir fund með erlendum bankamönnum og komið heim og sagt ríkisstjórninni (sem þá var orðin vön, úlfur úlfur trakteringum gagnvart sumum).

Samkvæmt þessu þá þurfti hann að láta segja sér þetta í útlöndum til að taka mark á og bregðast við sjálfur. Segir það ekki eitthvað?

Kristín Dýrfjörð, 18.11.2008 kl. 11:37

5 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

ps. Hvernig var það með Davíð ef blaðamenn lentu í ónáði hjá honum hér áður fyrr. Hversu vel tók hann í að svara þeim? Hann er náttúrulega algjörlega saklaus af því að hafa reynt að nota fjölmiðla sjálfum sér til framdráttar, er það ekki?

Kristín Dýrfjörð, 18.11.2008 kl. 11:46

6 identicon

Það væri nær að fá Davíð aftur í stól forsætisráðherra til að koma þjóðinni út úr kröggunum.

Palli (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 12:49

7 identicon

(Aðal)seðlabankastjóri segir okkur hann viti ýmislegt sem hann segir ekki.  Minnir óþægilega á ónefndan fréttamiðil gegnum tíðina.  En hann lofar líka hann muni segja frá þó síðar verði ...

Þetta var sannarlega ræða stjórnmálamanns - heimaalins lögfræðings - á útleið.

ab (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 13:13

8 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

sammála

Hólmdís Hjartardóttir, 18.11.2008 kl. 13:55

9 identicon

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort fólki líði ekki illa með það að vera með þessa þráhyggju um Davíð Oddsson,það er eins og þetta sé alltaf sami grátkórinn sem skrifar um hann,ef hann seigir eitthvað í blöð eða ekki þá er þessi kór farin að væla um hann.Er nú ekki komin tími að hætta þessu þvaðri og hugsa fram á við og vera jákvæð........bara spyr

María Sveins (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 14:24

10 identicon

Friðrik Þór og Jón Steinar. Hún Þorgerður Katrín virðist nú hafa trúað og treyst orðum Davíðs Oddssonar. Hann viðrar áhyggjur sínar í febrúar og hún stofnar einkahlutafélagið sitt í mars. Geir H. Haarde virðist líka hafa trúað og treyst orðum Davíðs Oddssonar. Hann segist bara ekki hafa treyst sér til að flytja þjóðinni ótíðindin. (Hann orðar það reyndar þannig að fréttirnar sem slíkar hefðu valdið þjóðinni óbætanlegum skaða).

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 14:35

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

María Sveins: "...hugsa fram á við og vera jákvæð". Ég er einmitt að gera það: Davíð er á förum - vei!

Ég kannast ekki við þráhyggju í garð Davíðs. Í umræðum um Hrunið hef ég aðeins litið á hann sem einn af sökudólgunum. Ég hef meira að segja tekið upp varnir fyrir hann þegar gagnrýnendur hafa gerst úr hófi fram harðir. En hann á ansi hreint stóran þátt í því hvernig fór; framhjá því verður ekki litið.

Elín; þetta eru góðar ábendingar hjá þér.

"Palli": Gjörsamlega út í hött að karlinn verði aftur forsætisráðherra. Nær væri að hann skellti sér á eftirlaun og einbeitti sér að ljóðum og leikritum.

Friðrik Þór Guðmundsson, 18.11.2008 kl. 15:29

12 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já, á förum.  Veit ekki.  Má vera.

Mín tilfinning gagnvart ræðunni var soldið að hann vildi koma til skila: Passið ykkur bara !  Ef þið fokkið í mér - mun eg geta upplýst eitt og annað.  Hafðið ykkur hæg etc.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.11.2008 kl. 16:27

13 Smámynd: hilmar  jónsson

Með yfirlýsingu Davíðs birtist hann mér eins og örvilnaður maður á útleið. Með einhver óljós spil uppi í erminni sem hann ætlar þó ekki að spila út fyrr en honum hentar.

Jú Davíð er á leið út, og þar með stjórnarhættir sem flestir hugsandi menn eru búnir að fá andstygð á. adios amigo...

hilmar jónsson, 18.11.2008 kl. 17:29

14 identicon

Málið fer að minna á anna bankastjóra sem gekk út úr banka með plastpoka frá ? í hendi. Sá hefur skrifað ísmeygilegar greinar um spillingabræður sína í stjórnmálum og ef Davíð gengur úr Seðlabanka með plastpoka undir dótið sitt er eins víst að hann sest við skriftir. Ég satt að segja vona það. En hver treystir sér til að túlka og lesa á milli lína í ræðu Davíðs? Það væri gagn í því að fá pólitíska útleggingu, kommentar við hverja einustu setningu. Að þessu sögðu held ég að hollast sé fyrir mann að reyna að sjá fyrir sér nýja tíma í stjórnmálum á Íslandi; reyna að skapa samstöðu um eitthvað sem skiptir máli frekar en að týna sér í orðaskaki og ásökunum spillingarfurstanna.

Bárður R. Jónsson (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 20:14

15 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Að heyra grey Árna Matt í fréttum "biðja" Davíð um að upplýsa sig um ástæður hryðjuverkalaga Browns og Darlings - var átakanlegt. Sem undirstrikar siðleysi þess að segjast vita allt um þetta en segja okkur hinum ekkert. Út með það Davíð og það ekki seinna en áðan!

Sú staða sýnist mér vera að koma upp að í janúar verði það á stefnuskrá Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og framsóknarflokks að fara út í aðildarviðræður við ESB og sjá með þeim hætti hvað stendur okkur til boða. 

Sú staða er ekki að koma upp að ákveðið verði að boða til kosninga fljótlega. Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndir vilja alls ekki kosningar í bráð og mynda nógu sterka breidd til að stöðva slíkt. Ef stjórnin springur mynda þessir flokkar saman stjórn til að afstýra kosningum, enda myndi blasa við eftir kosningar ríkisstjórn Samfylkingar og VG, hugsanlega með Sjálfstæðisflokkinn sem eina stjórnarandstöðuflokkinn, eftir að Framsókn og Frjálslyndir hefðu þurrkast út. Gegnt svona útkomu stæði þá nýr og breiður flokkur, sem yrði að byggja á félagshyggju og tæki þar af leiðandi helst atkvæði vinstra megin.

Því nefni ég þetta að það spilar inn í framtíðarplönin með Davíð.

Friðrik Þór Guðmundsson, 18.11.2008 kl. 22:51

16 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Gleymdi að nefna, Bárður, að vissulega væri fróðlegt að lesa afhjúpunarbók eftir Davíð. En ég liti á það sem skemmtiefni, ekki sagnfræði.

Friðrik Þór Guðmundsson, 18.11.2008 kl. 22:52

17 identicon

Gætu Samfylking og VG unnið saman að afloknum kosningum? Nú er Samfylkingin að keyra í gegn lög sem banna fólki að lögsækja banka og fjármálastofnanir. Hvaða jafnaðarmannaflokkur stendur fyrir slíku? Er hægt að klína félagshyggjustimpli á hvað sem er?

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 23:55

18 Smámynd: Höfundur ókunnur

Ræðuna má túlka sem brottfararræðu, en það er ekki endilega rétt túlkun.

DO er með pólitískan bakgrunn og verður ávallt dæmdur í ljósi þess. Nú hefur hann sætt harðri gagnrýni, sumri réttlátri, annarri nokkuð ranglátri og flestri beinlínis rangri. Sum gagnrýnin er á núverandi störf, önnur á eldri.

Ég tel að í DO blundi ávallt pólitíkus. Nokkuð harður; nokkuð langrækinn og réttsýnn og ávallt harður í horn að taka. Hann verður ávallt súr út í ÓRG vegna synjunarinnar og gleymir henni eftir nokkur ár í gröfinni.

Á meðan öll spjót hafa dunið á DO á undanförnum dögum hefur pólitíski karakterinn farið að ókyrrast. Honum mislíkar að geta ekki bitið frá sér. Seðlabankastjórar út um allan heim sitja undir gríðarlegri pressu; Greenspan er líklega sá versti í nútímasögunni og hann er rétt að fara að viðurkenna sumar yfirsjónir núna, nokkrum árum eftir afsögn sína. DO er ekki svo lítillátur. Hann gýs, um leið og hræringar fara af stað, rétt eins og Hekla. Þetta kann að vera meiri löstur en kostur; spyrjum að 20 árum liðnum. Því kom ræðan í dag; svar fyrrv.pólitíkuss og núverandi skipper, með bland af hvoru tveggja. Líklega til vansa fyrir hagfræðinga, því þeir vildu sjá meiri hagfræði; líklega til vansa fyrir pólitíkusa, því þeir vildu sjá skýringar á hryðjuverkalögum. Vanþakklætið gýs auðveldar upp en þakklætið; enda óvissan mikil.

Skipperinn sem þyrfti fyrst að fara frá borði væri líklegast Haarðe. Sjóliðar hans eru bara svo óreyndir og óstaðfastir; enginn gæti tekið við stýrinu - maðurinn með ættarnafnið er verri - og því heldur stefnan áfram að vera óljós með tilheyrandi fylgisminnkun og óánægju.

Kosningar verða í vor með 80-95% öryggi. Líklegast skiptir ný ríkisstjórn, vinstristjórn, um Seðlabankafyrirkomulag í heild sinni og hugsanlega verður það besti árangur þeirrar stjórnar.

Höfundur ókunnur, 19.11.2008 kl. 00:12

19 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Elín: "lög sem banna fólki að lögsækja banka og fjármálastofnanir"? Er það ekki bara á meðan skilanefndir starfa? Þarf að kynna mér það, en ekki fæ ég séð hvað þetta hefur með jafnaðarmennsku að gera. Er það alþýðan sem helst er í stellingum með að lögsækja bankana eða eru það frekar fjárfestar sem keyptu hlutabréf og lögðu fé í áhættusækna sjóði? Ef þú segir mér hvaða fórnarlömb eru í málsóknarstellingum get ég tjáð mig betur um stimpilinn.

Friðrik Þór Guðmundsson, 19.11.2008 kl. 01:15

20 identicon

Ég spyr hvort Samfylking og VG gætu unnið saman að afloknum kosningum. Samfylkingin keyrir í gegn lög sem VG segir að brjóti gegn stjórnarskrá. Heyrir þú einhvern samhljóm í því?

Ég set spurningarmerki við lög sem banna fólki að sækja rétt sinn - hvort heldur um er að ræða fólk, fjárfesta eða fyrirtæki. Mér þætti það jafnaðarmennska ef fólki, fjárfestum og fyrirtækjum væri sömuleiðis tryggður friður frá bönkum og fjármálafyrirtækjum um ótilgreinda framtíð.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 08:26

21 identicon

Og hvað hefði gerst ef Davíð hefði farið með trúnaðargögn Seðlabankans um stöðu bankakerfisins strax og honum og stofnuninni var ljóst í hvað stefndi?

 Getur hugsast að það sé eitthvað sem honum og þeim leyfist ekki, enda eru þeir í starfi hjá rikisstjórninni sem ber ábyrgð á hvaða upplýsingar eru gefnar út í viðkvæmum málum sem þessum?

 Gæti verið að við hefðum þá séð allt bankakerfið hrynja strax eftir slíka yfirlýsingu og með þá þeirri niðurstöðu að Davíð bæri ábyrgð bankahrunsins vegna uppljóstrunarinnar?

 Eru þessi viðbrögð pistilshöfundar við ræðu Davíðs ekki það sem kallast að skjóta sendiboðann?

joð (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 11:58

22 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

joð: Var það virkilega hlutverk "sendiboðans" að birta glimrandi jákvætt heilbrigðisvottorð til handa bönkunum í maí en laumast hvíslandi um með "trúnaðargögn" um hið gagnstæða frá febrúar? Sérðu ekki eitthvað undarlegt við það?

Hvað hefði hrunið í febrúar ef Seðlabankinn og ríkisstjórnin hefðu komið hreint fram og sagt að staða bankanna væri of tæp og að nauðsynlegt væri að þeir styrktu sig um leið og Seðlabankinn yki við gjaldeyrisforðann? Og hvað er það í kerfinu sem kallar á, samkvæmt ræðunni, að varað sé óformlega við með trúnaðargögnum í febrúar en almenningi síðan sýnt glimrandi gott heilbrigðisvottorð í maí? Er það ekki kallað að ljúga og blekkja? Hefði ekki verið nær fyrir sendiboðann að gefa út örlítið réttara heilbrigðisvottorð?

Ef staða bankanna var þannig að ekki mátti segja satt í febrúar og fylgja því eftir með ómarktæku vottorði í maí - þá er ekki beinlínis ástæða til að taka mark á "skýrslum" Seðlabankans, því þá segja þær bara það sem MÁ SEGJA en ekki það sem Á AÐ SEGJA!

Friðrik Þór Guðmundsson, 19.11.2008 kl. 12:24

23 identicon

Friðrik.  Jú vissulega.  Svona virkar kerfið sjálfsagt.  Menn gera það sem fyrir þá er lagt.  Annars..!!! 

 Auðvitað hefði Davíð átt, svona eftirá að hyggja, að segja af sér og kjafta frá.  Eða hreinlega að leka gögnum eins og er svo í tísku þessi misserin.

 Ekki þykir mér ólíklegt að Samfylkingarpartur stjórnarinnar hefur viljað cóa með Jóni Ásgeiri og félögum til að styggja ekki mjólkurkú flokksins og framlengja dauðastríð bankakerfisins.

Ef einhverjir eiga eftir að leggjast gegn kosningum fljótlega, eða í vor, þá eru það örugglega Samfylkingingamenn vegna hruns aðal styrktaraðila þeirra. 

Og á móti má spyrja um alla sérfræðinga hrundu bankanna, hvers vegna breyttuð þið ekki rétt eins og  "Litli Landsímamaðurinn" og sögðu frá hvaða svínarí var í gangi?    

joð (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 15:24

24 identicon

Það kom skýrt fram hjá Jóni Sigurðssyni Seðlabankráðsmanni Samfylkingunnar í Kastljósi, að Seðlabankinn getur ekki með nokkru móti farið að bera á torg trúnaðarupplýsingar eins og þær sem komu fram á febrúarfundi bankans og stjórnvalda.

Slíkt hefði tryggt hrun bankanna strax þá.

joð (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 20:14

25 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sem sagt: Seðlabankinn (Davíð) mátti ekki segja vondu fréttirnar upphátt í febrúar. En var ekki óþarfi og beinlínis lygi að bera á torg "góðu" fréttirnar í maí-skýrslunni, úr því að allt annar og alvarlegri veruleiki blasti við þeim sem MÁTTU VITA SANNLEIKANN?

Þetta með að Samfylkingin vilji ekki kosningar núna út af hruni meints aðal styrktaraðila er vitaskuld gjörsamlega út í hött. Skoðanakannanir sýna Samfylkinguna í tæpum 40% ef ég man rétt og þann flokk og VG með hreinan meirihluta. Undir ríkjandi kringumstæðum þurfa þessir flokkar aðeins að reka lágmarks-kosningabaráttu! 

Óttaslegnir við kosningar, og jafn háðir styrktaraðilum, eru miklu heldur Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Frjálslyndir. Þessir flokkar myndu frekar mynda saman stjórn en að efna til kosninga á næstunni!

Friðrik Þór Guðmundsson, 19.11.2008 kl. 20:24

26 identicon

Jú Friðrik auðvitað er það út í hött að ljúga til í maí skýrslunni. Ef það er ekki kriminalt? En það leiðir þá hugann að því fyrir hverja er logið, og hvaða stjórnmálaflokkur hefur séð sér hag í því?

Varla vor það Davíð og ráðherrarnir hans, eða hvað? Þá eru það hugsanlega Samfylkingarráðherrarnir sem hafað vilja hjálpa sínum mönnum? Allt þetta hlýtur að verða kunngert fyrr en seinna. Og algert skilyrði ætti það að vera komið á hreint ásamt öðru sem tengist þessum ósköpum þegar til kosninga verður gengið.

Varðandi kosningar í vor þá er sagt að vika er langur tími í pólitík. Einhver 40% fylgi Samfylkingarinnar getað horfið jafnvel hraðar en fylgi Sjálfstæðismanna fyrir stuttu.

Ekki líta málin vel út þessa stundina þegar ráðherrararnir virðast ekki hafað verið á jafn þýðingarmiklum fundum og raun ber vitni, eða einfaldlega gleymt þeim. Hvað þá að sá eini sem þá sat, sá ekki minnstu ástæðu til að raportera vondu tíðindin þá til þeirra hinna.

Satt að segja er ég ekki svo meðvirkur eða velviljaður stjórmálaflokkum eða þeirra forystusauðum til að kaupa svona vitleysu frekar en margar aðrar.

Ég held að allir flokkar eigi eftir að svitna þegar til kosningarbaráttunnar er blásið. Ekki síst Samfylkingin sem þarf að finna sér nýja peningavini. Það getur varla verið einfalt þessi misserin.

Landlæg spillingin er bein afleiðing að stjórnmálaflokkar eru reknir með peningum fyrirtækja og manna sem hvergi kemur fram hverjir eru.

joð (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 22:43

27 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Og er þá bara ein spurning eftir, "joð": Hvers vegna í ósköpunum kemur þú ekki fram undir þínu rétta nafni og talar þannig eins og ábyrgur maður? Af hverju ertu að fela þig á bak við dulnefni?

Friðrik Þór Guðmundsson, 19.11.2008 kl. 22:47

28 identicon

Það er einfaldlega einhver kjánaleg hlédægni eða feimni. Þetta eru fyrst stafirnir sem ég slæ inn í svona kerfi, og jafnframt eitthvert test á hvort að maður ætti yfirleitt að reyna að láta lítið ljósið skína? Það er ekki gert til að vega einn né neinn úr launsátri, eða vera með einhvern óþverraskap, sem er alltof oft raunin með slíka.

Virði samt og skil ágætlega afstöðu þína á nafnlausum skrifum yfirleitt.

Ef vel gengur breyti ég örugglega og skrifa undir nafni. Kv.

joð (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 23:11

29 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sérhver málefnaleg skrif, undir réttu nafni eða dulnefni, eru velkomin; það er innihaldið sem skiptir máli. Ég hef aðeins einu sinni séð ástæðu til að loka á IP tölu og þú heggur hvergi nærri slíkum ráðstöfunum. Það er fráleitt skilyrði að menn séu sammála mér! Það er ekkert athugavert við þinn málflutning og ég held að þú getir óhræddur skellt þér á vettvanginn undir eigin nafni.

Það er rétt, að það er mikil ástar-hatur togstreita í gangi í kringum einkum Davíð en líklega ekkert síður í kringum Ingibjörgu Sólrúnu (ISG). Hvarvetna sem maður kemur og heyrir talfólks verður maður var við miklar tilfinningar í garð þeirra. Ekki aldeilis hjá öllum eða almennt, heldur hjá fámennum kjörnum. Ég er talsvert gagnrýninn á Davíð, en tel mig þó ekki tilheyra þeim tilfinningaverum sem vilja dreifa nafnlausum óhróðri um hann, ekki síst um geðheilsu hans og drykkjuvenjum. Ég mótmæli slíku tali. Sömuleiðis virðist vaða uppi óhróðurshópur meðal einkum sjálfstæðismanna sem bókstaflega hata ISG og talar mjög illa um hana. Ég mótmæli því líka. Þetta eru mjög andstæðir pólar og í báðum hópum eru eiturtungur sem skjóta nafnlaust úr launsátri. Í vörn fyrir "sinn" eða í árás á "hinn".

Friðrik Þór Guðmundsson, 19.11.2008 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband