15.11.2008 | 11:25
Ekki flokkurinn minn, svo mikið er víst
Þessi boðaði nýi stjórnmálaflokkur, sem hyggst skreyta sig með Sturlu Jónssyni "trukkara" og bera nafn öfgahægri-flokks í Danmörku, ber feigðina í sér. Nái hann því markmiði að bjóða fram, sem mér er til efs, þá fer hann í góðan hóp vonlausustu framboða lýðveldissögunnar. Það er eiginlega varla hægt að hugsa sér lélegra útspil stjórnmálafls í hinum frjóa pólitíska jarðvegi sem nú er fyrir hendi.
Framfaraflokkurinn! Ömurlegur stimpill Danskra öfgamanna til hægri er of greinilegur á þessu annars ágæta nafni. Rasistarnir hans Glistrup hafa því miður eyðilagt þetta nafn. Fyrst ætlaði trukkarinn að stofna nýjan flokk með öðru notuðu nafni, sem aðrir höfðu réttinn til, og það fór í vaskinn með eftirminnilegum hætti. Nú kemur annað vonlaust útspil í pólitík; þegar þorri kjósenda er á leiðinni til vinstri (frá einstaklings- og græðgishyggju til félagshyggju) dettur þessum snillingum í hug að taka upp tákn öfgahægrimanna.
Kannski kemur þetta ekki á óvart. Trukkarinn umræddi leiddi enda baráttu fyrir því að ríkið myndi draga úr álögum sínum á bensín, þegar fyrir lá að ríkið hafði þegar gert það og nær hefði verið að horfa til olíufélagaþursins ógurlega, sem helst var að finna plottandi í Öskjuhlíðinni. Trukkararnir létu höfuðsyndaselinn í friði og það var ófyrirgefanlegt. Einkum þegar við bættist að menn vildu helst afnema hvíldarákvæði vörubílstjóra og leyfa þeim að keyra örþreyttum innan um okkur hin. Svoleiðis túlkaði ég það allavega.
Í viðtengdri frétt mbl.is kemur EKKERT fram um stefnu þessa vonlausa stjórnmálaafls. Þetta er sagður vera flokkur sem "ber hag fólksins í landinu fyrir brjósti", en það getur þýtt nánast hvað sem er. Hvurslags eiginlega er þetta!? Er verið að stofna flokk bara til að stofna flokk og sjá svo til með einhverja stefnu? Sögðust ekki Hitler, Stalín og fleiri slíkir "bera hag fólksins" fyrir brjósti?
Ég veit um hið minnsta tvo hópa sem í gangi eru og undirbúa annað hvort flokk eða baráttufélag. Það er gert af vandvirkni, með söfnun upplýsinga og með því að setja stefnu á blað. Flokkur verður að hafa stefnu og það virðist þessi "Framfaraflokkur" ekki hafa, því ella hefði hún væntanlega verið nefnd, er það ekki?
Fjórflokkakerfið á Íslandi er gríðarlega sterkt. Ef það á að stofna nýjan stjórnmálaflokk sem á að ná árangri þá er það ekki hrist fram úr erminni með svona þvælu. Það sem ekki er vel úr garði gert endist ekki lengi. Líklega væri betra að fólk fjölmennti og yfirtæki gömlu flokkana, frekar en svona kjaftæði!
Framfaraflokkurinn stofnaður á næstu dögum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þú liggur svei mér ekki á þínum skoðunum! Væri ekki ágætt að leyfa þeim að koma með þeirra stefnu áður en þú skítur þá út! Og bera þá við einhver stjórnmála öfl í Danmörku! Þetta er Ísland mundu það!
Sérðu bara hvar við eru stödd með þetta fína stjórnmálapakk á þingi! Er ekki komin tími á breytingar? Ég veit ekkert hvað þessi nýi flokkur ætlar að gera en við höfum gefið hinum flokkunum mörg tækifæri og sjáðu okkur núna! Vonandi koma mörg ný stjórnmálaöfl fram á næstu vikum og mánuðum!
Eins og einhver ágætur maður skrifaði í fjölmiðlum í vikunni! Ef við hefðum haft Jón Jónsson (einhvern nóbody út í bæ) sem Seðlabankastjóra þá hefði hann gert minni skaða en Davíð Oddsson!
Þröstur (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 13:10
Sæll Friðrik, tek undir þetta með þér. Vil líka bæta við að mótmæli trukkaranna beindust ekki í rétta átt. Svo er nú farið með stéttarvitund launþeganna að í stað þess að snúa sér að þeim sem greiða þeim launin og hirða ágóðann af striti þeirra ráðast þeir á samfélagið allt eins og vörubílstjórar gerðu í vor sem leið. Þeim hefði verið nær að þvinga verkkaupendur sína til að hækka við þá greiðslurnar en það hefði svo bara ratað út í verðlagið svo þetta var tóm steypa frá upphafi. Og hvernig má þá búast við að úr þessari átt komi forysta af einhverju viti -já og nafnið, það segir alla söguna. Og flokkakerfið, það verður hræðilegt ef við þurfum svo að búa við það áfram með spillingunni og sérgæskunni sem innan þess þrífst; nei, við viljum fagleg vinnubrögð, opin stjórnmál, opið bókhald flokka og forystumanna; stjórnmál sem snúast um hag alþýðu en ekki að hún, alþýðan, fái að standa í skjóli í ríkra og hirða molana sem hrjóta af veisluborðum og óhófseyðslu fárra.
Bárður R. Jónsson (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 13:44
Það þarf fagfólk alls staðar. Í allar stofnanir lýðræðisins. Lýðræðið hér er nafnið eitt vegna þess að allar þær stofnanir sem eiga að halda lýðræðinu lifandi eru lamaðar af vanhæfni. Sjálf vil ég ekki kosningar núna vegna þess að enginn maður, kona eða karl, sem hefur fagþekkingu hefur boðið sig fram. Stjórnarandstaðan er ekki saklaus af hrapinu núna vegna þess að hrapið varð af því að allar eftirlitsstofnanir eru meira og minna skipaðar óhæfu fólki og þar eru allir flokkar sekir. Þetta vanhæfa fólk er okkur núna meiri fjötur um fót en áður vegna þess að erlendar þjóðir fá ekki trú á okkur meðan þetta vanhæfa fólk situr. Ég vil þjóðstjórn sem er eingöngu skipuð fagfólki - alls engan stjórnmálamann. Þjóðstjórnin gæti síðan skilað umboði sínu þegar búið er að koma landinu aftur í gang. Þá fyrst er að mínu viti hægt að skoða stjórnmálaflokka.
Helga (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 16:48
Skolli var Sturla heppinn að heita ekki Adolf !
Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 17:26
Heyr, heyr, Bárður og Helga.
Þröstur: Nei ég ligg ekki á skoðunum mínum. Bíða eftir að "flokkurinn" sýni stefnu sína? Hefði ekki verið nær að flokkurinn biði með að kynna sig þar til einhverjir stefnupunktar lægju fyrir?
Hægri flokkur? Vinstri flokkur? Miðjuflokkur? ESB-flokkur? Ísland úr NATO-flokkur? Álversflokkur? Græningjar? Með hvað að leiðarljósi á að "bera hag fólksins fyrir brjósti"? Það er skrítið að nefna EKKERT þegar við blasir að flokkurinn er að komast í frétt. Skrítnara en ef blaðamaðurinn spurði ekki um stefnuna!
Friðrik Þór Guðmundsson, 15.11.2008 kl. 17:26
Stjórnmálaflokkur með Sturlu trukk Jónsson í broddi fylkingar er nærri því heimskulegri hugmynd en Frjálslyndir með Jón Magnússon í framlínumnni.
corvus corax, 15.11.2008 kl. 17:30
Ég tók þátt í málefnahópi í kjölfar Valdimarsdóminum. Menn vildu stofna stjórnmálaflokk.
Sáu einhversstaðar autt bil. Því lauk með 10 manna samkomu vestur á Seltjarnanesi. Og þá hætti ég. Svo kom gamall bankastjóri út úr Landsbankanum með plastpoka og gerði hugmyndina að sinni.Nú stýrir gamall Heimdellingur þeim þingflokki og vill handvelja menn inn í flokkinn.
Sturla er gott nafn og á við tíðarandann. En engar aðstæður eru enn um sinn að stofna stjórnmálaflokk. Reiðin getur aldrei drifið stjórnmálaafl áfram. Rétt væri fyrir Sturlu og hans menn að hafa vetursetu og sjá hverju fram vindur, en sitja á hljóðskrafi.
Rétt væri fyrir alþýðumanna að líta á Hörð Torfa sem verkefnisstjóra sem hefði alla þræði í hendi sér. Ef til vill taka stjórnmálaöfl á Íslandi við sér við aukinn þunga almennings.
Menn geta verið í smáhópum og rætt um málefni og aðferðir. En það er alveg út í bláinn að ætla að fara stofna stjórnmálaflokk núna það er dæmt til að mistakast, en ég skil reiði fólks.
Ég útiloka samt ekki að það verið breytingar . En það gæti aldrei gerst með viti nema á útmánuðum. Svo er líka hin aðferðin að menn drifu sig inn í núverandi stjórnmálaflokka eftir vilja hvers og eins og létu til sín taka. Þessi mál þurfa að þroskast. Látum jólin líða.
Þorsteinn H. Gunnarsson (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 18:20
Innilega sammála, Friðrik.
Bergur Thorberg, 15.11.2008 kl. 21:26
Rétt og satt Þorsteinn: "Sturla er gott nafn og á við tíðarandann". Þetta nafn er mér afar kært og kannski er ég því í umframmagni harður við Stulla trukkara. Sem breytir ekki því að til að vita hvort straumurinn muni liggja í þessa áttina þarf maðður að vita hvað sé í þessa áttina. Er þetta eitthvað Glistrúpískt eða í anda félagshyggjunnar, sem afar stór hluti kjósendaóskar sér, samkvæmt skoðanakönnunum?
Það er augljós vinstri sveifla í landinu, í þeirri merkingu að balanseruð félagshyggja taki við af frjálshyggjuveislunni. Í þennan anda hlýtur nýr stjórnmálaflokkur að sækja sér hugmyndafræðilegt veganesti. Ein af höfuðstoðum slíks stjórnmálaflokks hlyti að vera skýr afstaða til ESB. Það er málefni sem nú er farið að kljúfa gamla stjórnmálaflokka. Svo dæmi sé tekið.
Friðrik Þór Guðmundsson, 16.11.2008 kl. 01:07
Sæll Friðrik. Hægri-öfgaflokkurinn í Danmörku, sem er reyndar næst stærsti flokkurinn þar, heitir Dansk folkeparti, ekki Framskrittspartiet.
Það heitir hins vegar norski systurflokkurinn, þannig að hin nýboðuðu stjórnmálaöfl heitir í höfuðuð á norska flokknum, ekki þeim danska.
Reyndar sé ég ekkert að þessari uppákomu sem mér sýnist nú fyrst og fremst ætlað að keppa við Frjálslynda flokkinn. Varaformaður hans, Magnús G. Hafsteinsson, lítur nefnilega mjög upp til þessa norska flokks, sem er vægast sagt tækifærissinnaður og af mörgum talin rasistískur, og vill taka hann sér til fyrirmyndar.
Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 17:11
Vertu velkominn Sturla Hólm.
Munurinn á "okkur", þessum sjálfhverfu sem þú nefnir, og þér og öðrum væntanlegum aðstandendum flokksins sem færsla þessi ræðir, er að ÞÚ ert að stofna flokk - ekki við, a.m.k. ekki ég. Ég hef enga skyldu til að boða sérstakar lausnir en það er hins vegar frumskylda stjórnmálaflokks. Ég hef fyrst og fremst skyldum að gegna gagnvart mér og mínum, en flokkur hefur tekið að sér að axla ábyrgð á samfélaginu öllu. Ég hef fullt af lausnum sem lúta að mér og mínum og margar hugmyndir um umhverfi mitt, þeirra á meðal um stjórnsýsluna. Óleiðréttar fréttir herma að þú og fleiri ætlið að bjarga samfélaginu með Framfaraflokk, en engar fréttir berast um lausnir þessa flokks. Og hingað kemur þú inn (alls ekki óvelkominn) og hefur fyrir því að hamra nokkur orð í komment - en nefnir ekki neitt um kjarna þess sem um er rætt - stefnu flokksins þíns! Lausnir þessara skipulögðu stjórnmálasamtaka!
Því spyr ég aftur: Hægri flokkur? Vinstri flokkur? Miðjuflokkur? ESB-flokkur? Ísland úr NATO-flokkur? Álversflokkur? Græningjar? Með hvað að leiðarljósi á að "bera hag fólksins fyrir brjósti"? Ég vona að þú komir inn aftur og tjáir þig meir.
Friðrik Þór Guðmundsson, 16.11.2008 kl. 23:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.