Fjölmiðlar brugðust - en ekki var hlustað á það sem þó var gert

  Fjölmiðlar 365 eru til húsa í Skaftahlíð

Blaða- og fréttamenn komu saman í gærkvöldi á málþingi um áhrif fjármálakrísunnar á fjölmiðla, um frammistöðu fjölmiðla í aðdraganda hrunsins og um samþjöppunina á eignarhaldi fjölmiðla. Þetta var góður og þarfur fundur. Brugðust fjölmiðlar? Svarið reyndist já og nei. Meira þó já.

Erindi fjögurra frummælenda málþingsins voru öll athyglisverð og upplýsandi. Kristinn Hrafnsson í Kompási sagði fjölmiðlamenn hafa brugðist sem hópur og að í ljós hefði komið alvarleg brotalöm á lýðræðinu og getu fjölmiðlanna til að sinna skyldum sínum í þágu lýðræðisumræðunnar. Hann kallaði eftir því að fjölmiðlar stæðu betri vörð um lýðræðið og auðsýndu betra aðhald að stjórnvöldum og fyrirtækjum og mótmælti um leið sífelldum atvinnurógi þeirra sem tala um "Baugsmiðla". Óðinn Jónsson fréttastjóri RÚV notaði tíma sinn aðallega til að mótmæla því að Blaðamannafélagið hefði ályktað í þá veru að RÚV drægi saman seglin á auglýsingamarkaði. Hann taldi RÚV hafa staðið sig í aðdraganda hrunsins en eflaust getað gert betur. Ólafur Stephensen, ritstjóri Morgunblaðsins, sagði að blaðið hefði með fjölda frétta og greina sent "varnaðarorð" allt frá 2005 og benti á samantekt Björns Vignis Sigurpálssonar í blaðinu 25. október því til stuðnings. Morgunblaðið hefði litlar þakkir fengið fyrir. hann viðurkenndi þó að blaðið hefði átt að keyra enn frekar á þetta, en ritstjórnin hefði trúað því að bankakerfið hefði styrkt sig. Morgunblaðið hefði hvorki verið málpípa né sofnað á verðinum þótt það hefði getað gert betur. Spurninganna hefði þó verið spurt, en illa gengið að fá svör. Valgerður Jóhannesdóttir, verkefnastjóri meistaranáms í blaða- og fréttamennsku við HÍ, sagði fjölmiðla landsins vera óburðuga hvað sérþekkingu, tímaþröng, vinnuálag og fleira varðar. Hún telur áhrif eigenda á ritstjórnarstefnu ekki vera aðalvandamálið, heldur miklu frekar þessir fyrrnefndu þættir. Blaðamenn væru að breytast í afritunarverksmiðjur, framleiðslukröfur væru að aukast og blaðamenn í æ ríkara mæli fastir við tölvu sína og síma (í stað þess að fara á vettvang). Það mætti svo sem velta fyrir sér hvort eigendur fjölmiðla vilji einmitt hafa þá svona óburðuga!

Umræðurnar á eftir erindunum voru ágætar og ljóst að blaða- og fréttamenn vilja og ætla sér að læra sína lexíu. Ég leyfði mér á fundinum að spyrja tveggja spurninga af krítískari sortinni. Ég spurði Ólaf Stephensen hvort "varnaðarorð" Moggans væru í raun aðhald ef enginn hefði hlustað á þau - ef ekkert hefði breyst. Eðlilega er erfitt að svara svona spurningu, en Ólafur sagði vissulega súrt ef alvarleg umfjöllun skilaði engu. Ég spurði líka Kristinn Hrafnsson um hvort ekki mætti segja að Kompás hafi verið með rangar áherslur í verkefnavali; nánast aldrei fjallað um viðskiptalífið, en þeim mun meira um (vissulega mikilsverð mál) barnaníðinga, ofbeldi, fíkn, sjúkdóma. Kristinn minnti á að í nóvember í fyrra hefði Kompás verið með þátt um peningamálastefnu Seðlabankans og lagt í hann mikla vinnu; niðurstaðan hefði verið að peningamálastefnan væri handónýt og væri að leiða okkur til glötunar. Hins vegar hefðu viðbrögðin engin orðið og það hefði sjálfsagt dregið máttinn úr því að fjalla meir um slík mál.

Er niðurstaðan sú að fjölmiðlar hafi að mestu brugðist, en að alls ekki hafi verið hlustað á það sem þó var sagt og gert? Sennilega er það réttmæt lýsing. Við vorum öll meðvirk í góðærinu og útrásinni og tókum höndum saman um að ísland væri best í heimi. "Varnaðarorð" voru send út, en þau voru hjáróma og enginn vildi hlusta á þau. Þess utan eru fjölmiðlar allt of óburðugir, skortir sérþekkingu, skortir tíma til að vinna mál, skortir fjármagn og eru meðvirkir samfélagsandanum og kannski eigendum sínum (óbeint að minnsta kosti, með sjálfsritskoðun og slíku). Fjölmiðlar landsins eru hvað vinnuskilyrði varðar að vinna "kraftaverk á hverjum degi", en það er ekki nóg. Ekki síst þurfa fjölmiðlar landsins á blaða- og fréttamönnum með sérþekkingu á viðskiptum og efnahagsmálum; sem ekki gerast samstundis meðvirkir með forstjórum landsins og dúkka fljótlega upp sem starfsmenn og/eða hluthafar í þeim fyrirtækjum sem þeir fjalla um! Umfram allt þurfa blaða- og fréttamenn að standa stífir á sínum faglegu prinsippum og vinna að því að virkja betur sín faglegu vopn.

Að lokum þetta: Þegar talað er um frammistöðu fjölmiðlamanna, samþjöppun eignarhalds og möguleg bein eða óbein áhrif eigenda, þá er ósköp eðlilegt að smásjáin beinist að ritstjórum fjölmiðlanna. Þeir eru ekki bara yfirmennirnir, heldur yfirleitt einu meðlimir ritstjórnanna sem hafa verið handpikkaðir af eigendunum. Ingimar Karl Helgason fréttamaður kom inn á þetta á málþinginu og spurði sem svo, hvort einhver von væri um bata þegar (hinir sérvöldu) ritstjórar væru "allir af sama sauðahúsi", þ.e. miðaldra hægrisinnaðir karlmenn. Þessu var mótmælt af viðstöddum yfirmönnum, en mér finnst þetta mjög góð pæling.

Og svo að lokalokum: Sýnir sagan ekki að á svona ólgutímum fæðist nýir fjölmiðlar? Umræða um samþjöppun og einsleitni á fjölmiðlamarkaðinum gæti og ætti að skila sér í fjöldahreyfingu fagmanna og almennings fyrir því að stofna nýtt krítískt vikublað (með vefútgáfu). Nú er jarðvegur fyrir slíkt og að ég hygg áhugi meðal almennings. Það skyldi þó aldrei verða?


mbl.is Tilbúinn til að fara niður fyrir 40%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgerður Jóna Flosadóttir

Sæll Friðrik, vil benda á fund sem haldinn verður laugardaginn 8. nóvember kl. 13.00 á Grand Hótel þar sem umræðan verður um fjölmiðla og þá þöggun sem hér á sér stað.  Sjá auglýsingu um fundinn á xf.is

kkv.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, 6.11.2008 kl. 13:16

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka þér fyrir Ásgerður Jóna. Ég hef þó takmarkaðan áhuga á því að horfið verði aftur til tíma flokksmálgagnanna. Þaðan komu vissulega ágætis raddir, en ég hef aðrar raddir í huga en xF.

Friðrik Þór Guðmundsson, 6.11.2008 kl. 13:53

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Kannski var ég heldur fljótur á mér þarna, úr því að Þorbjörn Brodda og Reynir Trausta eru með erindi og um opinn fund að ræða. Sem ekki breytir því að ég vona að nýr fjölmiðill verði til sem ekki tengist stjórnmálaflokkum á nokkurn hátt eða stórfyrirtækjum.

Ég vona að ég komist á fundinn og blessunarlega er hann ekki algerlega ofan í ensku knattspyrnunni.

Friðrik Þór Guðmundsson, 6.11.2008 kl. 13:57

4 identicon

Vona að allir hugsandi menn og fyrirtæki fyrir utan þau sem eiga flesta fjölmiðlana þá vona ég að þið veljið RUV fyrir ykkar auglýsingar það eru svo margir að hætta með stöð 2 út af að það geti einn maður stjórnað fjölmiðlunum

Guðrún (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 16:02

5 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Flott umfjöllun hjá þér Friðrik.   Gott fyrir alla að fara í naflaskoðun.  

Marinó Már Marinósson, 6.11.2008 kl. 17:30

6 Smámynd: Níels Steinar Jónsson

Þá er bara að stofna einn Lillo. Setja í gang. Þú ert alveg ágætis kanditat.

Mikið væri gaman að sjá fjölmiðil sem hefði af að státa blaðamönnum sem litu upp úr tölvunni, færu út og hættu ekki fyrr en þeir finna sannleikan. Endalaust kjaftæði og pælingar ruglar fólk og deyfir. Enginn veit hverju hann á að trúa og þegar loks einhver kemur með alvöru frétt tekur fólk varla eftir því.

Smá skemmtisaga um dapra blaðamennsku.

Frétt á annari síðu fréttablaðsins stuttu eftir að það fór að koma út. Leitað var að kínverskum manni sem var horfinn. Hann hafði unnið á kínverskri nuddstofu í Kópavogi . Mynd af manninum og umjöllun um þrælahald og fl.  'Eg hringdi inn á blaðið og bennti einhverjum á ritstjórn á að maðurinn sem  líst var eftir væri í góðu yfirlæti að borða með Ólafi forseta á hjálpræðishernum og því til sönnunar væri mynd af þeirri athöfn á baksíðu sama blaðs. Nei það gat nú ekki verið sagði blaðamaðurinn þeir eru ekkert líkir á þeim myndum sem í blaðinu voru.                 'Eg þekkti manninn vel þar sem hann hafði gert kraftaverk á bakinu á mér þegar ég var allur í klessu og við urðum mestu mátar meðan ég sótti nuddstofuna.

Ég segi : sannleikurin er þarna úti . það þarf bara að finna hann og það getur verið töluverð fótavinna.

Níels Steinar Jónsson, 6.11.2008 kl. 19:18

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka ykkur fyrir. það væri bara hálfur sigur unnin með því að stofna alvöru krítískan fjölmiðil. Hinn helmingur sigursins væri fólgin í því að það hefði eitthvað að segja sem sá fjölmiðill "segði". Svo virðist sem áhrifamáttur fjölmiðla sé í lágmarki, miðað við það sem fram kom á málþinginu.

En ef við leyfum bjartsýninni að ráða för þá verður öflugur fjölmiðill til (með eða án mín, ég er ekki aðalatriðið, þó nú væri). Hann verður í "eilífri stjórnarandstöðu" - og ef vel tekst til þá verður á hann hlustað og samfélagslegum ambögum breytt.

Friðrik Þór Guðmundsson, 6.11.2008 kl. 22:47

8 identicon

"Weblogs" eru "gonzo" fréttamennska nútímans, ég les nánast allar færslur sem blaðamanna sem skrifa á netinu og farinn að meta það meira en blöðin í raun og veru. Minni ritstýring og hrárra efni.

Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 00:10

9 identicon

Hjálpi oss allir heilagir ef þú og Gunnar Smári verðið með "comeback."

Ykkar "krítísku-helgarblöð" voru vægast sagt illgresisrækt hugleysingja.  Slepptu þessu bara karlinn minn, þetta fer bara allt á hausinn hjá ykkur líkt og forðum.

Sungam (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 10:36

10 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

"Illgresisrækt hugleysingja" segir þessi nafnlausa gunga, Sungam (Magnus afturábak), skjótandi úr launsátri, spúandi eitri og eimyrju yfir menn og málefni. Líkast til undirokaður eiginmaður, vinalaus fýlupúki og drykkfelldur andlegur aumingi.

Sungam; líttu í eigin barm. Sérðu hvar þú hefur sullað á þig? Menn sem eru stoltir og standa ábyrgir orða sinna sulla ekki svona á sig. Menn sem þora að koma fram undir nafni hljóta virðingu fyrir þó það, þótt ekki séu allir sammála skoðunum viðkomandi. En nafnlausir huglausir aumingjar eru bara skítugir drullusokkar sem allt hata og enginn elskar.

Friðrik Þór Guðmundsson, 7.11.2008 kl. 12:22

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Til fróðleiks fyrir lesendur: "Sungam" þessi heitir Magnús Guðmundsson og er "ráðgjafi" í aðalútibúi Landsbanka Íslands. Hann sendi eiturpilluna úr póstkerfi sínu í vinnunni. Ætli verði ekki að taka mark á honum finnst hann er ráðgjafi hjá útrásarbanka, sem meðal annars stóð að Icesave og fleiri snilldarverkum.

Hann má auðvitað hafa hvaða álit á mér sem hann vill, en á að gera það eins og maður og nota sitt persónulega tölvu- og póstkerfi til þess, en ekki tölvu- og póstkerfi bankans, vinnuveitanda síns. Fyrir utan að sinna frekar vinnu sinni; veita fólki góð ráð um hvernig það getur lágmarkað tjón það sem bankinn hefur valdið saklausu fólki.

Friðrik Þór Guðmundsson, 7.11.2008 kl. 14:16

12 Smámynd: Guðmundur Gunnarsson

Ég er búinn að vera að velta þessu fyrir mér lengi hvernig koma mætti trúverðugum fjölmiðli á koppinn sem ekki hefði nein tengsl við flokka eða auðmenn. Það var einu sinn reynt að stofna fjölmiðil sem var í almanna eigu þ.e. DV, en það fór eins og það fór.

En er það ekki einboðið að netið er vetvangurinn fyrir svona miðil? Þá er bloggformið sniðugt þegar kemur að eftirfylgni fréttar. Þá er blaðið eins og margar bloggsíður,  og blaðamaðurinn getur bætt við og leiðétt eftir því sem málin þróast og lesendur geta gert athugasemdir ef við kysum að hafa það svo.

Er þá nokkuð annað en að byrja einhversstaðar? 

Guðmundur Gunnarsson, 7.11.2008 kl. 15:17

13 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég vil nú meina að íslenskir fjölmiðlar séu almennt miklu trúverðugri en fólk vill vera láta. Að íslenskir blaða- og fréttamenn séu faglegri og sjálfstæðari en gefið hefur verið í skyn af öllum þeim fjölda sem talar gjarnan um Baugsmiðla, Bjöggamiðla og Bláskjá. Margt af því er hreinn og beinn atvinnurógur. En þótt maður vildi afneita slíkri sýn á stéttina þá getur maður lítið gert til að breyta þessum stimpli götunnar. Þess vegna er líka best að fjölmiðill sé laus við áhrif frá pólitíkusum og stórfyrirtækjum.

Margt gott má segja um Netið og Bloggið og þessi heimur er líklega áhrifameiri en maður reiknaði almennt með. Einhvern veginn er ég þó svo gamaldags að álykta að fólk vilji enn hafa pappírsformið fyrir framan sig með kaffibollanum og fletta upp á gamla móðinn. Hins vegar gefur augaleið að sambland af pappírs-fjölmiðli og Netútgáfu hljómar vel. 

Friðrik Þór Guðmundsson, 7.11.2008 kl. 16:22

14 identicon

Mig langar að spyrja fjölmiðlafólk hvort það sé svona sjálfumglatt að kannast ekki við að hafa verið með í lestinni hjá þotuliðinu ?

Er þetta ekki spurningin um hvort þú ert að styggja þann sem gefur veitingarnar ?

Ef , svarið er nei ?

Hvers vegna haldið þið fjölmiðlafólk að ástandið sé svona á Íslandi ?

Jú, þið brugðust líka, eins og allir sem fólkið hélt að væru að vinna sína vinnu !

Í dag eru þið fjölmiðlafólk líka eins og í gíslingu !

Gíslingu hjá pólitíkusum sem eru ekki að segja neitt eða í besta falli að ljúga að fólki !

Ef til vill er þetta bara staða sem þið fjölmiðlafólk viljið vera í !

Í huga ykkar er það ef til vill þannig, þegar nýtt þotulið fer á stað er best að vera tilbúin í brottför !

Jú, Friðrik það brugðust allir sem áttu að vera á vaktinni ! 

jr (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 00:48

15 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hver er jr?

Hver er sá sem talar svo djarft með háværum upphrópunarmerkjum og hrópandi spurningamerkjum?

Af hverju stígur hann ekki fram í dagsljósið?

Er hann sjálfur saklaus? Var hann meðvirkur í góðæris-neysluhyggju-kaupæðinu eða hélt hann sig fussandi til hlés?

Já, jr, fjölmiðlar brugðust, en blaða- og fréttamenn hafa ekki gerst þotuliðsmenn frekar en almenningur. Jú sumir kannski og kannski einmitt viðskiptablaðamenn, sem helst áttu að standa vaktina en kóuðu mest með. 

Það er enginn saklaus, flestallir brugðust,  flestallir kóuðu með að einhverju marki - kannski almenningur mest fyrir að hafa ekki skipt út frjálshyggju-æðinu áður en það tók samfélagið aftur um áratugi. Fyrir að breyta ekki fyrr um stefnu samfélagsins. jr; þú brást. Ekki nema von að þú viljir ekki koma fram undir nafni!

Að öðru leyti árétta ég þema umrædds málþings: Við brugðumst en ekki var hlustað á það sem þó var gert. Eru einhverjir í þotuliðinu sem þú þekkir sem hafa sagt þetta upphátt, jr? Auðmennirnir? Bankamennirnir? Pólitíkusarnir? Eftirlitsstofnanirnar? Sérðu játningar þar, jr?

Friðrik Þór Guðmundsson, 8.11.2008 kl. 01:28

16 identicon

Athyglisverð umræða og þú átt aðdáun mína fyrir að standa í andsvörum - ekkisíst að svara nafnlausu skítkastinu. Ég hef lengi átt mér þann draum að taka þátt í nýjum, gagnrýnum miðli, óháðum öllum valdapólum, hvort sem er pólitískum eða efnahagslegum - en vel að merkja ekki ópólitískum, þvert á móti rammpólitískum í besta skilningi þess orðs. En þetta hafa bara verið spennandi draumar - þangað til nú á síðustu tímum netsins. Nóg er af "gömlum" og þrælvönum blaðamönnum sem hafa snúið sér að öðru, flestir komnir á þann aldur að þeir hafa svigrúm til að vinna fleira en það sem þeir fá há laun fyrir. Hvernig væri að gamlir kollegar hittust og byrjuðu að plana þennan miðil, sem myndi notfæra sér alla kosti netsins og eira engu, stunda grimma rannsóknarblaðamennsku? Oft var þörf  en nú er nauðsyn. Til er ég! Mætið á Austurvöll klukkan 15 í dag!

Baráttukveðjur

Þorgrímur Gestsson (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 14:13

17 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka innleggið Þorgrímur. Ég er alveg til; taka þátt í því að "plana þennan miðil, sem myndi notfæra sér alla kosti netsins og eira engu, stunda grimma rannsóknarblaðamennsku". Ekki kalla ég sjálfan mig þó til forystusveitar í þeim undirbúningi, en er til í að leggja lið.

Friðrik Þór Guðmundsson, 8.11.2008 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband