Þjóðin snýr sér til vinstri

Mér virðist ljóst á síðustu skoðanakönnunum að þjóðin vill nú félagshyggjuna fram yfir hina villtu, trylltu einstaklingshyggju sem ríkt hefur um langt árabil. Og vill um leið minni óvissu og fá aukið efnahagslegt skjól í ESB og Evrunni. Vantraust fjöldans á Sjálfstæðisflokknum er mjög áberandi og eins hitt, að Framsóknarflokkurinn fær sinn hlut í óförunum.

Að Samfylkingin og VG mælist með 60-65% fylgi samanlagt segir mikla sögu um hug kjósenda. Meira að segja 12% kjósenda sem síðast kusu Sjálfstæðisflokkinn merkja núna við VG. Fólk fer öfganna á milli í löngun sinni til róttækra breytinga á samfélagsgerðinni. Og meirihluti fólks vill síður bíða í 3 ár eftir kosningum; vill uppstokkun sem fyrst.

Sjálfstæðisflokkur að mælast í 22% er fyrir þann flokk ekki löðrungur heldur kjaftshögg. Og þjóðin virðist segja; þetta er helmingaskiptastjórnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undanfarin 16-17 ár að kenna (fyrir utan sökina sem "snillingarnir" í nýfrjálshyggjukapítalismanum eiga augljóslega).

Nýfrjálshyggja Davíðs, Hannesar og Friedmans naut stuðnings meðan allt lék í lyndi, en hefur nú svikið þjóðina, því enginn reiknaði með þessu hroðalega skipbroti efnahagslífsins af völdum stefnunnar og engum var sagt hversu alvarlegir váboðarnir voru. Um margra mánaða skeið hafa ótíðindi beðið handan hornsins, en hvorki ráðherrar, Seðlabankastjóri né eftirlitsstofnanir hafa varað okkur við á mannamáli. Þvert á móti var okkur sagt, að því er virðist gegn betri vitund, að allt væri í himnalagi. Og nú er okkur neitað um vitneskju um skilyrði IMF þótt enginn trúnaður liggi á þeim skilyrðum nema af hálfu okkar eigin ráðherra. Sagt er að skilyrðin séu á fjórða tug og okkur bara sagt eftirá fráeinum þeirra, númer 19, hinni hroðalegu stýrivaxtahækkun. Hvaða óskapnaður getur dulist í hinum liðunum, sem menn vilja ekki og þora ekki að segja kjósendum frá? Það gefur augaleið að á fjórða tug skilyrða eða tilmæla er í sjálfu sér gegn yfirlýsingum forsætisráðherra um að ekki sé verið að fjárkúga okkur eða að okkur séu ekki sett íþyngjandi skilyrði. 

Kannski verður meirihluta kjósenda að vilja sínum, því útlit er fyrir alvarlegan ágreining milli stjórnarflokkanna og aðallega vegna Davíðs sem Seðlabankastjóra. Hollusta Sjálfstæðisflokksins við Davíð er auðvitað aðdáunarverð, en spyrja má: Vill Sjálfstæðisflokkurinn frekar stjórnarslit og kosningar með sín 22% en hanga á Davíð?


mbl.is Samfylking með langmest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er aldrei of oft minnt á að höfuðsökudólgurinn í bankamálunum er Valgerður Sverrisdóttir og hennar flokkur, sem fóru með bankamálin í 12 ár og sáu algjörlega um einkavinavæðinguna. Maður vonar innilega, að þjóðin sé orðin það upplýst og þroskuð, að hún láti aldrei aftur það viðgangast, að pólitískir eiturbrasarar framsóknar komist í stjórnarstóla. Sambærilegir flokkar eru bannaðir víðasthvar í lýðræðislöndum.

Ellismellur (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 11:59

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ef það að vera óákveðinn er til vinstri - sem er nú sennilega réttnefni - þá hefur þjóðin snúist til vinstri! Ég myndi nú frekar segja að þjóðin væri reið, ráðvillt og rökþrota!

Í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri eru óákveðnir með mesta fylgið eða 40%. Í kosningum á erfiðleikatímum eru kosningaþáttatakan yfirleitt yfir 90%, þannig að yfir 30% kjósenda munu kjósa einhvern flokk. Ég held að stór hluti þessa fólks treysti engum af núverandi flokkum og ekkert víst að það kjósi frekar til vinstri en hægri, allavega ekki sjálfstæðismennirnir! Ef annar valkostur til hægri kemur fram á sjónarsviðið gæti staðan breyst!

Hins vegar er ljóst að mikið fylgi er farið frá Sjálfstæðisflokknum og yfir til óákveðinna kjósenda og það er ekki sama og vinstri sveifla!

Ég sé ekki fyrrverandi félaga mína í Sjálfstæðisflokknum verða kommúnista eða sósíalista yfir nóttu!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.11.2008 kl. 13:03

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Það er í tísku að segja að vinstri/hægri hugtekin séu úrelt og dauð. Ég kannast mætavel við umræðu um slíkt og endalok hugmyndafræði úr stjórnmálafræðinni. En mér finnst þetta ekki rétt nálgun. Réttara að tala um breytt viðmið. Það er fullkomlega réttmætt að tala um vinstri sem höfuðáherslu á félagshyggju og velferðarsamfélag, en hægri sem höfuðáherslu á einstaklingshyggju og einkavæðingu almannaþjónustunnar. Sú aðgreining er langt í frá dauð og er kannski aldrei raunverulegri en einmitt nú.

Hátt hlutfall óákveðinna segir vissulega sögu. Með réttu eða röngu er oftast miðað við hlutfallið hjá þeim sem taka ákveðna afstöðu og hugsunin þá að ef til kastanna kæmi þá myndu atkvæði hinna óákveðnu skiptast svipað og hjá hinum ákveðnu. Það er talið nokkurn veginn sennilegt en þó ekki gefið. Þess utan er ekki ólíklegt að hærra hlutfall óákveðinna en ákveðinna myndi sitja heima eða skila auðu og þá detta þau atkvæði auðvitað dauð niður. Ekkert af þessu breytir þeirri meginlínu að fylgið er að færast með áberandi hætti til vinstri.

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.11.2008 kl. 15:23

4 identicon

Er ekki þjóðin ringluð og rugluð gangandi í hringi í þoku?

Gerir svo eins og trukkararnir - horfir í ranga átt, en þeir gleymdu olíufélögunum !

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 15:33

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Bendi á gamla grein sem ég hef nú endurbirt varðandi hægri og vinstri klysjuna. Hún er í tveim hlutum og eftir hana ætla ég svo að birta aðra um kapítalismann og þær brautir, sem hann virðist vera að rata inn á. Þessar greinar eru svona reynslusögur og vangaveltur, sem eiga að vera frekar skemmtilegar aflestrar. Ég birti þær fyrir um 2 árum og þær voru birtar í mogganum. (wonder why hehe)

Jón Steinar Ragnarsson, 3.11.2008 kl. 01:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband