Segið frá skilyrðum IMF ekki seinna en strax!

Það er gjörsamlega með ólíkindum að ekki sé nú þegar og helst í gær eða fyrradag búið að upplýsa þjóðina um skilyrðin (eða tilmælin) í samningi Íslands við IMF (Alþjóðagjaldeyrissjóðinn). IMF hefur upplýst, þvert ofan í orð ráðamanna hér, að skilyrðin séu af hálfu IMF ekki trúnaðarmál. Annað hvort hafa ráðherrarnir okkar misskilið þetta eða sagt ósatt.

Geir, Ingibjörg Sólrún, Árni Matt og kannski fleiri sögðu þegar samningurinn við IMF að ekki væri hægt að greina frá skilyrðunum, að því er virðist af virðingu við stjórn IMF, sem tekur afstöðu til samningsins 5. nóvember.  Haldinn var blaðamannafundur þar sem skilyrðunum var leyft að hanga í lausu lofti og vera dularfull. Í kjölfarið hélt sendinefnd IMF blaðamannafund og talaði ósköp frjálslega um skilyrðin. Svo var stórhækkun stýrivaxta hrint í framkvæmd og Seðlabankinn húðskammaður - og sá þá Davíð Seðlabankastjóri sig knúinn til að upplýsa um einn liða af guðmávita hve mörgum liðum í samningnum. Davíð sagði frá (trúnaðarmálinu?) 19. lið samningsins sem einmitt kvað á um hækkun stýrivaxta í 18%. Davíð var þarna að bjarga sjálfum sér, en gætti þess að upplýsa ekki umliði 1-18 eða liði eftir númer 19.

Ráðamenn hafa undirstrikað að hækkun stýrivaxtanna hafi EKKI verið skilyrði af hálfu IMF. Við hljótum því að hafa ákveðið þetta sjálf og óþvinguð. En hvað með trúnaðinn?  RÚV hefur upplýst:

"Ríkisstjórnin hefur haldið því fram að ekki megi greina frá þeirri efnahagsáætlun sem lögð er til grundvallar aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrr en framkvæmdastjórn hans hefur afgreitt lánsumsóknina. Í tölvupóstinum til RÚV sagði  hinsvegar upplýsingafulltrúi sjóðsins að það væri ákvörðun ríkisstjórnar Íslands hvort áætlunin yrði gerð opinber" (Innlent - miðvikudagur, 29. október, 2008 - 18:23).

Þetta er stórfurðulegt og fjölmiðlar mættu gjarnan upplýsa um þetta. Var aldrei trúnaður á samningnum og skilyrðum hans eða tilmælum? Á þjóðin þá ekki rétt á að vita sem mest um þennan samning og það sem fyrst? Er ekki lýðræðisleg nauðsyn að upplýsa nú þegar um alla liðina í samningnum? Geir hefur sagt að engin beiti okkur fjárkúgun, að engin íþyngjandi skilyrði hafi verið sett og fram hefur komið að IMF heimtaði ekki stórfellda stýrivaxtahækkun. Nú vil ég sjá restina af skilyrðinum ásamt upplýsingum um hver hafi krafist hvers liðar fyrir sig. Langar ekki fleirum til að sjá þetta löngu fyrir fundinn 5. nóvember?


mbl.is Óbarinn seðlabankastjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á fréttamannafundi Geirs Haarde og utanríkisráðherra nýlega vegna IMF sagði sá síðarnefndi (ISG) að virða yrði trúnað við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn það yrðu allir að skilja og því væri ekki hægt að upplýsa hvað fælist í samkomulaginu.

Að virða trúnað er gyggð - sé ósk um trúnað.  Sé hins vegar borið við trúnaði þegar ekki hefur verið óskað eftir slíku eins og virðist vera í þessu tilfelli má ljóst vera að logið hefur verið að landslýð.

En þrælslunduð þjóðin kokgleypir þetta náttúrulega eins og allt annað !

Og IMF kemur betur fram við Pakistan en litla Ísland og gerir þeim aðeins hækka stýrivexti í  16 og hálft prósent þrátt fyrir verðbólgu sem þar mun vera um 25%.

Við ættum hugsanlega að flytja þangað !

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 14:16

2 identicon

Þetta sagði þingmaðurinn Jón Bjarnason á vefsíðu sinni meðal annars um áðurnefndan fréttamannafund ISG og GH 24. okt. sl.:

„Bæði Bretland og Holland  eiga  fulltrúa í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ekki ólíklegt að þau munu tryggja hagsmuni sinna umbjóðenda við endanlega afgreiðslu sjóðsins. Kannski er það hluti af því sem ekki má upplýsa. Samtals geta því verið um 1200 milljarða skuldbindingar á ferðinni. Og eru þá ekki öll kurl komin til grafar í kröfum erlendis frá.   

Geir og  Ingibjörg neituðu að svara um til um skilyrði,  kröfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða önnur lánskjör. Það yrði að gæta trúnaðar við sjóðinn þangað til stjórn hans væri búin að fjalla  um málið. „Stjórnarmenn sjóðsins vilja náttúrulega ekki heyra um skilmálana í fjölmiðlum og svo væru þetta enn bara drög“ sagði Ingibjörg Sólrún“

Samkvæmt upplýsingum RUV frá sjóðnum sjálfum er þetta ekki rétt.

Hvers eigum við að gjalda?

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 14:28

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Bendi á fínan pistil Marinós um þetta mál.

Lára Hanna Einarsdóttir, 31.10.2008 kl. 14:54

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Manni finnst mótsagnirnar í þessu öllu ótrúlegar. Voru Geir og Solla beinlínis að segja ósatt? Frekar vil ég trúa því að eitthvað sé í gangi sem þoli illa dagsljósið og að þau telji sig vera að draga úr áhyggjum fólks. Aðferðarfræðin gerir það eingöngu að verkum að ég hrópa hærra eftir því að fá að sjá þessi skilyrði. Þetta er óþolandi pukur.

Friðrik Þór Guðmundsson, 31.10.2008 kl. 15:51

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta er einræði! Valdarán. Það að Geir og Davíð hafi trúnað gagnvart IMF, sem gengur erinda fjölþjóðafyrirtækja um að kaupa þrotabúið ísland er algerlega absúrd. Engin skylda gagnvart þjóð og þingi? Engin lýðræðisleg umfjöllun? Þetta er ekki lýðræði og þetta verður að stoppa núna! Hafi menn skoðað skítaslóð IMF og JP Morgan, sem er ráðgefandi í seðlabankanum, þá komast þeir að því að hér eru auðhringar að yfirtaka landið án tillits til fólksins né náttúrunnar.

Hvað er að ske þarna niður á þingi?  Af hverju þustir fólk ekki út á götur? >Er enginn að átta sig á af hverju það er of viðkvæmt að segja frá skilyrðunum? Það er vegna þess að héðan í frá heyrir lýðveldið Ísland sögunni til og fyrir okkur mun fara á sama hátt og í öllum þróunarríkjum, sem IMF hefur "hjálpað". Lestu "Confessions of an economic hitman." eftir John Perkins og þú munt sjá hvað er á seyði.

Þetta er ekki bara tilefni til háværra mótmæla. Þetta er tilefni til byltingar, nú skal þing rofið hið snarasta áður en illa fer.

Jón Steinar Ragnarsson, 31.10.2008 kl. 17:46

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Viðskrifarinn mætti spyrja sig ef enn er verið að gera drög að "samningi" og ekki búið að fallast á hann formlega, hvers vegna eitt skilyrðið er þegar komið í framkvæmd? Heimsmetið í stýrivaxtahækkun, sem á sér enga rökræna skýringu aðra en að ganga endanlega frá atvinnulífi og einstaklingum. Að þetta sé hemill á gjaldeyrisútstreymi er fáránlegur fyrirsláttur vegna þess að því hefur verið handstýrt frá fyrsta degi hrunsins.

Við erum að ganga að skilyrðum samnings, sem ekki er búið að móta og framkvæma eftir samningsdrögum, sem ekki hafa verið samþykkt!

Þetta er Twilight Zone hérna!

Jón Steinar Ragnarsson, 31.10.2008 kl. 18:27

7 identicon

Gleymir Jón Steinar ekki Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Samfylkingunni í skrifum sínum?  Er það mögulega einhverjum Davíð að kenna?

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 19:48

8 identicon

Þessu til viðbótar má benda á að enn er ekki verið að gera drög að samningi.

Það er búið að leggja fram umsókn um aðstoð og til þess að hægt verði að fjalla um umsókn Íslands varð að hækka stýrivexti í þessi skelfilegu 18%.

Eins og Friðrik Þór nefnir - hverju sætir að ekki má segja frá innihaldi áætlunarinn allrar?

Þolum við ekki sjokkið ... allt í einni gusu?

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 19:51

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Vörn Viðskrifarans fyrir Davíð er við brugðið og hann vill endilega hreint eigna Ingibjörgu Sólrúnu ummæli sem Geir þó sagði á undan, ráðherra efnahagsmála og yfirmaður Seðlabankans.

Viðskrifarinn sér hvergi hnökra á Davíð, þótt aðeins 10% þjóðarinnar standi honum að baki um þessar mundir. Líkast til einblínir Viðskrifarinn á Seðlabankastjórnun Davíðs (sem þó er nóg út af fyrir sig) en skautar framhjá því að fólkið í landinu hugsar til hans með sl. 18 ár í huga. Davíð umfram aðra bjó til það þjóðfélag og hagkerfi sem nú eru rústir.

Hann vissulega barðist gegn sumum kapítalistum, sem ekki voru í náðinni hjá honum og Hannesi, en bara af því að það voru ekki einkavinirnir. Það er grátbroslegt að sjá þessa kóna segja í dag að kapítalisminn hafi ekki brugðist heldur (sumir) kapítalistar. Enda sögðu margir: Kommúnisminn brást ekki, heldur (sumir) kommúnistar. Bæði nýfrjálshyggjan og kommúnisminn eru hins vegar öfgastefnur sem eyðileggja sig sjálfar, þótt þær fái hjálp frá "sumum". 

Ég hef margsat á blogginu að ekki beri að einblína á Davíð við mótmæli og málflutning, enda sökudólgarnir víða annars staðar. En hann á, fjandinn hafi það, ansans ári stóran hlut í óförunum. Bæði sem forsætisráðherra og seðlabankastjóri.

Ég virði hins vegar rétt Viðskrifarans til að dásama Davíð, þeir að líkindum náskyldir. Raunar vitum við ekki hver Viðskrifarinn er, ekki satt?

Friðrik Þór Guðmundsson, 31.10.2008 kl. 20:25

10 identicon

Þetta er bara því miður enn eitt dæmið um þann trúnaðarbrest sem er milli ríkisstjórnarinnar og þjóðarinnar. trúnaðarbresturinn virðist því miður vera allstaðar, milli þjóðar og seðlabanka, þjóðar og bankakerfisins (nýja) og víðar.

bankastjórar eru skiparðir, sem hafa annaðhvort þegir feita bónusa nokkrum dögum áður eða hafa hagrætt gögnum til að forðast tap, en slíkt mun víst grassera í bönkunum. Pappírstætarar vinna yfirvinnu. Rannsóknaraðilar eru skipaðir til að rannsaka ættingja sína, "við eigum bara að safna gögnum" og hafa þar með í hendi sér hvaða gögn koma til rannsóknar og hver ekki.

Þegar fyrsta sjokkið kom taldi maður að nú myndi ríkisstjórn og þjóðin gerast "samherjar" - þvílík fyrra!

Minnir mig á fólkið sem lenti í flugslysi og kastaðist stórslasa útí skóg. Þegar skógarbúar komu að töldu þau víst að þeir kæmu til að hjálpa sér - og fengu annað sjokk þeigar skógarbúarnir rændu veskinu...úrinu...hringnum....

sigurvin (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 22:47

11 identicon

Ekki er að sjá að Davíð einhver hafi verið dásamaður, hins vegar er að degi ljósara að í tíð Davíðs Oddssonar sem forsætisráðherra var t.a.m. Landsbanki Íslands settur í hendur refsidæmdum fjárglæframanni og syni hans.

Hvernig sem á það er litið verður að segja að það er og var ófyrirgefanlegt.

Hitt er það að í þessari ríkisstjórn eru tveir flokkar og þeir vinna saman - nú að því er virðist gegn aumum þegnum þessa lands.

Við fáum vetti útreið hjá IMF en Pakistan - for crying out loud ! ... og höfum bara fengið að vita um tölulið 19.

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 1.11.2008 kl. 00:51

12 identicon

Verri útreið .... hér að ofan - náttúrulega.... !

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 1.11.2008 kl. 00:56

13 identicon

Ef menn velta fyrir sér hver taki við af formennsku Sjálfstæðisflokks af Geir Haarde má þá ekki spyrja hver taki við formennsku í Samfylkingunni?

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 1.11.2008 kl. 01:00

14 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Kannski færi best á því að formennskan í flokkunum væri meðal skilyrða, segjum tilmæla, samningsins við IMF!?

Friðrik Þór Guðmundsson, 1.11.2008 kl. 02:20

15 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Viðskrifari: Mér láðist kannski að nefna Samfylkinguna en tel hana að fullu ábyrga fyrir ástandinu og því sem hefur verið að gerast. Ég er ekki flokkspólitískur og réttlæti ekki status  qou með að kítastum hver sé verri. Ég horfi á ástandið. Jafnan er aukaatriði en niðurstaðan er það, sem fara skal eftir.

Samfylkingin er sek um sömu föðurlandsvik með því t.d að drepa á dreif nú umræðu um útleiðir og eyðir tímanum í niðurrif í stað uppbyggingar. Eftirlaunafrumvarpið, Eu og Davíð Oddson!? Getuleysi þeirra og hræsni er alger. Væri þessi flokkur með bein í nefinu, þá myndi ISG ganga fram fyrir skjöldu og kynna þau prospect sem í skilyrðum IMF felast og ef þau varða sjálfstæði okkar, þá á hún að slíta stjórnarsamstarfi núna strax.  Það myndi gera minningu þeirra aðra á spjöldum sögunnar. Samfylkingin virðist hinsvegar samanstanda af heiglum og hauslausum hænsnum, sem syngja sama ekki benda á mig söngin um leið og þeir benda á hina og gera svo akkúrat ekki neitt.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.11.2008 kl. 11:12

16 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég held annars að viðskrifarinn sjái hið stærrasamhengi útundan sé og að við séum sammála í stórum dráttum. Það er verið að taka landið yfir og við eyðum púðrinu í að hanga á kverkum hvers annars. Óskastaða fyrir glóbalglæponana.  Það hefur sýnt sig að skilyrði IMF eru ekki ultimatum og í asíu hafa menn sagt nei og farið aðrar leiðir til að takarka gjaldeyrisútstreymi án þess að stoppa landið alveg. Það er náttúrlega óbrigðul eið til að komast hjá því að eyða peningum í vitleysu að hætta að vinna, eða jafnvel brenna það sem til er, er það ekki? Það er það sem verið er að gera.  IMF hefur fallist á aðrar leiðir hjá þeim sem hafa haft bein í nefinu til að andmæla þeim. Þeir hafa ekki dregið aðstoð sína til baka. 

Þó svo að þeir gerðu það, þá er ég viss um að þær vinaþjóðir, sem setja aðkomu hans sen skilyrði, munu endurmeta viðhorf sín ljósi raka. T.d. þeirra raka að við við viljum ekki selja land ookkar sömu auðhringum og er u að sýna methagnað á sama tíma og allt er að fara á hausinn. JP Morgan, Exxon og David Kallinn Rockefeller með drauma sína um glóbalismann og New world Order. Þar er allt ekki einu sinni nóg.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.11.2008 kl. 11:24

17 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Og að lokum Viðskrifari: Þetta eru víst drög. Það er verið að móta samninginn. Það kemur formlegri hjálparbeiðni ekkert við. Geir og Solla segja það berum orðum að ekki sé hægt að greina frá efni samningsins, því að ekki sé búið að ræða hann og móta. Það er því af og frá að hann sé hægt að samþykkja enn í neinu samhengi. Samningar skoðast sem heild og skilyrðin vegin og metin gegn hverju öðru.

Landráð segi ég. Það er hófsamasta nefnan fyrir þetta.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.11.2008 kl. 11:35

18 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Annars er ég með lausn á málinu. Ef samið verður um frystingu skulda eða lágmarks vaxtaþak´og hver islendingur legði sem svaraði klukkustundarvinnu í lausnarsjóð (eða bætti við sig klukkustund) á hverjum vinnudegi, þá gætum við greitt upp skuldir landsins á tveimur árum í 2 áföngum.

Er það ekki betri fórn en að selja sjálfstæðið.  Ég væri til í að mæta með peninginn í banka á hverjum degi ef því er að skipta. Tvinnurekendur gætu einnig flýtt ferlinu með að greiða sem savarar kortéri á mann aukalega í sjóðinn. Þannig tryggðum við framtíð og sjálfstæði landsins.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.11.2008 kl. 12:41

19 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Atvinnurekendur...átti að standa. Fyrirgefið allar innsláttavillur. Það er svona þegar hjartað ræður för.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.11.2008 kl. 12:42

20 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það ætti að sjálfsögðu að kaupa norðurlandakrónur fyrir þetta og ávaxta í öruggasta og besta umhverfi.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.11.2008 kl. 12:45

21 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Stundum þarf leynd að hvíla yfir málum, sérstaklega í samningaferli. Hagsmunir þjóðarinna geta verið í húfi. Ég á bágt með að trúa því að Geir og Ingibjörg hafi viljað halda skilyrðum IMF sem trúnaðarmáli, bara til þess að eiga eithvert leyndó saman.

Það er hins vegar sérlega klaufalegt af þeim að ljúga að almenningi að leyndin hafi verið að kröfu IMF. Mér dettur helst í hug að þau/ríkisstjórnin hafi viljað kaupa tíma gagnvart t.d. Bretum, þó ég átti mig ekki á því hvernig það mætti vera. Eru Bretar ekki með sinn fulltrúa í sjóðnum?

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.11.2008 kl. 04:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband