17.10.2008 | 15:07
Leiftursókn í gangi gegn Íslandi
Við höfum ekkert með "varnir" Breta að gera - þeim er ekki treystandi að óbreyttu. Raunar er ekki einleikið hversu Ísland er grátt leikið af ekki bara Bretum, heldur mjög mörgum öðrum. Viðmót gagnvart Íslenskum ríkisborgurum er víða kuldalegt og lokað á þá, jafnvel á Norðurlöndum. Hvernig í ósköpunum stendur á þessu? Hvað höfum við gert til að eiga þetta skilið?
Þetta er orðið meira en svo að dugi að benda á flottræfilshátt og hákarla-kapítalisma auðjöfra. Ekki dugir heldur að segja sem svo að Íslensk stjórnvöld hafi klúðrað gagnsókn í áróðursstríði. Leiftursóknin gegn Íslandi virðist eiga sér dýpri rætur en svo. Er Ísland kjörið skotmark útrásar öfundar og reiði? Höfum við sýnt af okkur einhvern slíkan hroka, yfirlæti og dramb sem verðskuldar fyrirlitningu - og sjáum það bara ekki? Eða erum við alsaklausir og þessar pælingar bara paranoia?
Fjármálasnillingar okkar fóru kannski offari, stjórnvöld stóðu sig kannski ekki í stykkinu, en venjulegir Íslenskir ríkisborgarar og saklaus Íslensk fyrirtæki eiga ekki skilið þá framkomu sem þeim hefur verið auðsýnd víða erlendis. Nema að við höfum gert eitthvað af okkur sem þjóð sem okkur er einfaldlega ómögulegt að koma auga á. Svarið við þessu andstreymi erlendis er ekki linkind og rándýr eftirgjöf. Ekki heldur gagnvart innlendum sökudólgum.
Vill ekki Bretana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Sjónvarp, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
. . . góð pæling sem við þurfum að taka lengra - - en um leið að halda uppi málsvörn á alþjóðavettvangi og í fjölmiðlum. Til þess þurfum við að sýna að við seúm komin á fullt í tiltekt heimafyrir . . . . og séum ekki að skjóta hlífiskildi fyrir nein dekurdýr . . . .
Benedikt Sigurðarson, 17.10.2008 kl. 18:12
Nú hefur bankakreppan, efnahagshrunið og bretafjandinn verið efst á "baugi" undanfarnar vikur - enda ekkert undarlegt. Hæstu raddir er um afskiptaleysi stjórnvalda hvað varðar lagasetningu og hindranir, glæfraútrás bankamanna og óhóflega eyðslu ásamt því hver setti hvað banka á hausinn og hvernig.
Ég hlustaði á áhugavert viðtal við Guðmund Ólafsson hagfræðing og kennara við Háskóla Íslands í morgun þar sem hann nálgaðist efnið á eilítið annan hátt. Hann óskapaðist ekki yfir útrás bankanna líkt og aðrir og benti á Sviss sér til málstuðnings. Lítið land sem hefur aðalinnkomu af fjármálastarfsemi. Hefðum við getað náð þeim áfanga ef ekki hefði verið kippt lánstraustinu undan bönkum hérlendis með aðgerð stjórnvalda gagnvart Glitni banka? Um leið og stjórnvöld tilkynntu um 75% yfirtöku lækkaði lánshæfismat ríkisstjórnar umtalsvert og þar með bankanna. Hefðum við jafnvel getað nálgast lán og bjargað okkur úr þessu ef ekki?
Stæði Kaupþing enn á föstum fótum ef ekki hefði verið fyrir yfirlýsingar um vænt gjaldþrot og hryðjuverkastarfsemi Breta. Eða var búið að klúðra þessu fyrir okkur með upphafspunktinum?
Var útrásin alslæm eða hefðum við getað haldið áfram uppávið með því að draga seglin niður og berja af okkur stórsjóinn?
Það er mörgu ósvarað held ég og kannski er reiði okkar landsmanna stundum að slá dufti í augun á okkur - eða hvað?
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 17.10.2008 kl. 18:48
Ef til vill yfirborðslegt svar til Lisu: Svisslendingar byggðu upp sitt bankaveldi heima hjá sér. Þeir hleyptu ekki að neinum "glaumgosum", en byggðu upp sitt bankaveldi og traust á mörgum áratugum með íhaldssemi og varkárni að leiðarljósi. Luxembourg fetar nú í fótspor Sviss á sömu forsendum og verða áreiðanlega að lokum jafnvígir Sviss.
Útrásin var alslæm því í eðli sínu er hún algjör andstæða við það sem þarf til þess að byggja upp traustvekjandi fjármálastarfsemi á borð við Sviss og Luxembourg.
Kolbrún Hilmars, 17.10.2008 kl. 19:12
Af hverju sögðu allar "vina"þjóðirnar NEI þegar við byrjuðum að leita aðstoðar? Af hverju er verið að henda venjulegu íslensku fólki út úr íbúðum og leigu? Af hverju er hlegið kuldalega að Íslandi og Íslendingum?
Við þurfum að gera eitthvað sem tekið verður eftir.
Friðrik Þór Guðmundsson, 17.10.2008 kl. 20:02
Ef Guðmundur Ólafsson kenndi reikning væri 2 + 2 stundum 4 og oft eitthvað annað hjá honum.
Hins vegar eru „tilviljanirnar“ of margar til að þetta geti verið svona óvart „úbbs“ og bara til að tryggja aura fólks í Bretlandi - er það ekki?
Allir vinir okkar höfðu skellt á okkur eða ekki opnað hurðina þegar við komum leitandi aðstoðar. Tilviljun eða einhverjum Davíð að kenna?
Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 20:04
Ég er vissulega sammála því Kolbrún að útrásin var allt of taumlaus og það hefði átt að draga saman seglin og gæta varkárni. Eitthvað sem við íslendingar erum því miður ekki þekktir fyrir eins og t.d. má sjá á jeppaflota landsmanna. Við erum ennþá það ungt hagkerfi að við erum fremur óbeysluð og höfum ekki mótast á löngum tíma líkt og mörg evrópuríkin. Við vorum í moldarkofum fyrir rúmum 100 árum. Stundum er talað um vaxtarverki hjá ríkjum líku okkar.
Hlynur: ríkisstuðningur er ekki það sama og yfirtaka. Bankar víða eru að fá ríkisstuðning. Efnahagslægðin er ekki einka íslenskt fyrirbæri þessa dagana. Við erum bara ótemjurnar í efnahagslægðinni og þenslunni ef svo má að orði komast.
Við erum ung þjóð með góða menntun. Afhverju eru erlendar þjóðir að gera atlögu að okkur. Erum við eitthvað sem þær hræðast?
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 17.10.2008 kl. 20:07
Ég get alveg útskýrt þessa andúð að sumu leyti.
Bý í Þýskalandi og búinn að búa þar í 23 ár.
Hérna er lítill skilningur á því að vilja vera fyrir utan ESB. Það er litið á það sem hroka að þykjast hafa það betra utan bandalagsins og geta staðið á eigin fótum. Þess vegna hlakkar í fólki. Svona fer fyrir ykkur, hí á ykkur.
Til dæmis finnst mörgum innan ESB að Írar hafi verið að eyðileggja fyrir sambandinu með því að hafna stjórnarskránni.
Þessi höfnun byggðist náttúrulega á upplýsingaleysi af hálfu alþýðunnar, þ.e.a.s. enginn hafði sagt þeim út á hvað þetta gekk. Hvers vegna að segja já við einhverju sem maður ekki þekkir? Þá er bara vissara að segja nei.
Staðreynd er að ríkisstjórnin horfði á þetta gerast síðustu árin, án þess að aðhafast.
Það er yfirleitt talinn glæpur að keyra framhjá slysstað í staðinn fyrir að stoppa og hjálpa. Ríkisstjórnin, sem hefur stóran meirihluta Íslendinga á bak við sig er ábyrg fyrir því sem gerðist (sem og náttúrulega fjárglæframennirnir).
Það hafa margir sagst undrast á því hvernig banki frá svona litlu landi geti boðið upp á svona himinháa vexti. Eru bankamenn Íslendinga svona mikið betri en aðrir? Kannski í því að svíkja peninga út úr fólki, eins og þeir hafa gert í gegnum árin á Íslandi með verðtryggingu.
Það er líka engin dyggð að vera gráðugur og neyslusjúkur hér í Þýskalandi. Fólk sem kaupir sér lúxus á lánum er litið hornauga. Svoleiðis er Íslendingum lýst í ýmsum fjölmiðlum.
Við megum skammast okkar fyrir að láta hafa þetta gerst og ekki gengið í ESB fyrir löngu.
Einar (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 20:44
Einar, hvernig getur þú sagt okkur að skammast okkur fyrir að púkka ekki í glæpasamtök sem esb er? ESB er einfaldlega gróðrapúkk ríka fólksins eins og átti reyndar sér stað hérna á landi hvort sem er. En hvar er samheldnin innan ESB? Er það bjargi sér hver sem getur eins og pannikið varð þegar allt fer í skrall?
Gott með þig að hafa búið í 23 ár, Þú ert út á þekju þegar þú kemur með dæmið að það sé glæpur að keyra framhjá slysstað í staðinn fyrir að stoppa og hjálpa. ESB gerði aðeins meira en að keyra framhjá slysstað eftir að bretar settu á hryðjuverkalög, jú ESB stráði salt í sárin með því að leyfa að sparka í liggjandi mann og strá svo salti í sárin.
Þú vilt máski kenna íslensku útrásinni um fall bandaríska og evrópusku bankana?
hshue (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 21:08
Auðvitað áttum við að ganga í ESB fyrir langt löngu. Íslenska krónan hefur löngum verið lélegt stjórntæki í höndum seðlabankastjórnar. Hefur nokkurn tíma hlotist gott af því að reyna að handstýra genginu?
Ég er ekki að mæla bankamönnum og fjárglæframönnum bót. Fannst þetta hins vegar ágætt sjónarhorn, ferskt miðað við annað sem hefur dunið á okkur. Já rískisstjórnin hefði átt að gera eitthvað fyrir löngu síðan, en var hægt að valda kannski aðeins minni skaða með öðrum aðgerðum? Hvers erum við bættari þegar allir bankar eru fallnir? Hefðum við ekki getað komið þessu í annan farveg og siglt í gegnum þessa efnahagslægð. Það er í raun og veru það sem ég er að velta fyrir mér.
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 17.10.2008 kl. 21:13
Ok hvernig getur þú Lísa sagt að auðvitað hefðum við átt að fara í ESB fyrir löngu, komdu með rök fyrir því.
Veistu hvernig hlutirnir væru ef við værum í ESB? Ertu skyggn? Er það útaf Evrunni? Þú hljómar eins og skólagengin manneskja sem hefur aðeins bókstaflega sýn, hvernig væri að bretta upp ermarnar og fara að vinna?
Svakalega mikið af fólki sem veit og veit en hvernig veit það nema hafa prófað?
Hafþór Skúlason (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 21:28
Hér er merkilegt innlegg inn í Breta-haturs-umræðuna; skrif í Financial Times í mars sl., sem endar á orðunum: You have been warned:
Iceland's banks top 'riskiness league'
Simon Watkins, Financial Mail16 March 2008, 12:36pm
... More risky is Alliance & Leicester, whose price was about 342 points last week, again reflecting its high dependence on wholesale financial markets, which have become frozen in recent months. But the real horrors are in Iceland.
Credit insurance for debts at Iceland's biggest bank, Landsbanki, is priced at 610 points while that for Kaupthing is priced at a hair-raising 856. Given that these two have taken billions in UK retail deposits, it may be a sobering thought for savers to consider where they are putting their cash. These banks are now seen as the most unsafe in the developed world.
Of course, no one can be sure that disaster looms for anyone, but the figures on credit default swaps show clearly where investment professionals think the big risks are.
You have been warned.
Friðrik Þór Guðmundsson, 17.10.2008 kl. 21:41
Já Hafþór. Ég er skólagengin, það er rétt hjá þér og ég vinn í viðskiptaheiminum. Ég sé daglega hvernig gengissveiflurnar fara með fyrirtækin hér í landinu. Og ég sé hvernig þetta ár hefur verið. Og ég veit að það væru ekki þessar sveiflur ef við værum með gjaldmiðil sem nær útfyrir þetta litla land. Og já - ég vildi gjarnan að evran væri tekin upp hér á landi til að jafna sveiflur hjá inn- og útflutningsfyrirtækjum. Það eru kostir og gallar í stöðunni, en það eru alltaf kostir og gallar. Það þarf bara að vega og meta hvað kæmi best út til langs tíma litið og mín skoðun er sú að okkar hagkerfi sé of lokað miðað við það að við erum á alheimsmarkaði. Ég tel að upptaka evru mundi hjálpa mikið til. Það er ekkert of langt síðan dollarinn fauk uppyfir 100 kallinn síðast og þetta verðum við að horfast í augu við meðan við höldum vörð um íslensku krónuna. Íslensk fyrirtæki eru með útibú og dótturfyrirtæki erlendis. Það þarf að uppfylla stíf skilyrði til að geta gert upp í evrum. Það getur haft heilmikil áhrif á afkomu fyrirtækja.
Eru þetta nógu góð rök? Þetta er allavega alls ekki bókstafleg sýn.
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 17.10.2008 kl. 23:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.