Hafskip: Sagan sem ekki er sögð (fyrri hluti)

Bók Stefáns Gunnars Sveinssonar um Hafskipsmálið er hið þokkalegasta YFIRLIT yfir "Hafskipsmálið" svokallaða. Aðal ókostur bókarinnar felst þó kannski einmitt í því að hér er eingöngu um yfirlit að ræða - engum steinum er velt, engin ný gögn til staðar eða sannanir. Höfundurinn getur þess enda skilmerkilega að hann hafi verið beðinn um að gera yfirlit og "skýra allt það sem áður hefur komið fram" um málið (feitletrun mín).

"Hlutlægni má hins vegar krefjast af fræðimönnum, ekki síst þegar þeir koma fram á opinberan ritvöll".

 Sagði Ragnar heitinn Kjartansson í Morgunblaðinu 3. júlí 1991. Þremenningarnir frá Hafskip, sem eru verkbeiðendur Stefáns Gunnars, eiga samkvæmt Stefáni Gunnari ekki á nokkurn hátt að hafa reynt að hafa áhrif á skrif hans og ætla ég ekki að efa það. Stefán segir hins vegar heiðarlega og hreinskilnislega að hann sé ekki hlutlaus í (fræði)skrifum sínum og tiltekur að hann hafi samúð með Hafskipsmönnum, verkbeiðendunum. Bókin ber enda þess greinilegt vitni; atburðarásinni er stýrt yfir í óhjákvæmilega samúðarfulla niðurstöðu. Í stuttu máli að svo gott sem ALLIR hafi verið vondir við Hafskipsmenn og Útvegsbankastjóra og þeir sjálfir einir haft rétt fyrir sér, fyrir utan nokkrar samúðarfullar raddir sem studdu þá eftir allt bramboltið.

Í þeim tveimur ritdómum sem birst hafa um bókina um og eftir helgi (sem ég hef  séð) er bent á það sama og ég hugsaði við lesturinn og eftir hann: Þarna er sagan alls ekki öll sögð. Páll Baldvin Baldvinsson segir þetta efnislega í Fréttablaðinu fyrir helgi og Jón Þ. Þór segir þetta í DV í dag:

"Stefán rekur upphafið með hefðbundnum hætti til frétta- og greinaskrifa í Helgarpóstinum og sýnir síðan hvernig málið vatt smám saman upp á sig. Þetta er hin hefðbundna skýring og henni get ég ekki hafnað með rökum. Ég á hins vegar afar erfitt með að trúa því, að tiltölulega lítið vikublað (sem ekki naut sérlega mikils álits á sínum tíma) hefði eitt og sér getað valdið öllum þessum óvinafagnaði. Það hljóta önnur og sterkari öfl að hafa staðið að baki. Mörgum fleiri spurningum er ósvarað að lestri loknum og víst er að hér eru mörg rannsóknarefni", segir Jón í DV-ritdóminum í dag.

 Nákvæmlega. Mér dettur ekki í hug að skrif Helgarpóstsins (HP) (sem nær eingöngu voru skrif Halldórs Halldórssonar) hafi ekki haft áhrif, þó nú væri. En mér finnst þessi "hefðbundna" skýring ekki halda vel vatni, að benda fyrst og fremst á Helgarpóstinn og aðra fjölmiðla og síðan gera ógnarmikið úr þætti stjórnarandstöðuþingmanna,einkum Ólafs Ragnars Grímssonar, Jóns Baldvins Hannibalssonar og Svavars Gestssonar.

Þannig kýs höfundur að líta á upphaf og að stórum hluta endalok Hafskipsmálsins: Skrif í HP og öðrum fjölmiðlum og ákveðnar ræður ofangreindra þingmanna. En það vantar gjörsamlega inn í þetta mikilvæga vídd og það eru rannsóknarefnin sem Jón talar um. Þessi söguskýring gengur út frá því að fjölmiðlar og þingmenn í stjórnarandstöðu-minnihluta hafi haft úrslitaáhrif á hvernig fór. Að allra helst hafi orð þessara aðila haft áhrif á embættismenn og aðra rannsakendur á sínum tíma. Með öðrum orðum að HP og aðrir fjölmiðlar og ÓRG og félagar hafi drifið rannsakendur og saksóknarana til offors og æðis.

Víddin sem vantar (en er þó imprað á nánast innan sviga) er þessi: Að völdum sat ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þessir flokkar höfðu framkvæmdavaldið og yfirmenn embættismanna réttarkerfisins voru undirmenn ráðherra þessara flokka. Jón Helgason var dómsmálaráðherra en ekki Ólafur Ragnar Grímsson. Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra en ekki Jón Baldvin Hannibalsson. Matthías Á. Mathiesen og síðar Matthías Bjarnason voru ráðherrar bankamála, en ekki Svavar Gestsson. Albert Guðmundsson og síðar Þorsteinn Pálsson voru ráðherrar fjármála, en ekki Guðmundur Einarsson. Að völdum sat "helmingaskiptastjórn" þeirra flokka sem um áratugaskeið höfðu mannað yfirmannastöður réttarkerfisins "sínum" mönnum. Þessir menn höfðu auðvitað, ef einhverjir, úrslitaáhrif á áherslur og kraft opinberrar rannsóknar á Hafskipsmálinu. Jú, jú, rannsakendur og saksóknarar áttu og eiga að vera sjálfstæðir, en bein og óbein áhrif yfirboðaranna í ráðherrastólunum eru borðleggjandi Íslenskt einkenni og hefur verið alla tíð.

En samkvæmt bókinni og hinni hefðbundnu söguskoðun þá hlupu embættismennirnir, undirmenn ráðherranna, fyrst og fremst eftir duttlungum fjölmiðlanna og (lítilvægra) þingmanna í stjórnarandstöðu. Ráðherrum framkvæmdarvaldsins er að flestu leyti lýst sem áhrifalausum og hjálparvana áhorfendum. Fjölmiðlaumfjöllun hafði örugglega áhrif á almenningsálitið og ræður stjórnarandstöðuþingmanna kunna að hafa verið óþægilegar í sameiningaviðræðum við Eimskip, jafnvel rýrt eignir Hafskips óbeint, en hvað voru valdamennirnir við kjötkatlana að gera?

Menn geta spurt sig: Gátu ráðherrarnir imprað á því við rannsakendur og saksóknara að annað hvort gæta hófs við meðferð málsins - eða beitt fullri hörku? Við skulum ekki gleyma því að það var umfram allt stjórnarmeirihlutinn sem setti á laggirnar sérstaka rannsóknarnefnd þingsins til að fara í saumana á málinu. Í bókinni eru miklu varpað yfir á þessa nefnd.

Imprað er á innanflokksátökum innan Sjálfstæðisflokksins. Talað um öfl þar sem vildu "klekkja á Alberti". Þessum steini er þó ekki velt, bara lyft pínulítið. Og öðrum stórum steini er bara alls ekki lyft, hvað þá velt: Hver var hlutur Eimskips í atburðarásinni? Hafði "Kolkrabbinn" engin úrslitaáhrif á það hvernig fór? Ég leyfi mér að efast um að "Kolkrabbinn" hafi verið aðgerðarlaus og tel mér óhætt að fullyrða að hann hafi einmitt verið í góðu sambandi við lykilmenn hjá framkvæmdarvaldinu. Og jafnvel hjálpað við að koma upplýsingum til fjölmiðla (ég var blaðamaður á HP 1986 og 1987 en veit alls ekkert um heimildarmenn Halldórs ritstjóra umfram þá sem nafngreindir voru og kom ekkert að skrifunum sjálfum - þau voru alfarið á borði HH lengstum). Þessi saga er ósögð og höfundi þessarar bókar var ekki ætlað að segja hana.

Að rekja upphaf og að stórum hluta endalok Hafskipsmálsins til fjölmiðla og stjórnarandstæðinga er ákveðið sjónarhorn. Það er sjónarhorn þar sem kosið er að horfa framhjá veigamiklum breytum. Má ekki tala um upphaf og endalok í öðrum atriðum: Í gífurlegum rekstrarerfiðleikum Hafskips, í Norður-Atlantshafssiglingunum ("heljarstökk út í óvissuna"), til reksturs Eddunnar með Eimskip, til þess að árið 1984 var ár mikilla áfalla í skiprekstri almennt, til síðharðnandi samkeppni skipafélaganna, til aðgerðarleysis Útvegsbankans í eftirliti sínu með þessum viðskiptavini, til "þungs hugar" starfsmanna Hafskips á borð við Gunnars Andersen og Björgvins Björgvinssonar, til þess er stjórn SÍS hafnaði sameiningu við Hafskip eða til þess er Eimskip setti "óskiljanlega" fyrirvara við sameiningu við sig? Og auðvitað til þess að framkvæmdavaldið kom ekki til bjargar?

(hér verð ég af óviðráðanlegum ástæðum að stoppa í bili. Sé ekkert því til fyrirstöðu að birta það sem komið er, en skelli mér í niðurlagið síðar í dag)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það á sama við um fjölmiðlafár (t.d. um Hafskip og hundinn Lúkas!!) og snjóflóð. Það þarf lítið til að koma því af stað en það er engin leið að stöðva það.

Sá veldur því miklu sem upphafinu veldur.

Af svona málum er margvíslegan lærdóm hægt að draga - en því miður þá lærum við ekki neitt. Við sýnum sömu vitleysisviðbrögðin aftur og aftur. Allt er gleymt í næsta fári.

Stjórnmálamenn skulu ætíð tilbúnir að fiska í gruggugu vatni.

Embættismenn hætta að sýna eðlilega aðgát í málarekstri og eltast við "almenningsálitið".

Og samkeppnisfyrirtækin hafa aðeins eitt boðorð: Það er enginn annars bróðir í leik.

Gömul saga og ný. Því miður.

Ragnar Tómasson (IP-tala skráð) 22.9.2008 kl. 14:43

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka kommentið Ragnar. Já, það er þetta með upphafið og spurninguna um hvað geti talist fjölmiðlafár. Ég vil þannig meina að það segi litla sögu að rekja eitthvert upphaf til Helgarpóstsins 6. júní 1985. Í júní og byrjun júlí það ár fór ekkert fjölmiðlafár af stað, af völdum HP eða annarra; þetta voru tiltölulega almenn fréttaskrif um mikla rekstrarerfiðleika Hafskips vegna Atlantshafssiglinganna. Skrif sem voru mjög í anda þess sem fjölmiðlar skrifa um fyrirtæki í dag. Þau skrif dóu út; HP skrifaði ekkert um Hafskip þrjá næstu mánuðina (hugsanlega þó smádálka, sem uppnefndir voru "slúður").

Skriðan fór hins vegar aftur af stað í byrjun október og þá höfðu augljóslega alvarlegir hlutir gerst (án nokkurs fjölmiðlafárs); Sameiningaviðræður voruí gangi við Eimskip, lífróður í gangi. Öll meginskrif HP féllu til eftir þetta. Mér finnst enda ekki sjálfgefið að rekja eitthvert upphaf til HP í júní 1985. 

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.9.2008 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband