Góður og slæmur samruni hjá RÚV

 Óðinn Jónsson ræðir við fréttamenn eftir starfsmannafund RÚV í dag.

Samruni fréttastofa RÚV, Sjónvarps og Útvarps, kemur í sjálfu sér ekki á óvart og þarf alls ekki að vera óskynsamleg ráðstöfun. Sérstaklega ekki ef fréttaflutningur og úrvinnsla getur styrkst enn meir hjá þessum fréttamiðlurum, sem almenningur taldi fyrir að væru hinar virtustu og traustustu í landinu. Kostirnir verða vonandi ofan á, en gallar eru fyrir hendi.

Stærsti gallinn er auðvitað sá að nú fáum við áhorfendur/áheyrendur/lesendur einni sjálfstæðri ritstjórn færri að moða úr. Þótt þessar fréttastofur hafi verið náskyldar og oft samráð þar á milli, þá var líka samkeppni á milli þeirra, holl samkeppni og metnaður að vera á undan og með betri fréttir en kollegarnir á hinum enda gangsins. Líklegir og mögulegir kostir geta að sönnu vegið þetta upp, þ.e. ef markmið Páls Magnússonar og félaga er ekki beinlínis það eitt að spara pening og þess vegna draga úr metnaði við upplýsingaöflun og úrvinnslu. Raunar á ég bágt með að trúa því að á þeim vettvangi verði skorið meira niður eftir hreinsanirnar við OHF-væðinguna og uppsagnir í maí og júní. Eftir slíkar hræringar væri beinlínis siðlaust að nota þennan samruna til annars en að stórefla fréttaþjónustuna og tryggja áfram virðinguna og traustið.

Ekki vil ég mikið segja um að Óðinn Jónsson hafi frekar en Elín Hirst verið valinn til að verða fréttastjóri nýju sameinuðu fréttastofunnar. Þekki þau bæði bara af góðu einu faglega séð. Elín er sjálfsagt ekkert of hress með þetta, en ég held að hún standi traustum fótum eftir sem áður.

ATH NÝ SKOÐANAKÖNNUN UM FORSTJÓRA SJÚKRATRYGGINGASTOFNUNAR HÉR TIL HLIÐAR


mbl.is Fréttastofur RÚV sameinaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hendi þessu hér inn, af vef DV. Alls konar fréttastofusameiningar í gangi; 100% hjá ljósvakamiðlunum!:

"Samkvæmt heimildum DV mun Steingrímur Sævarr Ólafsson, fréttastjóri Stöðvar 2, láta af störfum sem fréttastjóri á næstunni. Við starfi hans mun taka Óskar Hrafn Þorvaldsson, ritstjóri Vísis, en hann verður jafnframt yfirritstjóri sameinaðra fréttastofa Bylgjunnar, Stöðvar 2 og Vísis.

Fréttastofur þessara þriggja miðla 365 verða því sameinaðar á svipaðan hátt og fréttastofur RÚV í morgun. Samkvæmt heimildum DV mun Steingrímur Sævarr ekki láta af störfum hjá 365 heldur mun hann sinna dagskrárgerðarverkefnum. Hann verður því annar fréttastjórinn í dag sem lætur af störfum.

Þegar dv.is hafði samband við Steingrím Sævarr í morgun vissi hann ekki af fyrirhuguðum breytingum. Þá vildu hvorki Óskar Hrafn né Ari Edwald tjá sig um fyrirhugaðar breytingar sem DV hafði heimildir fyrir um."

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.9.2008 kl. 14:09

2 Smámynd: Bjarni Baukur

Það eru þrjá fréttastofur a.m.k. hjá Sveriges Radio, fyrir útvarpið og svo sjónvarpsrásirnar tvær. Sjónvarpsfréttastofurnar heita Aktuellt og Rapport. Það er grimm samkeppni á milli þeirra. Þessi sameining hjá RUV finnst mér núna ekki svakalega snjöll úrlausn !  Við sjáum til.

Bjarni Baukur, 16.9.2008 kl. 15:49

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Friðrik ég var í 18 ár fréttamaður hjá RÚV á Austurlandi og í 9 ár af þeim tíma sinntum við bæði fréttastofu útvarps og sjónvarps, auk svæðisútvarps, ritstýrðum Auðlind, fréttaþætti um sjávarútvegsmál og sáum um dagskrárgerð fyrir Rás 1 og Rás 2. Þetta varð til þess að þessir þrír fréttamenn gátu sérhæft sig meir í málefnum en urðu ekki að einhverjum sjónvarpsandlitum eða útvarpsröddum og því unnið fréttir fyrir alla þessa miðla. Þessi reynsla eins og önnur, þ.e. starfræn upptaka bæði fyrir útvarp og sjónvarp hefur sýnt að þetta er hægt í Efstaleitinu líka. Við höfum á þessum árum farið til starfa syðra og þá á báðum fréttastöfum og getað gengið fyrirvaralaust inní störf þar. Hled að þetta verði til mikilla bóta en tek undir með að þér að erfitt hefði ég átt með að gera upp milli Óðins og Elínar, þau eru bæði afbragðs stjórnendur. Vona að Ella sætti sig við þessa ákvörððun og verði áfram hjá RÚV.

Haraldur Bjarnason, 16.9.2008 kl. 20:08

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Kostirnir eru vissulega ýmsir og vonandi verða þeir ráðandi. Breytir því ekki að sjálfstæðar raddir verða færri, ekki síst þegar báðir samrunarnir eru hafðir í huga. En gangi báðum fréttamiðlum sem best að nota þetta til að efla sig.

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.9.2008 kl. 22:18

5 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Friðrik ég átta mig ekki hvað þú ert að fara með því að segja að fréttastofa sjónvarps sé "traust" nema þú eigir við að hún sé "traust" Sjálfstæðisflokknum.

Ekki átta ég mig á því af hverju Óðinn er valin, það er eiginlega óskiljanlegt, hann hefur aldrei verið orðaður við Flokkinn. Reyndar er það eðli Flokksins að dyljast hvers ríkis sem hann er, ef til vill er það skýringin. 

Kristján Sigurður Kristjánsson, 16.9.2008 kl. 23:04

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Eru ekki pólitískar ráðningar fréttamanna liðin tíð hjá RÚV, Kristján Sigurður? Mér sýnist það.

Lára Hanna Einarsdóttir, 16.9.2008 kl. 23:21

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég meina, Kristján Sigurður, að fólkið í landinu treystir fréttastofu Sjónvarpsins (og Útvarpsins enn betur). Það hafa kannanir sýnt. Kenningarnar um "Bláskjá" hafa mér vitanlega ekki breytt þessu. Þú kannt að vera á öðru máli, en mælist þá í áberandi minnihluta í slíkum könnunum.

Og, já, pólitískum ráðningum hefur örugglega fækkað. Í sjálfu sér er það líka þvert gegn kenningunni um "Bláskjá" að Óðinn var ráðinn frekar en Elín - en í mínum huga eru þau bæði fyrst og síðast fagmenn.

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.9.2008 kl. 23:30

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

ATH NÝ SKOÐANAKÖNNUN UM FORSTJÓRA SJÚKRATRYGGINGASTOFNUNAR HÉR TIL HLIÐAR

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.9.2008 kl. 23:31

9 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ekki segi ég að Ísland sé alræðisríki en í slíkum ríkjum treystir fólkið ríkisfjölmiðlunum.

Á kosningavöku Sjónvarpsins þegar R-listinn komst til valda varð Boga Ágústssyni að orði: "Við erum búin að tapa borginni".

Á kosningavöku Sjónvarpsins fyrir síðustu Alþingiskosningar voru Bogi og Elín í settinu alla nóttina og voru orðin þreytt að sjá, enda langt liðið á nótt. Nýjar tölur komu úr Norðausturkjördæmi sem sýndu fall Sjálfstæðisflokksins frá síðustu tölum. Bogi las upp tölurnar og beindi síðan tali sínu að Elínu og sagði: "Við töpum"

Hverjir skildu hafa verið þessir við? Var það Sjónvarpið? Voru það Bogi og Elín? Eða voru það Bogi Elín og einhver ótilgreindur Flokkur? Eða allir í senn?

Kristján Sigurður Kristjánsson, 16.9.2008 kl. 23:44

10 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Kristján Sigurður. Hef aldrei áður heyrt að Bogi og Elín Hirst séu talin til vinstra fólks, þetta er brandari og allar þínar vangaveltur um politík fréttamanna RÚV

Haraldur Bjarnason, 17.9.2008 kl. 00:19

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Kristján vill meina að Bogi hafi verið að tala um sjálfstæðisfólk (ekki vinstra fólk) þegar hann sagði "við" við Elínu. Ekki man ég eftir svona orðaskiptum, en þætti fróðlegt ef einhver fleiri en Kristján muna eftir þessum orðum Boga, því ella grunar mig hann um draumfarir.

Friðrik Þór Guðmundsson, 17.9.2008 kl. 00:35

12 Smámynd: Bjarni Baukur

Eru allir búnir að gleyma þegar Auðun George Ólafsson var ráðinn féttastjóri á útvarpinu? Þá massaðist upp og varð sýnileg rauðliðahreyfingin á fréttastofunni og fóru m.a. fulltrúar hennar niður í þing til að biðja um inngrip þingmanna til að koma í veg fyrir ráðningu hans. Þá máttu stjórnmálamenn hafa afskipti af fréttastofunni. Ég held að þeir sem þekki innviði fréttastofunnar vel - muni nú seint segja að hún sé bláleit ! Þarna eru fyrrverandi stafsmenn af kosningaskrifstofum VG og Samfylkingarinnar. Afleysingarstúlka sem var ritari á fréttastofunni sagði mér að Ögmundur Jónasson hefði sífellt verið að hringja inn með fréttir af sér og sínum og pannta við sig viðtöl svo og Jóhanna Sigurðardóttir og Össur. Oftar en ekki var þá hlaupið til og farið inn í studio til að „taka upp" frétta eða viðtal. Svona var nú það. (og er sennilega enn..)

Bjarni Baukur, 17.9.2008 kl. 11:14

13 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ég er borgaralega sinnaður. Þeir sem synda í vatni og eiga þar heima verða lítt varir við vatnið, einnig þeir sem hafa alla æfi synt í fúlu vatni þræta fyrir að það sé fúlt. Þó að fréttastofa útvarps sé kommúnísk afsakar það ekki að fréttastofa sjónvarps sé fasísk. Að segja eins og Lási skítakokkur þegar kvartað er yfir því sem borið er á borð: "Þú ættir að sjá hvernig þetta er hjá Gunnu systir" er lítt málefnalegt. Ég man þegar uppreisnin varð gegn hinum "sjarmerandi forseta" Cjáseskú  mátti ætla eftir eðli fréttaflutnings útvarpsins að stúdentar væru að dimmitera og að eldri kona hefði slasast í atgangi unglingana.

Ríkissjónvarpið er hreint málgagn Sjálfstæðisflokksins.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 17.9.2008 kl. 12:12

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er nýtt fyrir mér að vera kallaður "rauðliðahreyfing". Nema það sé vegna háralitsins. Samanburður við fréttastofur þjóðar sem er 30 sinnum stærri en við gengur ekki upp.

Satt er það, að eitt af því sem stóð svo lengi í vegi fyrir því að fréttastofur útvarps og sjónvarps voru sameinaðar var hin mikla samkeppni sem var á milli þeirra þegar þetta voru einu tveir ljósvakamiðlarnir á markaðnum. Samkeppni er nauðsynleg en smæð markaðarins ræður líka miklu, einkum á samdráttarskeiði.

Nú er þetta breytt og höfuðatriðið í mínum huga er að samkeppninni verði við haldið á milli ljósvakamiðla RUV og 365. Nú, þegar kreppir að, er það helsta áhyggjuefni mitt.  

Ómar Ragnarsson, 17.9.2008 kl. 12:42

15 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Að auki: Eru allir búnir að gleyma þegar Auðun George Ólafssonvar ráðinn fréttastjóri á útvarpinu?

Það er þetta með hina viðráðanlegu stærð. Þegar Skattrannsóknarstjóri hóf feril sinn byrjaði hann smátt hann réðst gegn einyrkjum og húsmæðrum sem stunduðu þann glæp að prjóna heima. Eins er það mikil freisting að hella sér yfir kassadömuna út af verðlaginu. Nú, nú! Þegar Auðunn var ráðinn var rökstuddur grunur um að hann væri á vegum Framsóknarflokksins. Dauðþreyttir fréttamenn hjá RÚV sáu í þessu hina viðráðanlega stærð. Smáflokkur var farin að færa sig uppá skaftið og í því lá tækifærið að taka Albaníu í gegn fyrir Kína.

Það er öldungis langt frá því að allir fréttamenn RÚV séu pólitískir. En ritstjórar Tímans Moggans og Þjóðviljans unguðu út urmul góðra fréttamanna en ritstjórarnir voru og eru rammpólitískir. Ég er ekki að segja að þátturinn "Læknir á lausum kili" sé pólitískur, það var heldur ekki Dreki í Tímanum né Denni Dæmalausi.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 17.9.2008 kl. 13:19

16 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Kristján Sigurður; Ég er sárlega móðgaður að þú skulir ekki nefna Alþýðublaðið sem mikla útungunarstöð; því þaðan komu mjög margir góðir blaða- og fréttamenn.

Ég ætla litlu að bæta við umræðuna um "kommúnista" og "fasista"/"Bláskjá". Almennt séð tel ég að flokksmálgögnin hafi horfið, flokkserindrekstur fjölmiðlamanna stórlega minnkað og fagmennska aukist til mikilla muna hin síðari ár. Hjá RÚV ríkti oft á tíðum mikill pólitískur þrýstingur frá ráðandi öflum, en slíkt hefur sem betur fer líka minnkað. AuGÓ-málið var kannski dropinn sem fyllti mælinn. Uppreisnin gegn ráðningu hans var að mínu mati réttlætanleg og snérist um fagleg prinsipp, en ekki dynti meintra "rauðliða".

Friðrik Þór Guðmundsson, 17.9.2008 kl. 14:03

17 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Fyrirgefðu þetta með Alþýðublaðið og fyrirgefðu að ég skuli hanga hér á síðunni sí og æ.

Ég man að ég móðgaði blaðamann Tímans, sem þó var stærri en Alþýðublaðið, en hann hafði samband við mig og vildi viðtal vegna umsóknar minnar um stöðu Seðlabankastjóra, þegar ég spurði hann hvort það væri ekki beinna að ég hringdi í Halldór á Kirkjubóli og hann gæti fengið að spyrja sjálfur. Halldór heitinn var eini áskrifandinn að Tímanum sem ég vissi um fyrir víst.

Lifðu heill.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 17.9.2008 kl. 17:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband