18.7.2008 | 11:26
Niðurskurðar- og sparnaðartillögur mínar: leiðari
Fjárlög ársins í ár gera ráð fyrir 434 milljarða króna ríkisútgjöldum. Á sama tíma er ljóst að efnahagslegur samdráttur er að hellast yfir landsmenn. Svo er að sjá að yfirvöld finni helst sparnaðarleiðir í velferðarmálum (sbr. spítalar) og öryggismálum (sbr. lögregla og landhelgisgæsla). Mig langar að beina augum yfirvalda að öðrum sparnaðarpóstum.
Fyrir það fyrsta legg ég til að útgjöld til trúmála verði skorin niður um þó ekki væri nema 20-30 prósent; mest hjá Þjóðkirkjunni vegna forréttinda hennar, en minna hjá öðrum trúfélögum og til Háskólasjóðs (þangað sem renna sóknargjöld fólks utan trúflokka). Í alla þessa pósta eiga í ár að renna 4.650 milljónir króna (liðlega 4.6 milljarðar). Tökum 1.2 milljarða af þessu og setjum helminginn í spítalana en spörum restina. Skerum Þjóðkirkjufjárlög, sóknargjöld, Jöfnunarsjóð sókna, Kirkjumálasjóð, kristnisjóð og slíka pósta um allt að 30%. Ég er notabene ekki á móti fjárveitingum til trúfélaga, en fórnarlundin á að segja til sín í kreppunni og þessi óeiginlega tvö- til þrefalda tíund mætti gjarnan frekar renna til velferðarmála; stytta biðlista og borga birgjum heilbrigðisstofnana til að spara vanskila- og dráttarvexti.
Skerum Alþingisútgjöld um 10% - þar fást 245 milljónir. Skerum "Varnarmál" um 20% - þar fást 106 milljónir. Skerum sendiráð um 20% - þar fást 384 milljónir. Skerum "greiðslur vegna mjólkurframleiðslu" niður um 10% - þar fást 500 milljónir. Skerum "greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu" um 10% - þar fást 365 milljónir. 50 milljónir í viðbót vegna Bændasamtaka Íslands. Skerum "styrki vegna stjórnmálasamtaka" niður um 20% - þar fást 74 milljónir. Skerum niður "landkynningarskrifstofur erlendis" um 50% - þar fást 82 milljónir. Skerum niður "markaðssókn í íslenska ferðaþjónustu" um 50% - þar fást 15 milljónir. Skerum niður" markaðssókn Íslands í Norður-Ameríku" um 50% - þar fást 24 milljónir.
Skerum niður skúffufé ráðherranna og ríkisstjórnarinnar um 65-70%; þar fást 60 milljónir vegna ráðherranna og 125 milljónir vegna ríkisstjórnarinnar.
Endurskoðum útgjöld eins og: Ritun biskupasögu (14 milljónir), útboðs- og einkavæðingaverkefni (15 milljónir), ráðgjöf vegna breytinga í heilbrigðis- og tryggingamálum (30 milljónir), viðhald stafkirkju í Vestmannaeyjum (3 milljónir), landþurkun (4.5 milljónir), námsleyfi lögfræðinga (3.7 milljónir), Hollvinasamtök varðskipsins Óðins (5 milljónir), Hið íslenska reðursafn (800 þúsund), heiðurslaun listamanna - Erró (1.8 milljón), heiðurslaun listamanna - Guðbergur Bergsson (1.8 milljón), Hvítasunnukirkjan á Íslandi, Kirkjulækjarkot (2 milljónir), Krossinn, unglingastarf (2 milljónir), Klúbbur matreiðslumeistara (3 milljónir), niðurrif frystihúss í Flatey (10 milljónir), Spákonukot á Skagaströnd (5 milljónir), Vestmannaeyjabær - "handritin heim" (5 milljónir), ár kartöflunnar 2008 (1.5 milljón), umhverfissamtökin Blái herinn (1.2 milljón).
Ég er viss um að ég móðgi þarna suma, en ég hef þó fundið ærið fé til að stytta biðlistana, borga birgjunum, ráða nokkrar löggur og laga eina þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þetta er bara spurning um forgang á samdráttartímum.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Trúmál og siðferði, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Þegar þú telur þetta svona upp sé ég að ég þarf augljóslega að sækja um sporslur frá ríkinu fyrir hönd félagsins
Matthías Ásgeirsson, 18.7.2008 kl. 14:09
Og ég sting þá umsvifalaust upp á að þær sporslur verði skornar niður!
Ég hef verið að bíða eftir mótmælum frá kirkjunnar þjónum. Kannski eru þeir þrátt fyrir allt sammála.
Friðrik Þór Guðmundsson, 18.7.2008 kl. 15:00
Þetta er hressilegur niðurskurður og mestan part réttlætanlegur, sýnist mér. Reiknaðirðu samtölu?
Lára Hanna Einarsdóttir, 18.7.2008 kl. 17:17
Nennti því ekki. Eitthvað vel á þriðja milljarð. Af 434 milljörðum. Ekki finnst mér það róttækt en vel þegið í velferðarmálin.
Friðrik Þór Guðmundsson, 18.7.2008 kl. 17:22
Ef prestar og starfsmenn kirkjunnar myndu lækka launin sín niður í 300 þúsund á mánuði ættu þeir, hóflega áætlað, að geta sparað ~450 milljónir á ári. Ætli Jesús hefði verið sáttur við skitnar 300 þúsundir á mánuði?
Hjalti Rúnar Ómarsson, 18.7.2008 kl. 22:15
Þetta sýnir að það er ekkert mál að spara, það þarf bara að hugsa aðeins útfyrir boxið, hið pólitíska box. Svo í kjölfarið mætti lækka skattana um 10%
Haffi, 18.7.2008 kl. 23:37
Ég er ósammála Haffa, sem á bloggsíðu sinni segist vera "venjulegur skattpíndur skattgreiðandi". Það væri fróðlegt að vita hver skattbyrði hans er að teknu tilliti til persónuafsláttar. 25%? Það þarf að hækka skattleysismörkin (lækka skatta láglaunafólks) og hækka skatta á auðmenn og ofurgróða- og okurfyrirtæki, einkum banka, tryggingafélög og olíufélög.
10% skattalækkun yfir línuna, á sama tíma og ríkistekjur munu minnka vegna samdráttar, er út í hött. Ga ga efnahagsstjórn. Hörmungarskilaboð til velferðarkerfisins.
Friðrik Þór Guðmundsson, 20.7.2008 kl. 00:23
Það er auðvitað nauðsynlegt að geta þess sem gott er og í blöðum í dag er getið um nýtt hjartaþræðingartæki LSH sem ætti að stytta biðlista á því sviði. Heilbrigðisráðherann sést brosandi á myndum, en því miður, já því miður, eru það ekki við skattborgararnir sem borgum tækið, heldur er um ölmusu að ræða, því tækið er gjöf frá góðu fólki. Á myndunum ætti ráðherrann að viðhafa skömmustulegur-þakklátur svip.
Friðrik Þór Guðmundsson, 22.7.2008 kl. 13:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.