Hvenær eru kosningaloforð svikin? Flest strax í upphafi!

Í þessum pistli ætla ég að fjalla um kosningaloforð og svik við þau. Ég ætla að leitast við að vera málefnalegur – en vona að það fæli ekki lesendur frá! Ég skal lofa að reyna að vera ekki leiðinlegur, þótt ég muni ekki fjalla um kynlíf, ofurstjörnur eða ofbeldi (boða reyndar pistil um bloggara mjög fljótt).

Allir flokkar gefa út kosningaloforð fyrir kosningar. Ég tel að fyrir kosningar eigi stjórnmálaflokkar hikstalaust að útlista forgangsröðun loforða og lista upp hver þeirra séu ófrávíkjanleg við ríkisstjórnarmyndun. Fjölmiðlar mættu gjarnan koma að slíkri skráningu, ef svo má kalla. Að öðru leyti blasir við að efndir og svik kosningaloforða ákvarðast að stærstum hluta við samningu stjórnarsáttmálanna – frekar en á kjörtímabilinu sem slíku. Málamiðlunin á degi númer eitt innifelur að kosningaloforð eru svikin, með réttu eða röngu.  Allir flokkar svíkja kosningaloforð, þannig séð. Má ekki allt eins tala um að mestu kosningaloforðasvikararnir séu stjórnarandstöðuflokkarnir, sem lofuðu fögru en auðnaðist ekki að drulla sér í ríkisstjórn til að efna loforðin?

Íslenskar ríkisstjórnir eru samsteypustjórnir. Sögulega séð er enginn flokkur í þeirri aðstöðu á Íslandi að hafa hreinan meirihluta. Og þegar flokkar með ólíkar stefnur og áherslur bræða saman ríkisstjórn þá hafa yfirleitt báðir flokkar gefið eftir af kosningaloforðum. Þau mál detta út af eða frestast og kannski bara gleymast.

Dæmi: Flokkur A lofar m.a. vinsælu máli X. Flokkur B lofar m.a. vinsælu máli Y. Flokkar þessir mynda stjórn, en vegna gagnkvæmra krafna komast hvorugt málanna X eða Y í stjórnarsáttmála. Var það ekki ÞÁ sem kosningaloforð þessi voru svikin? Og voru þau svikin þarna strax í upphafi vegna andstöðu eins flokksins eða linkindar hins flokksins?

Spurning hvort frekar megi tala um að kosningaloforðum sé fórnað á altari valdasetunnar en að þau séu svikin í umræðu þegar vel er komið inn á kjörtímabilið. Stóru svikin eða stærri en upphafssvikin eru þegar loforð komast í stjórnarsáttmála en eru ekki efnd.

Vini mínum Vinstri-grænum hefur verið tíðrætt um svik Samfylkingarinnar. Ég jánka sumu, öðru ekki, eins og gengur. Og ég lagði fyrir hann þraut sem ég tel mig ekki hafa fengið lausn hans á. Ég spurði hann hvað VG hefði svikið í ríkisstjórn. Ekki gat hann sagt að VG hefði ekkert svikið til að komast í ríkisstjórn. Báðir vitum við betur. Um tíma var þannig mikið rætt um samstjórn Sjálfstæðisflokksins og VG. Hvað hefði hrokkið út af borði VG við samningu stjórnarsáttmálans? Hvað hefði VG gleypt af áherslumálum Sjálfstæðisflokksins (eða annarra flokka)?

Það er sum sé auðvelt að grafa upp svik á kosningaloforðum, t.d. með einföldum samanburði. En oftast er nauðsynlegt að útlista orsakirnar að baki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Datt mér ekki í hug! Ég skrifa málefnalega um alvarlegt málefni og heimsóknirnar hrundu og kommentin hættu. Hvað eru bloggararnir að gera núna?

Mest lesið á mbl.is:

Kynlíf, bílar, pisserí, bankarán og fótbolti. Jú jú, verður maður ekki að lúffa fyrir svona góðu blandi í poka?

Friðrik Þór Guðmundsson, 10.5.2008 kl. 21:48

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég hef verið fjarri góðu gamni, greinilega. En skal ekki láta mitt eftir liggja í þessari umræðu því þetta er nokkuð sem ég hef margoft pælt í. Og þú lúffar fjandakornið ekki fyrir kynlífi, bílum og pisseríi. Ég trúi því ekki upp á þig.

Fjölmiðlarnir hafa í fórum sínum gríðarlega mikið efni úr kosningabaráttum. Það ætti að vera maður í því eingöngu að halda utan um kosningaloforð flokkanna og vinna svo úr efninu eftir því sem líður á kjörtímabilið og birta reglulega yfirlit yfir efnd og svikin loforð.

Mér líst vel á þá hugmynd þína að flokkarnir forgangsraði og kjósendur séu með á hreinu fyrir kosningar hvaða málefni eru óumsemjanleg og hver má semja um. Það ætti líka að auðvelda stjórnarmyndun.

Fjölmiðlar hafa gríðarlegt vald sem þeir ýmist nota ekki eða illa. Þó stundum vel - auðvitað er vel gert líka. En þeir verða að veita góðu blaða- og fréttafólki tíma og svigrúm til að vinna hlutina almennilega, afla sér þekkingar til að fá yfirsýn og sérhæfa sig. Mig grunar að ansi mikið vanti upp á slíkt hjá íslenskum fjölmiðlum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.5.2008 kl. 22:03

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þetta eru bara kosningaloforð, loforð eru ekki mikils metin hjá stjórnmálamönnum.  Auglýsingaplott, alveg eins og þegar vinsæll hamborgarastaður auglýsir hamborgarann sinn og birtir mynd af honum.  Svo mætir maður á staðinn til þess að kaupa flotta hamborgarann sem var auglýstur.  Svo þegar hamborgarinn kemur til manns, þá hefur maður fyrir framan sig kannski litla klessu sem þeir kalla hamborgara   Kannski er þetta léleg samlíking

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.5.2008 kl. 22:57

4 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Hérna um árið er Tony Blair í kosningaham,þá gerði hann eitt sem er eftitektarvert.
Hann lagði fram ,skriflega ,tíu loforða lista,og þar stóð einnig ,að ef hann stæði ekki við loforðin,þá bauð hann kjósendum að kæra sig fyrir það.
Ég held ég fari hér fram með rétt mál

Halldór Sigurðsson, 10.5.2008 kl. 23:31

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Umhugsunarvert. Takk fyrir.

Sveinn Atli Gunnarsson, 10.5.2008 kl. 23:46

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Takk, kærkomin viðbrögð. Kannski er ég að segja að aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnmálaflokkum hvað kosningaloforð varðar eigi að vera hvað sterkast strax eftir kosningar, í stjórnarmyndunarviðræðum og þegar stjórnarsáttmáli hefur verið smíðaður. Eftir það hlýtur aðalviðmiðunin að vera efndir stjórnarsátmálans, þ.e. þeirra loforða og skráðra málefna sem nást inn í stjórnarsáttmálann.

Þennan áherslumun er réttmætt að viðhafa, en útskýra ella á fullnægjandi hátt af hverju tiltekið kosningaloforð rataði ekki á málalista ríkisstjórnarinnar. Ef við tökum núverandi ríkisstjórn sem dæmi hlýtur stundum að vera erfitt að benda á meint svik annars flokksins á kosningaloforði ef hinn flokkurinn hefur harðneitað að samþykkja málið. Er það hið sama; að svíkja kosningaloforð eða fórna því við forgangsröðun vegna myndunar ríkisstjórnar? Altént ætti það að vera mjög skýrt fyrir kosningar og stjórnarmyndanir hvaða kosningaloforð eigi af hálfu flokks að vera ófrávíkjanleg við stjórnarmyndun og hvaða loforð eru umsemjanleg.

Friðrik Þór Guðmundsson, 11.5.2008 kl. 10:59

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það eru auðvitað eðlileg viðbrögð taparanna að reyna að finna "eitthvað" á andstæðingana. Stundum er það ósanngjarnt og stundum ekki.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.5.2008 kl. 16:12

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Stjórnarandstöðu-taparar reyna auðvitað að "finna eitthvað" á stjórnarflokkana, Gunnar. Minn útgangspunktur er kannski frekar syrpa Stöðvar 2 fréttastofunnar (ágæt svo langt sem hún nær) þar sem kosningaloforð stjórnarflokkanna eru rifjuð upp og efnaleysið talið upp. Stöðvar tvö fréttastofan er mér vitanlega ekki tapari að reyna að finna eitthvað á andstæðing.

Friðrik Þór Guðmundsson, 11.5.2008 kl. 16:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband