Stoltur miðborgarbúi höfðar til aðkomufólksins um að lemja mann og annan annars staðar

Tvær líkamsárásir í miðborginni í nótt. Ég er að alveg um það bil að fá upp í kok á ofbeldi og illri umgengni aðkomufólks í hverfið mitt, miðborgina. Það kemur hingað utan af landi, frá úthverfunum og nágrannabæjarfélögunum, dettur í það með einum vímugjafanum eða öðrum og lemur mann og annan. Getur þetta fólk ekki lamið aðra á sínum eigin heimaslóðum, úr því að þessu aðkomufólki er óstjórnlega laus höndin?

Ég hef sagt það áður; ég er stoltur 101-ari. Mér líður ákaflega vel í Miðstrætinu, stutt að fara niður að Tjörn, Austurvöll, Ingólfstorg, Austurstræti, Lækjartorg, Bankastræti, Laugaveginn, Kolaportið, höfnina, Hljómskálagarðinn og áfram mætti telja. Yfirleitt er fallegt og friðsælt, nema þegar ofurölvi aðkomufólkið er til ama og tjóns um hánóttina. Kiddi frá Keflavík að berja Kalla frá Kópavogi.

Svo talar landsbyggðarfólkið um miðborgarskríl, eins og það sé fyrirmyndarfólkið í nágrenni mínu hér sem er að lemja mann og annan og míga og æla, okkur 101-urum til skelfingar. Ég er 99% viss um að í 99% tilvika séu gerendur í ofbeldi í miðborginni aðkomufólk. Samt er "101" blótsyrði mjög víða.

Ég hef sagt það áður, líka: Fordómar landsbyggðarfólks í garð borgarbúa, ekki síst 101-ara, eru mun stækari en fordómar miðborgarfólks í garð landsbyggðarfólks.

Til áréttingar; Í 101 eru ekki bara pólitíkusar, elítuistar aðrir, menningarsnobbarar og afbrotafólk. Hér er mýgrútur af venjulegu og sanngjörnu fólki. Hemjið fordómana, þið hinir, og hættið að koma í mitt nágrenni að lemja mann og annan. Plís. 


mbl.is Tvær líkamsárásir í gærkvöldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Heyr heyr !

Góður pistill

frá fyrrum Þingholtara en nú þá aðkomufugl í miðborg. Það kemur þó ekki að sök, hafa mér ávallt vel

Ragnheiður , 24.4.2008 kl. 13:34

2 identicon

Fékkstu það staðfest hjá þeim eða lögreglunni að þetta voru aðkomumenn eða úthverfamenn sem voru að slást?? Ótrúlegt að láta frá sér svona undarlegrar athugasemdir

Lísa Margrét Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 15:24

3 identicon

og hvað fólkið sem býr í 101 eru bara englar sem fara aldrei á barina og skemmtistaðina og drekka aldrei áfengi og slást aldrei pissa aldrei utan í hús og svo frv, auðvitað ekki það er bara fólkið sem býr í hinum hverfunum og utan af landi.

Halló hversu fáranleg færsla er þetta hjá þér

vala (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 15:27

4 Smámynd: Ævar Austfjörð

Skemmtilegur pistill  frekar mikil gremja en en það má hlæja að henni líka. Reyndar er það þannig víðast hvar að höfuðborgir og þá helst "101" hverfi hverrar borgar fyrir sig sitja uppi með ósóma alls landsins  en einhversstaðar verða vondir að vera.

Ævar Austfjörð, 24.4.2008 kl. 16:04

5 identicon

Islendingar hafa barid a hvorum odrum i meira 100 ar i midbaenum og vid hofum etid sura hrutspunga enn lengur, hvorugt mun lida af, hvad svo sem eg eda thu segjum. En thad ma alltaf raeda hlutina. P.S Afsakid stafsetninguna, er i utlondum!

Gudmundur Thor (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 17:37

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Elsku Lísa og Vala (Vísa og Lala!). Slaaaakið aðeins á. Hallið upp á flatt og veltið fyrir ykkur hvort færsluhöfundur sé ekki aðeins að leika sér og kannski færa oggulítið í stílinn. Kannski ýkja örlítið. Getið þið það?

Friðrik Þór Guðmundsson, 24.4.2008 kl. 18:14

7 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þetta er gamalt vandamál hérna fyrir norðan. Aðkomufólk á Akureyri hefur verið til tómra vandræða frá því ég man eftir mér.

Svavar Alfreð Jónsson, 24.4.2008 kl. 21:20

8 Smámynd: 365

Aðkomufólk hefur alltaf veðið og verður alltaf til vandræða, sérstaklega þegar það er í mínu hverfi.  Ætlar þetta lið aldrei að læra, haldið ykkur í ykkar hverfi og lemjið þar á hverjum öðrum!

365, 24.4.2008 kl. 21:54

9 identicon

Úti á landi gerist það sama. Oft má rekja riskingar á milli heimamanna og aðkomufólks til þess að, aðkomu hrossin stíga dans við merarnar í heima-haganum. Verður þá allt vitlaust í stoðinu og afleiðingarnar þær sömu og annarsstaðar á landinu þegar að menn fara að passa sitt.

Sigrún (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 22:13

10 identicon

Ég bjó í 26 ár í húsi sem afi minn byggði við Háteigsveg (ekki 101 en næsti "bær" við ;)). Við áttum allt húsið og vorum rótgróinn 6 manna fjölskylda. Amma mín bjó alla sína ævi í íbúðinni fyrir neðan okkur og alveg til hennar dauðadags fór ég niður og tala við hana um daginn og veginn og sá um hana (ásamt öllum öðrum í fjölskyldunni minni). Pabbi minn fæddist í þessu húsi og dó næstum því þar líka. Fjölskylda mín hefur ætíð verið kennd við Háteigsveginn í ætt okkar og það var ætíð mikið um að vera þar....

Síðast ár þá flutti síðasti meðlimurinn úr húsinu. Pabbi minn seldi allt húsið og fór frá sínum slóðum. Það var eitt það auðveldasta sem hann gerði....vegna þess að hverfið var ekki lengur eins og það var áður fyrr. En það var ekki aðkomufólki að kenna :D

Margrét Þórðardóttir (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 00:06

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já, séra Svavar, Akureyri er einmitt víðfrægur bær fyrir aðkomufólkið sitt! Þetta eru hjá ykkur sjálfsagt aukaverkanir þess að vera með langbesta veðrið á Íslandi, er það ekki? Nei, í alvöru, Akureyri er flottur bær og laðar margan manninn til sín af ýmsu sauðahúsi. Alveg eins og miðborgin.

Íslendingar hafa, Guðmundur, að sönnu lamið hvern annan um aldir alda. Hvar sem er og út af hverju sem er; Á seinni og siðaðri tímum er það næstum alltaf tengt vímuefnaneyslu og þá sérstaklega áfengisneyslu. Í miðborginni á ofbeldið sér ekki síst síðla nætur og undir morgunsárið. Þá er ekki endilega fjölmenni í miðborginni, öllu frekar tiltölulega fámennur kjarni hinna langdrukknustu og víruðustu. Og dómgreindarminnstu. En auðvitað hittir svona sýki og fíkn hlutfallslega jafnt landsmenn hvar sem þeir búa. 

Friðrik Þór Guðmundsson, 25.4.2008 kl. 00:10

12 identicon

Já Vísa það á vel við, vann einu sinni í banka, nema hvað í visadeildinni, og það var alltaf jafn snúið að svara í símann" visa Lisa góðan dag", Lísa visa góðan dag" Ég lofa því Friðrik minn að þegar ég legg næst í langferð niður í bæ úr úthverfinu mínu, þá skal ég ekki pissa í garðinn þinn, ekki krota á húsið þitt og ekki lemja neinn fyrir utan gluggann þinn, ég skal alltaf vera voða stillt og prúð, og þá getur þú bloggað um þessa ægilega prúðu úthverfakonu sem kom í heimsókn í hverfið þitt

Lísa Margrét Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 00:56

13 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég er alveg viss um það, Visa-Lísa, að þú ert til fyrirmyndar í miðborginni, eins og langsamlega flestir sem þangað fara. Vandræðin eru annars oftast á fáeinum blettum og á takmörkuðum tíma. Ég man ekki eftir neinu sérstöku ofbeldisverki í minni miðborgargötu öll þessi 20 ár mín hér. Hún er enda hvorki í veitingahúsarúntinum né leigubílarenneríinu.

Friðrik Þór Guðmundsson, 25.4.2008 kl. 01:10

14 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Sæll Friðrik og gleðilegt sumar.Ég skal alveg viðurkenna það að fyrirsögnin stuðaði mig svolítið og eins greinin sem ég hljóp svo yfir á hundavaði. En svo stoppaði ég við,hef fylgst lengi með blogginu þínu og fannst þetta svolítið ólíkt því sem ég hef verið að sjá eftir þig. þykist svo skilja hvað þú ert að fara. En þetta sýnir  manni vel hvað stutt er í fljótfærnina á blogginu.Menn hlaupa yfir eitthvað svona, og án þess að hugsa meir, þá er rokið til og skammast eða mært eftir atvikum, og þá er fjandinn laus, hver étur upp eftir öðrum, og margir virðast aldrei hafa lesið greinina sem er orsök allra viðbragðana

Kveðja

Ari Guðmar Hallgrímsson, 25.4.2008 kl. 06:16

15 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Við í kvenfélaginu ómaginn ætluðum einmitt í miðborgarferð á næstu helgi, að míga utan í hús og lemja kerlingarnar í hinum félögunum.  Erum við þá ekki velkomnar?

Ég sem hélt að við ættum öll höfðuborgina saman

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 25.4.2008 kl. 08:48

16 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Gleðilegt sumar, Ari. Það er hárrétt hjá þér, að fljótræði getur villt mönnum sýn. Færsla mín og fyrirsögn geta vel varpað fram þeirri ímynd að ég sé raunverulega þröngsýnn og alhæfingaglaður út í utan-101 fólk. Maður þarf auðvitað að passa sig. En ég hef oft mátað þennan íróníu-tón hér, með misjöfnum árangri. Og þarna var kannski ekki nógu greinilegt, það sem ég ætlaði lesendum að lesa á milli línanna - írónían og háðið "heyrist" ekki alltaf.

En samt. Þótt ég fari þarna með háðsglósur þá býr vissulega undir niðri ákveðin andstaða gegn þeirri ímynd miðborgarinnar að hér sé allt í volli.

Verið velkomnar, Matthildur, migildiskerlingarnar í Ómaganum. Við eigum miðborgina vissulega saman. En þið verðið að koma með ykkar eigin kerlingar að lemja og skilja efti leiðbeiningar fyrir okkur miðborgarbúana um hús í ykkar hverfum sem opin eru fyrir hlandi og ælu! 

Friðrik Þór Guðmundsson, 25.4.2008 kl. 09:21

17 identicon

Takk fyrir ahugaverda sidu. Thu tekur her upp malefni sem tharft er ad staldra vid og taka alvarlega hvar sem vid sofum a Islandi. Vid ihugum sjaldan afleidingar thessara likamsarasa og i flestum tilfellum er Bakkus med i hønd. Sjalf stunda eg rannsoknir a høfudaverkum i Oslo og se thad i starfi minu hversu skadlegt thad er ad lemja mann og annan. Eg reikna med ad midborg Oslo se ekki osvipud 101 Reykjavik hvad vardar umfang ofbeldisverka a hvert mannsbarn. I nylegri grein okkar (2008 i Neuroepidemiology) um faraldsfrædi høfudaverka i Oslo kemur m.a. i ljos ad um 82% fornarlamba likamsarasa eru undir ahrifum afengis og mun fleiri menn koma a sjukrahus til adhlynningar med heilahristing eda heilaskada eftir ofbeldisverk, eda 6 menn a moti 1 konu, flestir a aldrinum 20-24 ara.

Eg vona ad vid lærum ad umgangast hvert annad med virdingu og ad allir Islendingar seu velkomnir hvar sem their stiga nidur fæti a litlu eyjunni okkar. Eg hlakka til ad koma til Islands i sumar, bædi til Akureyrar og Reykjavikur, en sjalf er eg Holmari.  Njotum lifsins og ljufa nott øll sømul.

Solrun Sigurdardottir (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 12:44

18 identicon

Friðrik. Þú gleymir alveg að minnast á höfuðborgarbúana sem fara upp í sveit og heim á hlað á bæi án þess að spyrja kóng né prest, heilsa ekki heimamönnum þó þeir hitti þá, míga þar og skíta (ég er að tala af reynslu), kíkja á glugga og æða inn í útihús. Þú sleppur í flestum tilfellum við að fá utanbæjarmennina inn í garð til þín, ekki satt?

sveitakerlingin (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 13:26

19 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Takk Sólrún fyrir góða athugasemd.

Sveitakerlingu bið ég hins vegar að lesa betur það sem ég skrifaði. Ég var aldeilis ekki að hlífa höfuðborgarbúum og minntist einmitt á þá.  Ég skal endurtaka HÆGT: "Það kemur hingað utan af landi, frá úthverfunum og nágrannabæjarfélögunum, dettur í það með einum vímugjafanum eða öðrum og lemur mann og annan". Endurtek HÆGAR: Ú t h v e r f u n u m. Og aftur ENN HÆGAR til vonar og vara. Ú  t  h  v  e  r  f  u  n  u  m. 

Friðrik Þór Guðmundsson, 26.4.2008 kl. 14:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband