Breiðavík VI: Það var ólán sumra að vera örvhendir.

Hverjir voru sendir á Breiðavík? Jú, jú, sumir voru óknyttadrengir, sumir agalausir, sumir bara fátækir og einna "merkilegasti" hópurinn samanstóð af nokkrum drengjum sem gekk illa í skóla af því þeir voru ekki að springa af gáfum og voru svo ólánsamir að vera örvhendir. Fyrir bara "nokkrum" árum vorum við vond við örvhend börn.

"(Nafni sleppt) er örvhendur og bagar hann það við skrift, klaufskur. Hann er stirðlæs og lítt skrifandi, treggáfaður". Þessi lenti á glæpabrautinni og er dáinn.

"(Nafni sleppt)  er tornæmur, varla stautlæs, nær óskrifandi, örvhendur, og bagar það hann við skriftarnám. Klaufskur, skilningssljór, orðaforði lítill". Þessi er líka dáinn.

"(Nafni sleppt) er ólæs og enn verr skrifandi, enda örvhendur. Hann er klaufskur og er honum örvhenddin til baga". Þessi lifir, en var um tíma síbrotamaður. 

"(Nafni sleppt) er stór, þrekvaxinn og helst til feitlaginn. Hann er örvhendur og skrifar ekki vel, en fluglæs". Þessi lenti á glapstigum en hefur náð sér mjög vel á strik hin síðari ár.

"(Nafni sleppt) var óviðráðanlegur heima og lenti í ýmsum óknyttum en hegðun hans er góð í Breiðavík... Vætir stundum rúm. Örvhendur... les flumbrulega og hratt...". Þessi náði sér ás trik að séð verði.

Dæmin eru kannski fleiri. Skrítið allt saman, en rímar við það sem maður hefur heyrt, að reynt hafi verið með hörðu að láta örvhenda skrifa með hægri og það bitnað á möguleikum þeirra til að ná árangri í skóla. Og vafalaust einangrað margan góðan drenginn og gert hann að óknyttadreng? Gaman væri að heyra vitneskju og álit annarra um þetta.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæll það er löngum vitað að það var álitið illt að vera örvhentur, við í minni fjölskyldu megum kannski þakka fyrir að stór hluti fjölskyldunnar var ekki sendur í burt, enda margir örvhentir þar og sum erum ekki viss hvort heldur við erum.

Það sem mér finnst reyndar enn athyglisverðara, líka í ljósi allra þeirra kannana sem verið er að gera bæði innanlands og á alþjóðavísu er hlutskipti þeirra sem voru hæg- eða illa læsir. Eins og sjá má af þessum færslum þínum er ljóst að þeir sem náðu sér á strik voru þeir ´"læsu".

Út í hinum stóra heimi er það að vinna gegn ólæsi talið ein besta leiðin til að vinna gegn félagslegu órétti. Gegn fátækt og til þess að bæta lífskjör fólks. Sama á við hér. (sjá skýrslur um menntun fyrr alla).

Kristín Dýrfjörð, 2.3.2008 kl. 14:24

2 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Þakka þér fyrir að skrifa um þetta. kv. B

Baldur Kristjánsson, 2.3.2008 kl. 15:01

3 Smámynd: Kolgrima

Þú varst að tala um að þú hefðir fengið sterk viðbrögð við skrifum um meiðyrðamál en öllu minni við skrifum um Breiðavíkurdrengina.

Í síðustu færslu fjallaðirðu um þjóðfélagsleg gildi og þau er hægt að ræða. Til þeirra er hægt að taka afstöðu, pæla í hvað hafi breyst og hverju þarf að breyta. Velta fyrir sér því valdi sem stofnanir (m.a. innan skólakerfisins) taka sér yfir lífi fólks og hvernig þær fara með það vald. Einhver nefndi hlut kirkjunnar í málinu.

Um Breiðavíkurdrengina er fátt að segja annað en að vekja athygli á sögu þeirra. Hún er svo hryllilega ósanngjörn og hreinn óhugnaður út í gegn að það að spjalla um það í kommentakerfi er eiginlega ósmekklegt. Það er engu við færslur um málið að bæta - nema e.t.v. þetta er hræðilegt, hræðilegt, hræðilegt og óendanlega óréttlátt.

Tek undir með klerknum, takk fyrir að skrifa um þetta. 

Kolgrima, 2.3.2008 kl. 15:53

4 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Það sem mér finnst vera einn stærsti lærdómurinn sem við getum dregið af þessu máli er að það sýnir okkur að þegar um síbrotamenn eða annað fólk er að ræða sem er ekki að "plumma sig" í þjóðfélaginu, eins og okkur finnst að fólk eigi að gera, þá er líklega oftast nær eitthvað að baki annað en aumingjaskapur og mannvonska viðkomandi manneskju. Líklegra er að aumingjaskapur og mannvonska einhverra annarra aðila hafi valdið vandanum. Þetta mál hefur amk sannfært mig um að hugsa mig um tvisvar áður en ég lít niður á þá sem hafa farið halloka í samfélaginu okkar.

Sóley Björk Stefánsdóttir, 2.3.2008 kl. 16:04

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Takk fyrir kommentin. Ég hlýt þó að stoppa við þá ályktun Kolgrímu að saga Breiðavíkurdrengjanna sé "svo hryllilega ósanngjörn og hreinn óhugnaður út í gegn að það að spjalla um það í kommentakerfi er eiginlega ósmekklegt". Ekki get ég verið sammála þessu um autómatísk ósmekklegheit.

Smekklegheitin hljóta að felast í þeim orðum sem maður velur sér. Ef einhver kemur inn í þessa umræðu og segir að Breiðavíkurdrengirnir hafi allir verið aular og afbrotamenn og átt skilið ill örlög þá væri það ósmekklegt. Því það væri lygi. Það er hins vegar ekkert ósmekklegt við að ræða með kommentum um staðreyndir og afleiðingar og hvernig við getum lært af þessu og komið í veg fyrir að nokkurt svona endurtaki sig. 

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.3.2008 kl. 16:06

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Gott komment Sóley Björk. Það eru einmitt yfirleitt til skýringar á því af hverju fólk verður undir í samfélaginu og sjaldnast er um aumingjaskap sjálfs fólksins að ræða. Í Breiðavíkurmálinu brugðust stjórn- og skólayfirvöld illilega, en það gerðu í mörgum tilfellum líka aðrir, t.d. foreldrar margra drengjanna. Þá voru sumir drengjanna einfaldlega sjúkir, þroskaheftir og fatlaðir en enginn úrræði önnur í boði en að senda þá bara eitthvað þar sem þeir yrðu ekki fyrir sjónum sómakærs fólks.

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.3.2008 kl. 16:12

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er margt í Breiðavíkurmálinu sem gerir það erfitt í umfjöllun.

Þar má nefna stærð og allt umfang málsins, hinn mikla fjölda þolenda og jafnframt gerenda jafnt í beinum sem óbeinum skilningi. Þá er fjarlægð til málsins mikil í tíma þó enn séu margir þolendur merktir af atburðunum. Sumum finnst líklega erfitt að nálgast málið vegna þeirra sem tengdust því, jafnt lifandi sem dauðra.

Kannski er verst til þess að vita að þær opinberu stofnanir sem falin er ábyrgð í þessum viðkvæmasta málaflokki samfélagsins virðast ennþa eiga margt ólært ef marka má fréttir af nokkrum þeim málum sem nú eru í gangi.

Árni Gunnarsson, 2.3.2008 kl. 17:42

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Það er rétt Árni, þetta mál er erfitt í umfjöllun. Smt má ræða ýmislegt sem snýr að grundvallarreglum. Þannig er t.d. nú rætt um skaðabætur til handa vistmönnum. Eiga allir að fá jafnt, burt séð frá tímabilum, burt séð frá því hvort þeir hafi beinlínis verið þolendur (jafnvel gerendur!), eiga menn kannski frekar að kalla bæturnar vinnulaun, námsstyrki, á kannski aðsleppa bótum en biðjast bara afsökunar. það eer í sjálfu sér ekki erfitt að ræða svona abstrakt hluti....

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.3.2008 kl. 18:09

9 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Friðrik. Það er ekki á hverjum degi sem ég set kommennt inn á bloggið þitt.

Breiðavíkurmálið, skýrsla stjórnvalda varðandi málið þar sem aðilar innan stjórnsýslunnar eru grunaðir um misbeytingu valds.-Þá Kumbaravogsmálið, skýrsla varðandi það mál er ennþá undir feldi stjórnvaldsins og kemur eftil vill aldrei fyrir almenningssjónir, eða ekki fyrr en kvalararnir eru allir dauðir....Viðkvæm mál fyrir gerendur í saknæmu athæfi..

Þá er ekki lengur fjallað um Geirfinnsmálið, þar sem 5 ungmenni voru dæmd í samtals 60 ára fangelsi fyrir að hafa banað tveimur mönnum...Án allra sannanagagna svo sem líkamsleifa þeirra horfnu...Mál 214 á googlepages.com

Þú getur eytt þessu kommenti af blogginu þínu ef þú vilt ekkert með Geirfinnsmálið að fjalla..Ég hef horft undir stlitna skósóla málglaða manna sem segjast, þora og vilja að sannleikurinn nái fram að ganga, en skort kjark til framkvæmda þegar á hólminn var komið...

Guðrún Magnea Helgadóttir, 2.3.2008 kl. 18:17

10 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Mér dettur ekki í hug að eyða kommenti þínu Guðrún Magnea. En þú færð mig ekki heldur til þátttöku um Geirfinnsmálið, að sinni að minnsta kosti. Ég samþykkti fúslega að gera þig að bloggvini, en það þýðir ekki að bloggið mitt verði vettvangur langhunda um Geirfinnsmálið.

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.3.2008 kl. 19:37

11 identicon

Sæll

Er mögulegt að líta á Breiðavíkurmálið sem dæmi um rörsýn samfélagsins á eigin norm og þá hræðslu sem oft skapast við þá / þau sem falla ekki undir það? Erum við etv enþá að brenna nornir á báli? 

Magnús Egilsson (IP-tala skráð) 2.3.2008 kl. 21:15

12 identicon

Nei það er langt frá að vera ósmekklegt að fjalla um Breiðavíkurmálið hér, umræðan má nefnilega ekki deyja út og gleymast eins og gerist svo oft með viðkvæm og erfið mál.

Ég tek heilshugar undir það að sjaldan er það aumingjaskapur eða mannvonska þeirra sem ekki eru að "plumma" sig sem veldur því að þeir eru staddir á vondum stað. Þetta er ógæfufólk sem hefur orðið undir í lífinu af ýmsum orsökum, allt á það sér sögu og einhverntíman var það líka börn með væntingar til lifsins.

Það er algerlega nausðynlegt að halda þessu á lofti.

kveðja Guðbjörg

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 00:20

13 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Það verður erfitt að leysa úr þessu máli svo öllum sé sómi gerður. Örlög drengjanna voru mishörð og sömuleiðis örlög annarra barna og unglinga á öðrum vistheimilum af ýmsum sortum. Mörg hafa að óþörfu orðið fyrir ofbeldi, farið á mis við menntun og sætt vinnuánauð. Svona komum við fram við okkar verst stöddu börn og unglinga fyrir bara örfáum áratugum síðan!

Einangruðum þau. Gerðum úr þeim "álver". ÖGUÐUM þau. Sviptum þeim öllum tækifærum í lífinu í stað þess að veita þeim þau. Er nema von að sum, jafnvel mörg, þeirra hafi orðið ógæfufólk?

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.3.2008 kl. 01:12

14 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Auðvitað verður að tala um þetta og hindra að svona ósómi komi upp aftur! Takk Friðrik, vel gert hjá þér

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 3.3.2008 kl. 13:06

15 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Takk Anna. Bíð enn eftir að þú byrjir að blogga á ný.

Og gaman væri að sjá hér komment frá fyrrum vistmönnum og starfsfólki vistehimila fyrri tíma.  

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.3.2008 kl. 16:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband