23.2.2008 | 13:42
Breiðavík I: 2 lekar
Einhver nefndarmaður Breiðavíkurnefndar stjórnvalda eða embættismaður forsætisráðuneytisins, að líkindum, lak skýrslu nefndarinnar um Breiðavík til Fréttablaðsins daginn áður en hana skyldi kynna opinberlega fjölmiðlum og almenningi með blaðamannafundi. Fréttablað Þorsteins Pálssonar fyrrum forsætisráðherra naut góðs af því í fjölmiðlasamkeppninni og þannig gerast stundum kaupin á eyrinni.
Ég er nokkuð viss um að allir fjölmiðlar hafi reynt að fá skýrsluna í hendur eða upplýsingar úr henni áður en að blaðamannafundinum kæmi. Ekki bara til að "skúbba" heldur líka til að hafa tíma til að kynna sér hina umfangsmiklu skýrslu og fá tíma til að ná í menn og fá viðbrögð tímanlega - enda átti að halda blaðamannafundinn á slæmum tíma, síðdegis á föstudegi. Það vissu allir sem er, að það gerir umfjöllun um svo viðamikla skýrslu erfiða að fá hana á slíkum fjölmiðlafjandsamlegum tíma. Einkum fyrir ljósvakamiðla, en fyrir alla miðla líka almennt, sem reyna að ljúka störfum sæmilega snemma á föstudögum. Ekki bætir það stöðuna að fá tæplega 400 blaðsíðna skýrslu á slíkum tíma og hafa ekkert ráðrúm til að spyrja ígrundaðra spurninga á blaðamannafundinum sjálfum.
Þegar Fréttablaðið skúbbaði að morgni ákvað nefndarformaðurinn, Róbert Spanó, að flýta blaðamannafundinum til kl. 11:15, en hafði að öðru leyti ekki uppi mörg orð um lekann og ásakaði engan mér vitanlega.
En mér komu strax í hug ólík viðbrögð annars nefndarformanns við leka á skýrslu nefndar sinnar eða upplýsingum úr henni. Fyrir nokkrum árum boðaði Sigurður Líndal til blaðamannafundar síðdegis á föstudegi fyrir sjálfa Verslunarmannahelgina (sem er fáránleg tímasetning) til að kynna skýrslu stjórnskipaðrar nefndar um Skerjafjarðarflugslysið (frá ágúst 2000). Einhver lak þó upplýsingum um niðurstöður nefndarinnar í Stöð 2 daginn áður. Sigurður brást við eins og naut í nýflagi og aflýsti fundinum og sendi bréf til allra fjölmiðla þar sem hann laug því blákalt og rakalaust að ég hefði lekið skýrslunni. Og kom rækilega upp um fordóma sína í leiðinni, maðurinn sem átti að vera óhlutdrægur formaður stjórnskipaðrar nefndar.
Að þessu sinni "fagnar" Fréttablaðið skúbbi en nefndarformaður þessarar nefndar heldur stillingu sinni og óhlutdrægni.
Alþingi Íslendinga biðjist afsökunar á Breiðavíkurmálinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.