29.1.2008 | 01:56
"Ofboðsleg áhersla" á veikindi Ólafs? hvar? hverra?
Ég hef eins og flestir aðrir fylgst vel og vandlega með umfjölluninni um umræðuna um heilsufar Ólafs F. Magnússonar borgarstjóra. Og ég er ekki alveg að átta mig á þessari umræðu. Svo virðist sem "fjölmiðlar" séu orðnir stærsti sökudólgurinn í meintri aðför að Ólafi borgarstjóra. Ég hlýt að hafa misst af einhverju og auðmjúkur bið ég um aðstoð.
Ég hef talið mig vera að fylgjast með gríðarlegri fjölmiðlaumfjöllun um meirihlutaskiptin í borginni. En mér skilst að ég hafi misskilið þessa umfjöllun um pólitík. Í Kastljósi í kvöld ræddi Helgi Seljan við Karl Ágúst Úlfsson Spaugstofumann og Ólínu Þorvarðardóttir (sem ég veit ekki hvað gerir þessa dagana) og þótt þau væru á öndverðum meiði um frammistöðu Spaugstofunnar um helgina þá voru þau algerlega sammála um að fjölmiðlar hefðu lagt "ofboðslega áherslu" á heilsufar Ólafs (segir Karl Ágúst) í "fjölmiðlafári" um hið sama (segir Ólína). Í þeirra túlkun virðist mestöll umfjöllunin um meirihlutaskiptin í borginni hafa beinst að heilsufari Ólafs borgarstjóra.
Mín auðmjúka bón felst í því að biðja fólk um að rökstyðja þetta. Á þetta við um Morgunblaðið? Á þetta við um fréttablaðið? Á þetta við um 24 stundir? Á þetta við um RÚV (sjónvarp og/eða útvarp)? Á þetta við um Stöð 2 og Bylgjuna? Útvarp Sögu? Jú, jú, DV kom inn á veikindi Ólafs og gekk kannski lengst. Á blaðamannafundi hins nýstofnaða meirihluta var Ólafur einu sinni spurður einnar spurningar um þessi veikindi. Í Kastljósi var Ólafur spurður einnar spurningar um veikindin. Er "fjölmiðlafárið" þá kannski upptalið? Eða missti ég af mýmörgum tilvikum þar sem fjölmiðlar lögðu "ofboðslega áherslu" á veikindi Ólafs. Vill einhver gjöra svo vel að hjálpa mér að tíunda öll hin tilvikin? Mér finnst nefnilega mjög mikilvægt að halda þessu til haga.
Ég hef sagt það hér áður og árétta: Undir öllum venjulegum kringumstæðum eru veikindi Ólafs hans einkamál og ég trúi því fullkomlega að hann hafi náð sér af þeim sjúkdómi að hafa verið "niðurdreginn". En hvað sem því líður þá er heilbrigði hans fullkomlega réttmætt fréttaefni út frá einföldu fréttamati og stjórnmálafræðilegri túlkun á þeirri stöðu sem nýi meirihlutinn er í. Ég vitna til Sigurðar Þórðarsonar samherja Ólafs: Ef Ólafur forfallast ("veikist alvarlega" sagði Sigurður samherji) þá er meirihlutinn fallinn - af því að Ólafur borgarstjóri hefur engan varamann. Meint "ofboðsleg áhersla" á heilsufar Ólafs lýtur að þessari pólitísku stöðu. Mér vitanlega eru flestir fjölmiðlar og fjölmiðlamenn með þetta í huga, en ekki að reyna að klína geðveikisstimpli á Ólaf. Allir fjölmiðlamenn sem ég hef talað við eru fyllilega tilbúnir til að skrifa upp á að Ólafur hafi náð sér af fyrri veikindum. menn elta hins vegar eðlilega fyrir sér hvað kunni að gerast ef sú staða kemur upp að Ólafur forfallast af hvaða ástæðum sem er og þá einkum á sama tíma og mikilvægar atkvæðagreiðslur eru uppi í borgarráði/borgarstjórn. Þetta eru í hæsta máta faglegar og eðlilegar vangaveltur. Sjálfur Ólafur borgarstjóri hlýtur manna einna mest að velta þessu fyrir sér. Með heilbrigða skynsemi að vopni. Það hlýtur einnig að gera Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson (sem Spaugstofumenn túlka sem nánast þroskaheftan og minnislausan án þess að nokkur kvarti). Það hlýtur Margrét Sverrisdóttir að gera (sem Spaugstofumenn túlka sem terrorista með sprengju í farteskinu án þess að nokkur kvarti). Það hlýtur Dagur B. Eggertsson að gera (sem Spaugstofumenn sýndu leita sér sálfræðiaðstoðar, eins og Vilhjálmur og Ólafur og kannski fleiri). Það hlýtur Björn Ingi að gera (sem Spaugstofumenn túlka sem hnífaóðan manndrápara). Þetta er hin borgarpólitíska staða, sem fjölmiðlar fjalla eðlilega um, en fá á baukinn að þeir stundi aðför að Ólafi borgarstjóra.
Ég vil fá heiðarlega útlistun frá hendi þeirra sem telja að áhersla fjölmiðla hafi verið ofboðsleg á veikindi Ólafs. Ég hygg að þetta standist ekki sanngjarna skoðun, en skora á fólk að sýna þá fram á hið gagnstæða.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:02 | Facebook
Athugasemdir
Ég er sammála þér að ekki er hægt að setja alla fjölmiðla undir sama hattinn hvað þetta mál varðar.
Eins getur það hafa verið að þessi umræða hafi magnast vegna þess að ÓFM lagði ekki sjúkrasögu sína á borðið í öllum helstu smáatriðum.
Það má vera að hefði hann gert það þá hefði púðrið farið úr þessu öllu. Hver og einn hefur vissulega rétt á því að matreiða frásagnir af svona reynslu eins og hann eða hún líður best með.
Varðandi þetta með hina sem gert var grín af í Spaugsstofunni eins og þú nefnir, t.d. Vilhjálm og Dag og fleiri þá var það grín einhvernveginn allt öðruvísi og síður viðkvæmt því þeir aðilar hafa ekki fengið stimpilinn ef ég má orða svo þ.e. ekki er vitað til þess t.d. að VÞV hafi verið greindur með minnisglöp eða að Dagur hafi verið á bekknum hjá sálfræðingum osfrv.
En með Ólaf þá snertir „grínið" viðkvæma strengi vegna þess að hann hefur einmitt verið að takast á við andleg veikindi í raunveruleikanum.
Læt þetta nægja núna. Finnst mjög mikilvægt að við skiptumst á skoðunum varðandi þetta einmitt svona með málefnalegum hætti.
Bestu kveðjur,
KB
Kolbrún Baldursdóttir, 29.1.2008 kl. 13:01
Það þjónar hagsmunum Sjálfstæðismanna að umræðan snúist um eitthvað annað en málefni. Ekki flóknara. Enda fáir duglegri í umfjölluninni um veikindin en þeir sjálfir. Þeir gera það hins vegar á þann hátt að segja að allir hinir tali svo mikið um það, en eins og þú segir, geta engra heimilda um það.
Þetta er sorglegt. Það sem umræðan á að snúast um eru málefnin, hvernig Ólafur var "táldreginn" í aðragandanum og þeirri staðreynd að hann hefur ekki varamann.
Magasár, þunglyndi, flensa skiptir ekki öllu máli, enginn varamaður og meirihlutinn getur fallið hvenær sem er.
Kristjana Bjarnadóttir, 29.1.2008 kl. 14:44
Takk fyrir þetta. Það skapast svo sem engin (önnur) málefnaleg umræða um þetta framlag mitt. Ég reyndi að efna til málefnalegrar umræðu hjá hinum yfirmáta hneyksluðu mönnum Ómari Valdimarssyni og Stefáni Friðriki Stefánsyni, en þeir fóru undan í flæmingi og sönnuðu þar með tvískinnung sinn. Ofboðslega aumlegt.
Hvað það varðar hvernig aðrir voru útmálaðir þá skil ég ekki allveg samanburðinn. Ef ég ætti að velja milli þess að vera annað hvort geðraskaður um hríð en ná heilsu (sbr. ímynd Ólafs) eða hins vegar þroskaheftur og minnislaus auli (sbr. ímynd Villa) þá myndi ég vitaskuld velja fyrri kostinn.
Friðrik Þór Guðmundsson, 29.1.2008 kl. 15:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.