Fjölmiðlun: Er viðeigandi að spyrja um heilsufar Ólafs Magnússonar?

Svarið er já. Heilsufar Ólafs F. Magnússonar er mjög viðeigandi umfjöllunarefni og spursmál að svo stöddu, meðan og ef ekki liggur fyrir að varamenn hans í borgarstjórn styðja hinn nýmyndaða meirihluta. Meðan fyrir liggur að Ólafur þarf að sitja forfallalaust alla fundi borgarstjórnar, borgarráðs og þeirra nefnda sem hann tekur sæti í. Spurningar um heilsufar Ólafs eru spurningar um styrk nýja meirihlutans og um lýðræðið.

Ólafur Magnússon er nýkominn aftur til starfa eftir erfið veikindi. Ekki þykist ég vita um hvers eðlis veikindi hans voru, en það er ljóst að ekki var um einfalda flensu að ræða. Hann var mjög lengi frá vegna heilsubrests. Og vegna eðli málsins; að hann geti meirihlutasamstarfsins vegna helst ekki forfallast á ný hið minnsta, þá er fjölmiðlum það bæði skylt og rétt að leitast við að upplýsa um það á hversu sterkum grunni meirihlutasamstarfið hvílir. Meðan hvorki fyrsti varamaður né annar varamaður lýsa yfir stuðningi við nýja meirihlutann þá getur hann fallið með fyrstu forföllum Ólafs, taki veikindi hans sig upp á ný, hver sem þau eru.

Þetta er engin "stóra bomba" þar sem reynt er að klína t.d. geðveikisstimpli á Ólaf, eins og reynt var með Hriflu-Jónas. Þegar og á meðan staðan er sú að Ólafur má ekki forfallast eina einustu mínútu, meirihlutasamstarfsins vegna, þá eru spurningar um hversu heilsuhraustur hann er mjög viðeigandi og enginn dónaskapur.

Ef Margrét Sverrisdóttir og Guðrún Ásmundsdóttir lýsa yfir stuðningi við nýja meirihlutann eða heita á annan hátt að verja hann falli þá verða spurningar um heilsuhreysti Ólafs óviðeigandi. Þá getur hann fengið flensu og meirihlutinn heldur.

Þetta skyldi leiðarahöfundur Morgunblaðsins í dag hafa í huga, sá sem skrifar einhvern afkáralegasta leiðara sem ég hef nokkurn tímann lesið. Það eina í téðum leiðara sem nokkurt vit er í er vangavelta leiðarahöfundarins um hvort Ólafur fari "heim" í Sjálfstæðisflokkinn á ný. Sem leiðir hugann að því hvers konar skrípi flokkurinn "Frjálslyndir og óháðir" er. Ofuráhersla Ólafs virðist þannig vera á að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni og að 19. aldar stemning ríki á Laugaveginum. Hvoru tveggja ágætis baráttumál, en algerlega þverpólitísk. 


mbl.is Mótmæla nýjum meirihluta í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Heilsufar manna er einkamál og það er ekki til að ´æða um í fjölmiðlum. Borgarstjórn sem er enn í gildi er sek um áreitni. Fjölmiðlar eru líka sekir. Það er ekki mörg störf sem krefjast heilsuvottorðs. Það er helst við stjórn tækja svo sem Flugvélar og þessháttar. Heilsa flugmanna er samt trúnaðarmál þótt þeir missi skírteinin.  Ólafur ætti að lögsækja viðkomandi fyrir áreitni á háu stigi. 

Valdimar Samúelsson, 22.1.2008 kl. 15:46

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þú berð greinilega ekki minnsta skynbragð á það sem ég var að skrifa, Valdimar. Þegar sú staða er uppi að Ólafur MÁ EKKI forfallast eina einustu stund, meirihlutasamstarfsins vegna, er um réttmætt viðfangsefni að ræða. Í raun er verið að tala um heilsufar nýja meirihlutans, þegar talað er um að hann standi og falli á því hvort Ólafur þarf á einhverjum tímapunkti að vera heima vegna veikinda og kalla inn varamann. Þetta snýst um annað og meira en heilsufar eins manns, sem undir nær öllum kringumstæðum er annars vissulega einkamál.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2008 kl. 17:21

3 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Það kom upp sams konar krísa í bæjarstjórnarsamstarfi í Vestmannaeyjum.  Ef ég man rétt var þar klofningur innan Framsóknarflokks og menn þar í flokki studdu ekki oddvita flokksins í bæjarstjórn.  Sá hinn sami tók því þá ákvörðun einn síns liðs að gefast ekki upp við setu í bæjarstjórn - tjáði sig tilbúinn til að standa vaktina næstu misseri.  Það er samdóma álit flestra Vestmannaeyinga að þetta hafi valdið miklum skaða í samfélaginu.

Er hægt að leggja fjármuni heils sveitafélags undir í svona dómgreindarlausum ákvörðunum? Þegar meirihlutastarf byggir á jafn óviðráðanlegum hlut og veðrið er.  Sú ákvörðun Ólafs um að ganga í þetta samstarf, án þess að hafa varamenn sem styðja hann, er að mínu mati dómgreindarlaust.

Hér er um stærstu hagsmuni okkar borgarbúa að ræða og í skjóli ofangreinds - finnst mér þessi spurning hafa átt fullkomnlega rétt á sér.

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 23.1.2008 kl. 02:28

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Mæli með lestri á roggur.blog.is. Fínasta samsæriskenning þar á ferð.

Friðrik Þór Guðmundsson, 23.1.2008 kl. 11:32

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þá hefur Ólafur tjáð sig nokkuð um veikindin sín opinberlega. Hann segir að veikindi sín hafi verið þau að hafa orðið "niðurdreginn" og það "um skeið". En sé búinn að ná sér.

Ég undirstrika að veikindi fólks er vissulega einkamál þess gagnvart fjölmiðlum. En veikindafjarvist Ólafs var löng og að hans eigin sögn erfið og þess vegna eru það lýðræðisins vegna réttmætar áhyggjur að horfa til þess að ólafur hefur engan varamann lenddi hann í þeirri ógæfu að veikjast á ný "um skeið". ÞETTA er málið, ekki hvað nákvæmlega það er sem hrjáði þennan annars ágæta stjórnmálamann.

Í viðtali við blaðamann Fréttablaðsins í dag tjáir Ólafur sig um þessi veikindi, en því miður virðist þetta veigamikla atriði sem ég ræði hér um ekki hafa orðið tilefni spurninga hjá viðkomandi blaðamanni - eða Ólafur neitað að hafa slíkar spurningar með í viðtalinu. Það rýrir gildi viðtalsins óumræðanlega mikið. En sennilega hefði Ólafur einfaldlega sagt eitthvað á þá leið að hann ætlaði sér ekkert að veikjast eða forfallast það sem eftir lifir kjörtímabilsins.

Það væri djarflega mælt. Ég ætla að lýsa slíku yfir hvað sjálfan mig varðar í von um að það dugi: Það sem eftir er kjörtímabilsins ætla ég ekki að veikjast, ætla ég ekki að slasast, ætla ég ekki að forfallast frá vinnu á annan hátt. Málið dautt. 

Friðrik Þór Guðmundsson, 26.1.2008 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband