Menn ársins: Breiðavíkurdrengirnir

"Drengirnir" sem komu út úr áratuga þykkri skel sinni, vörpuðu af sér okinu og sýndu okkur hvað í þjóðarspeglinum sést ef vandlega er horft. Að undir yfirborðinu og á bak við tjöld meintra góðverka leynast stundum grimm eyðileggingaröfl.

Skyndilega var vonda veröldin, sem Baldur Hermannsson hafði áður lýst af fyrri öldum, komin að mörkum nútímans. Fullorðnir menn og konur misþyrmdu og misbuðu ungum drengjum. Stórir drengir misþyrmdu og misbuðu ungum drengjum. Enginn heyrði neyðarópin.

Sumum fannst nóg um þegar drengirnir, nú miðaldra, komu hver á fætur öðrum í sjónvarp og aðra fjölmiðla, sumir í tárum. Ekki mér. Þetta sturtubað var þjóðinni ákaflega nauðsynlegt og nú þarf að rýna undir fleiri teppi.

Mér hefur virst að Freyja muni fá útnefninguna á Rás 2 og það er fínt mál. Hún er líka að standa sig frábærlega og á allt gott skilið, enda er hún líka að sýna okkur undir fallega yfirborðið á sinn hátt. Mig langar raunar til að líka hennar líkamlegu fötlun við þá andlegu fötlun sem margir Breiðavíkurdrengjanna hafa mátt glíma við frá Breiðavíkur-fangelsuninni og misþyrmingunum þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Ég var rétt í þessu að ljúka við bókina Breiðavíkurdrengur en um hana á að fjalla næst í leshringnum hennar Mörtu Helgadóttur hér á blogginu.
Þetta er bók sem ég hef ekki getað lesið fyrir svefninn svo hrikalegar eru lýsingarnar af meðferðinni sem drengirnir þarna fengu bæði af hálfu eldri drengja, aðallega eins, og svo forstöðumannsins Þórhalls.

Kolbrún Baldursdóttir, 30.12.2007 kl. 17:32

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Það er setning í bókinni sem er mér ógleymanleg. Þar lýsir Páll því að við þau tímamót að Þórhallur kom til starfa þá fækkaði vistdrengjum og allir stóru strákarnir sem níddust á þeim minni fóru heim til sín. En níðingsskapur Þórhalls tók við af níðingsskap stóru strákanna - og Páll segist ekki vita hvort var verra. Ég skora á þig að taka þetta upp í leshringnum.

Síðan mættuð þið ræða sérstaklega stöðu og frammistöðu Mummu og sá7fræðingsins (eftirlitsmannsins) sem sagður er hafa verið fullur allan tímann sem hann heimsótti staðinn.

Friðrik Þór Guðmundsson, 30.12.2007 kl. 18:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband