9.4.2007 | 11:57
Klám, ofbeldi og kvikmyndastjörnur
Spennan í pólitíkinni magnast og á flestum hreyfingum og mælingum er hægt að sjá rökrænt samhengi með einum eða öðrum hætti (Ég er ekkert að fara að fjalla hér um klám, ofbeldi og kvikmyndastjörnur. En af því að þetta eru umfjöllunarefni sem virðast ná athygli hvað flestra þá datt mér sisvona í hug að setja þau í fyrirsögn...).
Sem sagt; pólitísk spenna magnast. Stjórnmálafræðingurinn í mér finnur flöt á flestu sem er að gerast; stöðu Sjálfstæðisflokksins, hruni Framsóknarflokksins, sókn VG, lægð Samfylkingarinnar, örvæntingu Frjálslyndra, takmörkuðu flugi Íslandshreyfingarinnar og sérdeilis vonlausu framboði í nafni aldraðra. En stjórnmálafræðingurinn í mér hefur ekki tekist að finna sennilega og sjálfsagða skýringu á ofboðslegri neikvæðni stórs hluta kjósenda, ekki síst kvenna, í garð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar. Ég er ekki að segja þetta henni til varnar; ég bara fæ ekki komið auga á áþreifanleg orð eða atvik sem skýra þetta undarlega hrun manneskjunnar í vinsældum og virðingu.
Pæliði í því: Hún var ofboðslega vinsæll borgarstjóri sem tók Sjálfstæðisflokkinn trekk í trekk í nefið og skákaði sjálfum Davíð Oddssyni (en glímdi líka við skugga hans). Vinsældir hennar á þeim tíma voru næstum því ógnvænlegar og einkum héldu konur vart vatni af hrifningu. Svo færði hún sig yfir í landsmálin og seinna gerðist það að persónusamkeppnin við Davíð var ekki lengur til trafala. Í stjórnarandstöðu hefur hún auðvitað ekki borið ábyrgð á umdeildum stjórnarathöfnum og í sjálfu sér er ekki hægt að segja að stjórnarandstaðan hafi verið léleg almennt. Ingibjörg Sólrún hefur að vísu haldið nokkrar skrítnar ræður, að mati margra, og henni hefur verið nuddað upp úr orðum eins og að kjósendur treysti ekki Samfylkingunni. En samt. Hún hefur ekki sagt meiriháttar vitleysu eins og að maður fari ekki alltaf heim með sætustu stelpunni (eða stráknum). Eiginlega hafa hennar verstu áföll verið fólgin í innbyrðis átökum við Össur Skarphéðinsson. Ekki missa menn niðrumsig við að taka eina eða tvær lotur við hann er það? Miklu heldur að hún hafi misst flugið við að fara ekki gegn Össuri við fyrsta tækifæri á sínum tíma; fresta formannsslagnum.
Vill einhver þarna úti hjálpa villuráfandi stjórnmálafræðingi að koma auga á skynsamlegar skýringar á því að vinsælasti stjórnmálaleiðtogi þjóðarinnar er allt í einu orðinn sá allra óvinsælasti og það án þess að bera ábyrgð á umdeildum stjórnarathöfnum? Erum við kannski ekki að tala um stjórnmál per se? Erum við að tala um illa áru? Vonda lykt? Að konur séu konum verstar? Hmmm.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Lilló!
Góð spurning. Ég reyndar búin að svara þér og koma með mína eigin stjórnmálaskýringu á:
http://blogg.visir.is/annatheodora/
Anna Theodóra Rögnvaldsdóttir, 9.4.2007 kl. 12:42
Ekkert sem Ingibjörg Sólrún hefur gert réttlætir þetta vinsældarhrap hennar. Ástæðurnar eru utanaðkomandi, m.a. gegndarlaus áróður pólitískra andstæðinga hennar í mörg, mörg ár. Dropinn holar steininn, ekki satt?
Ég hef undanfarin ár hitt margt fólk sem allt notar sama frasann um ISG, þ.e. "hún er búin að skíta upp á bak". Hvaðan hann er upprunninn veit ég ekki en forvitnilegt þykir mér að svo margt hægra fólk noti sama orðalagið um blessaða konuna. Aðeins eru nokkrir dagar síðan ég heyrði þetta síðast og pressaði þá á viðkomandi að skýra mál sitt betur. Þá varð fátt um svör, "bara, hún er búin að skíta upp á bak". Punktur.
Fáir einstaklingar hafa orðið fyrir eins miklum og langvinnum árásum opinberlega og ISG. Snúið er út úr öllu sem hún segir og það mistúlkað á versta veg. Það að hún er enn að berjast segir mikið um karakterinn og þrautseigjuna sem hún býr yfir. Ég væri grenjandi inni á geðdeild með róandi í æð ef ég fengi á mig brot af því sem hún hefur fengið.
Við sáum hvers hún var megnug þegar hún stjórnaði Reykjavíkurborg og við eigum að gefa henni tækifæri í landsstjórninni.
Man nokkur eftir að tveir karlmenn hafi tekist á? Man nokkur dæmi þess að karli hafi verið hafnað í prófkjöri eða kosningum? Eru þá karlar körlum verstir?
Ibba Sig., 9.4.2007 kl. 16:27
Það hefur verið stundaður markviss áróður gegn Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur af pólitíkusum sem eru skíthræddir við hana. Vona svo sannarlega að fólk láti þennan áróður ekki hafa áhrif á sig og kjósi Samfylkinguna
Margrét St Hafsteinsdóttir, 11.4.2007 kl. 01:26
Ég kann ekki skýringu á stöðu Ingibjargar frekar en nokkur annar. Ingibjörg Sólrún er alvöru pólitíkus, eldklár og snör. Hún hefur hjólað í aðra og aðrir hafa hjólað í hana - og mér finnst það pínulítið aumingjalegt að kenna áróðri um þá stöðu sem hún er í. Ingibjörg getur klárlega svarað fyrir sig.
Ég held að tvennt geti haft hér áhrif (meðal annars) - tímabundið brotthvarf hennar í nám utanlands, sem varð til þess að hún hvarf e.t.v. of lengi af sjónarsviðinu, og vöntun á alvöru andstæðingi. Pólitísk umræða er einhvern veginn ekki í þeim farvegi að Ingibjörg nái almennilega að láta ljós sitt skína. Það vantar Davíð Oddsson!
Konur eru konum verstar, Lilló? Hefur þú borið þetta undir Rögg?!
Kolgrima, 11.4.2007 kl. 12:54
Röggur segir að Kolgríma sé með bestu skýringarnar. Ég beygi mig auðvitað undir það. Ég tel ótækt að bera fyrir sig áróður andstæðinga - allir foringjar hafa mátt þola slíkt. Og þetta með að konur séu konum verstar er auðvitað algjör steypa. Allir vita að þær eru körlum verstar!
Friðrik Þór Guðmundsson, 11.4.2007 kl. 22:03
Hér er kenning; ISG er enn refsað fyrir að "stökkva" burt úr Ráðhúsinu. Mig minnir að í umræðunni á þeim tíma hafi oft verið sagt að hún var búin að lofa að vera áfram heimavinnandi (í Ráðhúsinu) og börnin eru kannski enn að refsa henni fyrir að fara út í hinn stóra heim landsmálapólitíkur með öllum körlunum. Sem sagt einhverjir mömmukomplexar sem fólk þarf endilega að vaxa upp úr sem fyrst. ISG er auðvitað gríðarlega sterkur stjórnmálamaður með þekkingu og reynslu - hvort sem maður kýs hana eða ekki.
Halldóra Halldórsdóttir, 13.4.2007 kl. 23:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.