Færsluflokkur: Menning og listir
9.5.2009 | 02:14
Næturhjal
Þú sagðir víst að nóttin væri
vindasöm og hrein.
Úr afkimunum þyrlast þá
þjóðar sálar mein.
Þú sagðir og að óravíddir
öllum blöstu við.
Er þó allt svo nándar nærri,
því nóttin er upphafið.
Ég sagði við þig ,,Nótt er nótt
með niðaskugga,
og gífurtal um gæðin þá
er gömul tugga.
Ekki máttu, mæltir þú,
mátt og hug þinn skorða,
af tilviljun ég svona tók
táknum prýtt til orða.
Ég sagði þér að slaka á.
Senn nú fer að rofa
og fíflin ein á fótum enn.
Þá fórstu loks að sofa.
1.9.2008 | 13:10
(Fyrrum) ritstjóri í valdsmannslegum vanda
Það er ekki gott að vera Matti Joh í dag. Þessi fyrrum Moggaritstjóri er að birta gamlar dagbækur sínar á Netinu og þær virðast uppfullar af misáreiðanlegu slúðri. Og sýna ekki fyrst og fremst daglegt amstur ritstjóra heldur plottfundi og samtöl valdsmanns í samfélaginu. Meðal annars upplýsir Matti að Geir Hallgrímsson heitinn fyrrum forsætisráðherra hafi viljað gera Styrmir Gunnarsson Moggaritstjóra að formanni Sjálfstæðisflokksins!
Aftur á móti fjallar viðhengd frétt um ömurlega útreið Matta vegna dagbókarskrifa hans um Guðjón Friðriksson, þar sem Matti virðist hafa tileinkað sér einhverja slúðurkenningu um að Guðjón hafi farið illa með nemanda sem skrifaði ritgerð um Matta og ljóðin hans. Frásögn Matta virðist vera uppspuni frá rótum og Matti trúað því of auðveldlega að Guðjón hafi verið að "dissa" hann og ljóðin hans. Viðkomandi (fyrrum) nemandi getur ekkert staðfest af því sem Matti skrifaði og Guðjón virðist hvergi hafa komið nærri málum. Guðjón var hafður fyrir rangri sök.
En Guðjón gerir ólíkt Matta ekki of mikið úr sjálfum sér og "sættist" við fyrrum ritstjórans með því að fá að skrifa athugasemd við dagbókarfærsluna, raunar eftir að Matti baðst afsökunar. Kannski er það besta lausnin, nú þegar fyrir liggur og fólk veit að dagbókarfærslunum þarf að taka með fyrirvara.
Eðlilega kemur til umræðu hvort Matti hafi með þessari og fleiri birtum dagbókarfærslum sínum gengið í berhögg við siðareglur blaðamanna. Það er hægt að færa gild rök fyrir því að svo sé. Hins vegar sýnist mér vandséður tilgangurinn með því að láta á það reyna frammi fyrir siðanefnd. Aftur á móti eru fengin ágæt skólabókardæmi í þessu og fleiri dagbókartilvikum Matta Joh um áreiðanleika, traust og trúnað.
Matthías Johannessen: Málið er úr sögunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |