Færsluflokkur: Samgöngur
2.12.2008 | 19:40
100% hækkun Bílastæðasjóðs
Fékk um daginn bréf. Var ekki gluggapóstur en hefði allt eins getað verið það. Bréfið var augljóslega skrifað af manneskju (í stofnun) sem ekki er í sambandi við raunveruleikann. Manneskjan var að boða 100% hækkun á sinni "þjónustu".
Manneskjan að baki skrifunum ritaði fyrir hönd Bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar. Ég á heima á B-svæði bílastæða og í bréfinu kom fram að ekki einasta minnkar svæðið sem ég hef rétt til, heldur myndi árgjaldið hækka úr 3.000 krónum í 6.000 krónur. Ég hef nú um skeið beðið þess að málið kæmi upp í fréttum en án árangurs.
Bílastæðasjóður er á ábyrgð borgarinnar og þar er Sjálfstæðisflokkurinn við stjórnvölinn. Getur einhver góðhjörtuð sál reynt að hafa vit fyrir þessu fólki og segja því að eitthvað hljóti að vera bogið við 100% hækkun á þjónustu nú á þessum vondu tímum fyrir fólk og buddur?
29.5.2008 | 11:04
Aðgerðamiðstöð í boði alvöru skúrksins
Er "bensínstöð Olís við Suðurlandsveg" aðgerðamiðstöð trukkaranna? Eru olíufélögin að berjast með trukkurunum fyrir lægra bensínverði? Ættu trukkararnir ekki að loka "bensínstöð Olís við Suðurlandsveg" með mótmælum frekar en að heiðra skálkinn?
Ég stend með trukkurunum í baráttunni fyrir lægra bensínverði. En ég mótmæli aðferðafræði þeirra. Hvað bensínverð varðar hafa þeir eitthvað ruglast á skúrkum. Þeir eiga að safna liði við Austurvöll og fara þaðan á bensínstöðvarnar og loka þeim. Til að mótmæla verðhækkunum og álagningu olíufélaganna og hækkun olíuframleiðsluríkjanna á heimsmarkaðsverði. Þarna er skúrkarnir.
Aftur á móti geta trukkararnir mótmælt á Austurvelli þegar stjórnvöld ætla að leggja umhverfisskatt á eldsneytið, eins og örugglega er fyrirhugað og tíðast t.d. á hinum Norðurlöndunum. Trukkararnir missa þá að vísu stuðning græningja, en það er kannski lítil fórn fyrir lægra eða ekki-hærra bensínverð.
Til að reyna að komast út úr ógöngum sínum tala trukkararnir núna um allt önnur mál en lagt var upp með. Tala um eftirlaunalögin og baráttuna fyrir þá sem minnst mega sín. Verður hnykkt á þessu með kröfum um að hætta við framboð í Öryggisráð SÞ og fyrir því að koma "kistilega siðgæðinu" aftur inn í skólafrumvörpin? Stofna flokk, kannski?
Bara eitt að lokum: Sjálfsagt finnst mörgum þetta sniðugt með líkkisturnar. Ekki mér. Fyrir mér tákna líkkistur ástvinamissi. En það er bara ég.
Fyrst og fremst táknræn athöfn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.5.2008 | 12:19
Sonar saknað - Sturla Þór eldri 25 ára
Hann á 25 ára afmæli í dag - og hvílík veisla, hefði hann lifað. Ég sakna þín á hverjum degi Stubburinn minn. Glæpsamlegt flugfélag svipti þig og fimm önnur lífinu og frábær samfélagslega rekin heilbrigðisþjónusta var næstum búin að bjarga lífi þínu, gegn öllum líkindum.
Við fórum að leiðinu þínu áðan og ég hengdi KR merki á krossinn þinn - það ætti að tryggja heimasigur gegn Grindavík í dag.
Að öðru leyti og að sinni geri ég að mínum orðum færslu mömmu þinnar í morgun (roggur.blog.is):
"Í dag 10. maí hefði Sturla okkar orðið 25 ára. Í dag förum við að leiðinu hans og leggjum á það blóm. Höldum upp á daginn með köku og kaffi. Sturla á það sannarlega skilið. Við viljum minnast hans með gleði og rifja upp minningar. Það gefur deginum óneitanlega gleðiblæ að nú hefur Sturlubarnið bæst við fjölskylduna. Hann minnir á frænda sinn um sumt. Er ákafur og kraftmikill. Veit hvað hann vill og er handsterkari en hægt er að reikna með hjá svona litlu barni. Gleðigjafi og gullmoli".