Ofurlaunin hjá dráttarklárum atvinnulífsins

Eru læknar á ofurlaunum. Sumir að því er virðist. Ekki held ég þó að þeir komist með tærnar þar sem forstjórar og verðbréfasnillingar hafa komist með hælana síðustu árin. Einhvern veginn held ég að engum hafi órað fyrir því hversu mikið ofurlauna- og kaupréttarbólan myndi blása út í öllu gegndarleysinu.

Árið 2003 skrifaði ég fréttaskýringuna "Forstjórar á ofurlaunum" í Mannlíf en nú finnst mér sú grein vera hálf "barnaleg", þ.e. það sem þótti þá mikið átti eftir að verða tiltölulega "lítið". hvað sem því líður langar mig til að leyfa ykkur (sem nennið) að lesa "andann" árið 2003, en þarna er vitnað í ýmsa spekinga og meðal annars talar einn prófessor um mikilvægi þess að "dráttarklárar atvinnulífsins" séu á góðum launum.

"Það brá mörgum launamanninum í brún á dögunum þegar fréttist af svokölluðum “kaupréttarsamningum” nokkurra forstjóra landsins sem færðu þeim, með litlu meira handtaki en einu pennastriki, margra milljóna króna launabónus. Þannig fékk forstjóri Eimskipafélagsins að kaupa hlutabréf á vildarkjörum og seldi þau óðara aftur á mun hærra gengi – og græddi þrjár milljónir króna. Þetta er þó nokkuð hærri upphæð en láglaunafólk þénar á heilu ári, enda jafngildir þetta 250.000 kr. mánaðarlaunum. Sá er síðan enn munurinn á forstjóranum og launamanninum að þessi þriggja milljóna króna “kaupauki” flokkast undir söluhagnað og af slíku er aðeins greiddur 10% skattur. Fiskvinnslukonan í Granda og afgreiðslukonan í Hagkaupum borga 40% skatt af sínum launauppbótum.

 

Forstjórar landsins hafa ekki bara góða ráðningarsamninga og veglegar tekjur heldur hafa þeir á undanförnum árum siglt hraðbyri fram úr starfsfólki sínu í kaupmáttaraukningu. Meðalforstjórinn í nokkrum af helstu og stærstu fyrirtækjum landsins er með ríflega eina og hálfa milljón króna í skattskyldar tekjur á mánuði og hefur aukið kaupmátt sinn um 65% síðastliðinn rúman áratug eða milli 1990 og 2002. Á sama tíma hefur kaupmáttur launa almenns launafólks hækkað um nálægt 30%.... Framhald í athugasemdarýminu...

 

 


mbl.is Guðlaugur vildi ekki ofurlaun lækna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Meðalforstjórinn hefur bætt kjör sín sem nemur 400.000 krónum á mánuði umfram kjarabót almennra launamanna. 65% kaupmáttaraukning forstjóranna sl. 12 ár er og athyglisverð fyrir þá sök að það er enginn reginmunur á kjarabótunum eftir því hvernig viðrað hefur í íslensku efnahags- og viðskiptalífi. Forstjórarnir bættu kjör sín um tæp 28% á árunum 1990 til 1996 (á erfiðleikatímum) og um rúm 29% á árunum 1996 til 2002 (í góðæri). Lögmálið um umbun og refsingu í samræmi við afkomu og frammistöðu er ekki sýnilegt.

 Múrinn kominn í tvær milljónir

En auknu frjálsræði í viðskiptum, góðæri, auknum væntingum um lífsgæði, sátt og samlyndi meðal “aðila vinnumarkaðarins” allt frá 1990 og aukinni árangurstengingu launa æðstu manna helstu fyrirtækja landsins hefur eftir sem áður fylgt að forstjórarnir hafa verið afar farsælir í kjarabaráttu sinni undanfarin 12 ár. Þeir hafa ekki þurft á kröfugöngum að halda í þeirri baráttu. “Milljón króna menn” fóru fyrst að birtast almenningi fyrir um áratug síðan. Fyrst og fremst einstaka athafnamenn og þá ekki síst menn sem ráku fyrirtæki á eigin kennitölu – og voru þannig fyrirtæki í sjálfum sér, eins og skattakóngurinn Þorvaldur heitinn Guðmundsson í Síld og fisk, nokkrir lyfsalar og stöku tannlæknar. Um 1990-1991 fóru fyrstu forstjórarnir að skríða yfir milljónina (á þáverandi verðlagi), menn á borð við Hörð Sigurgestsson í Eimskip, Pétur Björnsson í Vífilfelli, Gunnar Hansson í IBM, Guðjón B. Ólafsson heitinn í SÍS og dýrustu bankastjórana.

Núorðið er keppikeflið að komast yfir tvær milljónir á mánuði og það hefur nokkrum “launþegum” tekist. Sporgöngumenn í þeim efnum hafa verið menn á borð við forstjóra olíu- og tryggingafélaganna og “spútnikka” eins Kára Stefánsson í Íslenskri erfðagreiningu og Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi. Hinir tveir síðastnefndu eru reyndar þegar búnir að klifra yfir þriggja milljóna króna múrinn. Tvær milljónir á mánuði samsvara um það bil tuttuguföldum byrjunarlaunum sjúkraliða.

 Forstjórinn á við nær 10 verkamenn

 MANNLÍF skoðaði tekjuþróun forstjóra 30 fyrirtækja milli fyrrgreindra ára í þeim tilvikum þar sem samanburður var mögulegur. Um er að ræða helstu og stærstu fyrirtæki landsins. Aðeins í tveimur tilvikum hafa rauntekjur þessara forystumanna lækkað, en aftur á móti hefur kaupmáttur tekna um þriðjungs þessara manna tvöfaldast eða meira.

Það skal undirstrikað að þær tölur sem hér er fjallað um samsvara ekki launum í hefðbundnum skilningi, heldur skattskyldum tekjum af öllum gerðum. Ekki er örgrannt um að einhverjir þessara einstaklinga hafi t.d. drjúgar fjármagnstekjur og söluhagnað. Af slíku er, sem fyrr segir, aðeins 10% skattur og það lækkar þær tölur sem fjölmiðlar miða við þegar þeir reikna út mánaðartekjur manna. Þess má geta að árið 2000 fengu 96 einstaklingar samtals 11,2 milljarða kr. fjármagnstekjur í sinni hlut. Að meðaltali fékk hver þeirra um 116 milljónir kr. í fjármagnstekjur það árið. Og borgaði af því 11,6 milljónir kr. í skatt en ekki um 45 milljónir eins og ef um almenn laun væri að ræða.

Eftir því sem næst verður komist voru meðaltekjur almenns verkafólks árið 2002 um 193.000 krónur á mánuði og þá fyrir um 200 klukkustunda vinnu (49,5 klukkustunda vinnuviku). Það þýðir að forstjórarnir 30 í körfunni voru 250 til 260 verkamanna makar eða hver þeirra með tekjur á við 8-10 venjulega launamenn.

Þess ber sérstaklega að geta að hér er verið að bera saman stöður en ekki einstaklinga. Í sumum tilfellum hafa nýir menn tekið við viðkomandi stöðum og þá ekki notið sömu kjara og forverarnir. Þannig má ljóst vera að sem forstjóri Eimskipafélagsins naut Hörður Sigurgestsson mun betri kjara en eftirmaðurinn Ingimundur Sigurpálsson. Skiptir þar án efa miklu máli að Hörður var og er stór hluthafi í fyrirtækinu og hefur sem slíkur fengið vænar arðgreiðslur. Í álverinu við Straumsvík reynist Rannveig Rist eiga langt í land með að njóta sambærilegra kjara og forveri hennar Christian Roth. Enn má nefna að Einar Benediktsson, forstjóri Olíuverslunar Íslands (Olís), hefur verið mun tekjuhærri en forverinn Óli Kr. Sigurðsson heitinn.

Mesta sprengingin upp skalann virðist þó hafa átt sér stað þar sem ríkisrekin fyrirtæki hafa verið einkavædd. Árið 1990 gegndi Ólafur Tómasson stöðu forstjóra Póst- og símamálastofnunar ríkisins og var það árið með liðlega 500.000 kr. í skattskyldar tekjur á mánuði sem hefur vafalaust þótt allbærilegt hjá opinberum starfsmanni en óralangt frá toppmönnunum. Nú hefur fyrirtækinu verið skipt í tvennt og Landssíminn er kominn með einn allra tekjuhæsta forstjóra landsins, Brynjólf Bjarnason, sem halar inn fjórfalt á við Ólaf.

 Athafnamenn eins og skúringakonur í hlutastarfi

 Reglan virðist sú að forstjórar landsins hafi rokið upp í tekjum og jafnvel enn meir en fram kemur í forstjórakörfunni. Upplýsingar í tekjublöðum tímaritsins Frjálsrar verslunar gefa til kynna töluvert meiri hækkun. Þegar tekjur tilfallandi 30 efstu forstjóranna á listum tímaritsins eru lögð saman kemur í ljós 123% raunhækkun tekna milli áranna 1990 og 2002. Listar þessir eru þó ekki fyllilega samanburðarhæfir þar sem mun fleiri einstaklinga er að finna á þeim hin síðari ár. Bæði er það vegna þess að tímaritið hefur tekið fleiri einstaklinga fyrir og einnig vegna þess að hátekjumönnum hefur fjölgað verulega.

Mikil kaupmáttaraukning tekjuhæstu manna landsins er þó staðreynd. Öðru máli gegnir hins vegar um ýmsa kunna athafnamenn sem samkvæmt álagningarskrám hafa hrunið í tekjum. Öllu trúlegra er þó að viðkomandi einstaklingar hafi breytt um aðferðafræði við útfyllingu skattframtala sinna og að nú reikni þeir sér laun við lægstu mörk. Árið 1990 voru meðaltekjur Skúla Þorvaldssonar á Hótel Holti þannig 3,2 milljónir á mánuði en voru í fyrra 92.000 kr. Jón Ólafsson í Skífunni var með 620.000 kr. á mánuði 1990 en aðeins um 202.000 kr. í fyrra, eða á við hvern annan verkamann. Hann er aftur á móti skráður með lögheimili á Bretlandi, sem sjálfsagt hefur áhrif á skattgreiðslur. Pétur Björnsson í Vífilfelli var með 1,7 milljón kr. á mánuði fyrir rúmum áratug en í fyrra aðeins um 242.000 kr. Og Hildur Petersen í Hans Petersen var árið 1990 með um 890.000 kr. á mánuði en í fyrra með aðeins um 176.000 kr.

 Launin sýnilegri og allt skattlagt

Benedikt Jóhannesson, stjórnarformaður HF Eimskipafélags Íslands og Nýherja, segir það sanngjarnt að mönnum sem standa sig vel sé umbunað. “Hins vegar er nauðsynlegt að menn séu vel á verði gegn því að laun forstjóra fari ekki gersamlega úr takti við raunveruleikann, eins og hefur gerst sums staðar erlendis, einkum í Bandaríkjunum.” Hann bendir þó á varnagla sem hafa beri í huga. “Annars vegar kann hækkun forstjórateknanna að stafa af því að laun séu sýnilegri nú en áður, því að fyrr á árum voru hlunnindi, eins og bílar og eftirlaunasamningar, ekki færðir mönnum til tekna með mánaðarlaunum. Bílahlunnindi eru nú skattlögð eins og hverjar aðrar tekjur og það heyrir nú til undantekninga að fyrirtæki taki á sig eftirlaunaskuldbindingar vegna starfsmanna. Seinna atriðið er að fyrirtæki hafa stækkað mjög mikið á þessum tíu árum einkum vegna sameininga og afkoma þeirra er mun betri en áður var. Líklega hafa laun forstjóra sem hlutfall af heildartekjum fyrirtækja eða hagnaði þeirra lækkað á þessu tímabili.”

Aðspurður um hlunnindi á borð við bensín á einkabílinn, viðgerðir á honum, ýmsan húsnæðiskostnað, einkaferðalög greidd af fyrirtækjunum, laxveiði, risnu á heimilum, viðhald og viðgerðir á einkaheimilum, ýmsan fatnað og fleira slíkt segir Benedikt að þar sem hann þekki til sé áhersla lögð á að öll kjör forstjóra séu sýnileg. “Það kann að vera að á árum áður hafi verið meira um að forstjórum hafi verið greitt með einhverjum hlunnindum. Nú eru öll slík hlunnindi skattskyld og framtalsskyld. Mat manna á hvað teljist til hlunninda hefur líka breyst gegnum tíðina. Hér áður fyrr þóttu það forréttindi að komast til útlanda ekki síst vegna þess að gjaldeyrir var háður leyfum og slík ferðalög voru dýr. Þetta hefur gerbreyst og nú, þegar menn almennt eiga auðveldara með það en áður að veita sér slíkt, líta flestir á vinnuferðalög framkvæmdastjóra til útlanda sem kvöð en ekki lúxus.”

“Dráttarklárar atvinnulífsins”

Hildur Petersen, fyrrum forstjóri Hans Petersen en nú stjórnarformaður ÁTVR, segir að á árunum 1997 –2001 hafi verið mikil uppsveifla í þjóðfélaginu og gerðar talsverðar kröfur til forstjóra. “Mörg fyrirtæki, og þá sérstaklega tölvufyrirtækin, voru að vaxa hratt og sum þeirra jafnframt að skila góðri afkomu. Forstjórar hér á landi báru sig saman við starfsbræður sína erlendis og þar sem mörg fyrirtæki hér gengu vel var samningstaða þeirra almennt góð. Launahækkun þeirra fólst oft í kauprétti á hlutabréfum eða var á annan hátt árangurstengd. Það verður síðan að teljast líklegt að launin hafi ekki endilega lækkað í samhengi við samdrátt þann sem fylgdi í kjölfarið.”

Hildur bætir við að á síðustu tveimur árum hafi orðið umtalsverð forstjóraskipti í íslenskum fyrirtækjum. “Það má gera ráð fyrir að væntingar um ábatasama framtíð hafi orðið til þess að hæfir einstaklingar voru ráðnir í forstjórastólana og þeim greidd góð laun.”

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor ver hinar myndarlegu tekjuhækkanir forstjóranna með klassískum frjálshyggjurökum. “Forstjórar á Íslandi voru, að mínum dómi, með óeðlilega lág laun á sínum tíma. Ef þeir hafa fengið myndarlegar kauphækkanir þá er það æskilegt, enda sýnist mér á tölunum um betri launakjör almennings að forstjórarnir hafi skapað öðrum betri kjör. Það hefur verið stritað á Íslandi í þúsund ár. Það er ekki fyrr en stritið er skynsamlega skipulagt sem það fer að skila ávöxtum, og þessa skipulagningu og hagræðingu annast forstjórarnir, framkvæmdamennirnir, fjármagnseigendurnir. Þeir eru dráttarklárar atvinnulífsins. Með harðnandi samkeppni um fjármagnið verða mistök einstakra forstjóra líka fljótar leiðrétt, ólíkt því sem áður var. Við eigum að samgleðjast forstjórunum í stað þess að öfunda þá, en aðallega eigum við að gleðjast yfir hinum feiknalegu kjarabótum almennings í tíð Davíðs Oddssonar, enda eru þessar kjarabætur ekki vegna hermangs eða ofveiði, heldur vegna skynsamlegrar hagræðingar og skipulagningar í einstökum fyrirtækjum.”

Hannes segir aðalatriðið ekki það hvort kjör eins hóps hafi batnað meira en annars, heldur hvort kjör almennt hafi lagast. “Stóra fréttin er að kaupmáttur almennings hafi hækkað svo mikið sem raun ber vitni. Þar er um gífurlegar upphæðir að ræða af því að þetta er svo margt fólk. Forstjórar fyrirtækja eru örlítið brot þjóðarinnar. Almennt launafólk er þorri þjóðarinnar. Það er verið að bera saman einn dropa og heilan sjó.”

 Margoft greitt fyrir sama hlutinn?

Talsmenn verkafólksins sýna “dráttarklárum atvinnulífsins” ekki sama skilning og Hannes. Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, segir að undanfarinn áratug hafi margt breyst í rekstrarumhverfi fyrirtækja og margt af því hafi verið af hinu góða en flokkar ekki miklar hækkanir til forstjóranna þar á meðal. “Á þessum tíma hafa laun efstu stjórnunarlaga í fyrirtækjum hækkað verulega mikið og langt umfram almenna launaþróun í landinu. Þetta hafa svo embættismenn og stjórnvöld nýtt sér til samanburðar og við höfum orðið að horfa upp þann aðal skenkja sér launahækkanir langt umfram það sem þeir fást til þess að ræða um við samningaborðið þegar kemur að kjarasamningum fyrir hinn almenna starfsmann.”

Guðmundur segir að hafa beri í huga að ekki komi allt fram í þessum samanburði. “Þessir einstaklingar eru með starfslokakjör sem eru langt fyrir ofan það sem almennt tíðkast, lífeyrissamninga og séreignargreiðslur auk margs konar hlunninda. Í rökum fyrir þessum launum er því gjarnan haldið fram að þarna sé um að ræða umbun fyrir góð störf. En eru ekki aukagreiðslurnar fyrir það og verið að greiða mörgum sinnum fyrir sama hlutinn? Menn hafa sagt að ofurlaunin séu vegna þess að starfsaldur getur verið stuttur og góð starfslokaákvæði sömuleiðis. En eru ríflegar lífeyrisgreiðslur ekki tilkomnar vegna þess að hugsanlega geti orðið stuttur? Er ekki verið að greiða umbun í formi hlutabréfa eða sérgreiðslna ef vel gengur? Þar fyrir utan eru svo hlunnindagreiðslur eins og t.d. bíll og risna. Mitt mat er það að laun þessara einstaklinga hafi hækkað langt umfram það sem eðlilegt getur talist.”

 Ofurkjörin ýta undir spillingu

Guðmundur segir menn ekki verða vara við að laun eða aukagreiðslur hafi lækkað þó að hlutabréf fyrirtækja hafi kolfallið og um leið hafi allmörg íslensk heimili nánast verið lögð í rúst vegna athafna sömu einstaklinga. “En mig langar til þess að draga fram annað sjónarhorn. Margir starfsmenn sem hafa varið besta hluta starfsævi sinnar fyrir viðkomandi fyrirtæki hafa verið látnir fara. Þeir hafa verið fyrirtækjunum traustir og ekki hætt þótt stundum hafi gengið illa og oft og tíðum þegið lægri laun en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði. Iðulega eru helstu afrek þeirra, sem ofurlaunin hafa, fólgin í því að senda þetta fólk út á götu og ráða til sín ungt fólk. Þá er ekki um að ræða glæsta starfslokasamninga. Þvert á móti er einmitt oft ráðist í þessar aðgerðir skömmu áður en þetta fólk öðlast aukin starfslokaréttindi innan fyrirtækjanna,” segir Guðmundur.  

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir að laun forstjóra hafi, að því er virðist, farið langt fram úr því sem launafólk hafi fengið undanfarin ár. “Og það er jafnvel að gerast í fyrirtækjum sem ekki hafa gengið vel og hafa þurft að þrengja að almennu starfsfólki sínu. Mér virðist ljóst að þessar hækkanir til forstjóranna séu ekki bundnar við aukna ábyrgð eða árangur og því er um óeðlilegar hækkanir að ræða.”

Um kaupréttarsamningana sem á var minnst í upphafi greinarinnar segir Björn greiðslur vera út úr kortinu. “Mér finnst þetta óeðlilegt. Þetta ýtir undir spillingu í landinu.”

Það eru samkvæmt þessu deildar meiningar um hvort það er jákvætt eða neikvætt að forstjórar landsins fái ofurlaun í æ ríkara mæli. Menn geta litið á það sem góða umbun fyrir mikið erfiði eða óréttmæta aukningu á launamun stéttanna. Víst er að stjórnendur 300 stærstu fyrirtækja landsins stóðu sig bærilega árið 2002, því samkvæmt Frjálsri verslun var hagnaður þessara fyrirtækja 78 milljarðar kr. það árið og hafði vaxið gríðarlega frá árinu áður þegar hann var “aðeins” 12 milljarðar. Það er 550% hagnaðaraukning. Séð frá öðru sjónarhorni blasir við að hagnaður þessara fyrirtækja jókst úr 42.000 kr. á hvert mannsbarn árið 2001 í 270.000 kr. árið 2002. Á sama tíma hækkuðu laun allra starfsmanna í þessum fyrirtækjum um 7,7%.

Með svona ævintýaralegan hagnað í farteskinu geta eigendur fyrirtækjanna vel rökstutt ofurtekjur forstjóranna – á hluthafafundum.

Friðrik Þór Guðmundsson, 19.2.2009 kl. 15:27

2 Smámynd: Hlédís

Þakka þér fyrir, Friðrik!

Hlédís, 19.2.2009 kl. 21:22

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Fróðleg upprifjun. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.2.2009 kl. 00:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband