Svartir Baugsliðar slátra Kompási

Kannski mestu Anarkisma-Svartliðarnir séu Ari Edwald og Jón Ásgeir Jóhannesson? Þeir ganga nú um með brauki og bramli og rífa niður lýðsræðisstofnanir - því gagnrýnin fréttamennska í fjölmiðlum er einn af hornsteinum lýðræðisins. Ari og Jón, íklæddir svörtu, grýta nú eggjum, banönum og gangstéttarhellum að fjölmiðlamönnum og slasa lýðræðið.

Illi heilli eru einkareknir ljósvakafjölmiðlar landsins í höndum hins svarta Baugsveldis og nær allir einkareknir prentmiðlar líka. Sennilega finnur fólk þessa svarta veldis fyrir því að of öflugar fréttastofur undirstofnana sinna kunni nú að vera farnar að finna fyrir of mikilli sjálfstæðisþörf - og sjálfsritskoðun þá að minnka. Sennilega finnst hinum andlitshuldu (þeir sína aldrei sitt rétta andlit) svörtu Baugsverjum því tímabært að grýta uppsagnareggjum í fréttamenn "sína" og fótumroða sjálfstæða hugsun. Þegar búið er að reka Sigmund, Sölva, Jóhannes og Kristinn Hrafns; hvað hugsa hinir? Þegar búið er með ofbeldi að slátra Kompási - taka hinir upp gagnrýna hugsun og sjálfstæð vinnubrögð? Eða fara þeir eins og aðrar "ljóskur" að leita að mönnum sem bjarga köttum úr trjám og síðan að segja frá dásamlegum vörum og þjónustu Baugsveldisins? Það skyldi þó ekki vera.

Kompás mátti ekki slátra. Þó ég hefði valið aðrar áherslur þar - meira flett ofan af viðskiptamógúlum - þá hefur þetta verið ómissandi þáttur fyrir gagnrýna umræðu. Ég er rasandi reiður að hinir andlitshuldu svartklæddu Baugsliðar hafi nú grýtt þáttinn í hel.

Ég skora á blaða- og fréttamenn landsins að taka höndum saman gegn þessum svörtu öflum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Friðrik

Í nótt skrifaðirðu mikla færslu þar sem þú botanðir ekkert í mótmælendum sem væru svo vitlausir að skilja ekki að ríkisstjórnin væri farin frá.

Einhverjir hefðu reyndar bent á að engin slík yfirlýsing lægi fyrir - heldur hefði það eitt gerst að flokksfélag í Samfylkingunni hefði samþykkt ályktun á fundi sem var kerfisbundið sniðgenginn af öllum ráðherrum og flestöllum þingmönnum flokksins...

En nú hefur verið staðfest af formanni Samfylkingarinnar að flokkurinn stefnir að óbreyttu ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum - fram að kosningum sem haldnar verða á óljósum tímapunkti.

Með öðrum orðum: fögnuður þinn var augljóslega ótímabær - en stöðumat mótmælenda raunsærra, ekki satt?

Gaman væri að sjá nýja færslu frá þér um sama mál í ljósi nýjustu frétta.

Kv,

Stefán

Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 19:01

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka tilskrifin Stefán (þótt ég sér hér að tala um Kompás ofl).

Fögnuður minn ótímabær? Og þá fögnuður fjöldans (og stöðumat) fyrir utan Þjóðleikhúsið, sem breytti "Vanhæf ríkisstjórn" í "Áfram ísland"?

og þá spádómar Kaninku, sem spáir:

i) Tilkynnt verður um afdrif ríkisstjórnarinnar fyrir helgi. Líklega á föstudag.

ii) Kosningar verða ekki síðar en snemmsumars - í síðasta lagi í byrjun september.

iii) Dagur B. Eggertsson verður formaður Samfylkingarinnar í þeim kosningum.

Já - ég viðurkenni að þetta eru ekkert sérstaklega djarfir spádómar… allt frekar fyrirsjáanlegt. ?

Nei, ég held að fögnuður minn og fleiri hafi ekki verið ótímabær og hafi fullt tilefni verið til að fagna sigri. Ég held að yfirlýsing ISG sem þú nefnir sé EKKI tímabær. Flokkurinn stefnir EKKI á óbreytt stjórnarsamstarf, þótt formaðurinn segi þetta (kannski til að róa Geir í augnablikinu). Grasrótin í Samfylkingunni leyfir það ekki (ég tilheyri henni ekki, en þekki mætavel til hennar).

Sem breytir ekki hinu, að full ástæða var til að láta gleðina og fögnuðinn ráða ríkjum í nótt en ekki ofbeldisþörfina. Helftin af mótmælendum hafi nefnilega einmitt þetta stöðumat og fjölmargar lýsingar staðfesta að það var fámennur hópur sem hafði annað stöðumat. Lýsingar á því að hópur mótmælenda hafi tekið sér stöðu til að verja lögregluna er til marks um það stöðumat að ekki væri ástæða til að viðhafa ofbeldi. Var það ótímabært og réttara að leyfa gangstéttarhellunum að fljúga og slasa?

Ég tek undir spár Kaninkunnar þinnar (veit þó ekki með Dag). Sem þýðir að ný færsla um sigur og fögnuð er ekki tímabær fyrr en á morgun!

Hefur þú einhverjar skoðanir á svartklæddu andlitshuldu Baugsliðunum?

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 19:16

3 identicon

Friðrik,

Hvernig sérð þú blaðamenn á Íslandi rísa úr sinni öskustó?....maður hefur ekki treyst þeim í fleiri áratugi.  Hvað rekur þá til afreka á fákeppnismarkaði?

itg (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 19:23

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

itg - ég skal skrifa hér ítarlegt svar ef þú spyrð undir nafni. Nafnleysi er ekki bannað hér, en ég legg meira á mig fyrir nafngreint fólk.

Hins vegar hef ég skrifað hér áður um tillögur mínar til eflingar stéttarinnar og síðast ekki fyrir margt löngu.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 19:45

5 identicon

Sæll aftur Friðrik

Jú, ætli ég verði ekki að standa við eigin spádóma - en ég ætla þó að stilla mig um að lýsa yfir eigin getspeki fyrr en spádómurinn er í raun og veru kominn fram.

En hef ég skoðanir á andlitshuldu Baugsliðunum?

Já, mér finnst að íslenskir fjölmiðlamenn þurfi alvarlega að hugsa sinn gang. Trekk í trekk horfa þeir athugasemdalítið upp á uppsagnir vinnufélaga sinna sem hafa orðið sekir um þann glæp að óhlýðnast eigendunum. Svo er það kúnstugt hversu oft það rennur upp fyrir brottreknum blaðamönnum að í raun hafi þeir verið þjakaðir og kúgaðir af valdi eigendanna eftir uppsögn - þrátt fyrir að hafa þrætt fyrir slíkt hið sama örstuttu áður.

Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 20:19

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka ágæt svör, Stefán.

Hvað stöðumat varðar og tilefnin í nótt þá er kannski ástæða til að nefna það stöðumat mótmælenda í dag, bæði almennra og svartklæddra, að sameinast um að bera "orange" borða á handlegg - og gefa lögreglumönnum túlípana og heitt kakó. Rétt eins og stöðumat þeirra sem tóku sér í nótt stöðu fyrir framan lögregluþjónana við stjórnarráðið til að verja þá fyrir grjótkasti, þvagi og saur.

Ég tek undir orð þín um fjölmiðlamenn. Ég er viss um að innan minnar gömlu stéttar sé nú að gerjast mjög alvarlegar hugsanir, sem vonandi brjótast fram á einhvern uppbyggjandi hátt.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 20:24

7 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Ég verð nú að segja að ég kann betur við þetta svona, þ.e. góðir fréttamenn utan 365 frekar en innan, það er þá líklegra að þeir fari að vinna fyrir okkur fólkið en eigendur sína eins og þeir hafa því miður gert hingað til. Það er næsta víst að eftirspurn eftir góðum fréttastofum á bara eftir að aukast næstu mánuðina í takt við það sem gengur á í samfélaginu og auknum áhuga fólks á upplýsingum og Þetta fólk á pottþétt eftir að geta fundið sér eitthvað að gera og bara vonandi að þau noti stund milli stríða til að íhuga ýmis siðferðismál varðandi starf sitt.

Sóley Björk Stefánsdóttir, 22.1.2009 kl. 21:10

8 identicon

Hér er eitthvað klárlega að fara framhjá fólki.

Haft er eftir reknum Sigmundi Erni m.a. á fréttavef Morgunblaðsins að hann og spússa séu nú "frjáls undan oki auðjöfra".

Þetta þýðir að í "gær" var Sigmundur Ernir að segja fréttir okaður af eigendum fjölmiðilsins - "auðjöfrunum" Jóni Ásgeiri og fjölsk.

Þetta þýðir líka að hefði Sigmundur Ernir ekki verið rekinn í dag hefði hann haldið áfram að segja "fréttir" okaður af auðmönnum í næstu viku.

Er þetta dæmi um fagmann og frjálsa fjölmiðla?

Hefði Sigmundur Ernir ekki betur þagað um þetta - svona til að sumir gætu haldið að á ferðinni hafi verið fagmaður?

Friðrik Hilmarsson (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 22:42

9 identicon

ég yrði ekki hissa a því að aðrir fréttamenn á 365 miðlum færu að hugsa sér til hreyfings og yfirgefa sjoppuna áður en hún sekkur fyrir fullt og allt, ég hef enga trú á því að þessir  miðlar lifi af þessa byltingu sem nú er að eiga sér stað í landinu, ég held að þegar öll kurl eru komin til grafar þá flýr Jón Ásgeir og hans hyski til hinna glæpamananna í london eða einhverra sælueyja í skattaparadísin,og vonandi koma þeir  aldrei aftur.

sjáðu bara mótmælin það andmælir eingin ,hvar eru stjórnarfylgjendur,ekki sjást þeir á mótmælafundum en skrifa stundum á bloggið og þá ekki undir nafni, kannski eru þeir lyddur og liðleskjur eins og stjórnarliðar og þora ekki að andmæla á almanna færi .H.F.F.lið  

H.Pétur Jónsson (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 23:08

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Tek undir orð Friðriks Hilmarssonar, sjá Óheiðarlegur lengi?

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.1.2009 kl. 01:39

12 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þótt sannleikskorn finnist hjá ykkur drengir megið þið ekki gleyma því að flestir launamenn eru jú á einhvern hátt okaðir af yfirmönnum/eigendum fyrirtækja, beint og óbeint. Ég held að það sé fjarri að Sigmundur Ernir hafi meint að de facto væri auðjöfurinn Jón Ásgeir að oka hann dag hvern og í hverri frétt. Hann mætti útskýra þessi orð sín betur (kannski hefur hann gert það?), en ég held að hið minnsta helmingurinn af okinu sem hann talar um sé óbeina okið af því að starfa hjá fyrirtæki auðjöfurs með þann orðstír sem sá nú hefur og þá óvissu sem sá auðjöfur hefur skapað allsstaðar þar sem hann fer.

Rúvarar starfa undir oki ríkjandi stjórnvalda þannig séð; ekki síst menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, DV starfar undir oki Hreins Loftssonar og fullt af eigendaoki hvílir á herðum og hugum starfsmanna Moggans. Það er daglegt ok blaða- og fréttamanna að reisa Kínamúra milli sín og eigenda, milli sín og markaðsdeilda. Ég held ekki að Sigmundur Ernir hafi meint að hann hafi verið ófaglegur dag hvern undir sínu tiltekna oki, heldur sé hann feginn að vera ekki lengur að glíma við drauginn Jón. Hann er einmitt væntanlega að gefa í skyn að hann hafi verið látinn flakka af því að hann væri of faglegur fyrir drauginn og honum andsnúinn. Þetta er allt eins góð túlkun og ykkar, drengir!

Friðrik Þór Guðmundsson, 23.1.2009 kl. 03:00

13 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Minni á Vilmund, ekki var rannsóknarblaðamennska hans vinsæl hjá ríkjandi öflum...

Haraldur Davíðsson, 23.1.2009 kl. 03:14

14 Smámynd: Alli

Sæll Friðrik.

Ég satt að segja sé ekki, og hef ekki séð í mörg ár, mun á því hver á fjölmiðla (fréttamiðla) á íslandi.  Fagleg fréttamennska er ekki til, það er ekki hægt að treysta umfjöllum svokallaðra "fréttamanna", til þess eru þeir of pólitískir og láta allt og mikið stjórnast af pólitískum skoðunum. Það er í mesta lagi hægt að segja að þeir séu þokkalegir þýðendur erlendra frétta.

Tökum Agnesi Bragadóttir til dæmis, henni hefur í gegnum tíðina verið hampað sem nokkurskonar "stjörnublaðamanni" en þegar á reynir stekkur hún fram sem fullskapaður arftaki Hannesar Hólmsteins sem varðtík Davíðs Oddssonar, eftir að Davíð gerði sér grein fyrir að enginn hlustar á, né trúir, orði af því sem Hannes segir.

Annað dæmi er svo sorpblaðamennskan, ég var að rekast á eitt nú rétt áðan í DV.  Þar segir í fyrirsögn: "Finnur fær 200 milljónir á ári"  Í fréttinni sjálfri segir síðan:   Frumherji hf., fyrirtæki sem er í eigu Finnur Ingólfssonar, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra úr Framsóknarflokknum, fær tæpar 200 milljónir á ári frá Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta er fyrir leigu á hitaveitu-, vatns- og raforkusölumælum á heimilum á starfssvæði Orkuveitunnar og þjónustu tengda þeim.  Nú er ég EKKI að verja Finn Ingólfsson. Hann hefur eflaust farið offari í græðginni eins og sennilega flestir þeirra sem ganga undir samheitinu "útrásarvíkingar".  Ég er hins vegar að benda á að svona fyrirsögn er villandi og ófagleg, ef þú lest ekki fréttina hefurðu ekki hugmynd um að verið er að fjalla um viðskiptasamning Frumherja hf.  Rétt fyrirsögn hefði verið: Frumherji fær 200 milljónir á ári.

Það er nöturlegt að viðurkenna að Davíð Oddsson, maður sem ég hef mestu skömm á, hefur sennilega haft rétt fyrir sér þegar hann lagði fram fjölmiðlafrumvarpið á sínum tíma.

Kveðja,

Aðalsteinn Aðalsteinsson

Alli, 23.1.2009 kl. 09:05

15 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Nú er Sigmundur búinn að skýra orð sín betur, Gunnar, og eins og ég bjóst við var hann ekki fyrst og fremst að tala um faglegt ok - hann nefnir í DV það ok að vera spyrnt saman við auðjöfurseiganda stöðvarinnar (kannski ekki síst eftir Kryddsíldina).

Mjög víða er að finna raddir sem segja að blaða- og fréttamenn Íslands séu ófaglegir, prinsippslausir og eigendahollir aumingjar. Mér líkar ekki þessi málflutningur. Þótt erfitt sé að ástunda fullkomna blaðamennsku í fámennisþjóðfélaginu Íslandi og rekstur fjölmiðla yfirleitt slíku andsnúinn, þá leyfi ég mér að fullyrða að flestir blaða- og fréttamenn eru prinsipp-fastir og viljugir til góðra verka. Ég hef verið í þessum bransa í bráðum 27 ár og þekki mitt heimafólk. Það er sárt að lesa sumar svívirðingarnar í garð stéttarinnar. hún hefur alla tíð mátt þola slíkar blammeringar og hefur harðan skráp - og ég efast um að einarðir gagnrýnendurnir gætu staðið sig betur. Ég hef hins vegar sjálfur gagnrýnt stéttina út frá faglegum og fræðilegum prinsippum og lagt fram tillögur sem bæta gætu faglega stöðu stéttarinnar - og það er málflutningur án sleggjudóma og alhæfinga.

Hvað Anarkisma og Anarkista varðar er ég mjög feginn að það fór eins og ég vonaði. Hófsamir og "normal" Anarkistar hafa hópast inn á síðustu færslur mínar til að sverja af sér ofbeldið og hafna ábyrgð á því sem nú er helst kennt við "góðkunningja lögreglunnar". Og hinir svartklæddu nú að keppast við að setja á sig Órans borða. Þetta er gott. Línur eru skýrari og það vildi ég sjá. Ég þakka (að ætla má skipulegar) heimsóknir A-istanna til mín og höfnun þeirra á ofbeldi og eyðileggingu. Það vildi ég heyra. Og því trúi ég. En A-istar verða þá að átta sig á því að óprúttið lið er að klæðast "múnderingu" A-ista og ekki að undra þótt ég og fleiri dragi tilteknar ályktanir.

Friðrik Þór Guðmundsson, 23.1.2009 kl. 11:49

16 identicon

Skrif Sigmundar Ernis á ,,Mannamáls'' blogginu sínu síðasta sólarhirnginn áður en því var lokað sögðu nú ýmislegt. Þar sagði hann m.a. ,,Byltingin er hafin og Alþingi mun brenna''.  Með fullri virðingu fyrir fjarskyldum frænda mínum, þá fannst mér hann ganga of langt. Það vekur líka upp spurningar hverjum sé gerður greiði með þeim árásum á lögregluna og gagnrýni ýmissa á þeirra störf, hvar fréttamenn Baugsmiðla, þar með talinn Sigmundur hafa farið fremstir í flokki. Beinir þetta ekki athyglinni frá kjarna málsins, þ.e. hruni bankanna? Hverjum er greiði gerður með því að beina reiði og gagnrýni að ríkistjórninni? Eru það ekki fyrrum eigendur bankanna, eigendur fjölmiðlanna? Mér finnst vanta að fjölmiðlafólk síni ábyrgð í sínu starfi og mér finnst vanta stórlega uppá að sú stétt gæti hlutleysis í sínum fréttaflutningi.

Fjölmiðlafrumvarpið, sem meirihluti fjölmiðlafólks var andsnúið og lét þá skoðun sína berlega í ljós á sínum tíma, hefði án nokkurs vafa gert það að verkum, ef náð hefði fram að ganga, að við værum með faglegri fréttamennsku á Íslandi í dag. En því miður þá áttu stærstu eigendur fjölmiðlanna hauk í horni á Bessastöðum einsog alkunna er!

Elías Bjarnason (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 12:19

17 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Alltaf þykir mér jafn leitt að sjá fólk sakna fjölmiðlafrumvarps Davíðs og Halldórs. Það var óskapnaður og engin furða að forsetinn hafnaði staðfestingu.

Það sem hins vegar hefði mátt verða að lögum var niðurstaða þverpólitískrar fjölmiðlanefndar sem sett var á laggirnar eftir niðurlægingu Davíðs-frumvarpsins. Þar var búið að fjarlægja agnúana og bera fram raunhæfar hugmyndir. Af einhverjum ástæðum hefur menntamálaráðherra ekki treyst sér til eða viljað leggja þá niðurstöðu fram og gera að lögum. Sjálfstæðismenn mættu gjarnan spyrja leiðtoga sína að því. Þeir sem vita svarið mættu gjarnan upplýsa um þetta - en í guðanna bænum hættið að tala um óskapnað Davíðs og Halldórs sem einhvern lausnarpakka sem hefði bjargað hinu og þessu. Því fer fjarri að svo sé.

Hvar er þverpólitíska niðurstaða breiðrar fjölmiðlanefndar, sem skilaði af sér? Af hverju hefur ekki komið fram frumvarp um efni þetta? Spyrjið leiðtogana ykkar.

Ég er sammála um að Appelsínugula Byltingin megi fara að horfa víðar en til ríkisstjórnar og þingsins, horfa í auknum mæli til "30-menninganna" í  bönkunum og útrásarfyrirtækjunum. Þessir höfuðsyndaselir hafa ekki fengið þá athygli sem þeir eiga skilið.

Friðrik Þór Guðmundsson, 23.1.2009 kl. 12:28

18 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

mbl.is:

Stefán J. Eiríksson lögreglustjóri segir að góðkunningjar lögreglunnar og afbrotamenn sem hafi talið sig eiga harma að hefna hafi verið í fremstu víglínu þegar átök brutust út á Austurvelli í fyrrinótt. Um tíma komu mótmælendur lögreglunni til aðstoðar til að hafa hemil á aðstæðum....

 Stefán segir að öllum hljóti að vera mjög misboðið yfir því sem gerðist um nóttina, bæði lögreglu, friðsömum mótmælendum og almenningi. Það sé mikilvægur og stjórnarskrárvarinn réttur fólks að mótmæla og það sé hlutverk lögreglu að tryggja þessi réttindi.  Þegar hlutirnir fari úr böndunum sé þó alltaf hætta á því að ofbeldisseggir blandi sér í hóp mótmælenda.

Friðrik Þór Guðmundsson, 23.1.2009 kl. 12:51

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fréttamenn sem vilja láta taka sig sem "frjálsa og óháða" mega ekki vera starfandi í flokkapólitík. En stundum þurfa þeir ekki flokksskýrteini til þess að það sjáist hvar þeir eru í sveit settir. Dæmi um það er Þóra Krístín á mbl.is

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.1.2009 kl. 13:13

20 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Nú? og hvar er Þóra Kristín í sveit sett? Ekki er ég viss um að allir sjái með þínum augum Gunnar, með fullri virðingu fyrir þeim (þ.e. augunum). Góðir blaða- og fréttamenn eru í sífelldri stjórnarandstöðu...

Friðrik Þór Guðmundsson, 23.1.2009 kl. 13:20

21 Smámynd: Guðbjörg Hildur Kolbeins

Ég veit ekki betur en verið sé að vinna að enn einni útgáfunni af fjölmiðlafrumvarpinu innan ráðuneytisins. Ég get hins vegar ekki sagt til um hvenær það verður lagt fyrir og vona að það verði ekki keyrt í gegn korteri fyrir kosningar.

Guðbjörg Hildur Kolbeins, 23.1.2009 kl. 23:18

22 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Nei, menn fara varla að setja fjölmiðlalög í forgang. Ekki nema menn teldu það sérstaklega vel fallið til vinsælda, sem ég held að sé ekki tilfellið.

Friðrik Þór Guðmundsson, 24.1.2009 kl. 20:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband