Ráðherra sjúklinga í vondum málum

Í viðtengdri frétt heldur Guðlaugur Þór Þórðarson því fram að tilkynntar skipulagsbreytingar hafi orðið fyrir valinu frekar en að, annað hvort eða bæði, skerða þjónustustigið gríðarlega eða hækka gjaldtöku gríðarlega. Þótt ég meðtaki þörfina fyrir að rifa seglin sem víðast vegna efnahagskreppunnar þá get ég ekki tekið undir uppstillingu ráðherrans á valkostum.

Heilbrigðismálin taka til sín afar stóran hlut af ríkisútgjöldum og að vonum. Ég hef í fyrri færslum bent á ýmsa pósta sem fyrr skyldi skera og frekar, en að þrengja hag sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks. Hef raunar farið miklu varlegar í sakirnar en gömlu félögin hans Guðlaugs Þórs, Heimdallur og SUS, sem fyrir allnokkru hurfu frá því að leggja til niðurskurð á heilbrigðissviðinu. 

 Það er af nógu að taka áður en að sjúklingunum kemur. Til að byrja með er hægt að setja neyðarlög um lokun varnarmálastofnunar og nokkurra sendiráða (ca. 2 milljarðar þar). Það er tímabundið hægt að skera niður útgjöld til trúmála um helming (2.8 milljarðar þar). Afnema skúffufé ráðherra og ríkisstjórnar að mestu (250 m.kr.). Fleira mætti nefna og auðvitað má hækka skatta á útvalda; leggja á hátekjuskatt, sérstakan stóreignaskatt og hækka fjármagnstekjuskatt. Raunar er það einfalt sem ég er að segja: Það á að gera allt annað áður en að því kemur að fara að skera niður heilbrigðismálin umfram það sem þegar hefur verið gert á undanförnum árum.

 Ef róttækur niðurskurður á heilbrigðissviðinu er vegna fyrirskipana Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) þá er það annað mál og verðugt rannsóknarefni fyrir fjölmiðla og landsmenn yfirleitt. Öll skilyrði og skipanir AGS verða að líta dagsins ljós. Ég vil fá að vita um stöðu fullveldis okkar, fá að vita hversu sjálfráða við erum.

Og hvar er "Umboðsmaður sjúklinga"?

 


mbl.is Ógnar ekki öryggi sjúklinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

(Ingibjörg Pálmadóttir var um tíma umboðsmaður sjúklinga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi en vegna fjárskorts að manni skilst var sú staða skorin niður)

Friðrik Þór Guðmundsson, 9.1.2009 kl. 14:38

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ástæða er til að íhuga skipulagsbreytingar heilbrigðisráðherra með í huga undirliggjandi einkavinavæðingatilburði. Ögmundur Jónasson ræðir þetta (ogmundur.is) og færir þetta fram:

Ekki alls fyrir löngu sást Róbert á sprangi um ganga sjúkrahússins í Reykjanesbæ. Það er einmitt sú stofnun sem á að fá verkefnin sem Guðlaugur Þór er nú að færa frá Hafnarfirði við lokun St. Jósefs Spítala.  Þessi verkefni eiga semsagt að fara á Reykjanesið þar sem téður Róbert bíður með opinn faðminn!
Þetta staðfestir bæjarstjórinn, Árni Sigfússon, í viðtali á mbl.is í gær: Jú, Róbert Wessman er vissulega „ágætlega inni í myndinni" segir bæjarstjóri, greinlega ánægður með flokksbróður sinn í heilbrigðisráðuneytinu.
Ég hvet alla til að hlusta á þetta viðtal. Síðan skulum við bretta upp ermarnar og gera Guðlaugi Þór, Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni grein fyrir því að við erum búin að fá nóg af því að láta gróðapunga féfletta okkur.

Viðtalið er hér: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/01/08/baerinn_vill_verja_sjukrahusid/

Friðrik Þór Guðmundsson, 9.1.2009 kl. 15:11

3 identicon

Það fór afar hljóðlega þegar umbi sjúklinga var skorinn burt.  Sú ágæta kona skrifar nú smásögur til að halda lífsgleðinni á krepputímum.

Við höfum ekki áhuga á að láta frjálshyggjugróðapunga græða á sjúkdómum okkar og þörf fyrir læknisaðgerðir.  Það er komið nóg og meira en nóg sem þessir fjárglæframenn hafa gert okkur með glæpsamlegu athæfi sínu.  Á að verðlauna þá með að setja þá nánast á ríkisjötuna með skurðstofurekstri, sem auðvitað verður greiddur ú ríkiskassanum. Guðlaugur ætti ekki að sitja deginum lengur í ráðherrastól nú þegar við vitum hvað hann leggur til og vill að gert sé í heilbrigðiskerfinu.  Maðurinn stefnir að einkavæðingu.  Það er ljóst.

audurm (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 22:25

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Visir.is er með sérlega vitlausa könnunar-spurningu á forsíðu sinni í dag (kvöld):

Telurðu nauðsynlegt að spara í heilbrigðiskerfinu?

Svona á ekki að spyrja. Ef ég svara nei þá dæmist ég andstæðingur sparnaðar, þegar ég á öllu heldur við að ég vilji ekki niðurskurð að hætti Íhaldsins. Ef ég svara já er hægðarleikur, gegn vilja mínum, að túlka það sem stuðning við slíkan arfavitlausan niðurskurð. Vanda sig, visir.is.

Friðrik Þór Guðmundsson, 11.1.2009 kl. 01:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband