Hafskip: Sagan sem ekki er sögð (seinni hluti)

Í fyrri hluta færslunnar um Hafskipsbókina benti ég á þann óplægða akur Hafskipsmálsins, sem er hlutur ríkjandi stjórnvalda (og ríkjandi viðskiptavelda) í því hvernig fór. Dr. Gunnlaugur Þórðarson benti réttilega á að "opinbera rannsóknarvaldið" væri "angi af framkvæmdavaldinu" (bls. 123). Með öðrum orðum voru þeir allir fulltrúar framkvæmdavaldsins, embættismennirnir og sérstaklega ráðnu sérfræðingarnir sem komu að rannsókn Hafskipsmálsins.

Þetta voru menn á borð við Þórð Björnsson, Hallvarð Einvarðsson, Jónatan Þórmundsson, Þórir Oddsson, Braga Steinarsson, Jón Skaftason, Ragnar H. Hall, Markús Sigurbjörnsson, Gest Jónsson, Jóhann H. Níelsson, Viðar Má Matthíasson, Símon Á. Gunnarsson, Valdimar Guðnason, Jón Þorsteinsson og marga, marga fleiri. Samkvæmt hinni hefðbundnu söguskýringu hlupu allir þessir menn fyrst og fremst eftir "æsifréttum" fjölmiðlanna og lykilræðum stjórnarandstæðinga. Samkvæmt þessari hefðbundnu söguskýringu höfðu yfirmenn þeirra (ráðherrarnir, ríkisstjórnin) engin áhrif á áherslur þeirra eða aðgangshörku. Ráðherrar gáfu samkvæmt þessu enga heimild fyrir því að embættismennirnir tjáðu sig frjálslega í fjölmiðlum eða beittu hörðustu aðferðum við handtökur og þar fram eftir götunum. Við sem þekkjum ráðherrasögu þjóðarinnar hljótum að lyfta brúnum. Eitt símtal eða spjall við forsætisráðherra eða dómsmálaráðherra hefði dugað til að stöðva yfirlýsingar og taka upp mildari meðferð á meintum sakamönnum. Það eitt að t.d. Hallvarður Einvarðsson eða skiptaráðendurnir voru ekki "mildaðir" eða beinlínis þaggað niður í þeim segir mér heilmikla sögu, þekkjandi ráðherraræðið á Íslandi.

Sama á við um það þegar forráðamenn Hafskips voru handteknir og færðir í gæsluvarðhald og fyrir dómara, gjarnan með blaðamenn mætta og sjónvarpsvélar í gangi. Ég get tekið heilshugar undir að þetta voru að því er virðist allharkalegar og óþarflega grófar aðgerðir. Mér finnst mjög freistandi að ætla að slík aðferðarfræði hafi verið borin undir æðstu ráðamenn. Sem þá lögðu sína blessun á hörkuna. Ég get ekki séð að það sé óleyfileg ályktun að gefnum tilefnum. Hins vegar finnst mér ekki mikið um kvartanir yfir einangruninni og aðbúnaðinum í gæsluvarðhaldinu; þá meina ég að þetta var sá aðbúnaður sem öðrum grunuðum mönnum var boðið upp á og því ekki nema réttmætt að "hvítflibbar" sætu við sama borð og ófínari menn. Annað hvort allir eða enginn! Og annað hvort voru lagafyrirmæli um að grunaðir menn ættu rétt á að lögmenn þeirra væru viðstaddir yfirheyrslur, eða ekki.

Réttarkerfið í heild sinni var hannað og mannað af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum og tengdum öflum. Allir þræðir þar voru á höndum þessara aðila. Þar og í samfélaginu öllu, ekki síst í viðskiptunum, ríki helmingaskipta-andinn. Helmingaskiptaflokkarnir voru við völd og skipafélög "þeirra" voru annars vegar Eimskip og hins vegar skipadeild SÍS. Hafskip var óþægur þriðji aðili. Tengdur Alberti Guðmundssyni og öðrum sjálfstæðismönnum, sem ekki voru innvígðustu og innmúruðustu forsprakkar flokksins. Albert var ekki í uppáhaldi hjá Valhallarklíkunni, flokkseigendafélaginu. Margir sjálfstæðismenn vildu áreiðanlega koma höggi á hann. Þeirra á meðal slíkir menn innan Kolkrabbans. Ég veit ekkert um ónafngreinda heimildamenn HP og annarra fjölmiðla eða "lekendur" gagna. Veit að þeirra á meðal voru óánægðir starfsmenn Hafskips (Gunnar Andersen, Björgvin Björgvinsson og sjálfsagt fleiri). Veit ekki hver"Jón "Deep throat" Jónsson" var. Veit bara að ég tel fulla ástæðu til að álykta að meðal heimildamanna fjölmiðla hafi innmúraða menn verið að finna.

Er eitthvað óeðlilegt við það að telja meiri líkur á því en minni að lykilmenn í Sjálfstæðisflokknum og Kolkrabbanum hafi komið duglega að "upphafi og endalokum" Hafskips? Ekki virðast þeir a.m.k. hafa lyft litla putta til að bjarga skipafélaginu og Alberti; Geir Hallgrímsson, Matthías Á. Mathiesen, Matthías Bjarnason, Sverrir Hermannsson, Ragnhildur Helgadóttir, Þorsteinn Pálsson og forystumennirnir í þingliðinu.  Það segir mér heilmikla sögu, þekkjandi ráðherraræðið á Íslandi.

Í þessu sambandi er mjög fróðlegt að lesa í bókinni hvar Hafskipsmálinu er líkt við Baugsmál nútímans. Þar er talað um þann kjarna að ráðist hafi verið að fyrirtæki með offorsi, en þegar upp var staðið hafi sakarefni flestöll gufað upp. Í þessu sambandi er það ekki síst athyglisvert (sem ekki er gert neitt úr í bókinni) að í Baugsmálinu var rannsóknar- og ákæruvaldið sagt stýrast af hatursfullu framkvæmdarvaldinu - en í Hafskipsmálinu á rannsóknar- og ákæruvaldið að hafa stýrst af fjölmiðlum og stjórnarandstæðingum! 

Sagan um aðkomu Valhallar, helmingaskiptastjórnarinnar og Kolkrabbans er ósögð. Bókin ætlaði sér ekki að segja þá sögu og það kemur hreinskilnislega fram.

Mig langar til að nefna þá hugleiðingu bókarinnar að ef til vill hafi Hafskip alls ekki verið gjaldþrota. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að Hafskip hafi óhjákvæmilega orðið að fara í gjaldþrot. Hins vegar blasir við að fyrirtækið var í gríðarlegum vanda (N-Atlantshafssiglingarnar, gengisþróunin, lítið eigið fé, rekstur Eddunnar, verkfall BSRB, missir flutninga fyrir Varnarliðið og áfram mætti telja). Fyrstu fréttir fjölmiðla snérust einkum um þessa erfiðleika (í frásögnum sem líkja má við fréttir núdagsins um fyrirtæki í erfiðleikum). Ekki fer á milli mála að róinn var lífróður hvað sem aðkomu fjölmiðla og stjórnmálamanna líður. Það var verið að reyna að bjarga "sökkvandi" fyrirtæki og til þess voru viðræður við Eimskip og SÍS (meðal annars að kröfu Útvegsbankans). Kannski hefði verið unnt að forðast gjaldþrot, en upp úr þeim reddingum hefði aldrei komið eiginlegt Hafskip. En Hafskip fór í gjaldþrot - og það var að kröfu lánadrottna (ekki fjölmiðla eða stjórnarandstæðinga). Og það voru til eignir, vissulega; en að tala um að 70% hafi fengist upp í kröfur er MJÖG villandi (og allar framsettar tölur á þáverandi verðlagi, en ekkert framreiknað og það finnst mér mjög miður). Því þá eru menn að bera saman kröfur í búið frá ársbyrjun 1986 (á verðlagi þá) og síðan innkomnar tekjur við skiptalok árið 1993. Þá eru menn ekki að taka með í reikninginn verðþróun í 7-8 ár. Á þetta benti skiptaráðandi með óbeinum hætti þegar hann mat að um 20% hefðu fengist upp í kröfur. En um þessar reiknikúnstir er óþarfi að fjölyrða meira að sinni.

(ATH. Hér felli ég niður smá kafla vegna réttmætrar athugasemdar frá Stefáni Gunnari; misskilningur sem hann segir kannski megi rekja til þess að hann hafi ekki verið nægilega skýr í umræddum tilvitnuðum texta)

Ég vil ekki gera lítið úr áhrifamætti fjölmiðla þess tíma. Í bókinni liggja ALLIR fjölmiðlar landsins undir ámæli, sumir í stórum stíl. Auðvitað gera fjölmiðlar mistök; villur og ónákvæmni eru þar daglegt brauð (í mismiklum mæli). Það gilti þá og gildir enn. Fjölmiðlar voru þá og eru nú undirmannaðir, hjá þeim ríkir oftast vinnuálag og tímaþröng, fjármagnsskortur og takmörkuð sérhæfing. Blaðamenn geta undir þessum kringumstæðum ekki alltaf varast gögn og heimildir sem varasamar geta reynst. Fjölmiðlar voru þannig örugglega ekki saklausir af mistökum á sínum tíma og þeir eru ekki saklausir í dag. Áfellisdómur um fjölmiðla í Hafskipsmálinu er því ekkert síður áfellisdómur yfir þá í dag vegna annarra mála. Þeir eiga áreiðanlega eftir að fá á sig ákúrur vegna umfjöllunar um t.d. Eimskip, XL og fleiri slík mál. Við skulum hafa það á bakvið eyrað. Það er voðalega auðvelt að taka við þeirri ábendingu höfundar bókarinnar (bls. 58) að fjölmiðlar hafi í Hafskipsmálinu átt að vera hófstilltari og ekki vera með upphlaup og ásakanir. Stjórnarandstæðingar hvers tíma geta líka auðveldlega tekið við slíkum hollráðum og fundist þau réttmæt.

Niðurstaða: Bókin er prýðilegt yfirlit yfir það sem áður hefur komið fram, en veltir engum steinum og skilur fjölmargar spurningar eftir ósvöruðum. Í bókinni er prýðilega skýr en hlutdræg lýsing á atburðarás, en stórir þættir verða útundan.

p.s. Margt fleira mætti segja og kannski nýtast athugasemdaumræður í það. Ef einhverjar umræður þá vakna. Mér sýnist reyndar ekki mikill áhugi ríkjandi á málinu, en sjáum til.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skiptir ekki aðeins eitt máli?  ... þ.e. hvort saklausir menn hafi verið dæmdir?

Drap OJ konuna sína?   .... "saklaus" maðurinn?

Sé og hafi "réttarkerfi" landsins verið með þeim hætti sem af má ráða af "skrifum" um Hafskips-  og Baugsmálið mætti ætla að afar margir "saklausir" hafi verið dæmdir... sökum þess eins að þeir hafi ekki haft fjárhagslega burði til "almennilegra" varna ..... þegar að þeim var sótt.

Hverju sætir að slík spilling vestræns þjóðfélags hafi ekki verið aðalmál stjórnarandstöðu t.d. fyrir síðustu kosningar?

Hver á svo að ákveða hvernig fjölmiðlar (sumir í eigu "sumra") fjalla um tiltekin mál?

Í kvöld er Kompás-þáttur ... verður þar fjallað ógætilega um "sakleysingja"? .. Hefur hann burði til varnar?

Þorgeir Þormóðsson (IP-tala skráð) 22.9.2008 kl. 18:18

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

"Skiptir ekki aðeins eitt máli?  ... þ.e. hvort saklausir menn hafi verið dæmdir?"

Í Hafskipsmálinu var hluti sakborninganna vissulega dæmdur sekur um tiltekin lögbrot og það er staðreynd sem stórfækkun sakarefna og mörg sýknuatriði breyta ekki. Eftir japl, laml og fuður fengu einstaklingar dóm. Saklausir?Ekki að mati Hæstaréttar og þrátt fyrir mikla umfjöllun Hafskipsmanna um örlög sín þá minnist ég þess ekki að óskað hafi verið eftir endurupptöku málsins. Ég er ekki viss um að viðkomandi vilji endilega meina að þeir hafi verið totally saklausir, heldur frekar hitt að þeir hafi verið MIKLU MINNA SEKIR en haldið var fram.

"Þorsteinn Pálsson xD er sá sem eiginlega lagði niður HAFSKIP í beinni útsendingu sjónvarps að tilstuðlan  KOLKRABBANS".

Þakka þér fyrir Tryggvi. Er þó ekki allveg að ná því hvaða beinu útsendingu þú átt við og þæði upprifjun...

Friðrik Þór Guðmundsson, 23.9.2008 kl. 01:15

3 identicon

Það er vissulega athyglisvert að bókin skuli ekki gera atlögu að framkvæmdavaldinu á sínum tíma. Raunar breytist maður í eitt stórt spurningamerki. Hver gæti verið tilgangurinn með því?

Eins má vera að of mikið hafi verið gert úr mögulegum áhrifum vinnuveitenda höfundarins. Það má vel vera að áhugi ungs fræðimanns sé kannski ekki stórkostlegur á efninu og hafi hann því látið sér nægja að leggja fram afmarkað og (mögulega) léttvægt mat út frá óhefðbundnu sjónarhorni. 

Þá væri líka athyglisvert að fá fram fleiri verk um þetta efni en það hefur verið mín skoðun að uppgjör á stjórnsýsluháttum í kringum Hafskipsmálið þurfi að eiga sér stað.

sandkassi (IP-tala skráð) 23.9.2008 kl. 01:27

4 identicon

Þakka þér, Friðrik Þór, fyrir greinargott yfirlit. Eins og þú bendir réttilega á, þarf hér að spyrja margra spurninga og velta við mörgum steinum. En það kostar vinnu og fjármuni, auk þess sem rannsakendur munu víða koma að lokuðum dyrum. Þeir, sem þeim dyrum loka og halda utan um það fé, sem til þarf, hafa ekki áhuga á að allur sannleikurinn komi fram, hvorki í þessu máli né ýmsum öðrum. Það er því full ástæða til að óttast, að sannleikurinn allur verði áfram hulinn, þar til of seint er að upplýsa um hann.

Ellismellur (IP-tala skráð) 23.9.2008 kl. 06:57

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Það er vissulega athyglisvert að bókin skuli ekki gera atlögu að framkvæmdavaldinu á sínum tíma... Hver gæti verið tilgangurinn með því?

Ég nefni, Gunnar, að höfundurinn segist hafa unnið eftir forskrift um að taka saman yfirlit yfir allt sem ÁÐUR hafði komið fram. Hann var EKKI fenginn til að velta steinum, finna eitthvað nýtt. Hann leitaði í því sem fyrir lá og þar er um frekar einsleitan málflutning að ræða. Ég vona að blaðamenn eins og Halldór Halldórsson, stjórnmálamenn eins og Jón Baldvin (ÓRG er ekki í góðri stöðu til að tjá sig) og fyrrverandi embættismenn eins og Hallvarður Einvarðsson, Jónatan Þórmundsson og Ragnar H. Hall tjái sig, en ekki síður menn sem þekkja ráðherragjörðir og Kolkrabbagjörðir.

Ég þóttist reyndar hafa heyrt að Guðjón Friðriksson væri eitthvað að vinna við að gera þessu efni skil.  Er það misskilningur?

Ég heyrði/las á sínum tíma að HER af alls kyns fræðingum væri að í vinnu við að greina Hafskipsmálið. Þessi bók er þá fyrsta/eina afurðin ennþá. Hvort Guðjón sé að skoða málið veit ég ekki og væri fínt að fá staðfestingu eða höfnun á því. Guðjón er öflugur og hæpið að hann samþykki að vinna eftir fyrirfram ákveðinni forskrift (sbr. "það sem áður hefur komið fram").

Það er því full ástæða til að óttast, að sannleikurinn allur verði áfram hulinn, þar til of seint er að upplýsa um hann

Ég leyfi mér að vera ósammála. Enn geta komið fram vitnisburður og gögn. En vissulega fer ekki hver sem er gegn hvaða öflum sem er, og margir í erfiðri aðstöðu til að tjá sig.

Friðrik Þór Guðmundsson, 23.9.2008 kl. 08:56

6 identicon

Fyrir ekki svo löngu stóð til að út kæmi bók um tiltekna ætt hér á landi.  Búið var að prenta upplagið og það tilbúið til dreifingar í verslanir. En áður en til þess kæmi var upplaginu eytt .. og nýtt prentað ... eftir að einum kafla hafði verið sleppt.

En það eru náttúrulega "allir" búnir að gleyma því.

Hvort sagt er "svona" frá eða "hinsegin" fer því klárlega eftir því hver frá segir.

Dettur einhverjum í hug að "bókin" hefði farið í sölu ef einhver kafli hefði ekki verið til "þægðar"?

Við höfum jú "dæmið".... !

Þorgeir Þormóðsson (IP-tala skráð) 23.9.2008 kl. 10:34

7 identicon

Já, Friðrik. Þetta er semsagt samantekt en ekki rannsóknarverkefni og er það í sjálfu sér af hinu góða. Það er alveg ásættanlegt að skoða málið út frá sem flestum hliðum.

Það væri svo sannarlega athyglisvert að fá eitthvað hint að því hver "Jón "Deep throat" Jónsson" var -:) og þætti mér líklegt að það muni koma fram einhvern daginn.

sandkassi (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 02:06

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Eitt af því sem rifjað er upp í bókinni og hefur alltaf valdið mér heilabrotum er sú fullyrðing Jóns Magnússonar lögfræðings, sem nú gegnir þingmennsku, að Helgarpósturinn hafi slengt fram "200 rekjanleg ósannindi og hrekjanlegar rangályktanir" um Hafskipsmálið á 84 efnissíðum í 55 tölublöðum.

Ég hef aldrei séð þessar ávirðingar rökstuddar; dæmin tíunduð upp. Mig grunar að Jón hafi farið mjög frjálslega með talningu á slíku, "smurt" að vild. 

Þannig gaf hann þarna í skyn að HP hefði fjallað um Hafskipsmálið í 55 fréttum og fréttaskýringum. Það er rangt. Eiginlegar fréttir og fréttaskýringar af málum sem segja má að hafi tengst Hafskip með einhverjum hætti voru 35. Þar af voru fréttir og fréttaskýringar sem beindust fyrst og fremst að málefnum Alberts Guðmundssonar og innri togstreitu Sjálfstæðisflokksins (sem sé Hafskip aðeins óbeint) minnst 6.

Höfundur bókarinnar virðist ekki hafa leitað eftir því að fá þessa útlistun og hann spurði Halldór Halldórsson ekki. Halldór segir að einhvern tímann þegar Hrafn Jökulsson var með hann í viðtali hefði Hrafn spurt sig utan viðtals (off-the-record) um þessa háu tölu yfir meint ósannindi og rangfærslur og hafi Halldór grínast með það í hálfkæringi að þetta væru "bara" rúmlega tvær villur á blaðsíðu. Hrafn birti samkvæmt því óformlega hæðni sem átti að vera utan viðtals.

Hverju sem því líður þá er staðreynd eins ósannindi annars. Tökum til dæmis þetta gjaldþrotamál: Ætli það sé nú ekki talið til rangfærsla að hafa sagt Hafskip gjaldþrota?!

Svona "talning" leiðir líka hugann að öllum sakarefnunum sem "gufuðu upp". Þau voru mörg og Hafskipsmenn dæmdir fyrir fátt. Í því sambandi er rétt að rifja upp að sýkna er ekki hið sama og yfirlýsing um sakleysi. Sýkn saka er ekki sakleysi. Fyrst höfundur rifjar upp Baugsmál  þá er kannski vert að benda á það sem vakti hvað mestu athyglina; að það sem menn töldu óyggjandi lögbrot; óheimil og ósamþykkt lánveiting stjórnenda almenningshlutafélags til stærstu eigenda (til frekari hlutabréfakaupa) töldust ekki lögbrot og svik við meðeigendur, heldur "viðskipti". Það er margt sem getur gufað upp þegar hugtök eru skilgreind upp á nýtt og tæknilegar lagaflækjur plokka burt helling af málatilbúnaði ákæruvaldsins.

Friðrik Þór Guðmundsson, 26.9.2008 kl. 10:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband