8.1.2007 | 16:05
Veitum þeim aðhald
Það styttist í verðlækkunaraðgerðir með lækkun virðisaukaskatts á ýmsar nauðsynjavörur og niðurfellingu eða lækkun ýmissa annarra óbeinna skatta. Lesið svart á hvítu eiga þessar breytingar að hafa í för með sér áþreifanlega verðlækkun til hagsnóta fyrir neytendur. En ég er einn af þeim sem telja í ljósi reynslunnar að seljendur vöru og þjónustu muni reyna sitt ítrasta til að ná sem mestri af boðaðri lækkun í sinn vasa. Með því að hækka verð áður en það lækkar.
Er ég að segja að heildsalar og kaupmenn séu ósiðlegir? Ekki beint. Ég er einfaldlega að meðtaka að þessir aðilar gera allt til að hámarka hagnað sinn og hluthafa sinna. Ég er að meðtaka að hagnaðarvonin sé miklum mun áhrifameiri þáttur í ákvörðunum þessara aðila en viljinn til að selja vörur og þjónustu á sem lægsta verði. Það er enda tiltölulega viðurkennd hagsmunagæsla og gengur algjörlega upp þar sem almenningur og neytendur veita sömu aðilum lítið eða ekkert aðhald. Það er stólað á þrælslund og kæruleysi almennings.
Þetta blasir við: Ef skattabreytingar ríkisins skila sér ekki allar eða fast að því allar beint í vasa almennings og neytenda þá er um svik að ræða. Þjófnað. Alveg eins og með lækkun tekjuskatts ríkisins og hækkun persónuafsláttar. Ef einhver vinnuveitandinn ætlaði að taka eitthvað af þeim breytingum til sín, svo sem rukka starfsmann áfram sömu skattprósentuna en taka mismuninn til sín, þá væri það þjófnaður. Að vísu er verðlag frjálst og heildsölum og kaupmönnum í sjálfu sér frjálst að hækka álögur sínar. En það er frelsi sem stjórnvöld geta illa skýlt sér á bak við ef lækkunin skilar sér ekki í vasa almennings og neytenda. Áþreifanleg lækkun er loforð um kjarabætur, er framlag til aukinnar samfélagssáttar. Heildsalar og kaupmenn mega ekki komast upp með að svíkja það loforð, þótt aðrir en þeir hafi gefið það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.