7.9.2009 | 12:13
Helgi Hóseasson hylltur
Ég tek hatt minn ofan fyrir Helga Hóseassyni og drýp höfði í sorg, því nú er fallin frá ein af hetjum Íslandssögunnar.
Helgi var að sönnu sérstakur og sérkennilegur og "venjulegt" fólk getur með ágætum rökum notað hugtakið "þráhyggja" yfir boðskap hans og án nokkurs vafa mætti færa rök fyrir því að önnur aðferðarfræði hefði getað dugað málstað hans betur en hann beitti í gegnum árin. En aðferðarfræði hans krafðist mikilla persónulegra fórna og allt skynsamt fólk hlýtur að sjá réttlætið í því sem hann krafðist í grunninn.
Hann vildi láta afturkalla skírn sína opinberlega. Hann vildi ekki láta þessa áþvinguðu trúarathöfn hanga yfir sér. Í landi raunverulegs trúfrelsis hefði verið fundin leið og lögum breytt til að gera þetta mögulegt. En jafnvel þótt ómögulegt væri að verða við þessari grunnkröfu hans þá breytir það ekki hinu að Helgi gegndi mikilvægu hlutverki í orðræðu og baráttu þeirra sem gagnrýna skipulögð og kredduföst trúarbrögð og svokallaða ríkistrú.
Ég kveð "Mótmælanda Íslands" með virktum. Ef Guð er til þá hlýtur hann að vera sanngjarn og festir nú Fálkaorðu á Helga. Mannfólkið hvet ég til að fylgja eftir uppástungunni um minnisvarða um Helga.
Uppfærsla:
Eftirfarandi er grein sem ég tók saman og birt var í Degi í febrúar árið 2000:
Sáttmálinn óhagganlegi
Í nær fjóra áratugi hefur trésmiðurinn Helgi Hóseason barist fyrir því að fá skírnarsáttmála sinn við "Himnafeðgana" ógildan og fá það staðfest með skráningu í þjóðskrá. Yfirvöld hafa ekki treyst sér til að verða við þessum kröfum eða að minnsta kosti ekki fundið leið til þess. Hér segir frá afgreiðslu dómstólanna í þessu sérstæða mannréttindamáli.
Baráttusaga Helga Hóseasonar er löng og flókin og hér aðeins stiklað á stóru. Nefna má þó að yfirvöld hér á landi létu alveg eiga sig að höfða mál gegn Helga, þótt tækifærin hafi ekki vantað eftir skyrausturinn á forseta landsins, biskup og þingmenn (1972), tvær atlögur að stjórnarráðinu með tjöru (1974) og ryðvarnarefni (1981), rúðubrot í þinghúsinu (1976) og fleira, svosem svokallað guðlast.
Um 1962 fór Helgi fyrir alvöru að berjast fyrir ónýtingu skírnarsáttmála síns, en viðræður og bónferðir til presta og biskups skiluðu engu; þeir sögðust ekki geta ógilt sáttmála sem væri milli einstaklings og guðs. Í desember 1964 ákvað Helgi að reyna dómstólaleiðina og stefndi biskupi Íslands. Málið var tekið fyrir af Magnúsi Thoroddsen yfirborgardómara, eftir að Sigurbjörn biskup hafði hunsað sáttafund.
Klárkar hlýði landslögum
Helgi gerði þær kröfur í málinu að "herra biskupinn hlutist til um, svo fljótt sem kostur er á, að sáttmála þeim, er gerður var við skírn mína og fermingu, verði rift, þannig að ljóst sé, að um fullkomna afturköllun sé að ræða á því heiti, sem ég var á sínum tíma látinn vinna við skírn mína og síðar fermingu, og um grun sé gert, að nafn mitt sé ekki tengt Jehóva lengur. Þar sem ég tel mig skipta þetta miklu máli, en mér hefur verið synjað um alla leiðréttingu, þetta varðandi, tel ég mig tilneyddan að fara þessa leið til að ná þeim rétti, sem ég tel mig ótvírætt eiga samkvæmt stjórnarskrá vorri".
Biskupinn hvorki mætti í dómsal né sendi einhvern fyrir sig. Magnús var ekki lengi að dæma: "Sakarefni þetta er þess eðlis, að það heyrir ekki undir lögsögu dómstóla. Ber því að vísa máli þessu frá dómi". Helgi áfrýjaði til Hæstaréttar, en þar var niðurstaðan hin sama í febrúar 1965 og kemur fram að biskupinn hafi hvorki sent greinargerð né haft uppi kröfur.
Í greinargerð með málinu til Hæstaréttar sagði Helgi: "Í Kirkjurétti er tekið fram, á skilmerkilegan hátt, að þegar Íslandslög og Himnalög stángast á, eigi klárkar að halla sér frá Himnafeðgum sem snöggvast og hlýða landslögum".
Helgi leitaði til Mannréttindadómstóls Evrópu og skírskotaði til 9. greinar Evrópusáttmálans um trúfrelsi, en menn þar töldu að engin mannréttindi hefðu verið brotin og vísuðu málinu frá.
Fölsun og stjórnarskrárbrot
Helgi ákvað að reyna aðra leið; hann stefndi Magnúsi Jónssyni ráðherra Hagstofu Íslands og gerði þær kröfur að Magnúsi yrði gert "að viðurkenna á formlegan hátt fyrir hönd ríkisvaldsins ónýtingu stefnanda á skírnarsáttmála með því að láta skrá hana í þjóðskrána".
Kröfur sínar rökstuddi Helgi m.a. með því að í fæðingarskýrslum Hagstofu Íslands væri bókað nafn stefnanda og skírnardagur. "Sé nú ekki einnig ritað í þessa persónuheimild stefnanda, að skírnin sé ónýtt, sé í fyrsta lagi um fölsun að ræða, í öðru lagi séu þá brotin á stefnanda ákvæði í stjórnarskrá og í þriðja lagi sé stefnandi settur skör lægra en aðrir, sem þar séu skráðir skírðir og óskírðir".
Ráðherran hafði hvorki fyrir því að mæta á sáttafund eða í dómssal, né senda fulltrúa eða plögg, þótt honum væri löglega stefnt. Auður Þorkelsdóttir borgardómari vísaði málinu frá dómi, en gerði ráðherra að greiða málskostnað og ómarkslaun í ljósi þess að hann hefði ekki mætt.
Hæstiréttur staðfesti niðurstöðuna í janúar 1968. Helgi reyndi enn Strassborgarleiðina, en aftur var erindi hans vísað frá. Helgi flutti öll mál sín sjálfur, enda þorði enginn lögmaður að taka svona mál að sér, nema hvað Pétur Þorsteinsson aðstoðaði Helga nokkuð í blábyrjun.
Einskonar "sáttatilraun"
Eitt er að ónýta skírnarsáttmála og annað að fá það skráð í þjóðskrá og ákvað Helgi nú að framkvæma sjálfur fyrri hlutann. Hann fór í guðþjónustu í Dómkirkjunni í október 1966, meðtók oblátu hjá séra Jóni Auðuns, en lét í lófa sér og tók við messuvínsstaupinu. Oblátan og vínið fóru í poka sem merktur var "SORP" og ávarpaði síðan kirkjugesti:
"Áheyrendur mínir! Þið eruð vottar þess að ég, Helgi Hóseason, Skipasundi 48, Reykjavík, kasta kjöti og blóði Jesú í þennan belg, sem er merktur sorp, til staðfestingar á því, að ég ónýti hér með skírnarsáttmála þann, sem gerður var fyrir mína hönd, reifabarns, og ég vélaður til að játa á mig 13 ára við þá Jehóva, Jesú og Heilagan anda, alla til heimilis á Himnum og nú hér stadda. Enn fremur vottið þið, að nafn mitt Helgi, er ekki tengt Himnafeðgum né Heilögum anda, ég er laus allra skuldbindinga við þá og mótmæli þeim mannhaturssjónarmiðum sem eru uppistaða þess endemis kristins dóms. Þökk fyrir!"
Þrotlaus barátta fyrir því að fá ónýtinguna skráða bar engan árangur. Lengst náði "tilhliðrun" yfirvalda þegar Klemens hagstofustjóri bauðst til að láta skrá í sérstakan reit: "Helgi Hóseason telur sig hafa ónýtt skírnarsáttmála sinn 16. október 1966". Skilyrði Klemensar var að Helgi myndi aldrei undir nokkrum kringumstæðum fá afrit eða ljósrit af skráningunni! Helgi hafnaði boðinu og krafðist þess að skráð yrði að Helgi hefði ónýtt sáttmálann, en ekki að hann "teldi" sig hafa gert það. "Sáttatilraunin" náði ekki lengra.
Biskup: Sáttmálinn ónýtur
Síðar meir fylgdu fjölbreytilegar aðgerðir Helga og eigi sjaldnar en 20-30 sinnum var hann handtekinn fyrir mótmæli. Aldrei var hann þó saksóttur.
Kannski komst hann næst markmiði sínu með ummælum Péturs Sigurgeirssonar biskups í HP árið 1982, þar sem Pétur lýsti því yfir að enginn gæti ónýtt skírnarsáttmála sinn nema sá sem er skírður. Pétur kvaðst álíta, að skírnarsáttmáli Helga væri ónýttur, en ekki yrðu gefnar neinar yfirlýsingar um það, þar sem það væri ekki mál kirkjunnar, heldur væri það mál Helga hvort hann gengi inn eða út. "Frá sjónarhóli kirkjunnar er ekki hægt að gera það á annan hátt en Helgi hefur gert".
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Mannréttindi, Trúmál, Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 14:39 | Facebook
Athugasemdir
Ég er ekki viss um að Helgi hefði þegið Fálkaorðuna í lifanda lífi. Það gerir félagsskapurinn. Veit ekki með minnisvarðann. Ef gerð verður stytta þá má hann vera í skyrslettingarstellingunni.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 12:48
Ljúfur pistill um minnisverðan mann. Vonandi heldur einhver baráttunni hans á lífi. Trúfelsi er flott orð en ef það er ekki til í raun er það gagnslaust skraut
Heiða B. Heiðars, 7.9.2009 kl. 12:53
Búum til aðrar orður, fálkaorðan er skammarorða sem menn fá fyrir ekkert, minna en ekkert.
Skömm að ríkiskirkju að gefa ekki eftir fyrir Helga... þetta er náttlega kristilegt siðgæði hins ímyndaða fjöldamorðingja í geimnum
DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 13:09
P.S. Er reyndar smá hneykslaður á að þú hafir gleypt við nafnleysis grýlunni :)
DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 13:55
Takk fyrir þetta Friðrik Þór. Helgi var eitt af sameiningartáknum þjóðarinnar - á sinn sérstaka hátt.
Björn Birgisson, 7.9.2009 kl. 14:01
Ha? hvaða nafnleysis grýlu, el Doctor?
Friðrik Þór Guðmundsson, 7.9.2009 kl. 14:18
Þetta... ég eiginlega skil það ekki, munu óháttvísar athugasemdir undir nafni fá að halda sér .... :)
Fólk komi fram undir fullu nafni í athugasemdakerfinu. Nafnlausar athugasemdir þó ekki fjarlægðar ef háttvísi er gætt
En tölum frekar um hetjuna hann Helga.. ekki hlusta á vælið í mér, ok :)
DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 14:21
Já, tölum frekar um Helga, en fyrst um hitt; það er sárasjaldan og hefur raunar ekki gerst lengi að ég hafi séð mig knúinn til að "fela" komment.
Var að bæta við færsluna sjálfa grein sem ég tók saman í Dag í febrúar árið 2000 um dómsmálaþáttinn í baráttu Helga.
Friðrik Þór Guðmundsson, 7.9.2009 kl. 14:38
Skyldi blessaður karlinn vera kominn til Guðs í Himnaríki??
sigurður örn brynjólfsson (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 14:41
Well Sigurður, hverjar eru líkurnar á að kaþólska kirkjan hafi verið að segja satt þegar hún skáldaði upp Sússa og NT...
Það eru 0% líkur á því
DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 14:53
Hér gefst gott tækifæri fyrir almenning að sýna Helga stuðning og að lýsa óánægju með kufla ríkiskirkju.
Þetta getið þið gert með að skrá ykkur úr kirkjunni, skrá ykkur utan trúfélaga.
Eins og staðan er í dag þá erum við hinir trúlausu að borga meira til uppbyggingar íslands með okkar sköttum.. þeir sem eru skráðir í ríkiskirkju borga henni og ~100 kuflum ~6000 milljónir árlega.
Hvað vill fólk gera, viljið þið borga kuflum þúsundir milljóna árlega, eða viljið þið borga í uppbyggingu íslands, til mennta & heilbrigðismála...
Hvað ætlið þið að gera... dæla þessum þúsundum milljóna í örfáa kufla svo þeir getið smíðað sér himnadildóa og verið með mörg hundruð þúsunda á mánuði í laun.
Já kæri íslendingur... ert þú íslendingur eða telur þú þig vera að fjárfesta í einbýli á himnum...
Farið nú og skráið ykkur út... stöndum saman í þessu mikilvæga máli... gerum það fyrir börnin okkar
DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 15:07
Samkvæmt skilgreiningu þá kemst Helgi seint til himna, þangað komast allir nema þeir sem hafna boðskapnum.
Væri annars ekki besti minnisvarðin um kallinn að afnema sjálfvirka skráningu í trúfélög?
Arnar, 7.9.2009 kl. 15:48
Inntökuskilyrði til himna er eitt: Þú verður að trúa á dogmað, þú mátt vera morðingi, naðugari, barnaníðingur... þetta skitpir engu máli ef þú trúir.
Þu getur verið mannvinur hinn mesti, dýravinur og gæðablóð... en þú ferð til helvítis ef þú trúir ekki.... er þetta ekki næs boðskapur sem hornsteinn íslands krakkar :)
Slíkt er hið kristilega siðgæði.
DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 16:12
Bíddu, Arnar, ...er sjálfvirk skráning í trúfélög ef þú ert aldrei skírður??! Svei mér...
Er ekki málið að við öll hin, sem höfum skráð okkur úr þjóðkYrkjunni, höldum áfram baráttunni og heimtum yfirlýsta sáttmálariftun skírnar?
Sigga Vala
Sigga Vala (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 18:42
Ef það ætlar einhver að minnast Helga Hóseassonar, og meinar eitthvað með því að minnast hans , þá ætti hinn sami að standa eins og eina dagstund á horninu á Langholtsvegi og Holtavegar !
Fólk gæti skiptst á að standa þarna með sitt mótmælaspjald !
En, getur einhver sagt mér hvers vegna engin hefur reynt að gera neitt með hans mál nýlega , eða áður en hann dó ?
JR (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 20:43
Það væri gaman að komast að því, Sigga Vala. Sonur minn fæddist í Amsterdam en hefur tvöfalt ríkisfang, þ.á.m. íslenskt. Hann hefur aldrei verið skírður. Hvernig get ég komist að því hvort hann sé í þjóðkirkjunni?
Villi Asgeirsson, 7.9.2009 kl. 21:02
Góð spurning, JR. Hvað gerðir þú? Eitt af því sem ég gerði, í anda Helga, var að segja mig úr þessari Þjóðkirkju. Bók var skrifuð. Kvikmynd var gerð. Ýmsir hafa gert eitt og annað, nema ríkið og Kirkjan, sem ekkert hafa gert. Hugmynd þín um að áhugafólk um minningu Helga Hó skiptist á að standa á horninu við Langholtsveg með skilti er skrambi góð. Nú eru 7.500 á fésbókarsíðunni, sem gera 20 um hvern einasta dag ársins. Ef við látum 8 stundir per dag duga ("vinnudag") þá eru það um 24 mínútur á mann. Ég geri ráð fyrir fjölgun á síðunni og þessi tala gæti endað í 15 mínútum. Umsjónarmaður síðunnar gæti skipulagt skráningar og ég mæti meðal fyrstu manna.
Og Sigga Vala (hæ!), allir sem láta sig varða að fá skírnarsáttmálanum rift ættu að feta í fórspor Helga. Sjálfur tek ég ekkert mark á þessum sáttmála. Fyrir mér var skírn mín nafngift og fermingin var tækifæri til að fá gjafir og veislu. Ég harðneita að skila gjöfunum. Sem ég man reyndar ekkert hverjar voru og tel þær glataðar. Man á þeirra á meðal var kíkir og að ég held úr. Og áreiðanlega of lítið af peningum fyrir minn smekk! Þess utan á ég skilið að halda gjöfunum fyrir að þrauka séra Árelíus. Ekki fékk ég popp-messur séra Sigurðar Hauks. Sótti þó eina slíka poppmessu, þar sem Valgeir Skagfjörð spilaði undir meðan Gylfi Dýrmundsson söng Bítlalagið "Oh darling". Það var gaman, en ekki sá ég ljósið...
Friðrik Þór Guðmundsson, 7.9.2009 kl. 21:04
Villi, þú óskar upplýsinga um þetta hjá Hagstofu eða Þjóðskrá. Sendu tölvupóst á báðar stofnanir til vonar og vara.
Friðrik Þór Guðmundsson, 7.9.2009 kl. 21:06
Minnir að barn sé sjálfvirkt skráð í trúarsöfnuð móður... sem er álíka stúpid og að skrá nýfædd börn í stjórnmálaflokk sem móðir styður.
Tala nú ekki um ef einn stjórnmálaflokkur fengi frjálsan aðgang að leik og grunnskólum... sem er það sem ríkiskirkjan gerir, börnin mötuð á bronsaldarvitleysu sem var uppskálduð að mestu af kuflum kaþólsku kirkjunnar.
Mér er óskiljanlegt að nokkurt foreldri geti sætt sig við slíkt.... enda fæstir sem hafa lesið eða kynnt sér biblíu.
DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 23:35
Fáir stóðu vaktina með Helga - fáir létu sig málið varða, líklega réttilega?
Þúsundir á Facebook er dæmi um íslenskan yfirdrepsskap af bestu sort. Svona dæmigert æði, vandlætingar múgæsing. Gaman væri að vita hversu margir af þeim sem þar rita vita eitthvað af gagni um baráttu Helga (sem var stórmerkileg) eða hafa lesið rit hans.
Mér finnst góð þessi hugmynd um að menn taki að sér vaktina hans Helga - þ.e. þeir sem telja sig hafa verið honum sammála; þeir sem vilja minnisvarða. Minnisvarðinn er auðvitað þægilegri fyrir poppúlistana - þá þurfa ÞEIR sjálfir ekki að standa úti.
Nú, auðvitað er sá möguleiki í stöðunni að einhverjir vilji minnisvarða um Helga en hafi ekki verið honum sammála, þeir "þurfa" þá líklega ekki að standa úti.
Sjálfur hef ég ekki smekk fyrir þessari minnisvarða hugmynd. Finnst hún, eins og ég gat um í upphafi, hræsni. Eða, í besta falli vanhugsað upphlaup í brotnu samfélagi.
Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 08:18
Besti minnisvarðinn er kannski sá að fólk fari og skrái sig úr þjóðkirkju.. Helgi yrði eflaus glaður með það.
Guðmundur.. ég skoraði oft á biskup og kufla á mínu bloggi vegna máls Helga... reyndar bloggaði ég einmitt um þetta rétt áður en mbl lokuðu blogginu mínu, þar sagði ég að biskup og kuflar ættu að sýna smá kærleika með að uppfylla óska Helga áður en hann myndi deyja.
So fuck it.. .and the church
DoctorE (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 09:20
Hæ Lilló! :) Ég á það til að vera "smámunasöm" eins og Helgi. Hef alltaf dáðst að þrautseygju hans. Fyrir mér er þetta mikið mál af því það fjallar um yfirgang og virðingaleysi yfirvalda. Það segir mikið að þjóðskráin er í Dóms- og kYrkjumálaráðuneytinu. En það er réttur barnanna í þessu skrásettningasamfélagi að þau hafi sitt blað hreint þegar þau eru sjálfráða; ekki 13 ára. Að fá minn skírnarsáttmála yfirlýstan riftan þýðir að ég hef endurheimt mitt "hreina blað"; að það séu mannréttindi að tilheyra engu trúfélagi; að ég sé að veita athygli á þessu andlega ofbeldi sem smeygir sér svona létt og liðugt milli rifjana á okkur í æsku og beygir okkur í ákveðnar áttir án þess að við tökum mikið eftir því. Fyrr en allt í einu eru þessir "smáþræðir" einhvern veginn farnir að kyrkja okkur og við viljum vinda ofan af þessu til að komast að kjarna okkar. Að rifta skírnarsáttmálanum og fá það yfirlýst af Dóms- og kYrkjumálaráðuneyti er mikilvægt skref í þessu ferli.
Það er alltaf verið að koma með allskonar "vísindalegar" "staðreynda"-skýrslur um fjölda þessa og hins og áliktanir dregna þar af og kenndar í skólum. "Norm" fundin út. Ég vil fá mitt "norm" skrásett svo börnin geti séð að til eru mörg "norm". Við erum fyrirmyndirnar.
Sigga Vala (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 11:10
Hæ aftur ;) Ég var að fá svar frá Þjóðskránni, en ég hef ekki látið skíra neitt af mínum fjóru börnum. Þetta á við um yngsta barnið:
"Nafnið hans er skráð Sigtryggur Ómi Freyr Völuson Hansen og hann skráðist utan trúfélaga við fæðingu (börn fá sömu trúfélagsskráningu og móðir)."
Ég skráði mig úr þjóðkYrkjunni 19 ára gömul, svo öll börnin mín fæddust utan trúfélaga. Að börn fá sömu trúfélagsskráningu og móðir er ansi óréttlátt fyrir barnið ef mamman er í trúfélagi.
Nú ef mamman er utan trúfélaga, en pabbinn er í trúfélagi sem telur barnið ekki geta endurholdgaðs að fullu í sinn kropp eða fari til helvítis óskírður þá er úr vanda að ráða og getur endað illa!!!
Sigga Vala (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 11:37
Takk öll fyrir umræðuna og einkum þér Sigga Vala. Bið að heilsa Óma vini mínum.
Var að sjá það einhvers staðar að skiltin hans Helga séu varðveitt og þá vonandi tiltæk, því alveg er ég til í að fara á Langholtsveginn dagsstund, taka þar út minn skammt. Tel mig hins vegar hafa gert mitt í andstöðunni gegn ríkiskirkjufyrirkomulaginu sem einn af stofnendum og forystumönnum Samtaka um aðskilnað ríkis og kirkju. Þau samtök eeru reyndar ekki mjög virk í dag, enda hefur Þjóðkirkjan sjálf að mestu séð um að aðskilja sig frá þjóðinni.
Og Doctor; þjóðin ER í sjálfu sér að fara að "þínum" ráðum. Það hefur raunar gerst á merkilega stuttum tíma í Íslandssögunni að skráðir Þjóðkirkjumeðlimir hafa farið úr 93% í um 75%. Ég hefði haldið að það ætti að verða formlegur og fullur aðskilnaður í síðasta lagi þegar þetta hlutfall mælist 66.6% (takið eftir tölunni!).
Friðrik Þór Guðmundsson, 8.9.2009 kl. 11:47
Já frábær tala þarna á ferð... aðskilnaður við myllur satans
Disclaimer
Satan er ekki til ;)
DoctorE (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 17:38
Fáir íslenskir menn hafa verið slíkar trúarhetjur sem Helgi og tekið meira ástfóstri við guð sinn sem hann kallaði Jehóva. Þar stendur honum næstur innlendra manna Séra Hallgrímur Pétursson en heilagur Frans af Asísí af erlendum mönnum.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 8.9.2009 kl. 19:30
Guðmundur Brynjólfsson tek heils hugar undir orð þín.
Helgi Hó framdi auðvitað ljótan glæp þegar hann brenndi gamla kirkju í Heildölum. Þar fóru gríðarleg menningarverðmæti.
Gunnar Th. Gunnarsson, 9.9.2009 kl. 00:05
Heydölum átti þetta að vera
Gunnar Th. Gunnarsson, 9.9.2009 kl. 00:05
Ég man vel eftir Helga. En það væri hræsni að halda því fram að ég syrgi hans vegna.
Hann hafði það ágætt í sínu hobbíi. Aumingjagæska sem brýst fram gagnvart fólki loksins þegar það er dauðvona eða dautt er sjálfhverf tilfinning.
Það fallega við mótmæli Helga var að þau voru óviljandi harmræn tjáning sem ég held að hafi veitt honum mikla lífsfyllingu. Málstaður hans var ekki á hinu stundlega plani þeirra bloggara sem eru aldir upp við að allt sé svo 'óbærilega léttvægt í tilverunni'. Að rifta skírn er einsog að spila á spil. Maður getur alltaf lagt nýjan kapal og bara gleymt því að sá síðasti gekk ekki upp.
Helgi var ekki einn af ykkur. Ekki reyna að klína minningu hans á ykkar hugsanagang. Það er kannski ekki saurgun en vanvirðing við málstað þessa einstæðings sem þið eigið hvorki lifandi né dauð samleið með. Bara viðurkenna það strax.
Gísli Ingvarsson, 9.9.2009 kl. 13:41
Gísli: Helgi var hluti af fjölskyldu minni og það eina sem ég vil segja við þig er : Hættu að röfla um eitthvað sem þú greinilega veist ekkert um!!
Hafdís Haraldsdóttir (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 19:22
Einhver veginn hef ég tilhneigingu til að sperra eyrun meira eftir boðskap Gísla, en þínum, Hafdís.
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.9.2009 kl. 01:01
Já, Hafdís, orð eins og "Helgi var hluti af fjölskyldu minni" leiða ekki til eyrnasperrings hjá Gunnari, bara kjaftsperrings. Gísli á Uppsölum höfðaði meira til hans Gunnars.
Friðrik Þór Guðmundsson, 10.9.2009 kl. 01:07
Já, Gísli var vondur maður.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 10.9.2009 kl. 08:47
Skáldskapur Helga í bókinni Þrælar og himnadraugar:
Helgi fagnar því að Bjarni Ben. forsætisráðherra hafi látið lífið í eldsvoða, hvetur til að nafngreindri alþingiskonu sé riðið smokklaust og hæðist að nafngreindum manni fyrir meinta kynvillu svo eitthvað sé nefnt.
Nú vilja menn reisa líkneski til að dýrka Helga Hó-sanna.
Súrealískt svo ekki sé meira sagt.
Þetta "snobb" heldur engu vatni og Íslendingar eru delluþjóð svo ekki sé meira sagt.
Halda Wathne (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 15:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.