21.8.2009 | 11:43
Hvaða atkvæði endurspeglar best stefnu hreyfingarinnar?
Það stefnir í samþykkt frumvarps um ríkisábyrgð á Icesave-samningnum með þaulræddum fyrirvörum. Nokkuð ljóst má nú heita að fyrir svo breyttu frumvarpi er meirihluti, hvernig svo sem þingmenn Borgarahreyfingarinnar greiða atkvæði. Vert er að velta því fyrir sér, hvort það er meira eða minna í anda stefnu og kosningaloforða Borgarahreyfingarinnar að greiða atkvæði með eða á móti fyrirvörunum og frumvarpinu. Er með góðu móti hægt að segja að það liggi fyrir?
Það sýnist mér ekki. Allir þeir fjórir þingmenn sem náðu kjöri til þings af listum Borgarahreyfingarinnar hafa að vonum gagnrýnt Icesave-samninginn harðlega. Þrír þeirra, þau sem mynda nú þinghóp hreyfingarinnar, munu að líkindum samþykkja fyrirvarana, en óvíst er með Þráinn Bertelsson, sem flutti mergjaða ræðu gegn Icesave-samningunum í gær. Þeirri spurningu hvort betra sé samkvæmt stefnu hreyfingarinnar að samþykkja eða fella ríkisábyrgðina treysti ég mér ekki til að svara.
Ég get hins vegar nefnt, að það er engan veginn reglan að allir þeir fjórir þingmenn sem kjörnir voru af listum hreyfingarinnar hafi greitt atkvæði á þinginu með samræmdum hætti. Eina tilvikið sem eitthvað hefur verið rætt í því sambandi er atkvæðagreiðslan um ESB-viðræður (og breytingatillöguna um tvöfalda atkvæðagreiðslu). Þór, Birgitta og Margrét greiddu þar atkvæði með öðrum hætti en Þráinn og óþarfi að rekja það nánar.
En skoðum nokkrar aðrar atkvæðagreiðslur þessara þingmanna:
Í atkvæðagreiðslu 11. ágúst um 114. mál. kjararáð o.fl. (ákvörðunarvald um launakjör forstöðumanna): Nei: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari. Fjarstaddur: Þráinn Bertelsson.
Í atkvæðagreiðslu 11. ágúst um 124. mál. Bankasýsla ríkisins: Nei: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir. Sat hjá: Þór Saari. Fjarstaddur: Þráinn Bertelsson.
Í atkvæðagreiðslu 11. ágúst um 89. mál. breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins (1. grein): Já: Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson, Sat hjá: Birgitta Jónsdóttir.
Í atkvæðagreiðslu 24. júlí um Bankasýslu ríkisins, 2.-10. grein: Nei: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Sátu hjá: Þór Saari, Þráinn Bertelsson.
Í atkvæðagreiðslu 24. júlí um Bankasýslu ríkisins, 1. grein: Nei: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Sat hjá: Þráinn Bertelsson.
Í atkvæðagreiðslu 24. júlí um Bankasýslu ríkisins, breytingatillögur 289 (1 og 2): Já: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Sat hjá: Þór Saari, Nei: Þráinn Bertelsson.
Í atkvæðagreiðslu 24. júlí um 114. mál. kjararáð o.fl. (ákvörðunarvald um launakjör forstöðumanna), 1. grein: Nei, öll fjögur.
Í atkvæðagreiðslu 10. júlí um 1. mál. endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja (stofnun hlutafélags, heildarlög): Já: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Sat hjá: Þráinn Bertelsson.
Í atkvæðagreiðslu 10. júlí um 85. mál. fjármálafyrirtæki (sparisjóðir): Já: Þór Saari, Sátu hjá: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þráinn Bertelsson.
Í atkvæðagreiðslu 29. júní um 118. mál. ráðstafanir í ríkisfjármálum (breyting ýmissa laga): Nei: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Valgeir Skagfjörð. Í leyfi: Þráinn Bertelsson.
Í atkvæðagreiðslu 26. júní um 118. mál. ráðstafanir í ríkisfjármálum (breyting ýmissa laga), bráðabirgðaákvæði II-VII: Sátu hjá: Öll fjögur (Valgeir fyrir Þór).
Í atkvæðagreiðslu 26. júní um 118. mál. ráðstafanir í ríkisfjármálum (breyting ýmissa laga), bráðabirgðaákvæði I: Já: Birgitta Jónsdóttir, Sátu hjá: Margrét Tryggvadóttir, Valgeir Skagfjörð, Þráinn Bertelsson.
Í atkvæðagreiðslu 18. júní um 34. mál. stjórn fiskveiða (strandveiðar): Já: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari. Sat hjá: Þráinn Bertelsson.
Í atkvæðagreiðslu 29. maí um 33. mál. fjármálafyrirtæki (heimild til útgreiðslu úr þrotabúum gömlu bankanna): Nei: Birgitta Jónsdóttir, Þór Saari. Fjarstödd: Margrét Tryggvadóttir, Þráinn Bertelsson.
Í atkvæðagreiðslu 28. maí um 56. mál. olíugjald og kílómetragjald og gjald af áfengi og tóbaki o.fl. (hækkun gjalda): Nei: Öll fjögur.
Á þessari upptalningu sést að það hafa verið meiri líkur á því en minni að þingmennirnir fjórir greiði atkvæði með ólíkum hætti. Vildi fyrst og fremst nefna þetta þegar menn ræða hvaða þingmenn fylgja stefnu og kosningaloforðum hreyfingarinnar vel eða illa. Eins er rétt að spyrja á þessum tímapunkti: Hvernig eiga þingmenn að greiða atkvæði um ríkisábyrgðina og fyrirvarana við Icesave-samninginn til að uppfylla best stefnu og kosningaloforð Borgarahreyfingarinnar?
![]() |
17 á mælendaskrá um Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:44 | Facebook
Athugasemdir
Hvaða áhrif hefur það á Icesave uppgjörið ef neyðarlögin halda ekki?
Þórður Björn Sigurðsson, 21.8.2009 kl. 13:00
Veit það ekki félagi en hygg að svarið sé áreiðanlega feikilega neikvætt!
Get ímyndað mér að t.d. mismununin milli innistæðueigenda eftir því hvort reikningar og sjóðir voru á Íslandi eða annars staðar yrði gerð afturræk. Sé fyrir mér að margt fólk sem fékk tjón sitt bætt á Íslandi yrði að endurgreiða niður að 20.888 Evru markinu?
Friðrik Þór Guðmundsson, 21.8.2009 kl. 13:03
Friðrik.
Ef eitthvað vit er í hausnum á þessu fólki, þá hljóta þremingarnir að greiða atkvæði á móti ICESAVE. Alveg sama hvað stendur á blaðinu. Var það ekki plottið ?
Eða er það eins og þú segir, þeir gera bara sem þeim dettur í hug í það skiptið ?
JR (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 16:25
Getur þú útskýrt, JR, á hvern hátt það er með eða á móti stefnu hreyfingarinnar, eða anda hennar, að greiða atkvæði með eða á móti ríkisábyrgðinni á Icesave?
Dæmi: Ef það taldist rétt samkvæmt stefnunni að samþykkja ESB-viðræður, er það þá ekki rangt að reita Evrópuþjóðirnar til reiði og leggja þannig stein í götu ESB-viðræðanna, með því að fella Icesave-samningana? Ég veit það ekki. Veist þú það?
Friðrik Þór Guðmundsson, 21.8.2009 kl. 16:35
Í raun er svarið tvíþætt að mínu mati Friðrik Þór.
EF fyrirvararnir HALDA er það í anda stefnu hreyfingarinnar að kjósa MEÐ ríkisábyrgðinni.
EF fyrirvararnir HALDA EKKI er það í anda stefnu hreyfingarinnar að kjósa GEGN ríkisábyrgðinni.
Þór Saari er búið að takast með mikilli elju að koma í raun öllum okkur stefnumálum varðandi Icesave inn í fyrirvarana. Nú snýst málið alfarið um það hvort að þeir hafi eitthvert lagalegt gildi eður ei.
Þórður: Áhrifin eru þau að samningurinn stendur eins og hann er án fyrirvaranna. Áhrifin á aðra þætti eru endalausar málshöfðanir gegn ríkinu vegna yfirtöku þeirra á bönkunum. Finnska leiðin, þar sem sett var fjármagn í bankana í stað þess að taka þá alfarið yfir, hefði án vafa eftir á að hyggja, komið sér betur fyrir þjóðina.
Baldvin Jónsson, 21.8.2009 kl. 17:07
Visir.is: Breytingatillögur meirihluta fjárlaganefndar vegna Icesave samningsins voru allar samþykktar á Alþingi fyrir stundu. Frávísunartillaga Framsóknarflokksins var felld.
Flestar breytingatillögur ríkisstjórnarinnar voru samþykktar með 51 atkvæði gegn 9, líkt og búist hafði verið við. Frávísunartillaga Framsóknarmanna var felld með 48 atkvæðum gegn 10 en 2 greiddu ekki atkvæði.
Þeir sem greiddu tillögunni atkvæði voru 9 þingmenn Framsóknarflokksins og Þráinn Bertelsson, óháður þingmaður.
Friðrik Þór Guðmundsson, 22.8.2009 kl. 02:36
Sæll Friðrik og takk fyrir þessa fróðlegu upptalningu. Oft er rætt um hvort þingmenn séu dyggir flokksmenn, vinni vel fyrir kjördæmið eða byggðarlagið, standi með hagsmunum þeirra samtaka eða hreyfinga (t.d. verkalýðshreyfingar, jafnvel femínistar), sem þeir eru sprottnir úr. En þingmenn vinna líka eið að stjórnarskránni og eru þingmenn allrar þjóðarinnar. Þetta síðastnefnda er að mínu mati mikilvægast.
Sigurður Þórðarson, 22.8.2009 kl. 08:51
Tillaga um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar (frávísun):
já: Þráinn Bertelsson.
nei: Þór Saari.
sátu hjá: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir.
Friðrik Þór Guðmundsson, 22.8.2009 kl. 18:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.