21.12.2006 | 14:25
Gildisdómurinn
Ég var rétt í þessu að taka stóra persónulega ákvörðun, sem ég tók með afar blendnum huga. Og ekki beinlínis af fullum og frjálsum vilja. Ég hef sem sagt ákveðið að láta kjurt liggja í meiðyrðamáli mínu gegn Sigurði Líndal.
Málsatvik í stuttu máli: Sigurður Líndal var formaður sérskipaðrar rannsóknarnefndar flugslysa um Skerjafjarðarflugslysið og rannsókn þess, en nefnd þessi var sett á laggirnar eftir harða gagnrýni mína og annarra. Þegar Líndalsnefndin var um það bil að fara að halda blaðamannafund og opinbera niðurstöður sínar birti fréttastofa Stöðvar 2 frétt sem byggði á innihaldi skýrslunnar. Algjörlega gegn sannleikanum og að óþörfu fullyrti Sigurður Líndal opinberlega að ég hefði lekið trúnaðarupplýsingum. Hann vék sérstaklega úr vegi til að koma á mig höggi og rýra mannorð mitt og trúverðugleika og var hann þó meint hlutlaust dómaraígildi. Þessi ósannindi eyðilögðu annars æskt tímamót í Skerjafjarðarmálinu; útkomu skýrslunnar samhliða vígslu minnisvarðans um fórnarlömb flugslyssins.
Þar sem meiðyrði þessa manns, í þessari stöðu, vörðuðu mannorð mitt og starfsheiður ákvað ég að fara í meiðyrðamál til að fá ummælunum hnekkt. Tók Sveinn Andri Sveinsson að sér að sækja það mál í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Þann 23. júní sl. felldi Greta Baldursdóttir héraðsdómari þann dóm að Líndal skyldi sýkn í málinu. Ummæli Líndals hefðu verið gildisdómur og leyfilegur sem slíkur. Þótt niðurstaðan hafi komið mér á óvart þá taldi ég mig geta haft á því skilning að stakur undirréttardómari treysti sér ekki til að dæma gegn Sigurði Líndal, lögfræðiprófessornum sem kennt hefur flestum lögfræðingum landsins. Ég vildi strax taka ákvörðun um áfrýjun til Hæstaréttar, en samþykkti þann ráðahag Sveins Andra að nýta þriggja mánaða áfrýjunarfrestinn leggjast undir feld.
En þá gerðust undarlegir atburðir sem ég hef enga skýringu fengið á. Þegar leið að lokum frestsins gerði ég ítrekaðar tilraunir til að ná í Svein Andra með hringingum, skilaboðum og tölvubréfum. Ég gat ekki leitað til annars lögmanns því hann hafði ekki kynnt mér afstöðu sína og hafði ekki skilað af sér málinu. Áfrýjunarfresturinn leið með tilheyrandi réttarspjöllum. Ég gerði síðan áfram tilraunir til að ná tali af manninum og fá skýringar og til að koma fram kröfu um að lögmaðurinn aflaði sérstaks áfrýjunarleyfis, sem gildir í þrjá mánuði eftir hefðbundinn áfrýjunarfrest. Þessi framlengdi frestur rennur endanlega út núna 23. desember. Þessu var aðeins mætt með þögninni. Þessi óskiljanlega og ósvífna framkoma Sveins Andra varðar auðvitað við lög um lögmenn og siðareglur lögmanna. Ég ákvað enda að senda kvörtun (kæru) til Úrskurðarnefndar Lögmannafélagsins (siðanefnd) og þar er mál Sveins Andra til meðferðar og ætlast ég vitaskuld til að maðurinn verði áminntur með meiru.
Við mér blöstu síðan tveir kostir; að fylgja Líndalsmálinu eftir og sækja um áfrýjunarleyfið eða sætta mig við undirréttardóminn og viðkomandi túlkun á tjáningarfrelsinu. Og nú hef ég sem sé ákveðið að gefast upp á því að fá hin kærðu ummæli dæmd dauð og ómerk. Á móti kemur að ég get þá tileinkað mér þessa túlkun á tjáningarfrelsinu. Ég get með öðrum orðum fellt svona gildisdóma opinberlega. Ef ég vil. Til dæmis um hvað olli réttarspjöllum Sveins Andra. Og sannleikurinn er þá aukaatriði. Segir háttvirtur héraðsdómari. Í millitíðinni óska ég þeim báðum félögunum, Sigurði Líndal og Sveini Andra Sveinssyni, gleðilegra jóla og vel að lifa.
Mynd: Frá vígslu minnisvarðans um fórnarlömb flugslyssins í Skerjafirði. Björgunarsvietarmenn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins stóðu heiðursvörð, öðlingarnir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:29 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.