23.3.2009 | 21:39
Nú streyma loks upplýsingarnar út
Mér finnst yndislegt að fylgjast með fjölmiðlunum þessa dagana, sem mér sýnist að hafi tileinkað sér sem aldrei fyrr einbeittan vilja til að gegna aðhaldshlutverki sínu. Þeir eru farnir að krefjast svara, ýta á eftir þeim - og fá þau. Ekki sakar að því er virðist breytt afstaða stjórnvalda til upplýsingalaganna, til samspilsins milli þagnarskyldu og almannahagsmuna.
Umfjöllun Morgunblaðsins um sölu Landsbankans og Búnaðarbankans 2002-2003 er himnasending. Hinn mæti blaðamaður, Þórður Snær Júlíusson, hefur krafist og fengið aðgang að hvorki meira né minna en fundargerðum Einkavæðingarnefndar - sem ríkissöluöflin hafa vafalaust talið að yrðu innmúruð að eilífu. Augljóslega horfir núverandi forsætisráðherra öðrum augum á upplýsingarétt fjölmiðla og almennings en forverar hennar - og það hjálpar auðvitað. Umfjöllun Þórðar Snæs er massíf og ég er lengi að lesa - og stundum þarf maður að lesa á milli línanna - en ég hygg að óhætt sé að segja að einkavæðing Landsbankans og Búnaðarbankans hafi verið einmitt það spillingarfen sem margir hafa haldið fram, en hinir innvígðu mótmælt. Einkavæðing bankanna var gjörspillt helmingaskiptasukk, það er nú staðfest, stimplað og þinglýst.
Í sömu andrá má minnast á umfjöllun RÚV um skýrslu Seðlabankans, sem lesin var upp fyrir ráðherra í febrúar 2008, skýrsla sem Seðlabankastjóri tók saman fölur af áfalli eftir að hafa hitt erlenda banka og matsfyrirtæki og rætt við þau um stöðu íslensku bankanna og ekki síst Icesave. Skýrslan var skrifuð um ferðina en Seðlabankinn synjaði óskum fréttastofu RÚV um aðgang að henni. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál snéri þeirri ákvörðun við. Í báðum ofangreindum málum hefur verið lagt það mat á upplýsingabeiðnirnar að almannahagsmunir séu brýnni en undanþáguákvæði frá því að gefa umbeðnar upplýsingar.
Ég er ansi hress með fjölmiðlana þessar stundirnar. Allavega suma þeirra.
Pólitísk tengsl áhyggjuefni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Trúmál og siðferði, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Það er allt gott og blessað að íslenskir fjölmiðlar séu að vakna af sínum þyrnirósasvefni en þeir mættu nú aðeins huga að framtíðinni. Hver er stefna stjórnmálaflokkanna eftir kosningar? Hvernig væri að þeir færu að sauma að forystumönnum flokkanna. Eða er öruggara að grafa upp upplýsingar manna sem eru nú "persona non grata" Nei, betur má ef duga skal.
Andri Geir Arinbjarnarson, 23.3.2009 kl. 21:56
Lillo og Stulli - kúl!
Lissy (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 22:04
af hverju talar Agnes Bragadóttir aldrei um Landsbankann?
Halldór Carlsson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 23:54
Hi. Lissy. Thanks for the comment. It´s both fascinating and peculiar. Care to fill in a bit? My email is up there.
Íslenskir fjölmiðlar eru klárlega í sókn, enda annað varla hægt. Og sterkt fyrir framhaldið að mikilvæg fordæmi séu að myndast sem klárlega auka veg almannahagsmuna á kostnað þagnarskyldunnar/leyndarhjúpsins.
Friðrik Þór Guðmundsson, 24.3.2009 kl. 00:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.