8.3.2009 | 19:24
Stór ákvörðun - en B vantar á eftir A
Ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar, að draga sig í hlé, láta formennskuna og pólitíkina eftir en einbeita sér að heilsu sinni, er afar stór og mikilvæg. Hins vegar vekur það furðu mína að Jóhanna Sigurðardóttir taki ekki um leið við formennsku-keflinu. Það er mjög veikt fyrir flokkinn - eins mikið og þetta hefði getað verið flokknum styrkur.
Það er staðreynd að það er enginn sterkur eftirmaður ISG í sjónmáli, annar en Jóhanna. Sem flokkurinn ætti að snúa upp á og telja hughvarf, sín vegna, því enginn þarna er með pólitískan þroska, flekkleysi og þungavigt til að vippa sér í þetta embætti. Mér er raunar fyrirmunað að skilja af hverju Jóhanna tekur þetta ekki að sér næstu 2 árin meðan raunverulegur arftaki byggir upp stöðu sína. Mér finnst veikt að gera þetta ekki svona. En hvað veit ég - það er ekki eins og ég sé liðsmaður þessa flokks.
Niðurstöður frambjóðendavals flokkanna, sem liggja fyrir, bera með sér ákaflega mismunandi skilaboð um "endurnýjun" og uppstokkun. Sumir núverandi þingmenn eru að fá skell, eins og Einar Már Sigurðarson, Kolbrún Halldórsdóttir og Karl V. Matthíasson, meðan aðrir fá ótvíræða endurnýjun umboðs. Ég er ekki að sjá samhengi í þessu. Og þó velti ég fyrir mér hvort lakt gengi Einars og Kolbrúnar sé til merkis um auka andstöðu við róttæka umhverfisverndarstefnu í þá áttina að fólk sem vill ekki endurnýja "Íslenska ákvæðið" í loftslagsmálum ætti kannski, í ljósi efnahags- og atvinnuástandsins, að endurskoða hug sinn?
Ingibjörg Sólrún hættir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég tek undir með þér að Jóhanna ætti að íhuga alvarlega að taka við formennsku næstu tvö árin. Hún er hvort eð er forsætisráðherraefni flokksins. Hún gæti látið varaformanninum eftir mest að verkefnum og einbeitt sér að þinginu. En ef hún treystir sér ekki, þarf að hafa fljótar hendur. Vona innilega að frambærilegar konur gefi þá kost á sér.
Kristín Dýrfjörð, 8.3.2009 kl. 19:38
Er Einar Már umhverfisverndarsinni? . . . bara spurði!
Benedikt Sigurðarson, 8.3.2009 kl. 20:03
Ég verð nú bara að segja eins og margir sem ég hef hitt... hver er þessi Einar Már Sigurðsson? Er hann virkilega búinn að vera á launum hjá mér síðustu ár?
Ásta B (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 20:06
Auðvitað ætti Jóhanna að taka við formennsku, og þar með loka kjaftinum á Jóni Baldvin ! Væri það ekki við hæfi að Jóhanna gerði það ?
Vegna útkomu alþingismann í vali á frambjóðendum þá er það svo í lokuðum prófkjörum eða vali, þá eru það þeir sem eru sýnilegir í starfi innan flokkanna sem oftast vinna . Núna er það ástand að vilji til að fá ný andlit er meiri en áður hefur verið. En getur þú sagt mér hvað þessir sem ekki fengu framgang í prófkjörum núna hafa gert merkilegt á alþingi ?
Hvað liggur eftir Karl Matthíasson eða Einar Már Sigurðarson ?
Eða hvað hefur Kolbrún gert ennað ,en sagt nei ?
Getur þú nefnt eitthvað ?
JR (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 20:09
Nei, Einar er líklega ekki mikið grænn. En við skulum sjá til; það er merkilegt út af fyrir sig að sjá þegar upp verður staðið hvernig róttækustu græningjunum farnast í svona "árferði".
Ég skil ekki af hverju Jóhanna stígur ekki fram, núna þegar hennar tími er sannarlega kominn og hún meira að segja (og þá er mikið sagt) með sjálfan Jón Baldvin sem stuðningsmann!
Friðrik Þór Guðmundsson, 8.3.2009 kl. 21:23
Ég er sammála þér með Jóhönnu. Hún á að taka við, ekki spurning.
En ég get ekki tekið undir það sem þú segir um Kolbrúnu og Einar Má. Kolbrún er græn, Einar Már er það ekki. Og ég held ekki að það sé ástæða þess að Kolbrún fékk ekki meiri stuðning. Miklu frekar sum mál sem hún hefur staðið fyrir í þinginu undanfarin ár og hafa ekki þótt pappírsins virði, s.s. bleika/bláa málið með nýburana og fleiri í þeim dúr. Hún hefur líka verið gagnrýnd gríðarlega fyrir mál sem varða nauðganir og ýmis kvennamál - síður þó af konum en körlum, ef ég man rétt.
Íslendinga virðist skorta þann samfélagsþroska sem nauðsynlegur er til að skilja umhverfis- og náttúruvernd. Við megum ekki gleyma að kreppur eru tímabundnar en flest náttúruspjöll í þágu stóriðju eru óafturkræf um aldur og ævi.
Og gufuaflsvirkjanir eru hvorki hreinar né endurnýjanlegar í þeim mæli sem áætlað hefur verið að reisa þær á Reykjanesi, Hellisheiði, Hengilssvæðinu og fyrir norðan. Það er baneitruð rányrkja, ekkert annað.
Lára Hanna Einarsdóttir, 8.3.2009 kl. 23:51
Þú ert nú svo græn, Lára Hanna, að það hálfa væri nóg. Auðvitað eiga umhverfis- og náttúruverndarsjónarmið að vera ofarlega á blaði og strangt umhverfismat almennt viðhaft. Ég vil hins vegar meina að talið um "losun per mann" gefi villandi mynd og að það sé beinlínis ranglátt að Ísland eigi ekki að njóta sérstöðu sinnar, með til að mynda Íslenska ákvæðinu. Losun hér er de facto lítil og mengun hverfandi af verksmiðjum yfir það heila tekið. Aðallega er ég að segja að undir núverandi kringumstæðum eigum við erfitt með að klæðast sparifötunum og hefta okkur umfram það sem er bráðnauðsynlegt. Losunarvandamál heimsins liggja hjá þjóðum eins og Kína, Rússlandi, Indlandi, Bandaríkjunum, Brasilíu og örfáum fleiri. Þar eru stóru tölurnar.
Ég er að tala um að Íslenska ákvæðið eigi hið minnsta að ríkja meðan við erum að koma okkur upp úr efnahagslegu ógöngunum. Það er afleitt ef það á að hafna hvers kyns atvinnuuppbyggingu vegna óþarflega róttækra sjónarmiða. Við getum aftur á móti náð okkar "kvótum" með auknu vægi bindingar og slíks.
Friðrik Þór Guðmundsson, 9.3.2009 kl. 01:07
Sko... náttúruvernd og umhverfisvernd eru ólík mál en tengjast þó hér og hvar. Ég hef skrifað um náttúruvernd en nánast ekkert um umhverfismál. Þarna er munur á og ég vísa til skýringar á því í viðtal í tónspilaranum á blogginu mínu merkt: Krossgötur - Ólafur Páll Jónsson um umhverfis- og náttúruvernd.
Ég er ekkert grænni en aðrir almennt séð - nema hvað ég vil vernda náttúruna eins og kostur er fyrir ásælni erlendra hrávinnslufyrirtækja sem leggja lítið sem ekkert til samfélagsins og fara með allan fjárhagslegan ávinning úr landi - og íslenskra og erlendra gróðapunga.
Og ég vil að hlustað sé á þá fáu vísindamenn og sérfræðinga sem þora að segja sannleikann - sem er að gufuaflsvirkjanir spúa eitri yfir okkur og sú nýting sem áætluð er sviptir afkomendur okkar algjörlega auðlindinni í iðrum jarðar fyrir stundarhagsmuni og skyndigróða. Sjá útvarpsefni í tónspilaranum hjá mér merkt A00 - A14. Ef fólk hefur áhuga á að kynna sér sannleikann í þessum málum er það afar auðvelt og aðgengilegt.
Yfirvöld og forseti Íslands vita mætavel að áætlanir um nýtingu orkuauðlinda Íslendinga eru baneitruð rányrkja... en mikilmennskan er öðru æðri og lyginni viðhaldið af spunameistara Össurar og Ólafs Ragnars í þeim tilgangi að selja draum sem ekki stenst í veruleikanum. Hver hagnast veit ég ekki, en það eru hvorki núlifandi né komandi kynslóðir, svo mikið er víst.
Ég get alveg verið sammála þeim sem vilja halda "íslenska ákvæðinu" inni en ég vil fá skýra skilgreiningu á því og síðast þegar ég vissi vorum við hvort sem er búin að gjörnýta það - eða komin langleiðina.
Lára Hanna Einarsdóttir, 9.3.2009 kl. 01:52
Skoðaðu betur þetta með Íslenska ákvæðið. Það er jafn auðvelt og aðgengilegt og að lesa um meinta rányrkju.
Friðrik Þór Guðmundsson, 9.3.2009 kl. 11:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.