Um reiði, hatur, heift og hefnd

Ég get vel skilið að sjálfstæðismenn séu reiðir út í Samfylkinguna fyrir að svipta Sjálfstæðisflokkinn völdum. Bráðnauðsynlegt aðgerð út af fyrir sig og í takt við þjóðarviljann, en ég skil reiðina samt; við erum að tala um flokk og fólk sem telur að völdin eigi að vera í þess höndum og helst engra annarra. Engum öðrum sé treystandi til að "stýra þjóðarskútunni"; aðrir séu almenn eða pólitísk fífl og gott ef ekki skaðvaldar, sem beiti svikum og prettum til að koma snillingunum úr Valhöll frá völdum.

Reiði sjálfstæðismanna er vitaskuld ekki næstum því eins innihaldsrík og réttmæt og reiði þjóðarinnar eftir hrunið. Hún er sértæk og hjá sumum er hún stæk, svo jaðrar við hatur. Sumir sjálfstæðismenn vilja nú ekki gráta Björn bónda, heldur fara út og hefna. Eiturtungur eru virkjaðar, sögur settar á flot og öll vopn notuð.

Berið þetta saman við réttmæta reiði almennings vegna árangurs og afleiðinga af 18 ára samfelldri stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins.

Hitt er annað mál að fleiri en sjálfstæðismenn hafa undanfarið fyllst reiði og farið offari. Mjög margir álitsgjafar leggja sérstakt fæð á suma stjórnmálamenn. Davíð Oddsson og Ingibjörg Sólrún standa vafalaust fremst í flokki slíkra "fórnarlamba". Í sumum kreðsum eru stöku auðjöfrar sérstaklega mikið hataðir að því er virðist, eins og Jón Ásgeir og Bjöggarnir. Það getur verið erfitt að halda aftur af tilfinningunum og stöðva formælingarnar frá því að komast út um munninn. 

Þetta eru að sönnu leiðinleg viðhorf; að stjórnast af reiði, hatri, heift og hefnd. Ég neita því ekki að hafa gerst sekur um ofboðslega reiðilestra. Í þeim reiðilestrum hefur mér einkum verið uppsigað við Davíð Oddsson og aðhaldslausa nýfrjálshyggjukerfið sem hann kom upp. Þessi reiði kraumaði hvað mest í mér í kjölfar bankahrunsins og fjármálakreppunnar. Nú er ég orðinn rólegri og ánægðari (vegna sigurs fólksins). Ég hef enga ósk heitari en að Davíð Oddssyni auðnist að stíga sjálfur til hliðar og setjast á friðarstól, t.d. við skriftir. Ég leyfi mér að vona sömuleiðis að stækustu andstæðingar Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar haldi sér á málefnaplaninu og einbeiti sér að pólitík en ekki persónum.


mbl.is „Ótrúlega ómerkilegt“ af Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Velkominn til mannheima aftur, Friðrik. Núna hljómar þú eins og venjulegur, vel upplýstur blaðamaður

Flosi Kristjánsson, 28.1.2009 kl. 16:16

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sjálfstæðismenn hafa ástæðu til að vera sjálfum sér reiðir og eiga nóg með það. Núna eiga þeir sín tækifæri sem felast í uppstokkun á eigin hugmyndafræði og eftir því bíða margir flokksmenn utan hins volduga samspillingarklúbbs. Þetta hef ég stöðu til að segja því ég hef rætt við og hlýtt á fjölmarga gamla og trausta flokksmenn sem hafa fengið nóg eftir brotlendinguna. Og þeir undrast enn margir hverjir þá afneitun sem yfirstjórn flokksins andar frá sér á degi hverjum. Og við sjáum ótrúlega marga gamla sjálfstæðismenn birta þessar skoðanir sínar hér á blogginu kinnroðalaust. En þetta verður mörgum manninum erfitt og það væri mikil grunnfærni að ætlast til þess af þessu fólki að það lýsi samtundis yfir stuðningi við önnur stjórnmálasamtök.

Árni Gunnarsson, 28.1.2009 kl. 16:28

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hefur þú dottið út fyrir mannheima og hellt þér yfir flokka og fólk, Flosi?

Friðrik Þór Guðmundsson, 28.1.2009 kl. 16:31

4 identicon

Hefur það fengist endanlega staðfest að Lúðvík Bergvinsson verði dómsmálaráðherra? Hvað er Ásgeir Jónsson hjá greiningardeild Kaupþings að gera á samningafundi VG og Samfylkingarinnar? Öll dýrin í skóginum orðin vinir - eða komin til mannheima?

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 16:34

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Engin ráðherraskipan enn staðfest svo ég viti.

Menn innan mannheima segja: Fyrst kvenna til að verða forsætisráðherra.

Menn utan mannheima segja: Fyrsti samkynhneigði forsætisráðherra (lesist: andskotans lespía!).

Friðrik Þór Guðmundsson, 28.1.2009 kl. 16:46

6 identicon

Sjálfstæðismenn þeir kunna ekki að skammast sín,siðblindan er krónísk hjá þessu fólki,ég held að þeir ættu að gefa fólkinu vinnufrið sem nennir þó að taka við og moka flórinn eftir forsmánina.

Það er tilhlökkunarefni að Sjálfstæðisflokkurinn verður sennilega svo gott sem þurrkaður út í næstu kosningum,slík er óánægjan með afraksturinn,eins og nærri má geta.

Kristján Blöndal (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 17:15

7 Smámynd: Einar Þór Strand

Reyndar held ég að Samfylking og VG hafi gert Sjálfstæðisflokknum greiða með að hrekja hann frá völdum, en það á auðvitað eftir að koma í ljós.

Einar Þór Strand, 28.1.2009 kl. 17:15

8 identicon

Já Friðrik þetta er það sem við fáum yfir  okkur !

Sennilega og örugglega það kanski lang skásta af mörgu mjög slæmu í þeim efnum !

Næstum sjötug og næstum því óspjölluð hún Jóhanna af Örk skuli nú ætla að leiða Ríkisstjórn Vinstri flokkana.

Mikið er ég fegin að það skuli ekki vera hrokagikkurinn Stór-svikarinn og fláræðis hægri krata-kerlingin hún Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem sagði ENN og AFTUR OG AFTUR að við værum sko alls, EKKI ÞJÓÐIN sem er þar á fleti fyrir !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 19:54

9 identicon

Ég get vel skylið reiði Sjálfgæðismanna,, Vont að verða fyrir slíkri truflun í miðjum björgunaraðgerðum,, Enn eins og menn muna þá voru á fyrstu dögum notaðir 300 milljarðar til að bjarga reikningum peningamanna sem , sem áttu fé á hávöxtunarreikningum sem bundnir voru að hluta með verðbréfum og skuldabréfum gjaldþrota félaga,, síðan voru 5 milljarðar notaðir til bjargar bílainnflytjendum,, þá fengu kótakóngar 30 milljarða verðmæti í aflakótum,, að lokum tókst að bjarga hr. Loftsyni með 5 ára hvalveiðikóta,, Ég spyr áttu sjálfgæðismenn eftir að að bjarga mörgum úr hópi Smartfólksins áður enn röðin kæmi að gjaldþrota almúgaskrýlnum,,?? Er nema von að samfylkingin hafi verið búin að fá uppí kok,,

Bimbó (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 21:22

10 Smámynd: Jónas Egilsson

Sæll Friðrik Þór.

Vissulega geta einhverjir Sjálfstæðismenn verið spældir með stjórnarslitin, en þegar þegar á heildina er litið hefur flokkurinn bara gott af því að fara í andstöðu, hlaða batteríin ef svo má að orði komast. Ef eitthvað þá á flokkurinn að geta nýtt sér núverandi stöðu og komið sterkur úr. Í öllu falli mun hann ekki fá sömu útreið og hann fékk í sveitarstjórnarkosningunum árið 1978 og alþingiskosningunum sama ár. Hann fær skell í vor eða í næstu kosningum. Stærð hans liggur í því hversu vel flokkurinn vinnur úr þeirri stöðu sem hann er kominn í nú og þeim tækifærum sem honum bjóðast. M.v. útspil "ekki-enn" ríkisstjórnar Jóhönnu, er von á ýmsu fróðlegu og skemmtilegu.

Varðandi Samfylkinguna, þá blasir það við, hverjum sem vill sjá, að hefði Samfylkingin ekki rofið þessa stjórn, hefði flokkurinn hrunið. VG og jafnvel Framsókn etið upp fylgi flokksins frá báðum endum. Það þarf ekki annað en að lesa nokkrar bloggsíður þekktra Samfylkingarmanna til að sjá þetta. Ástandið eins og það var orðið innan þingflokksins, jafnvel innan ráðherraliðsins var alveg með eindæmum. Formaðurinn hafði ekki við að slökkva elda hingað og og þangað í flokknum. Hnífarnir voru vel brýndir. Nýleg orð varaformanns flokksing lýsa þessu nokkuð vel - ekki satt? Hvort formaður Samfylkingarinnar heldur áfram í pólitík ræðst að sjálfsögðu af því hvernig horfir með hennar bata. En "heilsufar" flokksins spilar þar enn stærri rullu.

Það hefði verið fróðlegt að sjá faglega og vísindalega úttekt á þessum stjórnarslitum, hjá blaðamanningu og stjórnmálafræðingnum Friðriki Þór, en ekki Samfylkingarmanninum.

M. kveðju,

Jónas

Jónas Egilsson, 28.1.2009 kl. 22:51

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka þér fyrir innleggið, sjálfstæðismaðurinn Jónas.

Þú segir: "Formaðurinn hafði ekki við að slökkva elda hingað og og þangað í flokknum. Hnífarnir voru vel brýndir. Nýleg orð varaformanns flokksins lýsa þessu nokkuð vel - ekki satt?"

Hvaða eldar voru þetta, Jónas? Var svona mikil andstaða við formann Samfylkingarinnar? Blaðamaðurinn og stjórnmálafræðingurinn í mér segja báðir nei. Voru flokksmenn þá að reyna að koma einhverjum öðrum forystumönnum flokksins frá? Blaðamaðurinn og stjórnmálafræðingurinn í mér segja báðir aftur nei og bæta við; ekki var þessi tiltekni flokkur að klofna vegna ágreinings um eigin persónur og málefni.

 Blaðamaðurinn og stjórnmálafræðingurinn í mér segja báðir að grasrótin í flokknum hafði fengið nóg af stjórnarsamstarfinu, vildi losna við ríkisstjórnarsamstarfið, komast út úr faðmlaginu við Sjálfstæðisflokkinn - og grasrótin vildi fylgja þjóðarviljanum. Hvaða eldar brunnu, Jónas? Grasrótin var ekki með hnífana á lofti til að stinga eigin foringja, heldur til að skera á böndin sem héldu flokknum föngnum í faðmi Sjálfstæðisflokksins. Eldarnir voru hinir sömu og brunnu úti fyrir: Þjóðin að hrópa: Vanhæf ríkisstjórn.

 Blaðamaðurinn og stjórnmálafræðingurinn í mér segja báðir: Það þarf ekki Samfylkingarmann til að sjá þetta. Maður þarf einna helst að vera eitthvað annað en þröngsýnn sjálfstæðismaður!

Friðrik Þór Guðmundsson, 28.1.2009 kl. 23:37

12 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Kannski rétt að bæta við, til undirstrikunar, það sem segir í "haus" þessarar bloggsíðu minnar:

"Bloggið er hins vegar mitt persónulega málgagn, ekki hlutlaus fjölmiðill eða fræðirit."

Og árétta að ég tilheyri engum flokki, er ekki flokksbundinn nokkurs staðar (ólíkt Jónasi) og horfi mjög til nýrra framboða þessa dagana (ólíkt Jónasi).

Friðrik Þór Guðmundsson, 28.1.2009 kl. 23:58

13 Smámynd: Jónas Egilsson

Friðrik.

Nú veit ég ekki hvort mínar skoðanir eru verri eða betri vegna minnar aðildar að öðrum stjórnmálafokki. Mér finnst það koma ekki málinu við. Staðreyndir málsins liggja fyrir félagi.

Eldar: Ertu að segja að allt hafi verið í stakasta lagi þarna? Yfirlýsingar t.d. tveggja ráðherra, þingmanna um kosningar, meðan formaðurinn var í veikindaleyfi og stödd erlendis. Brotthvarf varaþingmanns úr flokknum, hótanir fyrrv. form. Samfylkingarfélags Kópavogs um úrsögn úr flokkum, fundir Samfylkingarfélaga um að rjúfa beri stjórnarsamstarfið - þvert á a.m.k. formlegar yfirlýsingar formannsins. Hvort svo þetta hafi verið liður í einhverju plotti veit ég ekki.

Yfirlýsingar varformanns Samfylkingarinnar um að hann ætli nú að fara til náms í útlöndum (ásamt konu sinni) og sinna þeirri konu sem hann byggi með en ekki þeirri konu sem væri formaður Samfylkingarinnar komu í kjölfar algjörrar niðurlægingar á honum. Ég reyndar kannast við þessan hroka hjá ISG persónulega, en ætla ekki að blanda því inní þessa umræðu.

Þú segir að hinir almennu flokksmenn hafi verið að skera á þessi bönd sem héldu Jóhönnu, Össuri, Þórunnni, Björvini o.fl. í viðjum sjálfstæðismanna. EN hvað fannst þeim sjálfum? Hvað með yfirlýsingar formannsins um að fundarmenn í Háskólabíó töluðu ekki fyrir hönd þjóðarinnar? Í hvaða veruleika vídd var þessi kona? Þetta voru ekkert mótmæli gegn Geir eða Árna. Þetta voru mótmæli gegn ríkisstjórninni, þingmönnum almennt, embættismönnum, kerfinu, lögreglunni og sitthverju fleira. Málið var einfaldlega, að VG voru að eta fylgi Samfylkingarinnar sín megin frá og eftir "endurnýjun" sína var framsókn farin að höggva í fylgi hennar hinumegin frá. Það að verða 3-4 stærsti eða næstminnsti flokkurinn í landinu var einfaldlega meira en innviðir flokksins þoldu.

Ef ég væri bara einn um þessa skoðun, þá hefðu mínar pólitísku skoðanir yfirhöndina. Er bara viss um að svo sé.

Jónas Egilsson, 29.1.2009 kl. 00:05

14 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þú ert eitthvað að misskilja, kommerad Jónas. Ekki á nokkurn hátt hefur það farið framhjá mér að ólga hafi ríkt innan Samfylkingarinnar. og án vafa hafa almennir flokksmenn hugleitt fylgisþróun í samfélaginu. Og mikil ósköp; yfirlýsing ISG við fundarmenn í Háskólabíói voru ekki góð. Og allt það.

Þjóðin vildi ríkisstjórnina burt, það er laukrétt. En ekki bara ríkisstjórnina, heldur alla spillinguna og þessa afskiptaleysis-frjálshyggju sem hafði leitt hrunið yfir okkur. Vildi burt með Davíðskuna.

Hvar eiginlega brunnu ekki eldar? Er Sjálfstæðisflokkurinn ekki að glíma við djúpstæðan ágreining vegna ESB-málanna og myntmálanna? Jú. Voru og eru ekki uppi innan flokksins háværar kröfur um að Davíð Oddsson ætti ekki lengur að verma stól seðlabankastjóra (ég minni á ályktanir Varðar og Sjálfstæðisfélags Akraness, ásamt ummælum Ragnheiðar Ríkharðsdóttur þingmanns)? Jú. Er ekki Sjálfstæðisflokkurinn að missa samkvæmt sömu könnunum gríðarlegt fylgi og ólga vegna þess? Jú. Eru ekki "30-menningarnir", útrásarsnillingarnir, höfuðpaurarnir í hruninu mikla yfirleitt sjálfstæðismenn (með nokkrum framsóknarmönnum)? Jú. Og þarna loga eldar. Líka í framsóknarflokknum, sem nú hefur enda, með sérstöku slökkviliðsstarfi, gengið í gegnum algera endurnýjun.

Allt þjóðfélagið skíðlogaði, innan flokka sem utan. Bálin innan Samfylkingarinnar voru ekki stærstu eldtungurnar, svo mikið er víst. Tókstu eftir því að mótmælin hafa fjarað út við það að Sjálfstæðisflokkurinn er að hverfa úr ríkisstjórn, en halda ekki áfram þótt Samfylkingin sitji áfram í ráðuneytum? Hefur þú tekið eftir almennu ánægjunni yfir því að Jóhanna Siguðardóttir er að verða forsætisráðherra, einn af syndaselunum eða hvað? Tekur þú eftir því að þau mótmæli sem enn eru í gangi snúa einkum að því hver situr enn í stól seðlabankastjóra? Þar er kannski að finna félaga í Verði og Sjálfstæðisélagi Akraness, kannski að Ragnheiður Ríkharðsdóttir sé þar að berja potta?

(Ég vil endilega geta þess að við Jónas vorum nágrannar til margra ára og þessar skilmingar ekki reiðilestur af minni hálfu í hans garð. Bara skilmingar)

Friðrik Þór Guðmundsson, 29.1.2009 kl. 00:36

15 Smámynd: Tjörvi Dýrfjörð

Kæri Jónas. þar sem þú minnist á hótun mína um úrsögn úr Samfylkingunni vil ég segja eftirfarandi.

Hótun mín um úrsögn úr Samfylkingunni var fyrst og fremst vegna þess aðgerðaleysis sem einkenndi ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Ástandið eins og það blasti við mér var að flokkurinn minn virtist endalaust meðvirkur með getuleysi fráfarandi forsætisráðherra að taka á þeim málum sem almenningur í landinu hefur krafist þ.e. breytingar á yfirstjórn efnhagsmála í landinu og fara í beinskeyttar aðgerðir til varnar heimilunum í landinu og uppbyggingu atvinnuveganna. Reiði mín beindist ekki persónulega að Ingibjörgu Sólrúnu heldur þeirri aðstöðu sem flokkurinn virtist fastur í. Krafan um breytingar á á ríkissttjórninni var ólgan innan Samfylkingarinnar sem forysta flokksins þurfti að bregðast sem þau hafa nú gert og þar með sýnt muninn á okkar flokki og Sjálfstæðisflokknum þ.e. að þau hlusta á hinn almenna flokksmann.

Með virðingu og vinsemd.

Tjörvi Dýrfjörð

fyrrverandi formaður og núverandi varaformaður Samfylkingarinnar í Kópavogi

Tjörvi Dýrfjörð, 29.1.2009 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband