28.1.2009 | 12:19
Sjaldgæft fyrirbrigði - ríkisstjórn án helmingaskiptaflokkanna
Ef fram fer sem horfir munum við upplifa afar sjaldgæft fyrirbrigði; ríkisstjórn án ráðherra úr annað hvort eða bæði Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Slíkt hefur aðeins gerst í tímabundnum minnihlutastjórnum og sú er staðan enn á ný, enda má ekki gleyma því varðandi yfirstandandi stjórnarmyndun, að um er að ræða minnihluta-starfsstjórn fram að kosningum. Starfsstjórn sem hefur lítinn tíma og getur fáu komið til leiðar.
Íslensk stjórnmál hafa meira og minna verið mótuð af Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, eiginlega alla síðustu öld- allt lýðveldistímabilið. Völd Framsóknarflokksins hafa verið langt umfram kjörfylgi í gegnum tíðina, aðallega vegna hins mikla misvægis atkvæða í kosningakerfinu. Völd Sjálfstæðisflokksins hafa betur fylgt kjörfylginu, en þráseta flokksins við kjötkatlana er þó langt umfram það sem gengur og gerist í öðrum lýðræðisríkjum Vesturlanda miðað við sambærilega hægriflokka. Aðrir flokkar hafa setið stutt að völdum (undantekning er Alþýðuflokkurinn í Viðreisnarstjórninni) og ávallt í spennitreyju kjötkatlaflokkanna.
Kannski má segja að á tímabilinu 1960-1995, í aldarþriðjung, hafi þetta ekki skipt eins miklu máli og síðar varð. Á því tímabili má segja að nokkuð víðtæk samstaða hafi myndast um uppbyggingu velferðarkerfis innan markaðsbúskaparins; menn voru flestir sammála um blandað hagkerfi og að bæta hag alþýðunnar með ýmsum úrræðum. Völd og áhrif viðskiptaelítunnar (Kolkrabbans, SÍS og fleiri) voru mikil en ekki endilega alltumlykjandi (miðað við það sem síðar gerðist). Þetta breyttist þegar kjötkatlaflokkarnir byrjuðu að frjálshyggjuvæða samfélagið og einkavinavæða á fullu. Lengi vel, þegar vel áraði, sætti fólk sig við ört vaxandi stéttamun og spillingu; meðan það sjálft hafði það ágætt, hafði vinnu og gat borgað skuldir sínar. Þegar hrunið kom sá fólkið hins vegar auðjöfrana og bankamennina standa vel fyrir utan rústirnar með allt sitt á hreinu, í góðu skjóli yfirvalda.
Og þjóðin sagði stopp.Það er táknrænt að til sé að verða ríkisstjórn án kjötkatlaflokkanna. Að vísu minnihlutastjórn og starfsstjórn fram að kosningum, en kannski lengur ef kjósendur hafa engu gleymt þegar þeir mæta í kjörklefann.
Fundað um stjórnarmyndun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Flottur pistill Lilló!
Það spilar náttúrlega líka innn í að það var augljóst að björgunaraðgerðir eftir hrun miðuðust við að bjarga eignafólki, ekki skuldurum. Það sáu þetta flestir og gengu um með gallsúrt bragð í munni.
Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 16:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.