19.11.2008 | 11:40
Steingrímur Joð trúir Davíð eins og nýju neti
Það er athyglisvert og sérkennilegt að lesa í Fréttablaðinu í dag hvernig Eftirlaunalaga-Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, kýs að trúa Davíð Oddssyni eins og nýju neti og fara að bendingum hans - og koma sökinni á Hruninu yfir á Björgvin G. Sigurðarson bankamálaráðherra.
Leiðtogi sósíalista á Íslandi segir þar að ræða Davíðs hafi verið athyglisverð og málefnaleg, að einblínt hafi verið um of á Seðlabankann, en ábyrgðin liggi hjá FME og Björgvini G. Sigurðssyni bankamálaráðherra. Eins og sumir aðrir kýs Eftirlaunalaga-Steingrímur að horfa til meintra aðvörunarorða Davíðs í febrúar en horfa framhjá skínandi jákvæðu heilbrigðisvottorði Davíðs í maí.
Hvers lags eiginlega er þetta?! Er formaður VG kominn í hóp örfárra eftirstandandi aðdáenda Davíðs? Væri ekki nær að formaður sósíalista á Íslandi horfði til ábyrgðar þeirra sem stjórnað hafa landinu í nær tvo áratugi svo gott sem samfleytt og hafa byggt upp hið tjúllaða nýfrjálshyggjukerfi og hannað eftirlitskerfið með því, sem hafa framfylgt einkavina- og frelsisvæðingarprógramminu? Er það virkilega niðurstaða formanns sósíalista að Davíð sé góður og saklaus en vondi maðurinn í Hruninu mikla sé Björgvin G. Sigurðsson?
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með einstökum bönkum en Seðlabankans er að viðhafa "kerfislægt" eftirlit. Svo sagði formaður stjórnar FME í gær og ræða Davíðs staðfestir þetta í raun. Með öðrum orðum átti Seðlabankinn að fylgjast með "kerfislægum" vandamálum. Í maí sl. gaf Seðlabankinn út glimrandi gott heilbrigðisvottorð fyrir bankana kerfislægt. Það fékk bankamálaráðherrann í hendurnar en svo virðist sem Ingibjörg Sólrún hafi ekki séð ástæðu til að nefna við hann loðin aðvörunarorð Davíðs þremur mánuðum fyrr. Hún (og Geir) hefur kannski ekki tekið mark á Davíð, eins og Eftirlauna-Steingrímur gerir.
Eða eru orð formanns sósíalista á Íslandi kannski sögð eftir samráð við fulltrúa VG í bankaráði Seðlabankans, Ragnar Arnalds? Sem vel að merkja hefur EKKI sagt sig úr stjórn Seðlabankans!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Friðrik, þessi ræða var nú leiðinleg fyrir ykkur Samfylkingarfólkið og olli miklum titringi þar á meðal. Þingflokkurinn hélt neyðarfund í gær og þaðan kom fólk sjokkerað út.
Nú stendur Samfylkingarfólk í biðröð við handvaskinn til að þvo hendur sínar af banka- og auðmanndekrinu, og segir; "Ekki benda á mig" segir þetta fólk með geislabaug sem er marg búið að líma saman.
Solla er farin að éta í sig hrátt eitthvað af gagngrýni sinni á Davíð, segir m.a. að gagngrýni hennar sé ekki á störf Davíðs hjá Seðlabankanum, heldur á pólitískri fortíð hans - (sick!) ég fæ aulahroll að heyra svona vitleysu. Hvernig getur manneskjan verið svona heimsk að láta þetta út úr sér? Þar kom hún upp um sig.
Það vita allir að þetta einelti Sollu og Samfylkingarinnar á hendur Davíð er rótgróið hatur hennar á manninum síðan hann grillaði hana í borgarstjórn hérna um árið.
Samfylkingin er flokkur sem fer nún undan í flæmingi og þykist hvergi við koma.
Jónas Hlöðvar Björnsson (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 11:54
Ég held ég láti þessa grátbroslegu athugasemd eiga sig! Aulahroll!
Friðrik Þór Guðmundsson, 19.11.2008 kl. 12:13
Sælir piltar,
Ég held að setningin: "Í maí sl. gaf Seðlabankinn út glimrandi gott heilbrigðisvottorð fyrir bankana kerfislægt.", sé nú heldur orðum aukið.
Vísa annars í eftirfarandi kafla úr ræðunni sem gott getur verið að lesa vel.
"Seðlabankar heimsins, líka þeir sem misst hafa frá sér bankaeftirlitið
vegna þeirrar tísku sem þá réði, að best væri að skilja slíka þætti að, gefa
flestir a.m.k. árlega út skýrslu um fjármálalegan stöðugleika í
viðkomandi landi. Sjálfsagt eru slíkar skýrslur eins og aðrar mismikið
lesnar og auðvitað minnst þegar allt virðist vera í blóma og sóma í
bankakerfum og fjármálalegu umhverfi.
Óhugsandi er auðvitað að nokkur seðlabanki, hversu órólegur sem hann
væri um fjárhagslegt umhverfi sitt, myndi nokkru sinni segja í slíkri
skýrslu að öll tákn bentu til að bankar í hans landi, einstakir, jafnvel
margir, svo ég tali ekki um allir, stefndu innan skamms eða rakleiðis í
þrot. Slíkir spádómar gætu nefnilega ræst fyrir sinn eigin tilverknað.
Spáin yrði sem sagt gerandinn í málinu. Stöðugleikaskýrslur verða því
að taka mið af slíku og lesendur þurfa að lesa þær með þetta í huga.
Yfirskrift síðustu skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálalegan
stöðugleika sem birt var í maí sl. var á þessa leið: „Ríkjandi aðstæður
reyna á viðnámsþrótt bankanna.“ Ef þið hafið í huga það sem áðan var
sagt um hvað seðlabankar geta í raun leyft sér að segja opinberlega, þá
ber þessi yfirskrift með sér og er ljós öllum sem læsir eru á svona efni,
að Seðlabanki Íslands hafði áhyggjur af stöðu og þróun íslenska
bankakerfisins þegar þessi skýrsla kom út. En allt að einu sagði bankinn
einnig í skýrslu sinni að á heildina litið væri fjármálakerfið enn traust, en
þörf væri á viðbúnaði. Þótt Seðlabankamenn hér sem annars staðar tali
alla jafna varlega og stundum örlítið þokukennt, þá eru það hreinar
rangfærslur að segja, að forráðamenn Seðlabanka Íslands hafi ekki fyrir
löngu gert sér grein fyrir stöðunni né varað við henni. Það var gert bæði
ítarlega út á við og enn ítarlegar inn á við. Vegna þess atgangs sem orðið
hefur og ótrúlegra rangfærslna kemst ég ekki hjá því að rifja upp nokkur
dæmi. Nefni ég þá til sögunnar bæði nokkur atriði sem fram komu
opinberlega og einnig það sem yfirvöldum var sagt bak við luktar dyr og
í góðan tíma."
Góðar kveðjur,
Rýnir, 19.11.2008 kl. 12:18
Að sjálfsögðu verða Seðlabankar og seðlabankastjórar að tala varlega í ræðum og skýrslum og vitaskuld ekki tala þannig að orð þeirra komi hruni af stað. En þetta með glimrandi gott heilbrigðisvottorð í maí er alls ekki orðum aukið. Miðað við orð Davíðs sjálfs var skýrslan (vottorðið) í maí RANGUR MÁLFLUTNINGUR.Og "álagsprófin" sömuleiðis. Bara áróður fyrir almenning meðan sumir vissu betur.
Er það til að ekkert hrynji, að Seðlabankastjóra er ætlað að hvísla aðvörunarorðum að forsætisráðherra á leynifundum en birta almenningi jákvæðar skýrslur sem segja ósatt? Var eitthvað virkilega að því að segja bara hreint út í febrúar; bankarnir verða að styrkja sig og Seðlabankinn verður að auka gjaldeyrisforðann? Hefði það fellt allt saman?
Ég gleypi það ekki að svona eigi málin að vera. Seðlabankinn á auðvitað að geta sent frá sér alvarleg en pent orðið aðvörunarorð án þess að allt hrynji, enda væri tekið mark á viðvörunarorðunum í því skyni að laga stöðuna. Að öðrum kosti er ekki hægt að taka nokkurt mark á skýrslum og álagsprófum: slíkt segi aðeins það sem má segja en ekki það sem á að segja.
Friðrik Þór Guðmundsson, 19.11.2008 kl. 12:44
Mikið virðist vera erfitt að vitna rétt í Steingrím. Hann sagði vissulega að ræðan hefði verið athyglisverð (og eru ekki allir sammála um það?) en hann sagði ekki að hún hafi verið málefnaleg heldur var hann að tala um eitt ákveðið atriði í ræðunni. Í greininni sem er í vísað en þó án vísunar (enda líta orð Steingríms ekki illa út í samhengi) lagði hann líka áherslu á að sektin sé sameiginleg ríksstjórnar, FME og Seðlabanka.
Hvað varðar Björgvin þá sést hans hlutur best á því að þegar ljós var hvert stefndi ákvað hann að taka af netinu alla pistla sína. Hann er bankamálaráðherra og ber ábyrgð eftir því.
Óli Gneisti (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 12:55
jæja,
ef einhverntíma hefur verið tími til andsvara Lillo þá er það núna. Ég held að það sé barnaskapur að ætlast til þess að Davíð léti bankakerfið hrynja í maí með einhverjum dómsdagsorðum yfir bankastarfssemina í landinu.
Mikið óskaplegar byrðar setja Samfylkingartruntur á einn mann og athyglisvert að þau skuli ekki treysta eigin mannskap fyrir slíku valdi eins og því að fella bankana með einni fréttayfirlýsingu.
Ég hef ekki séð orð Davíðs hrakin!
Aftur á móti sé ég menn sprikla í útúrsnúningum eins og hænur á leið til slátrunar. Ekki skrýtið þar sem öllum þingheimi er um að kenna hvernig fór.
Hvað fynnst ykkur þá um það að einn maður Jón Ásgeir Jóhannesson skuli skulda 1000 milljarða til þriggja stærstu bankanna? Þótti ástæða til að koma upplýsingum um þetta til bankanna?
nei. Jafnvel þótt upphæðin væri hærri en eigið fé bankanna til samans. Hvaða fleiri mál sverma í þessum ríkisbönkum í skjóli bankaleyndar?
Í framhaldi getum við spurt hvernig lánsfénu verður varið ef ekki til að reisa þessa óræktuðu inræktargarða sem gjaldþrota bankarnir eru?
En endilega ræðum ekki um Jón Ásgeir, það er náttúrulega persónulegt skítkast ekki satt, aldrei að ræða einstaklinga. Svo ætlar hann að redda fjölmiðlunum út úr rekstrarvanda sínum,,,þannig að hush hush,,,,þar liggja náttúrulega raunveruleg völd í þjóðfélaginu
sandkassi (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 13:17
Sælir aftur,
ef Seðlabanki / bankastjóri seðlabanka segir að einhver banki standi illa að vígi, sérstaklega í eins viðkvæmu árferði og ríkt hefur hvað varðar lausafjárstöðu, mun bankinn standa illa. Einfaldlega vegna þess að traust á viðkomandi fjármálastofnun myndi gufa upp á augabragði við það. Lánardrottnar myndu að öðru óbreyttu þá loka umsvifalaust á allar lánalínur og innistæðueigendur rjúka til og bankinn yrði gjaldþrota. Traust er lykilatriði bankarekstri.
Annars vísist sem fyrr í ræðuna: "Yfirskrift síðustu skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálalegan stöðugleika sem birt var í maí sl. var á þessa leið: „Ríkjandi aðstæður reyna á viðnámsþrótt bankanna.“ Ef þið hafið í huga það sem áðan var
sagt um hvað seðlabankar geta í raun leyft sér að segja opinberlega, þá
ber þessi yfirskrift með sér og er ljós öllum sem læsir eru á svona efni, að Seðlabanki Íslands hafði áhyggjur af stöðu og þróun íslenska
bankakerfisins þegar þessi skýrsla kom út.".
Það var orðið vel ljóst að Seðlabankinn myndi ekki stækka gjaldeyrisvaraforðann í samræmi við stærð efnahagsreikning bankanna. Einfaldlega vegna þess að það væri óráð. Ég sem skattborgari er sáttur við það. Kannski hefðu aðrir skattgreiðendur gjarnan viljað borga það úr eigin vasa en það er vissulega þeirra mál.
Þú kannski verður svo vinsamlegur að rökstyðja, t.d. benda á með hvaða hætti (t.d. vísa í skýrsluna beint) hvernig hún getur talist jákvæð umsögn og borið með sér að engra sérstakra aðgerða væri þörf, þegar á heildina er litið og fyrrgreind orð eru höfð í huga?
Góðar kveðjur,
Rýnir, 19.11.2008 kl. 13:26
Skal gert Rýnir. Skýrsla Seðlabankans í maí: "Á heildina litið er niðurstaða Seðlabankans enn sú að fjármálakerfið sé í meginatriðum traust. Íslenska bankakerfið uppfyllir kröfur sem gerðar eru til þess og stenst álagspróf sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafa gert... Ársreikningar íslenskra fjármálafyrirtækja fyrir árið 2007, sérstaklega þriggja stærstu bankanna, sýna enn sem fyrr að þeir eru þróttmiklir. Eiginfjárstaða, arðsemi og lausafjárstaða þeirra er viðunandi. Álagspróf Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans staðfesta þetta. Rekstraruppgjör bankanna fyrir fyrsta fjórðung þessa árs (innskot - jan, feb, mars 2008) er í samræmi við það mat". Og áfram: Samanlögð lausafjárstaða bankanna var á vormánuðum "vel varin fyrir breytingum á gengi krónunnar". Auk þess var vitnað í STRANGARI innri reglur bankanna: "Um áramót áttu allir bankarnir laust fé til að mæta skuldbindingum án markaðsaðgengis til næstu 12 mánuða". Í ræðunni sagði Davíð hins vegar um þessa maí-skýrslu, eins og þú nefnir: „Ríkjandi aðstæður reyna á viðnámsþrótt bankanna.“
Hvað á að segja og hvað má segja? Hvaða orð valda hruni og hver ekki? Er kerfið okkar virkilega þannig að það má ekki segja sannleikann, þótt með varlegum orðum sé, en birta þess í stað "uppbyggjandi" skýrslur? Er ekki eitthvað bogið við það?
Að öðru leyti: Ég er orðinn nokkuð þreyttur á að svara fyrir meintar árásir á einn mann, Davíð Oddsson. Ég hef ekkert dregið dul á ábyrgð annarra, síst af öllu ábyrgð Samfylkingarinnar. Í gagnrýni minni á Davíð hef ég minnst rætt framgöngu hans sem Seðlabankastjóri en miklu heldur rætt um það samfélagskerfi sem ekki síst hann þróaði sl. tvo áratugi og hefur nú hrunið. Ég dreg ekkert í land með það. Um þetta er rætt í síðustu færslu, en hér var ég að ræða hvernig formaður sósíalista á Íslandi kýs að finna helsta sökudólginn í Björgvini G. Sigurðssyni, frekar en í nýrfjálshyggjunni og öllum hennar fylgifiskum.
Í því sambandi, Óli Gneisti, veit ég ekki til að ég hafi slitið orð Steingríms úr samhengi. Hann mærir Davíð og fylgir putta hans og bendir á Björgvin. Miklu nær er að benda á ráðherra efnahagsmála en ráðherra bankamála, ekki síst með í huga að Geir og Solla fengu meint aðvörunarorð Davíðs beint í eyra og bera ábyrgð á því.
Til áréttingar: Samfylkingin ber sína ábyrgð og mun súpa seiðið af því. Ábyrgð þeirra flokka sem að mestu hafa stjórnað síðustu 17-18 árin þar á undan er hins vegar töluvert meiri og alvarlegri. Þar í liggja þær undirstöður sem hrundu.
Gunnar: "Ég held að það sé barnaskapur að ætlast til þess að Davíð léti bankakerfið hrynja í maí með einhverjum dómsdagsorðum yfir bankastarfssemina í landinu". Sérðu ekki hversu vitlaus þessi orð eru? Er ekki reginmunur á "dómsdagsorðum" og því að segja eitthvað pent sem liggur nær sannleikanum? Finnst þér virkilega að það eigi að ljúga að okkur almenningi um góða stöðu bankanna, svo þeir hrynji ekki? Hvernig á maður þá annars að lesa svona skýrslur? Á að hengja þær upp sem skraut?
Friðrik Þór Guðmundsson, 19.11.2008 kl. 14:04
Fyrirgefðu Friðrik, ég hef greinilega hitt Samfylkingarhjarta þitt með athugasemd minni. Þú virðist ekki geta hrakið það sem þar stendur. Þú ert grátbroslegur að láta áróðursvélar Samfylkingarinnar gera þig svona bláeygðan.
Næsta laugardag munu leigupennar og fótgönguliðar Samfylkingarinnar smala saman saklausu fólk til að mótmæla nánast einu, Davíð Oddssyni. Ég spyr bara, hvað hefur maðurinn gert af sér?? Sá yðar sem sindlaus er, kasti fyrsta steininum.
Þetta er að sjálfsögðu allt saman Davíð að kennar hverning komið er fyrir okkur, líka hvernig kreppan hófst í Bandaríkjunum á síðasta ári. Og auðvitað er kreppan 1929 honum líka að kenna, ekki satt?
Ég fyrirgef þér brenglaðar skoðanir þínar í pólitík, þú getur ekkert gert að því þó að þú hafir leitir áróðursvélar Samfylkingarinnar heilaþvo þig.
Jónas Hlöðvar Björnsson (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 14:25
Þú ferð beinlínis rangt með orð Steingríms. Þú ættir að sjá sóma þinn í að vitna orðrétt í hann.
Annars er ég með ágæta grein eftir Björgvin á blogginu mínu. Skrifuð þremur vikum fyrir hrun.
Óli Gneisti (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 14:37
Jónas: Er þetta misritun hjá þér eða er nafnið Hlöðvar virkilega til?
Ég svaraði ekki fyrri athugasemd þinni af því að þar var engu að svara. Ekkert að hrekja, bara bull. Eins og þeta, að halda því virkilega fram að mótmælin á Austurvelli tengist Samfylkingunni á einhvern sérstakan hátt!
Þú virðist ætla mér að svara fyrir eitthvert Samfylkingarfólk. Ekki veit ég af hverju þú ætlar mér það hlutverk. Hvenær tók ég að mér slíkt hlutverk? Ég er ekki í Samfylkingunni. Hjarta mitt slær ekkert sérstaklega með henni. hvers vegna og út frá hverju gengur þú út frá slíku?
Heilaþvottur! OMG!
Óli Gneisti: það er rétt, ég vitnaði ekki með nákvæmlega réttum hætti í Steingrím, afsakaðu það. En ekkert breytir því að af öllu því fjölmarga sem Davíð sagði í ræðunni þá tekur Steingrímur þetta út sérstaklega og finnur sérstaka ábyrgð hjá bankamálaráðherra og engum öðrum.
Gangi þér annars vel að finna sakir á Björgvin. Ef þið Steingrímur teljið hann vera höfuðpaurinn þá er það ykkur að sjálfsögðu frjálst. En fólkið þarna úti, alþýða manna, sér sökina annars staðar, eins og skoðanakannanir hafa sýnt. Kannski er það ofureðlilegt að í vinstri sveiflunni bendi VG sem mest á Samfylkinguna. Ég get skilið það.
Friðrik Þór Guðmundsson, 19.11.2008 kl. 15:03
er ekki kominn tími á að hætta þessum flokkadráttum alltaf hreint?
er ekki kerfi sem hægt er að keyra í þrot með einni skýrslu frekar sjúkt .. jafnvel firra.
í samfélagi sem ekki er hægt að segja sannleikann vegna þess að þá fer samfélagið í gjaldþrot getur ekki verið gott að vera.. þá vel ég frekar sannindin og alveg sama hvort hann er blár, rauður eða grænn! menn eiga að taka ábyrgð sem fylgir þeirra embættum og ekkert bull svo geta menn hreinsað nafn sitt í ævisögum fyrir næstu jól!! Takk fyrir takk
Hinrik Þór Svavarsson, 19.11.2008 kl. 15:05
Óli Gneisti: "engum öðrum" er ofsagt hjá mér. hann nefnir FME og ríkisstjórnina. Eftirlaunalaga-Steingrímur nefnir ekki Davíð, nefnir ekki Seðlabankann, nefnir ekki bankaforkólfana, nefnir ekki einkvinavæðinguna og ekki nýfrjálshyggjuna. Hann nefir sem sagt ekki undirstöður þess kerfis sem hrundi, en kýs að nefna sérstaklega einn hliðarvörðinn sem aðalsyndasel.
Hvað ætli Ragnar Arnalds segi, fulltrúi VG í bankaráði Seðlabankans?
Hinrik; takk fyrir innleggið, ég er sammála.
Friðrik Þór Guðmundsson, 19.11.2008 kl. 15:11
Ertu ekki að vísa í þessa frétt sem endar á orðunum:
?
Óli Gneisti (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 15:27
Sýnist að vald Davíðs yfir ríkisstjórninni sé stórkostlega ofmetið.
Samfylkingin og "samskipti" "gleymska" ráðamanna þar hafa augljóslega spilað mikið stærri rullu í hörmungunum þjóðarinnar en áður var þekkt.
Davíð einn af aðaðleikurunum hefur þó dug og þor til að fara fram á óháða erlenda rannsókn á atburðunum, á meðan gungurnar væla um að það ekki meigi alls ekki fara út í "nornaveiðar".
Ja svei.
joð (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 16:20
Jú Óli Gneisti, ég er að vísa í þetta og gerði það ekki nákvæmlega og baðst afsökunar á því. Ég var enda miklu heldur að fjalla um "útsýni" Steingríms á tiltekin atriði þegar öll ræða Davíðs var undir. Honum finnst að einblínt hafi verið um of á Seðlabankann (Davíð) "þegar hin raunverulega ábyrgð liggur hjá Fjármálaeftirlitinu og viðskiptaráðherra" bætir hann við og telur Davíð hafa verið málefnalegan hvað þetta varðar.
Er það virkilega málefnaleg niðurstaða formanns sósíalista á Íslandi að raunveruleg ábyrgð á því hvernig fór liggi hjá FME og bankamálaráðherra? Hann bætir síðan Seðlabanka og ríkisstjórn við upptalninguna í tali um sameiginlega ábyrgð, sem virðist á einhvern hátt vera önnur en raunveruleg ábyrgð.
Hvar er ábyrgð ríkisstjórna Davíðs Oddssonar og bankaforkólfanna frá sjónarhóli formannsins? Hvar er ábyrgð þeirra sem einkavina- og frelsisvæddu og byggðu almennt upp það undirstöðulausa kerfi sem hrundi? Ef eftirlit FME og Seðlabankans brást var þá ekki eitthvað að þeim tólum og tækjum sem þessar stofnanir fengu í hendurnar frá höfundum kerfisins? Ábyrgð á hverju er formaðurinn annars að tala um?
Við munum sjálfsagt aldrei lesa í orð Steingríms með sömu gleraugunum, Óli, en ég fæ ekki betur séð en að Steingrímur sjái sér hag í því að koma sem mestri sök á Björgvin G. Sigurðsson og Jón Sigurðsson (formann stjórnar FME), kannski til að pikka upp sem flest atkvæði vinstrisveiflunnar.
Friðrik Þór Guðmundsson, 19.11.2008 kl. 16:24
Semsagt: Þó að Steingrímur segi einmitt að ábyrgðin að sinna eftirlitshlutverkinu ekki nægilega vel liggi sameiginlega hjá FME, Seðlabankanum og Viðskiptaráðuneytinu þá hefur þú ákveðið að hunsa það.
Áttar þú þig á hvers vegna Steingrímur er að segja að þetta sé málefnalegt hjá Davíð? Það er af því að Davíð er í raun að gagnrýna það sem hans eigin ríkisstjórn gerði (aðskilnað FME og Seðlabanka) og þá að einhverju leyti að segja að þetta hafi verið sín sök. Það finnst Steingrími greinilega lofsvert.
Ég veit ekki betur en að Steingrímur hafi ítrekað talað um ábyrgð einkabankanna og þeirra sem stóðu að einkavæðingaferlinu. Þarna er hans hins vegar að tala um eftirlitshlutverkið sem er bara allt annað mál.
Það að halda að Steingrímur sé sérstaklega að ofsækja Samfylkinguna er bara bjánalegt. Þarna eru Samfylkingarmenn sem stjórnuðu apparötum sem augljóslega brugðust. Samfylkingin sjálf hefur verið að reyna að koma allri sök á Seðlabankann til að fría sig en það er bara ekki sannfærandi og það er ekki satt.
Óli Gneisti (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 17:05
Hvernig væri nú að segja manni hvað Davíð á að hafa gert með einföldum hætti - svona eins og að 2 + 2 séu = 4 ?
Nú eða eins og Jón Baldvin segir, þ.e. í fyrsta lagi o.s. frv. !
Hefur Davíð ekki hreinlega sætt einelti fullorðinna?Þórleifur Árnas. (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 17:43
Held að Þórleifur hafi rétt fyrir sér. Afar stór vandi og partur af óeiningunni og hvers vegna að lítil samheldni um hvaða aðgerðir í þessum málum, hafa sennilega mest um hans persónu að gera, frekar en hversu rangt eða réttar framkvæmdir Seðlabankans hefur verið.
Segist hugur að hann sé múlbundinn endanlegum skoðunum misvitra ráðherra og ríkisstjórnarinnar.
Á meðan synda stórlaxarnir, og þeir sem bera mesta ábyrgð á hörmungunum, með peninga þjóðarinnar á brott.
Að egna landsmenn upp í svona heimskan hanaslag er akkúrat sem þeir ætluðu sér.
Og heppnaðist fullkomlega.
joð (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 17:56
Davíð er búinn að vera og þarf að koma honum frá hið snarasta enda nýtur hann ekki traust til starfa sinna hjáneinum nema Geir. En eitt má hann Davíð eiga að hann segir þó hálfan sannleika. Hann þarf að afrugla en hann kemur með upplýsingar til fólks sem það annars hafði ekki. Ég fékk fleiri fékk fleiri vopn í minni baráttu fyrir mínu heimili í ræðu Davíðs en síðustu 5 fundum Geirs og Ingibjargar.
Héðinn Björnsson, 19.11.2008 kl. 17:59
Hvad var Ingibjörg Sólrún ad gera til Kaupmannahafnar 11. mars sídastlidinn? Jú, hún var thar ásamt Sigurdi Einarssyni ad tala upp íslenzku bankana. Thetta eftir ad henni mátti vera ljóst ad bankarnir staedu illa eftir skýrsluna í febrúar, bara nokkrum vikum ádur. Samt fer hún erlendis og lýgur thar vísvitandi ad Dönum og ödrum sem áttu mikid undir fyrirtaekjum og bönkum í íslenzkri eigu.
Danirnir kölludu thetta " hör-nu-här-för-fanden-konference" sjá
http://www.business.dk/article/20080312/finans/80312170/&templ
S.H. (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 18:13
Friðrik Þór Guðmundsson, 19.11.2008 kl. 20:12
Mér sýnist þú ekki ná grunnatriði í þessu. Steingrímur var ekki að tala um málið í heild heldur einungis eftirlitshlutverkið. Það er ábyrgðin sem Steingrímur er að tala um.
Ég verð annars að biðja um að ég sé ekki kallaður sósíalisti. Ég er það ekki og ég held að það sé neitt rosalega mikið af þeim í VG. VG er með ákaflega hóflega vinstristefnu miðað við klassískan sósíalisma. Við sjáum þetta betur núna þegar raunverulegir sósíalistar eru farnir að tjá sig. Þeir kalla VG Krataflokk og Samfylkinguna einfaldlega hægri flokk.
Óli Gneisti (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 20:51
Þetta er allt saman rétt hjá þér Friðrik og mótmæli sumra á síðunni eru dæmigerð þegar Davíð á í hlut. Þeir breytast í hænsn sem geta ekki hugsað rökrétt þegar Foringi þeirra talar. Svo einfalt er það. Davíð á stóran þátt í þessu falli. Sem forsætisráðherra þá einkavæddi hann bankana ma. með því að handvelja kaupendur Landsbanka. Lækka skatta í þenslutímum og þar með stórauka alla neyslu, en margir hagfræðingar vöruðu við þessu sem leiddi til mikillar skuldsetningar almennings. Peningamálastefnan frá 2001 er hans og hans aðdáenda, með alltof sterkri krónu þa. kaupmáttur var í raun falsaður. Bankarnir þöndust út meðan hann var forsætisráðherra og margir vöruðu við því. Davíð svaraði ávallt með skætingi, enda kemst hann alltaf upp með það þegar hann á aðdáendur eins og Jónas og Rýni. Verra eftirlitskerfi hannaði hann og setti í raun alltof lítið fjármagn til almenns bankaeftirlits.
Nú sem seðlabankastjóri þá lækkaði hann bindiskyldu bankanna í stað þess að lækka hana og þar með að hamla frekari þenslu erlendis.
Síðan kemur hann í dag og skýtur í allar áttir. Og hinir dæmigerðu Davíðs rassasleikjar taka að sjálfsögðu undir. Ömurlegt !
Gísli (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 22:18
Nei, Óli Gneisti, sjálfsagt er ég ófær um að greina grunnatriði málsins. Hitt sé ég að þar sem vitnað er í Steingrím um einmitt eftirlitshlutverkið þá er eitthvað skrítið á ferð hjá honum:
„Það hefur verið einblínt um of á Seðlabankann, þegar hin raunverulega ábyrgð liggur hjá Fjármálaeftirlitinu og viðskiptaráðherra," segir Steingrímur um gagnrýni Davíðs á aðskilnað Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins. „Þetta var málefnalegt hjá Davíð og rétt að greina það."
Þarna segir að Steingrímur sé að svara fyrir um gagnrýni Davíðs á aðskilnað Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins. Það hefur þá verið spurning fréttamannsins, ekki satt? Ekki aðskildi núverandi bankamálaráðherra þessar stofnanir - heldur Davíð og Finnur Ingólfsson þáverandi bankamálaráðherra og verðandi auðjöfur, árið 1998. Hvað er þá svona "málefnalegt"? Jú líkast til ef Steingrímur hefur verið að meina Finn! Kannski var hann bara eftir allt saman að meina Finnur og blaðamaðurinn að klúðra.
Sveinn Elías; Eftir síðustu kosningar reyndi Steingrímur sitt ýtrasta til að setjast í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum (reyndu ekki að afneita því). Til að það hefði getað orðið hefði VG þurft að slá af ca. helmingi af kröfum sínum, ekki satt. Hvaða kröfur og kosningaloforð hefðu fokið út í buskann? Á hvaða prinsippum hefðu menn staðið no matter what? Hefði VG krafist afnáms á öllu "kerfi Davíðs" og fengið það hnökralaust í gegn? Hefði flokkurinn þá samt sest í ríkisstjórn með Íhaldinu?
Ég ætlaði að hætta þessu karpi en þá hringdi VG-vinur minn frá Danmörku og fór að húðskamma mig fyrir að "dissa" Steingrím. Ég minnti hann á að um langt árabil hefði ég ekki vikið einu einasta styggðaryrði að VG-mönnum á meðan hann hefði ausið reglulega svívirðingum yfir ekki síst Samfylkinguna. Fékk lítinn hljómgrunn. En af því að kær vinur minn hringdi og var auðheyrilega afar sár fyrir hönd Steingríms þá ætla ég að draga í land, enda mesta reiðibylgjan yfirstaðin:
Í færslunni færði ég auðvitað í stílinn, með upphrópunum og ýkjum og hafði að leiðarljósi, eins og oft áður, pistla Magnúsar Kjartanssonar í Þjóðviljanum (ég veit að ég kemst ekki í hálfkvist á við hann, svo þið þurfið ekki að segja það). Eftirlaunalaga-Steingrímur er ósanngjarnt uppnefni, þótt hann hafi samþykkt innihaldið fyrir hönd flokks síns. Spurningunni "Er formaður VG kominn í hóp örfárra eftirstandandi aðdáenda Davíðs?" er auðsvarað með nei-i. Spurningunni "Er það virkilega niðurstaða formanns sósíalista að Davíð sé góður og saklaus..." er sömuleiðis auðsvarað með nei-i. Og ég veit ekki til þess að Steingrímur taki mark á orðum Davíðs. Þá eru það ýkjur og áróðursbrögð og ekki bókstaflega meint þegar ég segi í kommenti: "formaður sósíalista á Íslandi kýs að finna helsta sökudólginn í Björgvini G. Sigurðssyni, frekar en í nýfrjálshyggjunni og öllum hennar fylgifiskum". Annað blasir við.
Friðrik Þór Guðmundsson, 19.11.2008 kl. 22:38
Þótt ég sé undir dulnefni og óvelkominn þess vegna, þá ætla ég samt að þakka Friðrik fyrir góð pólitísk skrif, þótt ég sé ekki endilega á sama máli með ýmislegt. Mér þykir virðingarvert hversu samviskusamur hann er að halda athugasemdarskrifunum lifandi með sinni þáttöku, sem margir aðrir mættu taka sér til fyrirmyndar.
Varðandi Davíðssleikjurnar sem oft eru nefndar, þá er það ofnotuð aðferð til að reyna að slá rök annara út af borðinu. Sjálfur líkar mér ekki betur eða verr við Davíð frekar en aðra stjórnmálamenn, og tilheyri ekki neinum flokki og þess vegna tek ég ekki þá smjörklípu til mín
Heldur finnst mér sú árátta að ætla að kenna einum aðila um allar hörmungarnar vera þunnur
þrettándi. Á endanum á það örugglega eftir að koma í ljós að ansi stór hópur eru sekir.
joð (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 22:59
"Heldur finnst mér sú árátta að ætla að kenna einum aðila um allar hörmungarnar vera þunnur þrettándi. Á endanum á það örugglega eftir að koma í ljós að ansi stór hópur eru sekir" er einmitt punktur sem ég hef margoft sagt.
Ég kem inn á dulnefnið í svari við hinu kommentinu síðustu færslunnar á undan, en auðvitað skiptir innihald kommenta mestu.
Friðrik Þór Guðmundsson, 19.11.2008 kl. 23:35
Það er náttúrulega greinilegt að fréttin er undarlega upp sett og það hefði verið best að sjá nákvæmlega hvernig spurningarnar voru. Ef ég les þetta giskandi að Steingrímur viti hið augljósa að það sé langt síðan að Seðlabankinn og FME voru aðskilin þá kemur þetta þannig út að Steingrímur er að segja að of mikil áhersla sé á ábyrgð Seðlabankans og að Viðskiptaráðherra og FME beri ábyrgð (hugsanlega var Steingrímur hérna að tala um eitthvað sérstakt sem blaðamaðurinn nefndi). Síðan segir hann að það sé málefnalegt af Davíð að vekja þarna athygli á eigin sök (sem forsætisráðherra á þeim tíma sem þetta var aðskilið). Í lokin kemur þó skýrt fram að hann telji meðal annars Seðlabankann bera ábyrgð sem er annað hvort í beinu ósamræmi við það sem á undan er komið, frekari útskýring Steingríms til að taka fram hvað hann meinti áður eða þá svar við spurningu sem við vitum ekki hvernig var orðuð.
Ef við förum af stað með þá forsendu að Steingrímur viti ekki eða þykist ekki vita hvenær Seðlabanki og FME voru aðskilinn þá má skilja fyrstu kvótin þannig að hann sé að segja að þetta sé allt fyrst og fremst Björgvini og Jóni eða kenna og að það sé voðalega málefnalegt af Davíð að koma sökinni af sér yfir á þá tvo. Sem meikar lítinn sens komandi frá manninum sem kallaði Davíð druslu og gungu. Óbeina kvótið meikar síðan engan sens ef við gerum ráð fyrir að Steingrímur sé að reyna að koma sökinni á Jón og Björgvin. Hvers vegna ætti hann þá skyndilega að vera að tala um sök Seðlabankans? Það er það sem fer með þessa kenningu. Steingrímur er greinilega ekkert að reyna að fría Seðlabankann því hann nefnir hann beinlínis sem einn sökudólginn.
Mér er svona almennt sama þó menn gagnrýni Steingrím fyrir það sem hann hefur raunverulega sagt og gert. Einu sinni sendi ég honum tölvupóst þar sem ég kallaði hann hálfvita. En hér er verið að lesa eitthvað sem er ekki til staðar.
Annars mæli ég með grein Björgvins sem ég birti á blogginu mínu í dag. Maðurinn var hin versta útrásarklappstýra fram á síðustu stund. Það er ekkert skrýtið að margir tali um að Samfylkingin ætli að fórna honum.
Það er náttúrulega bara ósatt að Steingrímur sé að tala um Björgvin sem aðalsökudólg umfram nýfrjálshyggjuna því hér er hann að tala um hver bar ábyrgð á eftirliti. Ef þetta er umferðarbrot þá er nýfrjálshyggjan ökumaðurinn sem keyrði á gangandi vegfaranda en Björgvin löggan sem var að borða kleinuhring í stað þess að að sinna umferðareftirliti. Það er munurinn á ábyrgðinni í grófri myndlíkingu.
Óli Gneisti (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 23:55
Hvað er að ykkur (fyrir utan þig lillo minn)?
Lesiði reglur Seðlabanka Íslands til að átta ykkur á hvar sökin liggur. Ég get ekki betur séð en að öll tæki og tól hafi verið til staðar til að hafa stjórn á útrás bankanna. Fyrir ykkur sem nennið ekki að lesa þetta pappírsflóð er hér eitt ördæmi: "Skýrslum um laust fé skal skilað til Seðlabankans innan 15 daga frá lokum hvers mánaðar og er bankanum heimilt að beita dagsektum við vanrækslu á skýrsluskilum"
Ég spyr, voru bankarnir rukkaðir um dagsektir? Eða uppfylltu þeir ætíð allar reglur Seðlabanka Íslands? Var SÍ með allt sitt á hreinu?
Sigga Hjólína, 20.11.2008 kl. 01:09
Ég trúi Davíð líka, þótt mér finnst hann eiga að sem seðlabankastjóri!
Þetta eru tvö algjörlega aðskilin mál!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.11.2008 kl. 09:27
Orð geta skaðað kerfið... en þau urðu líka til að byggja upp og blása upp loftbólu. Hvenær má segja sannleikann og hvenær ekki er hægt að deila um endalaust. Þar er líka verið að ræða um tilfinningar af miklu leyti.
Alveg eins má deila um það hvort aðgerðir geti orðið til þess að skaða kerfi eða treysta kerfi?
Ástandið í dag er ekki bara vegna hruns bankanna heldur vegna þess að peningastjórnun landsins var í rúst!! IMF benti okkur á þessa galla strax árið 2006 þegar Davíð var forsætisráðherra...hann hlustaði ekki og gerði ekkert nema að hella olíu á eldinn. - Léleg peningamálasefna veikti undirstöður bankanna og efnahagslífsins... veikar undirstöður urðu til þess að ástandið hér er verra en annars staðar á vesturlöndum.
Hvers vegna hlutaði ekki Davíð? Hvers vegna sýndi hann ekki fordæmi þegar hann var forsætisráðherra?
Á stöðu mála í dag ber Davíð ábyrgð, hvort sem hún er mikil eða lítil, ástamt FME og ráðherrum. Það væri best til að styrkja ímynd okkar að losna við þá.
Lúðvík Júlíusson, 20.11.2008 kl. 10:17
Það er bjánalegt að setja Samfylkinguna í aðal skotlínuna eins og margir reyna. Uppskera síðustu vikna er rotin vegna þess að hér var vond ríkisstjórn við völd á undan þeirri sem nú situr. Það voru gerðar margar grundvallarbreytingar á íslensku þjóðfélagi. Grunninn að þeim breytingum er m.a.a að finna í s.k. Eimreiðarhóp sem í eru/voru Davíð Oddsson og Hannes Hólmsteinn ofl. Græðgisvæðingin er augljóslega grunnþáttur og lömun eftirlitsstofnana. Ennfremur foringjastjórnmál sem stunduð voru í Framsókn- og Sjálfstæðisflokkum. Nú eru þessir flokkar sundur slitnir í innri átökum. Davíð, sem ætti að vera að sinna sínum embættisstörfum f.o.f., er enn að berjast fyrir sínum pólitíska málstað og gerir illt verra í því ástandi sem hér ríkir. Fylgisveinar hans reyna eðlilega að setja byssumiðið á Samfylkinguna, eina aflið sem hefur möguleika á að taka við og leiða uppbygginguna - ef hún hugsar sitt ráð í tíma. Ég þekki sjálfstæðismenn sem nú hyggjast halla sér að Steingrími Joð. Þeir eru mjög andvígir ESB og óttast að landsfundur flokksins breyti stefnunni í Evrópumálum.
Hjálmtýr V Heiðdal, 20.11.2008 kl. 10:25
Er ekki allt í lagi með Sjálfstæðiflokk og VG saman í stjórn, ágætis tilbreyting bara?
sandkassi (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 12:37
Sæl öll,
og takk fyrir svarið að ofan Friðrik Þór.
Líflegar umræður hér sem fyrr.
Rétt til að bæta við vegna umræddrar skýrslu Seðlabankans, þá eru þó nokkrir varnaglar settir inn í texta skýrslunnar og ýmsir fyrirvarar sem verður að hafa í huga við lesturinn. Því verður skýrslan tæplegast talin sem sérstaklega jákvæð umsögn, þegar allt samhengið er haft í huga.
Bestu kveðjur,
Rýnir, 20.11.2008 kl. 20:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.