16.11.2008 | 11:26
Hugvekja: Breyttur heimur framundan
Eiga róstur eftir að sjatna eða aukast á næstunni? Bjargar lánið frá IMF og einstökum ríkjum eftir að fá okkur til að róast? Það er ekki víst! Ég birti hér í heild frásögn af vef Sambands Ísl. sveitarfélaga, þar sem sagt er frá áhyggjum Karls Björnssonar framkvæmdastjóra yfir því hvað framundan er. Þetta er athyglisverð lesning og ástæða til að hlusta vel á varnaðarorðin - og fjalla um þau.
"Karl Björnsson framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga gagnrýnir harðlega að ekkert samráð var haft við sveitarfélögin um aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) að efnahagsstjórn landsins. Þetta kemur fram í leiðara Karls í nýútkomnum Sveitarstjórnarmálum.
... tekjur sveitarfélaga munu dragast saman á næsta ári á sama tíma og útgjöld munu aukast. Fjárhagsleg afkoma sveitarfélaga mun því versna til muna og mörg hver munu ekki geta samþykkt fjárhagsáætlanir eða fjárheimildir fyrir næsta ár miðað við lítið breytt þjónustustig án þess að auka mjög á skuldirnar. Þær skuldir verða þó ekki raunverulegar fyrr en sveitarfélagið hefur tekið lán. Lántökumöguleikarnir eru á hinn bóginn háðir mikilli óvissu.
Erlendir bankar neita að lána Íslendingum fé og mjög takmarkað lánsfé er hægt að sækja hér innanlands miðað við þörfina. Of margir treysta á lífeyrissjóðina, ríkið vegna fjárlagahalla og sveitarfélögin vegna fyrirsjáanlegs hallareksturs næstu ár. Hinir nýju ríkisreknu bankar vilja einnig fá lánsfé frá lífeyrissjóðunum. Eftirspurnin er því mun meiri en framboðið. Lausnin felst því í að Íslendingar öðlist aftur traust á erlendum lánsfjármörkuðum og í framhaldi af því geti bankar þessa lands tekið upp eðlileg alþjóðleg millibankaviðskipti. Takist það ekki er í mikið óefni komið," segir Karl.
Samfara þessu þurfa sveitarfélög og ríki að móta sameiginlega stefnu í gjaldskrár- og skattamálum. Það gengur ekki að ríkið, án samráðs við sveitarfélögin, hækki gjaldtöku sína og jafnvel skatta á sama tíma og þrýst er á sveitarfélögin að hækka ekki skatta, hækka ekki gjaldskrár, og jafnvel að fella niður gjaldtöku fyrir ólögbundna þjónustu"."
http://www.samband.is/news.asp?id=368&news_ID=1374&type=one
Hvað gerist er sveitarfélög geta ekki borgað út laun? Hver verða viðbrögðin ef sveitarfélög segja að þau geti ekki lengur kostað tónlistarnám, lengda viðveru í grunnskólum o.s.frv. ? Staðreyndin er sú að mjög margt sem okkur hefur þótt sjálfsagt undanfarið verður munaður eftir nokkrar vikur!
Ráðamenn og frekir krakkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:04 | Facebook
Athugasemdir
Evrópa mun skuldsetja börn og barnabörn ykkar.
Er bara einn möguleiki fyrir Ísland. Hvað með Westurheim og tengslin hingað ????
Ég hef búið í Kanada hálft lífið,og nýt góðs af því að búa í landi sem er eins og Noregur , skuldlaust og áhættulítið, (miðað við USA og Ísland og Ungverjaland.)
Hér er óvenju vel tekið á móti hverjum sem kemur frá Íslandi eða Scandinaviu, þeim er treyst og þeir fá meðbyr í bakið. Ég fyrir mitt leyti hef aldrei skilið þetta ofurkapp á Evrópu, og algert áhugaleysi með tengslin við Kanada. Hér búa “Íslendingar” út um allt ,(sem tala ekki íslensku) Í hverri borg finnur þú fullt af íslenskum eftirnöfnum, í öllum símaskrám bæði Kanada og USA.
Kanada er kalt land eins og Ísland ( nema vesturstöndin). Kanada-menn lifa innan sinna marka,og Kanada verður rík þjóð til frambúðar. Hér er olía og gas til að selja USA í heila öld í viðbót, og hér eru málmar í jörð sem Kína og Indland vilja , og hér er matarbúr heimsins. Árlega leitar Kanada stíft, að 300,000 manns til að gerast hér innflytjendur. ( Immmigration Canada) Kanada er jú hálftómt risaland ,og þer sakna þess að Evrópubúar hafa hætt að koma hingað. (Þeir komu unnvörpum eftir stríðin og komma-þrengingarnar) Mest af umsókum er frá Asíu núna, en það gæti breyst fljótt…..
Núna er Kanada mjög sterkur klettur, í sökkvandi skuldafeni þjóða.
Mitt álit er…. Já, auðvitað á Ísland að vera tengt við sitt eigið blóð í vestuheimi og eiga hér gagnkvæman aðgang hvenær sem er. Ég er hund þreyttur á því, sem gerist á fjögurra ára fresti. Einhver forseti kemur frá Íslandi og heimsækir Gimli… (mjög fáir búa þar ) og talar um hve ríkulega tengsin eru !!!!…..svo gerist ekkert.
Við erum mikið betur tengd við fólk í HongKong og Evrópu og Íran og Rúmeníu , en við nokkuð íslenskt. Hér eru engin raunverulegur áhugi frá móður okkar…..Íslandi. Þá miða ég við það púður, sem Ísland hefur eytt í Evrópubandalagið.
EB hefur boðið Íslandi uppí dans. En loksins núna eru uppi efasemdir um að EB sé sannur og góður fyrir Ísland.??
Mamma Ísland kemur til Kanada á fjögurra ára fresti og heldur eina ræðu. Við Westur-íslendingar erum ekki uppáhalds börn Íslands…..Kannski af því við tölum bjagað, eða tölum ekki íslensku. Þetta gæti breyst núna, og við gætum kannski orðið góðu börnin ???? Við gætum orðið þess virði að Ísland vildi kynnast okkur, og jafnvel vingast við afkvæmið , sem talar ensku !? Sounds like a touching reunion..
Good Luck to You Folks, I feel your pain !!! Honestly !!!
Gunnar
Gunnar (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 12:01
Þakka þér fyrir Gunnar í Kanada. Fínar pælingar, en ég er ekki sammála þér í því að Íslendingum þyki lítið koma til "Westur-Íslendinga". Það er einhver misskilningur, því ég verð hvergi var við annað en að okkur hér finnist mikið til þeirra koma.
Hvað um það; þegar og ef sveitarfélög og aðrir þurfa að skera niður við trog það sem við höfum vanist á sem sjálfsagða þjónustu og aðgerðir fara að snerta börnin okkar - þá fyrst fer reiðin að brjótast út. Við hin fullorðnu getum tekið á okkur herta sultaról, en áfram viljum við að börnin njóti sómasamlegrar grunnþjónustu. Og það verða einmitt börn efnaminnsta hluta þjóðarinnar sem verða fyrst vör við skerta þjónustu.
Friðrik Þór Guðmundsson, 16.11.2008 kl. 14:10
Hvaða þjónustu þurfa sveitafélögin að skera niður? Hvaða þjónustu þurfa þau að leggja alfarið niður? Hvaða þjónustugjöld þurfa þau að hækka? Það vitum við ekki vegna þess að við vitum ekki hvað ríkið skuldar mikið. Við vitum alls ekkert og þess vegna erum við sennilega meira og minna öll smeyk og sum hrædd. Við vitum ekki einu sinni um hvað var samið í dag vegna þess að dæmið virðist ekki ganga upp ef það er skoðað gagnrýnum augum.
Ég sá vitnað í hollenskan innstæðueiganda Icesave-reiknings sem kom hingað til að fá svar við því hvort hann fengi peninga sína aftur eða ekki. Hann hefur fengið svör og hann er ánægður með svörin. Hann tók þátt í mótmælunum á Austurvelli í gær. Hann sagðist ekki eiga til að orð yfir það að íslenska þjóðin fengi ekki að vita neitt. Hann útlendingurinn fékk svör við spurningum sínum en þjóðin sem situr í skuldasúpu fær ekkert að vita. Hollenski maðurinn á ekki til orð yfir framkomu stjórnmálamanna við okkur.
"Lausnin" á Icesave-deilunni gefur okkur heldur ekki svör. Í einni fréttinni segir að Íslendingar ábyrgist muninn á eignum Landsbankans og upp að 20.884 Evrum á hvern innstæðureikning. Það er látið í það skína að umfram það falli niður, gufi upp eða verði borgað af e-m öðrum. Ef Íslendingar eiga að borga hverjum reikningseiganda 20.884 Evrur um hvað var þá deilan? Sumar fréttir hafa sagt að skv. EES sé ríkið skuldbundið að borga 20.884 Evrur og forsætisráðherrann hefur sagt að það sem á að borga skv. lögum verði borgað. Niðurstaðan virðist því vera sú að Íslendingar borgi það sem forsætisráðherrann hefur sagt að verði borgað, en samt stóð deila yfir í 6 vikur og svipti okkur ærunni, gerði okkur að fyrstu vestrænu þjóðinni sem fær á sig hryðjuverkalög. Ég spyr því um hvað var deilt ef niðurstaðan er að borga það sem átti að borga og ekki meira. Að mér læðist sami grunur og að Pétri Blöndal, sá að það sé ekki 20.884 Evru takmark á "lausninni" frá því í kvöld. Enn á ný hafa fréttamenn sagt hálfkaraða frétt.
Helga (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 00:30
Sæll Friðrik, já, það er ömurlegt að horfa upp á stjórnina í þessum slag; og það er kannski í lagi að tengja nálgun stjórnvalda við áhersluna sem Bush Bandaríkjaforseti leggur á gildi frjálsa markaðshagkerfisins, hagkerfi sem er allt annað en frjálst; það felst einhver djúpstæð hugsanavilla í hugmyndum manna um frjálst markaðshagkerfi; þar er bara frelsi þess sterka og ófrelsi hinna. Maður fær á tilfinninguna að málið snúist bara um að koma jeppum útrásarvíkinganna aftur upp á veginn og skítt með allt annað. Og þjóðin borgar svo brúsann. Það er meira að segja strax farið að tala um einkavæðingu ónýtu bankanna. Það er ekki krafan sem liggur í loftinu en það er ekkert hlustað á hana; að þjóðin vill nýja stjórnarhætti, annarskonar nálgun við auðlindirnar og samfélagið og þessar vangaveltur sveitarstjórnarmanna eru einmitt gott dæmi um það.
Bárður R. Jónsson (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 02:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.