Kvöldvökuþraut: Hverjir ljúga meira sannfærandi?

Þetta líkar mér; forvígismenn tveggja útrásarbanka komnir í hár saman og slást um að ljúga meir og betur. Bjöggarnir í gamla Landsbankanum gegn Sigga í Kaupþingi. Nú vantar innlegg í kvöldvökuþrautina frá Jóni Ásgeiri og þá getur dómnefndin tekið til starfa.

Bjöggarnir eru með mjög reynda leikmenn í sínu liði. Einn þeirra var dæmdur fyrir að fegra milliuppgjör og ársreikninga á árum áður og segir núna kokhraustur: "Uppgjör bankans staðfesta að staðan var traust og eignir vel umfram skuldir, enda eigið fé og víkjandi lán bankans um 350 milljarðar skv. síðasta birta uppgjöri bankans þann 30.6.2008". Tvö stig fyrir að vitna í eigin kokkabók.

Og keppnin heldur áfram...


mbl.is Segja að eignir hafi verið umfram skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Ég trúi öllum. Ef allir hafa rétt fyrir sér bera allir ábyrgð.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 8.11.2008 kl. 20:46

2 identicon

Veistu ég trúi alltaf síðasta ræðumanni.Sem er auðvitað orðið niðurlægjandi og óásættanlegt. HVER LÝGUR ?

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 20:51

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Það eru allir í því að fegra sinn málstað. Hvað allar rannsóknir varðar og með í huga smæð Íslenska samfélagsins beinlínis verður að fá óháða erlenda rannsakendur til landsins.

Friðrik Þór Guðmundsson, 8.11.2008 kl. 21:21

4 identicon

En þessir erlendu kunna ekki íslensku og hver á það þýða ... og hver þýðir „rétt“

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 21:35

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Í fyrstu var skýrt frá þessu af öllum sem að málinu komu á eftirfarandi hátt......"alþjóðleg kreppa sem enginn gat séð fyrir." Síðan fóru hinir og þessir að vitna í blöðum bæði til eigin orða og annara sem sögð voru fyrir mánuðum og jafnvel árum, þar sem alvarlega var varað við því sem nú er komið fram.

Nú birtast okkur daglega viðtöl þar sem aðalleikararnir greina frá því að þeir hafi "varað hin og þessi stjórnvöld við því að þeir sjálfir- eða aðrir stæðu frammi fyrir sönnum voða!" Og þessir menn koma í "einkaviðtöl" við fréttamenn og "vitna" um eigin aulahátt - fyrst og fremst þó annara- og vikna! jafnframt.

Hverskonar andsk. lið er þetta eiginlega?

Daglega berast upplýsingar um milljarða, milljarðatugi og jafnvel hundruð milljarða sem "færðir" voru milli reikninga og hurfu. Og svo er sagt við okkur: "verið góð hvert við annað, ekki leita uppi sökudólga, nú erum við öll á sama báti og við höfum nú séð hann svartari en þetta!"

 Svo hneykslast rétttrúnaðarmenn hér á blogginu og tala um "skrílslæti" þegar nokkur reið ungmenni kasta eggjum og jógúrt í Alþingishúsið! 

Árni Gunnarsson, 8.11.2008 kl. 22:38

6 identicon

Maður er flugstjóri.

Hann fer að fljúga

Það er vetur

Það er nótt

það er vont veður

Og kóarinn er sá slakasti

Svo bilar eitthvað  - illa !

Bilunin kemur kóaranum, veðrinu, nóttinni eða vetrinum ekkert við en það að bilunin hafi orðið við þessi skilyrði gerði allt verra.

Bankabömmer okkar gerðist um vetur, um nótt í vondu veðri en reyndar og með vondum stjórnendum, 6-tíu og þremur plús.

Bilunin var hins vegar sérstakt „happeníng“ og kom hvorki einhverjum Davið eða veðri við.

En hún varð vegna Bjögga og Baugsara ... þetta er ekki flókið og við of fá og of stutt síðan við komumst úr „gúmmískónum“ og lopanum.

Nú súpum við hveljur.

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 22:50

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Innilega sammála, Árni. Nema hvað að mér finnst að kominn sé snöggtum meiri fullorðinsbragur á mótmælin, þrátt fyrir eggin.

Friðrik Þór Guðmundsson, 8.11.2008 kl. 22:50

8 identicon

Hver segir satt? Engin segir satt, allavega ekki eins og er. Í tvö ár, jafnvel lengur, lugu menn að sjálfum sér og öðrum; trúðu á að laissez-faire bræður þeirra úti í heimi kæmu þeim til hjálpar. En hvað er hægt að gera með ónýtar undirstöður? ekki bara hér heldur alstaðar. Heimskreppan spilar inn í en hún fór af stað m.a. vegna svona náunga. Óheftur kapítalismi leysir upp límið í samfélaginu; rökrétt framhald af honum er að drepa minnimáttar, gamalmenni og sjúklinga. Auðvitað vilja þeir freista þess að bjarga eigin skinni nú og þá leggjast þeir hver á annan. Við eigum ekki að taka neitt mark á þessum mönnum. Það er ekki ólíklegt að IMF, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, dragi lánið vegna þess að þeir treysta ekki stjórnvöldum og embættismannakerfinu hér. Í því sambandi má nefna Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins; hann seldi bréf sín í Landsbanka skömmu áður en hann bráðnaði niður og spurður sagðist hann ekki hafa haft nokkra hugmynd um að illa væri fyrir bankanum komið. Fyrir utan nú að hafa átt bréf í bankanum þá er maðurinn varla starfi sínu vaxinn ef hann vissi ekki hvernig landið lá; einnig: Hvað er ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu að braska á hlutabréfamarkaði? Blaðamenn í viðskiptafréttum eiga í prinsippinu ekki hlutabréf. Annars er allt gott að frétta.

Bárður R. Jónsson (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 01:03

9 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Krakkar! Mér fannst Sigurður Einarsson skýr og trúverðugur hann er orðvar maður, þó fannst mér honum fatast í ummælum sínum um formann bankastjórnar seðlabankans. Allir vita að þessi ummæli standast ekki og ef að þetta er réttur Bárður þá veit hann það manna best að nefndur formaður hagar sér ekki svona gagnvar mönnum og málefnum.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 9.11.2008 kl. 02:51

10 identicon

Ég gleymdi að nefna að það er sjálfsögð krafa eins og þú minntist á, Friðrik, að fá hingað óháða rannsóknarmenn; við getum þetta ekki sjálf. En það minnir mig á söguna sem gekk hér á árum áður um heimsfrægan hagfræðing sem hingað hafði komið og átti víst að gefa ráð um peningastjórnun. Hann sagði að það væri ekki hægt að hrófla hér við neinu því svo fáar fjölskyldur ættu allt hér. Veit ekki hvað er hæft í því en þetta var sagan sem gekk. Svo þótt allt dæmið yrði gert upp er eins víst að "sannleikurinn" kemur aldrei í ljós. Elítan hér sér til þess. Hún má ekki við því og til hvers er alþýðan en til annars en að troða á henni?

Ég verð að játa að ég veit ekki hvort ég sé réttur Bárður og skil ekki athugasemdina um að svona hagi maður sér ekki gagnvart mönnum og málefnu.

Kveðja

Bárður R. Jónsson

Bárður R. Jónsson (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 03:29

11 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Eigendur og stjórnir bankanna komu þjóðinni í þrot. Svo einfalt er það. Þegar barn er  sakað um eitthvað þá koma upp hinar furðulegustu útskýringar og aðalþemað er yfirleitt "Ekki benda á mig" en hér er ekki um börn að ræða heldur fullorðna og má áætla (not) ábyrga einstaklinga. En það vill enginn vera ábyrgur fyrir því að koma þjóðinni í þrot.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 9.11.2008 kl. 16:24

12 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Friðrik Þór, þú segir að við verðum að fá erlenda sérfræðinga til landsins.  Gott og vel, ég get samþykkt það.

En: mega sérfræðingarnir vera frá UK, Hollandi, Þýskalandi, Belgíu, Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku, Austurríki, Noregi?  Hvernig ætlum við að velja þá til þess að vera sannfærð um hlutleysi þeirra?  Með kviðdómsaðferðinni?

Kolbrún Hilmars, 9.11.2008 kl. 17:59

13 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

É hef raunar kommenterað um lygina óbeint með að benda á bjögun staðreynda með að endurskýra hugtök til að fjarlægja þau skilningi fólks. Þetta á við á öllum vígstöðvum.  Við störum á hurð seðlabankans í dag af því að það ætlast til þess af okkur eins og dyggum hundum á meðan verið er að vinna á öðrum vígstöðvum.

Hér er komment, sem ég vil láta fljóta með hér:

Í þessu viðtali talar Tryggvi Þór um að gríðalegar eignatilfærslur eigi sér nú stað hjá bönkunum. Hann varar við því að flanað sé að neinu þar og kallar á gagnsæi. Nefnir afsal stórs hluta Nokia í erlendar hendur fyrir slikk í tilfellum Finna og illbætanlegt tjón af þeim sökum, sem þeir eru enn að sýta.


 Hvaða eignir er verið að selja hér og til hverra og fyrir hve mikið? Hve nærri heggur það sjálfstæði okkar? Hvaða risar eru að kaupa? Hverjir verða drottnarar okkar í náinni framtíð?  Þetta verðum við að fá að vita. Þetta er algert lykilatriði. Í bönkunum liggja hlutir í orkufyrirtækjum og orkudreifingu landsins og það jafnvel ráðandi hlutir. Þar liggja gríðarlegar landa og hlunnindaeignir, laxár , vatnsréttindi og guð veit hvað. Þar liggur einnig stór hluti fiskveiðikvóta Íslendinnga og bréf í iðnaði og verslun, heilbrigðis og þjónustufyrirtækjum. Öllu! Hreinlega fjöregg og framtíð þjóðarinnar á silfurfati.
 
Stjórnvöld tala um að borga ekki skuldir óreiðumanna en eru ekki í neinni aðstöðu til slíkrar kokhreysti.  Það er verið að gera það nú þegar með sölu á eignasafni og veðum bankanna. Eignasafni, sem snertir sameign okkar og sjálfstæði. Það er verið að borga skuldir óreiðumanna og það með útsölu á auðlindum okkar! Áttarðu menn sig á þessu? 

 Auðvitað verða erlend lán ekki notuð til að borga óreiðuna. Það veit raunar enginn hvað menn ætla að gera við þá peninga. Menn vita upphæðina upp á 0.1 milljarð dollara. Það hlýtur þá að vera vitað fyrir hverju er verið að safna um allar jarðir?  Ekki veit ég það og ekki þú.


 Ef eitthvað þarf virkilega upp á yfirborðið nú, þá er það þetta.   Menn verða að fara að lesa rétt í gegnum stofnanamálið og laga-jargonið. Það er eins og að lesa í garnir, en það er verið að segja okkur mikið á milli málsgreina, sem hefur úrslitaþýðingu fyrir landið okkar.
Eignastýring, eignasöfn, eignatilfærsla. Vilja menn vita hvað það þýðir? Nú er kominn tími til að spyrja.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.11.2008 kl. 19:48

14 identicon

Ísland byggir ekki bara landfræðilega einangruð þjóð heldur félagslega ákaflega þröngsýn og ónæg þjóð. Við höfum byggt nýjari heimsmynd okkar á amerískum bíómyndum, broguðum fréttum af helstu heimsviðburðum og stuttum skemmtiferðum til helstu staða í útlöndum. Í stað þess að öðlast félagslegan þroska við þetta, áskotnast okkur öfund og minnimáttarkend gagnvart öðrum þjóðum. Við skiljum ekki afhverju við höfum ekki svo stórbrotna menningu, sögu og ríkidæmi sem aðrar þjóðir. Við verðum reið og vonsvikin yfir að okkar er ekki getið við hliðina á þjóðum sem eru margfallt stærri en okkar þjóð. Við gleðjumst sem börn yfir að eitthvað kemur okkur á blað heimsins. Sama hvað það er. Ágirndin eftir þeim sýnilega auði sem birtist okkur allstaðar, nema á Íslandi kæfir alla sýn á að auður er huglægur, viska, hófstilling, hugrekki og rættlæti og ekki minnst trú, von og kærleikur.

Í þröngsýni okkar sjáum við aðeins eina leið fram. Sama hvað það kostar, verðum við að afla virðingar annara þjóða. Tækifærið kemur svo þegar við lánum auðinn af öðrum þjóðum. Við hreykjum okkur hátt og lokum eyrunum við aðvörunarröddum. Allt það sem hefur raunverulegt gildi er nú fleygt á skarnhauginn í svikullu ofgnóttarsamfélagi pappírspeninga, hroka og mikilmennskubrjálæðis. Við viljum velta okkur upp úr munaði svo allir taki eftir okkur og sjá að við virkilega erum mikilmenni og okkar litla þjóð er betri og stærri en allar aðrar.

En svo gerist það versta, óprúttnir aðilar hafa gengið á lagið og nýtt sér heimsku okkar og yfirborðsskap. Með að skaffa okkur hillingar og falsk stolts, hafa þeir rakað til sín erfiði kynslóðanna. Ekki bara feðra heldur einnig barna okkar um langa framtíð. Raunveruleikin birtist nú kaldur og hrottalegur. Þau gildi sem héldu þjóðinni uppi í aldir eru í burtu. Falski auðurinn er einnig floginn veg allrar veraldar. Ekkert bíður annað en andleg vesöld og volæði. Það versta er, að allt sem við vildum var virðing annara þjóða. En við höfðum aðeins fjarlægst hana ennþá meira. Við aularnir norður í höfum létum glepjast af nýju fötum keisarans. Nú mistum við alla þá virðingu sem okkur hafði áskotnast með dugnaði forfeðra okkar og nægjusemi. Hvernig getum við lifað áfram og séð framan í heiminn og okkur sjálf? Hvernig getum við séð framan í börn okkar og barnabörn? Við höfum stundað allar höfuðsyndinar af kappi og vantar aðeins eina til að fullgera myndina. "Leti".

Ó nei, nei og nei... ef eitthvað, þá erum við ekki löt! Afskiptaleysi og heigulsháttur er ekki það sem þessi þjóð er þekkt fyrir! Við getum bjargað því sem bjargað verður með að bretta upp ermarnar. Við höfum gert það áður. Við getum stolt viðurkennt afglöp okkar og tekist á við vandann. Við getum sem forfeður okkar borgað okkar skuldir. Engin skal segja, að okkur sé sama og við ekkert gerum. Við verðum að sýna að þessi þjóð beygir sig ekki í duftið fyrir eigin broguðu spegilmynd heldur stolt sér hlutina eins og þeir eru og tekst á við vandann. Með visku, hófstillingu, hugrekki, réttlæti, von, trú og kærleik getum við aflað okkur virðingu fyrir okkur sjálfum. Það er forsendan fyrir að aðrir fá virðingu fyir okkur. Við verðum að sýna að okkur sé ekki sama! Við verðum að sýna umheiminum að okkur er ekki sama! Við verðum að hreinsa aurinn upp eftir okkur, losa okkur við afæturnar og alla keisaranna. Það verður að gerast nú, áður en letin tekur yfirhöndina og kæfir þjóðina í ösku og eimyrju vonleysisins.

Thor Svensson (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 20:20

15 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Enn eitt dæmi um lygina: http://bjb.blog.is/blog/bjb/#entry-705206

Jón Steinar Ragnarsson, 9.11.2008 kl. 20:22

16 identicon

Svona er tilvitnuð skif sbr. hlekkinn hér að ofan:

Hef ekki lagt það í vana minn hér að gagnrýna fréttir fjölmiðla, eða fjalla um blessaða kreppuna, enda bloggsíðan aðallega hugsuð til annarra og skemmtilegra hluta, en eftir að hafa séð frétt eða "mál dagsins" hjá Sjónvarpinu á föstudagskvöld get ég ekki orða bundist. Við kynningu fréttarinnnar gerðist maður spenntur, en þar var talað um krísuhóp sem hittist daglega á vegum stjórnvalda og hefði fengið til sín norskan hernaðarsérfræðing. Þegar sérfræðingurinn svo birtist á skjánum kom í ljós að þetta reyndist vera fyrrverandi yfirmaður samskiptasviðs og upplýsingamála hjá Glitni, Norðmaðurinn Bjorn Richard Johansen. Sagt var að hann hafi fyrst komið til starfa hér í upphafi bankahrunsins. Ekki man ég hvenær nafni minn hætti hjá Glitni en mesta furðu við frétt Sjónvarpsins vakti að aldrei var minnst á hans fyrrverandi störf, var meðal nánustu samstarfsmanna Bjarna Ármannssonar og síðar Lárusar Welding í Glitni.

Ég er ekki að setja út á nafna minn, eða draga heilindi hans í efa fyrir núverandi vinnuveitanda, þ.e. íslenska ríkið, en ótrúlegast er að Sjónvarpið lét þessara fyrri starfa hans hjá Glitni í engu getið. Hélt það hefði nú skipt einhverju máli. Vissi fréttastofa Sjónvarpsins kannski ekki betur, eða passaði Bjorn Richard sig á að segja ekki frá fyrri störfum? Hafi Sjónvarpið vitað allt um bakgrunn hans, af hverju var fréttin þá byggð upp eins og þarna hefði ríkið fundið nýjan bjargvætt úr röðum Norðmanna?

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 07:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband